Brennu-Njáls saga/73
Þessi tíðindi spyrjast víða og var Þorgeir mörgum mönnum harmdauði. Þeir Gissur hvíti og Geir goði riðu til og lýstu vígunum og kvöddu búa til þings. Riðu þá vestur aftur.
Þeir Njáll og Gunnar fundust og töluðu um bardagann.
Þá mælti Njáll til Gunnars: „Ver þú nú var um þig. Nú hefir þú vegið tvisvar í hinn sama knérunn. Hygg nú svo fyrir hag þínum að þar liggur við líf þitt ef þú heldur eigi þá sætt sem ger er.“
„Hvergi ætla eg mér af að bregða,“ segir Gunnar, „en þó mun eg þurfa liðsinni yðvart á þingi.“
Njáll svaraði: „Halda mun eg við þig mínum trúnaði til dauðadags.“
Ríður Gunnar þá heim.
Líður nú til þings og fjölmenna hvorirtveggju mjög. Er um þetta allfjölrætt á þingi hversu þessi mál mundu lúkast.
Þeir Gissur hvíti og Geir goði töluðu með sér hvor þeirra lýsa skyldi vígsökinni Þorgeirs. En þar kom að Gissur tók undir sig málið og lýsti sök að Lögbergi og kvað svo að orði að „eg lýsi lögmætu frumhlaupi á hönd Gunnari Hámundarsyni um það er hann hljóp lögmætu frumhlaupi til Þorgeirs Otkelssonar og særði hann holundarsári því er að ben gerðist en Þorgeir fékk bana af. Tel eg hann eiga að verða um sök þá sekan skógarmann, óælan, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Tel eg sekt fé hansallt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eigaað taka eftir hann að lögum. Lýsi eg til fjórðungsdóms þess ersökin á í að koma að lögum, lýsi eg löglýsing, lýsi eg í heyranda hljóði að Lögbergi, lýsi eg nú til sóknar í sumar ogtil sektar fullrar á hönd Gunnari Hámundarsyni.“
Í annað sinn nefndi Gissur sér votta og lýsti sök á hönd Gunnari Hámundarsyni um það er hann særði Þorgeir Otkelsson holundarsári því er að ben gerðist en Þorgeir fékk bana af á þeim vettvangi er Gunnar hljóp til Þorgeirs lögmætu frumhlaupi áður. Síðan lýsti hann þessi lýsing sem hinni fyrri. Þá spurði hann að þingfesti og að heimilisfangi. Eftir það gengu menn frá Lögbergi og mæltu allir að honum mæltist vel. Gunnar var vel stilltur og lagði fátt til.
Líður nú þingið þar til er dómar fara út. Gunnar stóð norðan að Rangæingadómi og hans menn en Gissur hinn hvíti stóð sunnan að og hans menn og nefndi sér votta og bauð Gunnari að hlýða til eiðspjalls síns og til framsögu sakar sinnar og til sóknargagna þeirra allra sem hann hugði fram að færa. Eftir það vann hann eið. Þá sagði hann fram sök sína svo skapaða í dóm sem hann lýsti. Þá lét hann bera lýsingarvætti. Þá bauð hann búum í setu og til ruðningar um kviðinn.