Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/83

Úr Wikiheimild

Snið:Header

Nú er þar til máls að taka að þeir Grímur og Helgi synir Njáls fóru af Íslandi það sumar sem þeir Þráinn fóru utan og voru á skipi með þeim Ólafi eldu Ketilssyni og Bárði hinum svarta. Þeir tóku norðanveður svo hörð að þá bar suður í haf og rak yfir myrkur svo mikið að þeir vissu eigi hvar þeir fóru og höfðu þeir útivist langa. Þá komu þeir þar er grunnsævi var mikið og þóttust þeir vita að það mundi vera nær löndum. Þeir Njálssynir spurðu ef Bárður vissi nokkuð til hverjum löndum þeir mundu næst vera.

„Mörg eru til,“ segir hann, „að því sem vér höfum veðurföll haft, Eyjar eða Skotland eða Írland.“

Tveim nóttum síðar sáu þeir lönd á bæði borð en boða mikinn inn á fjörðinn. Þeir köstuðu akkerum fyrir utan boðann. Þá tók að lægja veðrið en um morguninn var logn. Sjá þeir þá fara þrettán skip út að sér.

Þá mælti Bárður: „Hvað skal nú til ráða taka því að menn þessir munu veita oss aðsókn?“

Síðan ræddu þeir um hvort þeir skyldu verja sig eða gefast upp en áður þeir höfðu ráðið komu að víkingar. Spurðu þá hvorir aðra að nöfnum, hvað fyrirmenn hétu. Þá nefndust fyrirmenn kaupmanna og spurðu í móti hverjir fyrir víkingum væru. Annar nefndist Grjótgarður en annar Snækólfur, synir Moldans úr Dungalsbæ í Skotlandi, frændur Melkólfs Skotakonungs „og eru kostir tveir af oss gervir,“ segir Grjótgarður, „að þér gangið á land en vér munum taka fé yðvart. Hinn er annar að vér munum sækja að yður og drepa hvern mann er vér náum.“

Helgi svarar: „Það vilja kaupmenn að verja sig.“

Þá mæltu kaupmenn: „Mæl þú alls vesall. Hverja vörn munum vér veita? Og er fé fjörvi firra.

Grímur tók það ráð að hann æpti á víkinga og lét þá eigi heyra illan kurr kaupmanna.

Bárður og Ólafur mæltu: „Hyggið þér eigi að Íslendingar muni gera spott að látum yðrum? Takið nú heldur vopn yður og verjum oss.“ Tóku þeir þá allir vopn sín og festu það með sér að þeir skyldu aldrei upp gefast meðan þeir mættu verja sig.