Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/54

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
54. kafli


Nú er þar til máls að taka að Gunnar var úti að Hlíðarenda og sér smalamann sinn hleypa að garði. Smalamaðurinn reið heim í túnið.

Gunnar mælti: „Hví ríður þú svo hart?“

„Eg vildi vera þér trúlyndur,“ segir hann. „Eg sá menn ríða ofan með Markarfljóti átta saman og voru fjórir í litklæðum.“

Gunnar mælti: „Þar mun vera Otkell.“

„Vildi eg því segja þér,“ segir smalamaðurinn, „að eg hefi oft heyrt mörg skapraunarorð þeirra. Sagði svo Skammkell austur í Dal að þú hefðir grátið þá er þeir riðu á þig ofan. Þykja mér ill vera orðtök vondra manna.“

„Ekki skulum við vera orðsjúkir,“ segir Gunnar, „en það eitt skalt þú vinna héðan í frá er þú vilt.“

„Skal eg nokkuð segja Kolskeggi bróður þínum?“ segir smalamaðurinn.

„Far þú og sof,“ segir Gunnar. „Eg mun segja Kolskeggi slíkt er mér líkar.“

Sveinninn lagðist niður og sofnaði þegar.

Gunnar tók smalahestinn og lagði á söðul sinn. Hann tók skjöld sinn og gyrti sig sverðinu Ölvisnaut, setur hjálm á höfuð sér, tekur atgeirinn og söng í honum hátt og heyrði Rannveig móðir hans.

Hún gekk fram og mælti: „Reiðulegur ert þú nú son minn og ekki sá eg þig slíkan fyrr.“

Gunnar gengur út og stingur niður atgeirinum og verpur sér í söðulinn og ríður braut. Rannveig gekk til stofu. Þar var háreysti mikið.

„Hátt kveðið þér,“ segir hún, „en þó lét hærra atgeirinn er Gunnar gekk út.“

Kolskeggur heyrði og mælti: „Það mun eigi engra tíðinda vita.“

„Það er vel,“ segir Hallgerður, „nú munu þeir reyna hvort hann gengur grátandi undan þeim.“

Kolskeggur tekur vopn sín og leitar sér að hesti og ríður eftir slíkt er hann mátti.

Gunnar ríður um Akratungu þvera og svo til Geilastofna og þaðan til Rangár og ofan til vaðs hjá Hofi. Konur voru þar á stöðli. Gunnar hljóp af hesti sínum og batt. Þá riðu hinir að. Móhellur voru í götunum við vaðið.

Gunnar mælti til þeirra: „Nú er að verja sig. Er hér nú atgeirinn. Munuð þér nú og reyna hvort eg græt nokkuð fyrir yður.“

Þeir hljópu þá allir af baki og sóttu að Gunnari. Hallbjörn var fremstur.

„Sæk þú eigi að,“ segir Gunnar. „Þér vildi eg síst illt gera en eg mun þó engum hlífa ef eg á hendur mínar að verja.“

„Það mun ekki gera,“ segir Hallbjörn. Þú munt þó drepa vilja bróður minn og er það skömm ef eg sit hjá“ og lagði til Gunnars tveim höndum miklu spjóti.

Gunnar skaut fyrir skildinum en Hallbjörn lagði í gegn um skjöldinn. Gunnar skaut svo fast niður skildinum að hann stóð fastur í jörðunni en tók til sverðsins svo skjótt að eigi mátti auga á festa og hjó með sverðinu og kom á höndina Hallbirni fyrir ofan úlflið svo að af tók.

Skammkell hljóp á bak Gunnari og höggur til hans með mikilli öxi. Gunnar snerist skjótt að honum og lýstur við atgeirinum og kom undir kverk öxinni og hraut hún úr hendi honum út á Rangá. Gunnar leggur í annað sinn atgeirinum og í gegnum Skammkel og vegur hann upp og kastar honum í leirgötuna að höfðinu. Auðólfur austmaður þreif upp spjót og skaut að Gunnari. Gunnar tók á lofti spjótið og skaut aftur þegar og fló í gegnum skjöldinn og austmanninn og niður í völlinn. Otkell höggur með sverði til Gunnars og stefnir á fótinn fyrir neðan kné. Gunnar hljóp í loft upp og missir Otkell hans. Gunnar leggur atgeirinum til hans og í gegnum hann. Þá kemur Kolskeggur að og hleypur þegar að Hallkatli og höggur hann banahögg með saxinu. Þar vega þeir þá átta.

Kona hljóp heim, er sá, og sagði Merði og bað hann skilja þá.

„Þeir einir munu vera,“ segir hann, „að eg hirði aldrei þó að drepist.“

„Eigi munt þú það vilja mæla,“ segir hún, „þar mun vera Gunnar frændi þinn og Otkell vinur þinn.“

„Klifar þú nokkuð jafnan mannfýla þín,“ segir hann og lá hann inni meðan þeir börðust.

Gunnar reið heim og Kolskeggur eftir verk þessi og ríða þeir hart upp eftir eyrunum og stökk Gunnar af baki og kom standandi niður.

Kolskeggur mælti: „Hart ríður þú nú frændi.“

Gunnar mælti: „Það lagði Skammkell mér til orðs er eg mælti svo: „Þér ríðið á mig ofan.“"

„Hefnt hefir þú nú þess,“ segir Kolskeggur.

„Hvað eg veit,“ segir Gunnar, „hvort eg mun því óvaskari maður en aðrir menn sem mér þykir meira fyrir en öðrum mönnum að vega menn.“