Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/58

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
58. kafli


Egill hét maður. Hann var Kolsson Óttarssonar ballar er land nam meðal Stotalækjar og Reyðarvatns. Bróðir Egils var Önundur í Tröllaskógi, faðir Halla hins sterka er var að vígi Holta-Þóris með sonum Ketils hins sléttmála. Egill bjó í Sandgili. Synir hans voru þeir Kolur og Óttar og Haukur. Móðir þeirra var Steinvör systir Starkaðar undir Þríhyrningi. Synir Egils voru miklir menn og kappsamir og hinir mestu ójafnaðarmenn. Þeir voru að einu máli og synir Starkaðar. Systir þeirra var Guðrún náttsól. Hún var kvenna fríðust og kurteisust.

Egill hafði tekið við Austmönnum tveimur. Hét annar Þórir en annar Þorgrímur. Þeir voru frumferlar út hingað, vinsælir og auðgir. Þeir voru vígir vel og fræknir um allt.

Starkaður átti hest góðan, rauðan að lit, og þótti þeim svo sem engi hestur mundi hafa við þeim í vígi.

Einu hverju sinni var það að þeir bræður úr Sandgili voru undir Þríhyrningi. Þeir höfðu viðurmæli mikið um alla bændur í Fljótshlíð og þar kom að þeir töluðu hvort nokkur mundi vilja etja hestum við þá. En þeir menn voru að mæltu það til sóma þeim og eftirlætis að bæði mundu vera að engi mundi þora við að etja enda mundi engi eiga þvílíkan hest.

Þá svaraði Hildigunnur: „Veit eg þann mann er þora mun að etja við yður.“

„Nefn þú þann,“ segja þeir.

Hún svarar: „Gunnar að Hlíðarenda á hest brúnan og mun hann þora að etja við yður og við alla aðra.“

„Svo þykir yður konum,“ segja þeir, „sem engi muni vera hans maki. En þó að auvirðilega hafi farið fyrir honum Geir goði eða Gissur hvíti þá er eigi ráðið að oss fari svo.“

„Yður mun first um fara,“ segir hún og varð þeim af hin mesta deila.

Starkaður mælti: „Á Gunnar vildi eg að þér leituðuð síst manna því að erfitt mun yður verða að ganga í móti giftu hans.“

„Leyfa munt þú oss að vér bjóðum honum hestaat?“ segja þeir.

„Leyfa,“ segir hann, „ef þér prettið hann í öngu.“

Þeir kváðust svo gera mundu.

Riðu þeir nú til Hlíðarenda. Gunnar var heima og gekk út. Kolskeggur og Hjörtur gengu út með honum og fögnuðu þeim vel og spurðu hvert þeir ætluðu að fara.

„Eigi lengra,“ segja þeir. „Oss er sagt að þú eigir hest góðan og viljum vér bjóða þér hestaat.“

„Litlar sögur mega ganga frá hesti mínum,“ segir Gunnar, „hann er ungur og óreyndur að öllu.“

„Kost munt þú láta að etja,“ segja þeir, „og gat þess til Hildigunnur að þú mundir góður af hestinum.“

„Hví töluðuð þér um það?“ segir Gunnar.

„Þeir menn voru,“ segja þeir, „er það mæltu að þú mundir eigi þora að etja við vorn hest.“

„Þora mun eg að etja,“ segir Gunnar, „en grálega þykir mér þetta mælt.“

„Skulum vér til þess ætla,“ segja þeir, „að þú munir etja?“

„Þá mun yður þykja för yður best,“ segir Gunnar, „ef þér ráðið þessu. En þó vil eg þess biðja yður að vér etjum svo hestunum að vér gerum öðrum gaman en oss engi vandræði og þér gerið mér enga skömm. En ef þér gerið til mín sem til annarra þá er eigi ráðið nema eg sveigi þann að yður að yður mun hart þykja undir að búa. Mun eg þar eftir gera sem þér gerið fyrir.“

Ríða þeir nú heim. Starkaður spurði hversu þeim hefði farist. Þeir sögðu að Gunnar gerði góða ferð þeirra.

„Hann hét að etja hesti sínum og kváðum vér á nær það hestavíg skyldi vera. Fannst það á í öllu að honum þótti sig skorta við oss og baðst hann undan vandræðum.“

„Það mun oft á finnast,“ segir Hildigunnur, „að Gunnar erseinþreyttur til vandræða en harðdrægur ef hann má eigiundan komast.“

Gunnar reið að finna Njál og sagði honum hestaatið og hversu orð fóru með þeim „eða hversu ætlar þú að fari hestaatið?“

„Þú munt hafa meira hlut,“ sagði Njáll, „en þó mun hér margs manns bani af hljótast.“

„Mun nokkuð hér af hljótast minn bani?“ segir Gunnar.

„Ekki mun það af þessu hljótast,“ segir Njáll, „en þó munu þeir muna fornan fjandskap, og nýjan munu þeir að þér færa og munt þú ekki annað mega en hrökkva við.“

Gunnar reið þá heim.