Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/55

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
55. kafli


Nú spyrjast tíðindin og mæltu það margir að eigi þætti þetta fyrr fram koma en líklegt var. Gunnar reið til Bergþórshvols og sagði Njáli verk þessi.

Njáll mælti: „Mikið hefir þú að gert og hefir þú verið mjög að þreyttur.“

„Hversu mun nú ganga síðan?“ segir Gunnar.

„Vilt þú að eg segi þér það,“ segir Njáll, „er eigi er fram komið? Þú munt ríða til þings og munt þú njóta við ráða minna og fá af þessu máli hina mestu sæmd. Mun þetta upphaf vígaferla þinna.“

„Ráð þú mér heilræði nokkur,“ segir Gunnar.

„Eg skal það gera,“ segir Njáll. „Veg þú aldrei meir í hinn sama knérunn en um sinn og rjúf aldrei sætt þá er góðir menn gera meðal þín og annarra og þó síst á því máli.“

Gunnar mælti: „Öðrum ætlaði eg að það skyldi hættara en mér.“

„Svo mun vera,“ segir Njáll, „en þó skalt þú svo um þitt mál hugsa ef þetta ber saman að þá munt þú skammt eiga ólifað en ella munt verða gamall maður.“

Gunnar mælti: „Veist þú hvað þér mun verða að bana?“

„Veit eg,“ segir Njáll.

„Hvað?“ segir Gunnar.

„Það sem allir munu síst ætla,“ segir Njáll.

Síðan reið Gunnar heim.

Maður var sendur Gissuri hvíta og Geiri goða því að þeir áttu eftir Otkel að mæla. Fundust þeir þá að og töluðu hversu með skyldi fara. Kom það ásamt með þeim að sótt mundi mál til laga. Var þá að leitað hver við mundi vilja taka en engi var til þess búinn.

„Svo líst mér,“ segir Gissur, „að nú muni tveir kostir. Að annar hvor okkar sæki málið og munum við þá verða að hluta með okkur eða ella mun vera maðurinn ógildur. Munum við og svo mega til ætla að þungt mun að hræra málið. Er Gunnar frændmargur og vinsæll. En sá okkar er eigi hlýtur skal til ríða og ekki úr ganga fyrr en til enda kemur málið.“

Síðan hlutuðu þeir og hlaut Geir goði að fara með sökina.

Litlu síðar riðu þeir vestan yfir ár og komu þar sem fundurinn hafði verið við Rangá og grófu upp líkamina og nefndu votta að benjum. Síðan lýstu þeir og kvöddu níu búa um málið. Þeim var sagt að Gunnar var heima við þrjá tigu manna. Spurði þá Geir goði hvort Gissur vildi að ríða við hundrað manna.

„Eigi vil eg það,“ segir hann, „þó að mikill sé liðsmunur.“

Riðu þeir þá aftur heim. Málatilbúnaður spurðist um öll héruð og var sú orðræða á að róstumikið mundi verða þingið.