Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/56

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
56. kafli


Skafti hét maður. Hann var Þóroddsson. Móðir Þórodds var Þórvör. Hún var dóttir Þormóðar skafta, Óleifssonar breiðs, Ölvissonar barnakarls. Þeir voru höfðingjar miklir feðgar og lögmenn miklir. Þóroddur þótti nokkuð grályndur og slægur. Þeir veittu Gissuri hvíta að hverju máli.

Þeir Hlíðverjar og Rangæingar fjölmenntu mjög til þings. Var Gunnar svo vinsæll að allir sammæltust á það að fylgja honum. Koma þeir nú allir til þings og tjalda búðir sínar.

Í sambandi með Gissuri hvíta voru þessir höfðingjar: Skafti og Þóroddur, Ásgrímur Elliða-Grímsson, Oddur frá Kiðjabergi, Halldór Örnólfsson.

Nú ganga menn til Lögbergs einnhvern dag. Stóð þá upp Geir goði og lýsti vígsök á hendur Gunnari um víg Otkels. Annarri vígsök lýsti hann á hendur Gunnari um víg Hallbjarnar hvíta, þá um víg Auðólfs, þá um víg Skammkels. Þá lýsti hann vígsök á hendur Kolskeggi um víg Hallkells. Og þá er hann hafði lýst öllum vígsökunum var það talað að honum hefði vel mælst. Hann spurði að þingfesti og að heimilisfangi. Gengu menn síðan frá Lögbergi.

Líður nú þingið þar til er dómar skyldu fara út til sóknar. Fjölmenntu þá hvorirtveggju út liði sínu. Geir goði og Gissur hvíti stóðu sunnan að Rangæingadómi. Gunnar og Njáll stóðu norðan að dóminum. Geir goði býður Gunnari að hlýða til eiðspjalls síns. Síðan vann hann eið. Eftir það sagði hann fram sök. Þá lét hann bera lýsingarvætti. Þá lét hann bjóða búum í setu. Þá bauð hann til ruðningar um kviðinn. Þá beiddi hann framburðar um kviðinn. Þá gengu búar að dóminum þeir er kvaddir höfðu verið og nefndu sér votta og létu það standa fyrir kviðburði um mál Auðólfs að aðili var í Noregi og þeir áttu eigi um að skila málið. Eftir það báru þeir kvið um mál Otkels og báru Gunnar sannan að sökinni. Eftir það bauð Geir goði Gunnari til varna og nefndi votta að öllum gögnum þeim er fram voru komin.

Gunnar bauð þá að móti Geiri goða að hlýða til eiðspjalls síns og þeirra varna er hann mundi fram færa um málið. Þá vann hann eið.

Þá mælti Gunnar síðan: „Þá færi eg vörn fram um þetta mál að eg nefndi votta að eg óhelgaði Otkel fyrir búum af þeirri blóðugri ben er Otkell veitti mér áverka með spora sínum. En eg ver þér Geir goði lýriti mál þetta að sækja og svo dómöndum að dæma og ónýti eg með þessu allan þinn málatilbúnað. Ver eg þér lagalýriti, efalausu lýriti, fullu og föstu svo sem eg á að verja að alþingismáli réttu og allsherjarlögum. Eg mun og segja þér aðra meðför mína,“ segir Gunnar.

„Munt þú þá skora mér á hólm sem þú ert vanur,“ segir Geir, „og þola eigi lög.“

„Eigi skal það,“ segir Gunnar. „Eg mun stefna þér að Lögbergi um það er þú kvaddir þess kviðar er eigi átti máli að skipta um víg Auðólfs og telja þig um það sekan fjörbaugsmann.“

Njáll mælti: „Ekki má þetta svo fara því að þetta mun nú verða mjög með kappi deilt. Hafa hér hvorirtveggju mikið til síns máls að því sem mér líst. Eru þau sum víg að þú munt ekki í móti mega mæla að þú munt sekur um verða. Hefir þú og þann málatilbúnað á honum að hann mun og sekur um verða. Skalt þú og það vita Geir goði að enn er eigi upp kastað þeirri skóggangssök er á þér stendur og skal sú eigi niðri liggja ef þú vilt ekki gera fyrir mín orð.“

Þóroddur goði mælti: „Svo líst oss sem það muni friðlegast að sæst sé á málið eða hví leggur þú svo fátt til Gissur hvíti?“

„Svo líst mér,“ segir Gissur, „sem rammar skorður muni þurfa við að setja að voru máli ef duga skal. Má það sjá að nær standa vinir Gunnars og mun sá verða málahluti vor bestur að góðir menn geri um ef Gunnar vill það.“

„Sáttgjarn hefi eg verið jafnan,“ segir Gunnar, „enda eigið þér nú eftir mikið að mæla en eg þykist þó mjög neyddur til hafa verið.“

Urðu þær nú málalyktir með ráði hinna vitrustu manna að málin voru öll lagið í gerð. Skyldi gera um sex menn. Var þá þegar gert um málið á þingi. Var það gert að Skammkell skyldi ógildur en manngjöld skyldu vera jöfn og sporahöggið en bætt voru önnur vígin sem vert þótti og gáfu frændur Gunnars fé til að þegar voru bætt upp öll vígin þar á þinginu. Gengu þeir þá til og veittu Gunnari tryggðir Geir goði og Gissur hvíti.

Reið Gunnar heim af þingi og þakkaði mönnum liðveislu og gaf mörgum gjafar og fékk af hina mestu sæmd. Situr Gunnar nú heima í sæmd sinni.