Fara í innihald

Brestur

Úr Wikiheimild
Brestur
Höfundur: Þorgils gjallandi

Þórður kvenelski var kvæntur, en hann var nú ekki við eina fjölina felldur karlinn sá, honum þótti vænt um aðra stúlku og svo mætti hann henni einu sinni úti á víðavangi. Með það var fjandinn laus - það er að segja skírlífisfjandinn -. Þau Þórður mundu hvorki eftir eiðum, umtali né guði þessa stund. En þau voru heldur ekki iðjulaus skötuhjúin þau arna.

En þó þau gleymdu guði um stund, þá gleymdi hann þeim samt ekki. Hann sem er alls staðar nálægur, hann var einnig þar og veitti þeim frjósemi og ávöxt. Blessaði bókstaflega vinnu þeirra.

Á réttum tíma er kvisturinn rann upp er þarna var til sáið, þá bölvuðu ráðsettu bændurnir „klúðrinu“ og konurnar voru „alveg forviða yfir ólaginu“, yngra fólkið „skildi ekki í þessu“, og hafði hálfvegis gaman af því í öðru veifinu þó það væri „ljótt“. En það besta var, að flestir gátu kastað steini að Þórði og stúlkunni hvað sem þeirra gömlu eða huldu breyskleikabrotum viðvék, þau voru annaðhvort fyrnd eða menn vissu ekki um þau og svo var ýmislegt til að milda þeirra eigin yfirsjón og gera hana að „breyskleika“ af fínustu tegund því þanþolið er nærri eins gott í orðinu „breyskleiki“ eins og kirkjukreddum.

Prestinum líkaði ekki, að þetta skyldi koma upp í hjörðinni sinni, sem var svo vel hirt og samviskusamlega. Það var eitthvað um siðlaust, dýrslegt og saurugt líferni sem braust um í prestshöfðinu og svo sleppti hann öllum þessum „peium“ út um dyrnar því þær stóðu galopnar, og fólkinu í baðstofunni sýndist þeir vera ekki svo rýrir í roðinu orðagemsarnir prestsins.

Presturinn hugsaði sér náttúrlega, að áminna Þórð greinilega, honum fannst það skylda sín að víta þetta siðleysi, því hann var vandlátur að allri ytri háttsemi presturinn, svo kom þessi Þórður ósköp sjaldan til kirkju en hafði gaman af að koma á alla mannfundi aðra, svo hann hlaut að vera trúargeggjaður.

„Já, ég skal einhvern tíma segja Þórði meiningu mína afdráttarlaust,“ hugsaði prestur. „Það er mín embættisskylda.“

Viku seinna var prestur beðinn að skíra þetta barn hans Þórðar og það var einmitt Þórður sjálfur sem sótti hann, hann var svo kærulaus hvað sem á bjátaði fyrir honum, það var eins og honum fyndist aldrei neitt að háttsemi sinni, hann var nú svona gerður eða sýndist vera það, enda sléttaðist furðanlega úr öllu saman fyrir honum vanalega.

Klerkurinn hugsaði sér að segja Þórði til syndanna eftir að búið væri að skíra barnið; þessi athöfn var í sannleika svo háleit og göfug að ekki einu sinni það þó barnið væri getið í meinum og stórsynd gat raskað helgi hennar; eflaust varð hann þá einarðari, gagnorðari og meir sannfærandi og Þórður þó gjálífur væri betur búinn við, að hafa sönn not af aðfinningunum og leiðbeiningunum. Sjálfsagt að geyma það þangað til.

Þórður hafði gott lag á að „spjalla menn upp“, hann var enginn skynskiptingur, ekki heldur feiminn; kunni frá mörgu kátlegu að segja og var gleðimaður að eðlisfari. Þegar þeir höfðu farið eina stutta bæjarleið, hafði klerkurinn gleymt því að vera fár og alvarlegur gagnvart Þórði. Þeir töluðu út um alla heima og voru kátir.

En þeir voru líka búnir að koma tappaborði á flöskuna sem Þórður hafði í frakkavasa sínum. Og einmitt það vissi líka Þórður að klerkur var gleðimaður en enginn þumbaldi og að honum þótti vínið vera eitt af þessa heims fagnaði: „Í hófi brúkað gleður það mannshjartað,“ eins og hann var vanur að segja sjálfur guðsmaðurinn þegar honum var boðið vín. Þetta vissi Þórður, hafði líka pata af því sem klerkurinn hafði lofað honum þegar hann frétti barnsfæðinguna. Þórður vildi gjarna deyfa eggjar fyrir honum; koma öllu í vingjarnlegt horf; ekki var það alveg óhugsandi - með lagi, auðvitað með lagi og gætni.

Klerkurinn var samt alvarlegur þegar þeir komu heim að Bæ; óskaði eftir að mega lúka skírninni af sem allra fyrst, enda var vikist greiðlega við því; gestirnir voru allir komnir og þeir voru ekki svo fáir, voru búnir að drekka kaffið. Ekki stóð á löngu með að klerkurinn og Þórður drykkju kaffið sitt og þó Þórður léti vel af víni í bollann sinn en klerkurinn ekki nema örlítið, urðu þeir samt jafnfljótir; ekki var stór töf að því. Söngkraftarnir voru sæmilegir, og á meðal söngmannanna voru þeir báðir klerkur og Þórður, það þótti aldrei að þeir spilltu fyrir góðum söng. Skírnarathöfnin fór fram eins og venjulegt er; klerkurinn var alvarlegur og allir viðstaddir voru það einnig. Það var aðeins tvennt sem Þórður tók eftir; að móðir skírnarbarnsins var hvítföl, dapurleg og niðurlút og, að presturinn var sérlega fastmæltur á þeim orðum: „...svo að þetta barn sem er getið í synd o.s.frv.“ og hvort tveggja, skildi hann ofur vel; annað gekk honum þungt að hjarta, hitt sætti hann sig við, því Þórður var ekki uppnæmur fyrir ofurlitlum selbita.

Eftir skírnina var sest við kaffidrykkju og Þórður hafði séð svo um að tvær flöskur fullar af víni stóðu á borðinu miðju. Kaffið var drukkið í frambaðstofunni, þar var rýmra. Eins og vant er liðkaði vínið ágætlega samtalið, bæði karlmennirnir, sem neyttu þess og kvenfólkið, sem neytti þess lítið eða alls ekki urðu skrafhreifnari. Alvaran rann af klerkinum og Þórður gætti þess, að færri undrandi augu litu til hans en áður; að einu undanskildu virtist honum allt fara fram eins og í þeim skírnarveislum sem stofnaðar eru samkvæmt guðs og manna lögum. En það voru dökku augun móðurinnar áðan; hann hafði eins og af tilviljun staðnæmst gagnvart húsdyrunum; og um leið leit móðirin upp, hún hafði verið að hagræða litla barninu á brjóstinu, þar sem hún sat í stafnrúminu, leit á hann sem snöggvast; en hann sá að í þeim tárvotu augum bjó harmur og hugarangur; svo drúpti hún höfðinu niður, og um leið hrundu höfug tár niður á hvíta kjólinn nýskírða sveinsins.

Þórður dreyrroðnaði, svaraði einhverri lokleysu til þess, sem á hann yrti og gekk út að hyggja til veðurs. Þegar hann kom inn sagði hann að ekki liti út fyrir að skuggalegt yrði í kvöld, það væri sama stillingin og skafheiðríkjan og verið hefði næsta sólarhring.

„Það er skemmtilegt að vera á ferð á kvöldin núna, það er gott færi og tunglsljósið upp á það indælasta,“ sagði húsfreyja og játtu margir því. Þórður þagði um stund, hann hafði trauðla skap til að gefa sig við umræðuna. Við rökkur fór klerkur að sýna á sér ferðasnið; en þá var eftir að drekka kaffi og var hann beðinn að staldra svolítið eftir því. Karlmennirnir tóku að verða hreifir af víninu því alltaf entist það, og enn leið stundarkorn þangað til klerkur óskaði að hestinum sínum yrði náð. Þórður bað vaxinn pilt þar í Bæ að ná hestunum þeirra; sjálfur gekk hann fram með húsráðanda og upp á stofuloft. Móðirin hafði lagt sig út af með unga sveininn sinn í faðminum; hún hafði ein setið þögul og hnípin, ekki talað nema því aðeins að einhver yrti á hana. Nú settist vinkona hennar, bóndadóttir af næsta bæ, hjá henni og tók að tala við hana; báðar töluðu hljótt.

Þeir urðu samferða klerkurinn og Þórður og riðu fyrst nokkuð hart. Vínið hafði örvað báða og Þórður hafði fulla rommflösku til nestis. Klerkurinn gat með engu móti fengið sig til að áminna Þórð í þetta skipti; honum geðjaðist raunar vel að honum þó þessi brestur hefði orðið á ráði hans; en síðar, við hentugt tækifæri hugsaði hann sér að halda yfir honum þétta áminning eins og skyldan bauð honum.

Á hlaðinu á prestssetrinu kvaddi Þórður klerk með fullri vináttu og tveim alúðarkossum, það hafði ráðist að Þórður yrði hjá honum þrjá næstu daga, við að smíða hestajárn og ljábakka; en Þórður mátti hreint ekki vera þar þessa nótt þó prestur byði honum það, hann hafði ráðgert að koma heim þetta kvöld, fólkið yrði hrætt ef hann kæmi ekki.

Þórður var ekki hið minnsta hræddur við hirtingarræðu klerksins; líkast að hún kæmi aldrei; hann var viss um að honum hafði heppnast að deyfa eggjar á vandlætingarsverðinu hans. - O, fólkið gengur varla framan að mér, hugsaði hann, til þess vantar það alvöruna í siðferðisvandlætinu; það baktalar mig og dæmir um brestinn undan eyrunum svona fyrst þangað til annar atburður kemur nýr af nálinni; annar siðferðisbrestur, sem umtalið snýst að. En það sára er, og það er allra verst, að stúlkan þorir aldrei að horfa djarflega framan í heiminn framar - að þróttur hennar er brostinn. . . Hún leggur árar í bát og lætur bátinn rekast eins og verða vill. Skýið leið frá tunglinu. Þórður drakk teyg úr flöskunni, sló í klárinn og hleypti á sprett, óvæginn, harðknýjandi sprett heim yfir mýrarflóana.

Þórður varð sannspár að því, að aldei kom áminningin frá klerkinum; kunningsskapur þeirra færðist einmitt í vöxt við meiri og betri viðræður.

En Þórey í Bæ sneiddi sem mest hjá að verða á vegi fjölmennis, hún hneigði höfuðið og óttaðist dómana. Og einmitt við það gleymdist brot hennar miklu seinna. Hún var sjálf þrálátasti og einbeittasti dómarinn. Og fólkið skaut ekki heldur hlífiskildi fyrir hana; nei, fráleitt því; skárri hefði það nú líka verið vitleysan ef það hefði farið til þess.