Dómur Landsdóms í máli nr. 3/2011/I

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Dómur Landsdóms í máli nr. 3/2011  (2012) 
Landsdómur
I

1[breyta]

Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, er ákærði fæddur 8. apríl 1951. Hann tók stúdentspróf 1971 og lagði síðan stund á háskólanám í Bandaríkjunum, þar sem hann lauk BA prófi í hagfræði 1973, meistaraprófi í alþjóðastjórnmálum 1975 og meistaraprófi í hagfræði 1977. Að námi loknu starfaði hann sem hagfræðingur í alþjóðadeild Seðlabanka Íslands frá 1977 til 1983 og aðstoðarmaður fjármálaráðherra frá 1983 til 1987. Hann átti síðan sæti á Alþingi frá 1987 til 2009 og var á árunum 1991 til 1998 formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hann var varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá 1999 til 2005 og formaður frá því ári til 2009.

Eftir kosningar til Alþingis 20. apríl 1991 mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar 30. sama mánaðar og sat hún til 23. apríl 1995. Þá tók við ríkisstjórn, sem var undir forsæti þess sama og mynduð af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Í þeirri ríkisstjórn tók ákærði sæti sem fjármálaráðherra 16. apríl 1998. Sömu flokkar mynduðu aftur ríkisstjórnir undir forsæti Davíðs Oddssonar að undangengnum alþingiskosningum 8. maí 1999 og 10. maí 2003 og gegndi ákærði þar sama embætti til 15. september 2004. Þann dag tók við ríkisstjórn sömu flokka undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar og sat hún til 15. júní 2006, en ákærði var þar aftur fjármálaráðherra til 27. september 2005 þegar hann tók við embætti utanríkisráðherra. Því gegndi hann þar til hann varð 15. júní 2006 forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem lét af störfum 24. maí 2007 þegar við tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar undir forsæti ákærða. Meðal þeirra, sem áttu sæti í þeirri ríkisstjórn af hálfu Sjálfstæðisflokksins, var Árni M. Mathiesen, sem var fjármálaráðherra, en af hálfu Samfylkingarinnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem var formaður þess flokks og gegndi embætti utanríkisráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, sem var viðskiptaráðherra. Þeirri ríkisstjórn var veitt lausn 26. janúar 2009, en hún gegndi störfum til 1. febrúar sama ár.

2[breyta]

Ákærði mælti 6. október 2008 fyrir stjórnarfrumvarpi á Alþingi til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þar sem meðal annars voru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Tilefni frumvarpsins var einkum yfirvofandi greiðsluþrot þriggja stærstu fjármálafyrirtækja landsins, Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi að kvöldi sama dags og varð að lögum nr. 125/2008. Á grundvelli 5. gr. þeirra tók Fjármálaeftirlitið á tímabilinu 7. til 9. október 2008 yfir vald hluthafafundar í þessum þremur fjármálafyrirtækjum, vék stjórnum þeirra frá og setti yfir þau skilanefndir, sbr. 100. gr. a. laga nr. 161/2002. Slit þessara fyrirtækja standa enn yfir.

3[breyta]

Með lögum nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða var rannsóknarnefnd á vegum Alþingis falið að leita „sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða“, eins og komist var að orði í 1. gr. laganna, svo og að leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni og hverjir kynnu að bera ábyrgð á henni. Rannsóknarnefnd Alþingis lét frá sér fara ítarlega skýrslu um þetta efni 12. apríl 2010. Í framhaldi af því fjallaði sérstök nefnd níu þingmanna um skýrsluna, en með 2. mgr. 15. gr. laga nr. 142/2008, sbr. 1. gr. laga nr. 146/2009, var nefndinni meðal annars falið að „móta tillögur að viðbrögðum Alþingis“ við niðurstöðum í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Meiri hluti þingmannanefndarinnar lagði á þessum grunni fram á Alþingi 11. september 2010 tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum, þar sem lagt var til að mál yrði höfðað fyrir Landsdómi á hendur ákærða, Árna M. Mathiesen, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvini G. Sigurðssyni. Við atkvæðagreiðslu á Alþingi 28. sama mánaðar var tillaga þessi samþykkt að því er varðar málshöfðun á hendur ákærða, en að öðru leyti fékk hún ekki framgang. Í samræmi við 14. gr. laga nr. 3/1963 um Landsdóm tilkynnti forseti Alþingis 30. september 2010 forseta Hæstaréttar um þessa ákvörðun og kynnti sá síðarnefndi ákærða hana með bréfi sama dag. Á fundi Alþingis 12. október 2010 var kosinn saksóknari og annar til vara til að sækja af hendi þess mál gegn ákærða, sbr. 13. gr. laga nr. 3/1963. Samkvæmt kröfu ákærða var honum síðan skipaður verjandi 30. nóvember 2010.

4[breyta]

Saksóknari Alþingis gaf út fyrrgreinda ákæru 10. maí 2011 á grundvelli þingsályktunarinnar frá 28. september 2010. Áður en til þess kom höfðu mál, sem þessu tengdust, tvívegis komið til kasta Landsdóms. Þetta voru annars vegar mál nr. 1/2011, sem lokið var með dómi 8. mars 2011, og hins vegar mál nr. 2/2011, sem lokið var með úrskurði 22. sama mánaðar, en þau voru rekin til úrlausnar um ágreining, sem reis um kröfur saksóknarans um heimild til að leggja hald á nánar tilgreind sönnunargögn. Í síðarnefnda málinu var jafnframt tekin afstaða til krafna ákærða um að málið yrði fellt niður eða því vísað frá dómi. Þá krafðist ákærði þess við þingfestingu þessa máls 7. júní 2011 að átta af dómurum Landsdóms vikju sæti í því, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 10. sama mánaðar. Sem fyrr segir krafðist ákærði þess síðan í þinghaldi 5. september 2011 að málinu yrði vísað frá dómi og var sú krafa að hluta tekin til greina með úrskurði 3. október sama ár. Aðalmeðferð málsins hófst loks 5. mars 2012 og voru þar teknar munnlegar skýrslur af ákærða og 40 vitnum, en að loknum munnlegum málflutningi 16. sama mánaðar var það eins og áður greinir tekið til dóms.