Brennu-Njáls saga/68

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
68. kafli

Nokkuru síðar fór Þorgeir Starkaðarson í Kirkjubæ að finna nafna sinn og gengu þeir á eintal og töluðu dag allan hljótt. En að lyktum gaf Þorgeir Starkaðarson nafna sínum spjót gullrekið og reið heim síðan. Gerðu þeir með sér hinakærustu vináttu.

Á Þingskálaþingi um haustið sótti Kolskeggur til lands að Móeiðarhvoli en Gunnar nefndi sér votta og bauð þeim undan Þríhyrningi lausafé eða land annað að löglegri virðingu. Þorgeir nefndi sér votta að Gunnar ryfi sætt á þeim feðgum. Eftir það var lokið þinginu.

Liðu nú þau misseri. Finnast þeir nafnar jafnan og eru með þeim hinir mestu dáleikar.

Kolskeggur mælti til Gunnars: „Sagt er mér að mikil sé vinátta þeirra Þorgeirs Otkelssonar og Þorgeirs Starkaðarsonar. Og er það margra manna mál að þeir muni vera ótrúlegir og vildi eg að þú værir var um þig.“

„Koma mun til mín feigðin,“ segir Gunnar, „hvar sem eg er staddur ef mér verður þess auðið.“

Skildu þeir þá talið.

Gunnar sagði fyrir um haustið að þar skyldi vinna viku heima en aðra niðri í Eyjum og hætta þá heyverkum. Sagði hann svo fyrir að allt skyldi fara manna af bænum nema hann og konur.

Þorgeir undan Þríhyrningi fer að finna nafna sinn en þegar er þeir fundust töluðu þeir að vanda sínum.

Þorgeir Starkaðarson mælti: „Eg vildi að við herðum okkur og færum að Gunnari.“

„Svo að einu hafa fundir orðið við Gunnar,“ sagði Þorgeir Otkelsson, „að fáir hafa af því sigrast enda þykir mér illt að heita griðníðingur.“

„Þeir hafa rofið sættina en við eigi,“ segir Þorgeir Starkaðarson. „Tók Gunnar af þér sáðland þitt en Móeiðarhvol af okkur feðgum.“

Nú semja þeir það með sér að fara að Gunnari. Segir þá Þorgeir Starkaðarson að Gunnar mundi á fárra nátta fresti einn heima vera „skalt þú koma við hinn tólfta mann til móts við mig en eg mun hafa jafnmarga.“

Síðan reið Þorgeir heim.