Dómur Landsdóms í máli nr. 3/2011/III

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Dómur Landsdóms í máli nr. 3/2011  (2012) 
Landsdómur
Meðmæli og er það
III

Í þessum kafla dómsins verða rakin atvik málsins eins og þau birtast í framlögðum skjölum.

1[breyta]

Ákveðið var á fundi forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra með bankastjórn Seðlabanka Íslands og forstjóra Fjármálaeftirlitsins 15. janúar 2004 að efna til samráðs um viðbúnað stjórnvalda við hugsanlegum áföllum í fjármálakerfi. Starfsmenn þessara stofnana, sem tóku þátt í samráðinu, skiluðu greinargerð um það 17. febrúar 2006 og lögðu meðal annars til að komið yrði á „formlegum samráðshópi fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands um aðstæður í fjármálakerfinu“, en hann skyldi koma saman ekki sjaldnar en tvisvar á ári og þess utan ef forstjóri Fjármálaeftirlitsins eða bankastjórn seðlabankans óskaði eftir því „vegna atvika sem varða stöðu fjármálafyrirtækja.“ Í greinargerðinni var því áliti lýst að liggja þyrfti fyrir „með skýrari hætti en nú er hvaða aðilar í stjórnkerfinu beri meginábyrgð á og annist framkvæmd á úrlausn fjármálakreppu og hvaða heimildir þeir hafi í því skyni“, en að auki þyrfti í nánar tilteknum atriðum að huga að breytingum á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Á grundvelli þessara tillagna gerðu ráðuneytin þrjú ásamt Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands samkomulag 21. febrúar 2006 „um samráð varðandi fjármálastöðugleika og viðbúnað“ í þeim tilgangi að „formbinda samráð aðila á þessu sviði ... skerpa hlutverkaskiptingu, hindra tvíverknað og auka gegnsæi“, en tekið var fram að samkomulagið skyldi ekki takmarka „svigrúm hvers um sig til sjálfstæðra ákvarðana um aðgerðir út frá hlutverki og ábyrgð sinni.“ Í samráðshópnum skyldu eiga sæti fulltrúar þessara fimm stofnana, sem kæmu saman eftir sömu reglum og lagðar voru til í greinargerðinni, og myndi fulltrúi forsætisráðuneytisins stýra starfi hans. Hópurinn yrði „vettvangur upplýsinga- og skoðanaskipta“ og ráðgefandi, en ekki taka ákvarðanir um aðgerðir. Tekið var fram að yrði fjármálakerfinu talin hætta búin vegna áfalls í fjármálafyrirtæki eða á markaði skyldi „efnt til umfjöllunar í samráðshópnum án tafar.“ Viðbrögð við slíku yrðu „háð aðstæðum hverju sinni en grundvallaratriði er að eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækja sem og markaðsaðilar leysi vanda sinn sjálfir.“ Í samkomulaginu var sérstaklega tekið fram að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands ættu að „fylgjast grannt með og leitast við að stuðla að heilbrigði íslensks fjármálakerfis, hvor stofnunin með sínum hætti í samræmi við hlutverk sitt.“ Einnig var vísað til þess að um samstarf þeirra gilti „opinber samningur, fyrst gerður 1999 en nú frá 2003, þar sem meðal tilgreindra markmiða er að tryggja samræmd viðbrögð við hugsanlegri kerfisáhættu á fjármálamarkaði.“ Samráðshópurinn var í upphafi skipaður Bolla Þór Bollasyni ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu, Baldri Guðlaugssyni ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, Kristjáni Skarphéðinssyni ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneytinu, Jónasi Fr. Jónssyni forstjóra Fjármálaeftirlitsins og Ingimundi Friðrikssyni, sem þá mun hafa verið aðstoðarbankastjóri í Seðlabanka Íslands en varð þar síðar bankastjóri. Með samráðshópnum starfaði Tryggvi Pálsson framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, sem sat þar fundi og færði fundargerðir.

Um þær mundir, sem framangreindur samráðshópur var myndaður, mun hafa risið umræða alþjóðlegra greiningarfyrirtækja um stöðu íslensku bankanna þriggja, þar sem athygli beindist meðal annars að vexti bankanna, eignarhaldi þeirra, lántökum og útlánum. Þá lýstu fyrirtækin jafnframt efasemdum um getu íslenska ríkisins til að standa að baki bönkunum og Seðlabanka Íslands sem lánveitanda til þrautavara. Skuldatryggingarálag vegna íslensku bankanna mun hafa hækkað nokkuð haustið 2005 og sú hækkun haldið áfram í byrjun árs 2006. Meðal þess, sem matsfyrirtækið Fitch Ratings mun hafa bent á, var að íslenska hagkerfið hafi lengi borið merki um ofþenslu, en með því að ástandinu virtist hraka mun hraðar en áður hafi fyrirtækið talið að auknar líkur væru á svonefndri harðri lendingu. Íslensku bankarnir væru mjög háðir erlendum lánsfjármörkuðum og því myndu þeir tæplega þola að hafa ekki aðgang að erlendu lánsfé um tíma. Greiningarfyrirtækið Merrill Lynch & Co. Inc. mun hafa talið vandamál á Íslandi rétt vera að hefjast, en kerfislægur vandi eins og hér væri við að glíma væri lengi að byggjast upp og fjara út. Bankastarfsemi hér á landi væri ekki sterk, hækkun á skuldatryggingarálagi íslensku bankanna væri afleiðing veikrar stöðu þeirra og tæki þó ekki að fullu mið af því hversu miklu áhættusæknari þeir væru en aðrir evrópskir bankar. Þá mun fyrirtækið hafa bent á að íslensku bankarnir hafi einungis að litlu leyti aflað sér fjár með innlánum og væri hlutfall þeirra af útlánum lágt. Greiningardeild Danske Bank A/S mun hafa talið efnahagslegt ójafnvægi vera fyrir hendi á Íslandi og spáð kreppu á næstu tveimur árum.

Af þessu munu hafa stafað tímabundnir örðugleikar fyrir íslensku bankana við öflun lánsfjár auk þess sem gengi íslensku krónunnar veiktist verulega og innlend hlutabréf lækkuðu í verði. Til að bregðast við þessu munu bankarnir og íslensk stjórnvöld hafa farið í svokallaða ímyndarherferð, enda hafi þessi umræða stafað að þeirra mati af misskilningi og skorti á upplýsingum um stöðu Íslands og íslensku bankanna. Fredrick Mishkin, prófessor við Columbia háskóla í Bandaríkjunum, og Tryggvi Þór Herbertsson, þáverandi forstöðumaður hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, munu í byrjun maí 2006 hafa gert skýrslu um fjármálastöðugleika á Íslandi, þar sem meðal annars var bent á að undirstöður íslensks efnahagslífs væru traustar, hagkerfið sveigjanlegt, lífeyrissjóðakerfið sjálfbært og staðan í ríkisfjármálum einstaklega góð. Aukinn viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun væru afleiðingar lántöku til arðbærra fjárfestingarverkefna, en ekki merki um erfiðleika í íslensku hagkerfi. Þrátt fyrir að erlendar lántökur íslensku bankanna hafi aukist hafi lánveitingar þeirra erlendis sem og erlendar eignir þeirra vaxið hratt. Hröð aðlögun á gengi íslensku krónunnar væri ekki ógn við fjármálastöðugleika hér á landi, þar sem áhættumat bankanna væri gott og þeir því ekki viðkvæmir fyrir sveiflum á genginu. Í framhaldi af þessu munu erfiðleikarnir hafa að mestu liðið hjá og skuldatryggingarálag bankanna tekið að lækka á ný. Ábendingar erlendra greiningarfyrirtækja vorið 2006 munu þó hafa leitt til þess að dregið hafi úr svonefndu krosseignarhaldi bankanna og eignarhald þeirra verið einfaldað.

Eins og áður var getið mun Landsbanki Íslands hf. hafa keypt breska bankann Heritable Bank Ltd. árið 2002 og opnað að auki snemma árs 2005 útibú í London. Landsbanki Íslands hf. mun hafa tilkynnt Fjármálaeftirlitinu 29. júní 2005 að ákveðið hafi verið að útibúið myndi taka við svokölluðum heildsöluinnlánum fyrir milligöngu Heritable Bank Ltd. Í október 2006 mun útibúið síðan hafa byrjað að bjóða rafræna innlánsreikninga undir nafninu Icesave Easy Access. Á miðju ári 2007 munu innstæður á þessum reikningum í Bretlandi hafa numið orðið um 3.600.000.000 sterlingspundum.

Aðstæður íslensku viðskiptabankanna fyrri hluta árs 2006, sem að framan var getið, virðast ekki hafa orðið tilefni til að samráðshópur forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað væri kallaður saman, en fyrsti fundur hans var 1. júní 2006 og síðan annar 30. nóvember sama ár. Frá fyrsta fundi samráðshópsins liggur fyrir dagskrá, en engin fundargerð. Í fundargerð frá öðrum fundinum var þess getið að rætt hafi verið um stöðu og horfur í „fjármögnun viðskiptabankanna“, svo og „hvernig Icesave innlán Landsbankans koma fram í efnahag bankans, viðhorf matsfyrirtækja og erlendra banka“. Þá var þess getið að „útibúavæðing banka“ hafi komið til umræðu og einnig að heimild til að færa bókhald og ársreikninga í erlendum gjaldmiðli væri til skoðunar í fjármálaráðuneytinu.

Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands gerðu samstarfssamning 3. október 2006, sem leysti af hólmi eldri samning um sama efni frá 28. mars 2003. Í upphafi samningsins sagði að hann varðaði „samstarf samningsaðila en hefur ekki áhrif á skyldur samningsaðila að öðru leyti samkvæmt lögum eða samningum.“ Í 1. grein samningsins sagði að markmið hans væri að samningsaðilar hefðu tiltekin „meginatriði að leiðarljósi í samstarfi sínu“, en þau væru í fyrsta lagi að ábyrgð hvors og verkaskipting væri skýr, bæði innbyrðis í samstarfi þeirra og gagnvart fyrirtækjum á fjármálamarkaði og almenningi, í öðru lagi að tryggt yrði að öllum tvíverknaði í sameiginlegri starfsemi stofnananna yrði haldið í lágmarki, í þriðja lagi að upplýsingaskipti milli þeirra yrðu greið og fljótvirk, í fjórða lagi að hvor þeirra myndi eins fljótt og kostur væri upplýsa hina um vísbendingar um erfiðleika á fjármálamarkaði, í fimmta lagi að tryggja samræmd vinnubrögð stofnananna við hugsanlegri kerfisáhættu á fjármálamarkaði og loks í sjötta lagi að stuðla að skilvirkni og öryggi greiðslu- og uppgjörskerfa. Í 2. grein samningsins var vísað til laga nr. 87/1998 og 36/2001 um hlutverk stofnananna og tekið fram að þær skyldu virða starfssvið hvorrar annarrar og leitast við að skilgreina á skýran hátt verksvið og ábyrgð hvorrar þegar hlutverk þeirra skarist. Í 3. grein var kveðið á um verkaskiptingu stofnananna vegna eftirlits með greiðslu- og uppgjörskerfum, en í niðurlagi greinarinnar sagði að þær skyldu hafa sameiginlega viðlagaáætlun vegna þessara kerfa. Í 4. grein samningsins var mælt fyrir um reglubundna fundi stofnananna, sem skyldu haldnir að lágmarki þrisvar á ári, en þar ætti meðal annars að fjalla um mat Seðlabanka Íslands á þróun rekstrarumhverfis fjármálafyrirtækja og áhrif hennar á afkomu þeirra og mat Fjármálaeftirlitsins á fjárhagsstöðu þeirra. Einnig var kveðið á um að sérfræðingar innan seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, sem fjalli um vísbendingar um kerfisáhættu á fjármálamarkaði, skyldu funda ekki sjaldnar en þrisvar á ári. Þá skyldu seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið efna sameiginlega til viðlagaæfinga að jafnaði annað hvert ár. Í 5. grein samningsins sagði að aðilar hans væru „sammála um að aðgangur að upplýsingum sé nauðsynlegur til að þeir geti sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum og samningi þessum“ og skyldu þeir hafa samráð um öflun reglulegra upplýsinga um fyrirtæki á fjármálamarkaði. Í fylgiskjali með samningnum yrði kveðið á um gagnasöfnun hvorrar stofnunar og hvaða upplýsingar hvor þeirra ætti að láta hinni í té, en slík skipti á upplýsingum skyldu fara fram svo fljótt, sem kostur væri eftir að þær lægju fyrir, og aldrei síðar en einni viku frá þeim tíma. Í þessari grein sagði einnig eftirfarandi: „Leiði athuganir Fjármálaeftirlitsins í ljós grunsemdir um bresti á fjárhagslegri stöðu eftirlitsskyldra aðila sem eru í viðskiptum við Seðlabankann eða eru umsvifamiklir á markaði, eða alvarlega kerfislega hættu á fjármálamarkaði að öðru leyti, skal Fjármálaeftirlitið tafarlaust gera bankastjórn Seðlabankans viðvart. Leiði athuganir Seðlabankans í ljós grunsemdir um bresti í fjárhagslegri stöðu fyrirtækja á fjármálamarkaði eða alvarlega erfiðleika á fjármálamarkaði að öðru leyti, skal Seðlabankinn tafarlaust gera forstjóra Fjármálaeftirlitsins viðvart. Í þessum tilvikum bregðast forstjóri Fjármálaeftirlitsins og bankastjórn Seðlabankans við í samræmi við innri reglur hvorrar stofnunar. ... Samningsaðilar skulu veita hvor öðrum fullan aðgang að gögnum sem þeir varðveita og nýtast í starfsemi hlutaðeigandi skv. 2. gr.“ Í 6. grein samningsins voru fyrirmæli um setningu reglna, en í 7. grein um samstarf um aðgerðir. Þar sagði meðal annars að stofnanirnar skyldu í samstarfi sínu leitast við að þróa aðferðir til sjá fyrir erfiðleika í rekstrarumhverfi á fjármálamarkaði og starfsemi einstakra fjármálafyrirtækja og gera hvorri annarri grein fyrir fyrirhuguðum aðgerðum, sem hefðu verulega þýðingu fyrir þetta rekstrarumhverfi eða þessa starfsemi. Kæmu upp verulegir erfiðleikar í rekstri eins eða fleiri fyrirtækja, sem hefðu mikið vægi á fjármálamarkaði, eða á fjármálamarkaðinum í heild skyldu stofnanirnar hafa samráð um aðgerðir sínar. Kæmi til athugunar að Seðlabanki Íslands veitti lán eða ábyrgð á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 skyldi hann eiga náið samstarf og samráð við Fjármálaeftirlitið um lausn vandans. Ef kerfisáhætta væri til staðar eða yfirvofandi skyldu sérfræðingar stofnananna starfa saman og gera tillögur um sameiginlegar aðgerðir og önnur viðbrögð. Tekið var fram að hvor stofnun bæri sjálfstæða ábyrgð á aðgerðum sínum. Í 8. gr. samningsins var fjallað um þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, en í 9. gr. sagði eftirfarandi: „Upplýsingar sem hvor samningsaðili veitir hinum eru háðar þagnarskyldu lögum samkvæmt. Upplýsingarnar skulu einungis nýttar í starfsemi samningsaðila. Samningsaðilar skulu gæta þess að veita ekki upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga án samráðs við þann aðila sem þeirra aflaði.“ Samkvæmt gögnum málsins var þessi samningur enn í gildi á þeim tíma, sem ákæra í því tekur til.

Í málinu liggur fyrir endurrit ræðu, sem ákærði flutti á viðskiptaþingi 7. febrúar 2007, en þar vék hann meðal annars að alþjóðlegri fjármálastarfsemi hér á landi. Í því sambandi kvað hann áherslu hafa verið lagða á að „draga sem mest úr skrifræði og kostnaði í reglusetningu hins opinbera.“ Þar hafi þegar verið tekin mikilvæg skref og væri fleira í undirbúningi undir merkjum aðgerðaáætlunar með heitinu „Einfaldara Ísland“, enda gætu flóknar og torskildar reglur valdið óþarfa kostnaði og dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Seðlabanki Íslands birti 15. mars 2007 tilkynningu um að matsfyrirtækið Fitch Ratings hafi lækkað lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins á nánar tiltekinn veg. Fyrirtækið teldi Ísland halda „yfirburðastöðu sinni í ríkisfjármálum“, en á hinn bóginn hafi nýjustu gögn um greiðslujöfnuð og hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins bent til þess að staða landsins gagnvart útlöndum hafi versnað verulega. Stóraukin „hrein fjármagnsgjöld til útlanda“, einkum vegna vaxtagreiðslna, hafi átt þátt í meiri viðskiptahalla en áður hafi mælst, sem bæri vott um „mjög skuldsett hagkerfi sem er illa búið undir aukna áhættufælni á alþjóðamörkuðum“, og væri aukin hætta á „harðri lendingu“. Þá hafi matsfyrirtækið lýst eftirfarandi skoðun: „Vaxandi greiðslubyrði af erlendum skuldbindingum miðað við tekjur af erlendum eignum eykur einnig áhyggjur af hversu lengi frekari erlend skuldasöfnun, einkum hjá íslenskum bönkum, getur haldið áfram að fjármagna erlendar fjárfestingar.“

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman í þriðja sinn á fundi 3. maí 2007. Af fundargerð verður ekki ráðið að nokkuð hafi komið þar fram, sem ástæða er til að geta hér um.

2[breyta]

Sem fyrr segir tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar til starfa undir forsæti ákærða 24. maí 2007. Í stefnuyfirlýsingu hennar, sem var gerð 23. sama mánaðar, var kafli með fyrirsögninni „kraftmikið atvinnulíf“, þar sem meðal annars sagði eftirfarandi: „Íslenskt atvinnulíf mun einkennast í sívaxandi mæli af þekkingarsköpun og útrás. ... Íslensk fyrirtæki eru í harðnandi samkeppni við erlend fyrirtæki, bæði heima og heiman, og á næstu árum mun hugvit og tækni- og verkþekking ráða úrslitum um velgengni íslenskra fyrirtækja. Ríkisstjórnin vill skapa kjörskilyrði fyrir áframhaldandi vöxt, útflutning og útrás íslenskra fyrirtækja ... Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Áhersla verður lögð á að efla Fjármálaeftirlitið til þess að íslenski fjármálamarkaðurinn njóti fyllsta trausts.“ Ákærði lét orð falla á sama veg í stefnuræðu, sem hann flutti á Alþingi 31. maí 2007.

Seðlabanki Íslands lét frá sér fara tilkynningu 11. júní 2007 í tilefni af heimsókn sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem lauk þann dag. Í tilkynningunni kom fram að nefndin hafi meðal annars lýst því áliti í niðurstöðum sínum að til lengri tíma væru efnahagshorfur hér á landi öfundsverðar, en opnir alþjóðlegir markaðir gætu þó grafið undan þjóðhagslegum stöðugleika, sem stjórnvöld yrðu að takast á við. Kæmi þetta að nokkru fram í miklum viðskiptahalla, örri skuldasöfnun og viðvarandi verðbólgu, sem bæri vott um hraðari vöxt innlendrar eftirspurnar en fengi staðist til lengdar. Fjármálakerfið hefði staðist með prýði erfiðleika á markaði fyrri hluta árs 2006, en nýjar hættur gætu verið að myndast. Bankarnir hafi á undanförnu ári tekið mikilvæg skref til að bæta úr veikleikum og auka viðnámsþrótt sinn, en þeir yrðu þó að þróa áhættustýringu í samræmi við vöxt sinn og margbrotnari starfsemi. Bankarnir yrðu ásamt eftirlitsstofnunum að beina sjónum sínum að áhættu af útlánum, en þau hafi vaxið mjög hratt, sem gæti gefið vísbendingu um útlánatap í framtíðinni, þótt hlutfall vanskila væri enn lágt og yrði því að fylgjast vel með gæðum trygginga. Bönkunum gæti einnig stafað hætta af vaxandi erlendum lánum til heimila. Álagspróf Fjármálaeftirlitsins gæfu til kynna að bankarnir hefðu nægilega sterka eiginfjárstöðu til að „standast samspil óvenjumikilla lána- og markaðsskella“, en þau gætu þó „vanmetið óbein áhrif slíkra áfalla.“ Því yrði að endurbæta álagsprófin. Í ljósi mikils vaxtar fjármálafyrirtækja hafi sendinefndin fagnað eflingu Fjármálaeftirlitsins. Í viðbrögðum Seðlabanka Íslands 15. ágúst 2007 við áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var meðal annars vísað til þess að íslenska bankakerfið hafi vaxið með undraverðum hætti á undanförnum árum og þáttur þess í vergri landsframleiðslu nánast tvöfaldast á áratug. Áhersla hafi verið lögð á aukna starfsemi erlendis vegna takmarkaðra kosta á vexti hér á landi, en stóru bankarnir þrír hafi aflað um helmings tekna sinna erlendis. Þeir hafi komist yfir erfiðleika, sem tengst hafi öflun lánsfjár á árinu 2006, og bætt úr tilteknum annmörkum. Lausafjárstaða þeirra væri þó enn athugunarefni, einkum ef ytri aðstæður færðust á verri veg. Við þessu hafi bankarnir brugðist með því að auka fjölbreytni í lánsfjáröflun og lengja lánstíma að meðaltali í fjögur til fimm ár. Eftir aðvörunina, sem fengist hafi 2006, væru bankarnir betur settir til að mæta yfirstandandi erfiðleikum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þá birti Seðlabanki Íslands tilkynningu 21. ágúst 2007 um að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hafi staðfest fyrri lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins, sem voru í hæstu flokkum, og talið horfur stöðugar.

Landsbanki Íslands hf. tilkynnti Fjármálaeftirlitinu 6. september 2007 að hann hygðist hefja viðtöku innlána í útibúi sínu í Amsterdam og óskaði eftir að þetta yrði tilkynnt eftirlitsstofnunum í Hollandi. Þessu kom Fjármálaeftirlitið á framfæri við seðlabanka Hollands og greindi jafnframt frá því að Landsbanki Íslands hf. ætti hlut að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta hér á landi, en reglur um hann væru reistar á reglum Evrópusambandsins um það efni.

Í stefnuræðu, sem ákærði flutti á Alþingi 2. október 2007, gerði hann meðal annars að umtalsefni að þensla undanfarinna ára væri á undanhaldi og framundan væri tímabil stöðugleika og jafnvægis í þjóðarbúskap, þótt hagvöxtur kynni að verða minni um hríð. Af þeim sökum væri mikilvægt að „skapa íslenskum fyrirtækjum þann grundvöll að þau sjái sér hag í að vera með höfuðstöðvar á Íslandi“, en þar vegi þungt „skattalegt ... og almennt rekstrarlegt umhverfi“. Þá gat ákærði þess einnig að íslenskur fjármálamarkaður hafi „stækkað og eflst verulega á undanförnum árum“ og skipti sífellt meira máli í þjóðhagslegu samhengi, enda hafi verið áætlað að hlutdeild fjármálafyrirtækja í landsframleiðslu hafi numið um 10% í lok árs 2006. Væri ekkert sem benti „til annars en að áframhaldandi aukning verði í umsvifum íslenskra fjármálaþjónustufyrirtækja bæði innan lands og utan“, en það hefði mikil áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins, sem miklar og vaxandi kröfur væru gerðar til.

Í minnisblaði, sem Tryggvi Pálsson sendi bankastjórn Seðlabanka Íslands 9. nóvember 2007, sagði meðal annars að lausafjárþrengingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafi leitt til efasemda um mat á verðmæti eigna bankanna og erfiðleika við fjármögnun þeirra. Hafi seðlabankinn fylgst grannt með þessu og bankastjórn átt fundi með stjórnendum íslensku bankanna og Fjármálaeftirlitsins, auk þess sem sérfræðingar á fjármálasviði seðlabankans hafi heimsótt „umsjónarmenn fjármögnunar og áhættustýringar viðskiptabankanna og Straums“ í september 2007. Líkur væru til „að óvissuástand í fjármögnun og stöðu banka verði ekki skammvinnt“ og væri því lagt til að bankastjórn kallaði saman starfshóp um viðbrögð við lausafjárvanda, sem fjallað hafi verið um í samþykkt hennar 24. mars 2006, en til að gæta fyllstu varúðar yrði „gagnlegt að Seðlabankinn undirbúi viðbrögð sín ef svo færi að til hans yrði leitað með yfirlýsingar eða lausafjárfyrirgreiðslu.“ Gerð var tillaga um að þar tækju sæti með Tryggva þau Sigurður Sturla Pálsson, Tómas Örn Kristinsson og Sylvía K. Ólafsdóttir, en að auki myndu Sigríður Logadóttir og Perla Ö. Ásgeirsdóttir vinna með honum.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman til 4. fundar síns 15. nóvember 2007 og tók þá sæti í honum Jónína S. Lárusdóttir, sem var orðin ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu í stað Kristjáns Skarphéðinssonar. Samkvæmt fundargerð var undir dagskrárlið um stöðu og horfur á fjármálamörkuðum fjallað um svonefnt stöðumat, sem Tryggvi Pálsson hafi kynnt, en þar væri leitað svara við því hvort íslenska fjármálakerfinu væri búin meiri hætta en á árunum 2005 og 2006. Niðurstaða þessa mats hafi verið sú að „hætturnar eru meiri núna þar sem áhættur á eignahlið bankanna hafa aukist verulega og fjármögnunarvandinn er almennari og síst betri en var 2005/2006.“ Tryggvi hafi sýnt „endurgreiðsluferil þriggja stærstu viðskiptabankanna næstu tvö árin.“ Lausafjárstaða þeirra væri viðunandi og ekki uppi bráður vandi í fjármögnun þeirra, en skuldatryggingarálög hafi „snarhækkað á síðustu mánuðum“ og fjármagnskostnaður bankanna og viðskiptamanna þeirra þar með líka. Ingimundur Friðriksson hafi bætt því við að „lausafjárþrengingar gætu staðið mánuðum saman og hlutabréfaverð lækkað frekar en orðið er.“ Jónas Fr. Jónsson hafi nefnt að ef taka ætti mið af skuldatryggingarálagi sem „vísbendingu um líkur á fjármálaáfalli ... þá jafngildir 300p álag Kaupþings 55% líkum á áfalli hjá viðkomandi banka.“ Um þriðjungur hlutabréfa í kauphöll væri veðsettur, en „5-10% lækkun hlutabréfaverðs ætti ekki að skapa hættuástand.“ Hann hafi einnig bent á „að erlend innlán væru orðin meirihluti innlána íslensku bankanna og huga þarf að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta í því sambandi.“ Í fundargerðinni var þess getið undir dagskrárliðnum „Norræna viðlagaæfingin“ að Jónas hafi lagt fram „skjal sem hann hafði tekið saman með vangaveltum sínum í framhaldi æfingarinnar“ og væri þar að finna „sjö ábendingar um úrbætur sem lúta að auknum viðbúnaði fyrir fjármálaáfall.“ Í því skjali var meðal annars borin upp spurning um hvort setja þyrfti „fram tölu um hámark hugsanlegs eiginfjárframlags, lausafjáraðstoðar eða ábyrgðar á innistæðum“ og bent á að huga þyrfti að stærð og styrk Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, lagalegum heimildum „til inngrips“ og skipulagsmálum, þar með talda viðbragðsáætlun.

Seðlabanki Íslands sendi frá sér tilkynningu 20. nóvember 2007 um að matsfyrirtækið Standard & Poor’s Financial Services hafi breytt horfum um lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins í neikvæðar vegna „ójafnvægis í hagkerfinu“, en einkunnir þess væru þó óbreyttar. Þetta ójafnvægi væri að mati fyrirtækisins þrálátt og vaxandi, en að auki skorti aðhald í ríkisfjármálum. Þótt þau hafi batnað verulega í efnahagsuppsveiflu liðinna ára og skuldir ríkisins lækkað mjög sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafi „óbeinar ábyrgðir vegna fjármálageirans vaxið mikið vegna hraðrar útlánaaukningar innanlands.“ Neikvæðar horfur þættu „endurspegla vaxandi hættu á harðri lendingu íslenska hagkerfisins.“

Stuttu áður en framangreind tilkynning Seðlabanka Íslands var birt hafði hún verið send með tölvubréfi starfsmanns hans til ráðuneytisstjórans í forsætisráðuneytinu, en í tölvubréfinu sagði meðal annars að Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafi „rætt við forsætisráðherra og fjármálaráðherra.“ Ráðuneytisstjórinn framsendi þetta tölvubréf til ákærða. Nokkru síðar sama dag sendi ráðuneytisstjórinn annað tölvubréf til ákærða, þar sem sagði eftirfarandi: „Gengið tók strax upp undir 1% dýfu og hafði þá lækkað um tæplega 2,5% í dag en hefur nú rétt sig við um 0,8%. Hlutabréfavísitalan hefur hins vegar lækkað um 2,5% e.h. Eigum við ekki að bíða með að breyta ræðunni þar til í kvöld?“ Ekki liggur fyrir til hvaða ræðu var vísað, en með þessu tölvubréfi fylgdi minnisblað, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Hér er einungis verið að breyta svokölluðum horfum, ekki sjálfri einkunninni. Hún helst óbreytt. ... Forsendurnar fyrir þessari ákvörðun virðast að mörgu leyti úreltar og á skjön við ... flestar efnahagsspár sem hafa birst að undanförnu. Þær gera allar ráð fyrir því að viðskiptahallinn fari hratt minnkandi og verðbólgan sömuleiðis. Jafnframt eru horfur á að hagvöxtur verði minni en verið hefur og þannig dragi úr þenslunni. ... Loks er rétt að benda á að endurskoðaðar áætlanir sýna að staða ríkisfjármála bæði í ár og á næsta ári er sterkari en áður var talið og aðhaldsstig þeirra í hagstjórninni því meira en ella ... Það má minna á að S&P hafa áður verið neikvæðir í sinni umfjöllun um Ísland og sett fram hrakspár og fullyrðingar sem síðan hafa ekki staðist og þeir orðið að draga í land með.“

Samkvæmt minnisblaði, sem alþjóða- og markaðssvið Seðlabanka Íslands sendi til bankastjórnar 30. nóvember 2007, höfðu sérfræðingar frá matsfyrirtækinu Moody´s Investors Service verið staddir á landinu 27. og 28. sama mánaðar í tilefni af fyrrgreindri breytingu Standard & Poor’s Financial Services á horfum um lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins. Í minnisblaðinu sagði meðal annars að þessir sérfræðingar hafi ekki virst „hafa of miklar áhyggjur af harðri lendingu hagkerfisins“, sem hafi gengið gegnum ýmsar sveiflur og sýnt mikla aðlögunarhæfni. Sérfræðingarnir hafi á hinn bóginn haft „þó nokkrar áhyggjur af fjármálakerfinu og áhrifum frá lausafjárkreppunni ... á alþjóðlegum fjármálamörkuðum“ og mikinn áhuga á því hvernig stjórnvöld myndu bregðast við ef einn eða fleiri bankar þyrftu á aðstoð að halda og hvort þau hefðu „yfirhöfuð getu til íhlutunar.“ Matsfyrirtækið hafi um árabil „talið að stjórnvöld hefðu getu til þess að koma til aðstoðar en núna séu fulltrúar fyrirtækisins farnir að efast um það ekki síst í ljósi stærðar bankakerfisins og mikillar starfsemi erlendis.“ Þessi skoðun væri farin að hafa meira vægi innan fyrirtækisins „sérstaklega í ljósi þeirra mistaka sem áttu sér stað þegar bankasérfræðingar Moody´s hækkuðu lánshæfiseinkunn íslensku bankanna í Aaa og þurftu síðan að lækka hana fljótlega aftur.“ Þá sagði jafnframt að lausafjárstaða bankanna hafi verið ofarlega á baugi í viðræðum sérfræðinganna við starfsmenn Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf., en um stöðu þess fyrrnefnda var þess getið að komið hafi í ljós að fjárhagur hans og lausafjárstaða væri traust. Af dagskrá vegna heimsóknar þessara sérfræðinga, sem fylgdi minnisblaðinu, verður séð að þeir hafi meðal annars átt fund með ákærða og ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu.

Í framlagðri blaðagrein eftir ákærða, sem birt var í árslok 2007, sagði meðal annars að ekkert benti þá til sérstakra efnahagslegra áfalla, en ætíð væri hyggilegra að vera því viðbúinn að „jákvæð þróun geti snúist á verri veg.“ Sviptingar á mörkuðum gætu átt rætur að utan og yrðu „lánastofnanir og aðrir aðilar með mikil viðskipti í útlöndum stöðugt að hafa það í huga.“

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman til 5. fundar síns 10. janúar 2008 og tók þá sæti í honum Áslaug Árnadóttir, sem mun hafa verið settur ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu í fjarveru Jónínu S. Lárusdóttur. Í fundargerð kom meðal annars fram að Ingimundur Friðriksson hafi gert grein fyrir þróun á verði hlutabréfa í íslenskum og erlendum bönkum á árinu 2007, þróun skuldatryggingarálaga og væntanlegum endurgreiðslum lána helstu viðskiptabankanna. Í umræðum hafi komið fram „að áhyggjuefnið væri ekki síst veik staða stórra hluthafa í bönkunum“, en hún skapi neikvæða umræðu, sem gæti síðar haft áhrif á lánstraust og erlend innlán bankanna. Jónas Fr. Jónsson hafi gert grein fyrir „veðköllum og tryggingarþekju í bankakerfinu“, en hún væri að meðaltali um 147% þrátt fyrir lækkandi verð hlutabréfa og væri því borð fyrir báru. Fjármálaeftirlitið hafi kallað eftir upplýsingum frá bönkunum um „vanskil stærstu aðila, markaðsáhættu og bundin og óbundin innlán.“ Þá hafi verið rætt um þörf á „að róa markaðinn og undirbúa viðbrögð við neikvæðum uppgjörum fyrir árið 2007.“

Í málinu liggja fyrir „fundarpunktar“ frá fundi, sem bankastjórn Seðlabanka Íslands hélt ásamt Tryggva Pálssyni 12. janúar 2008 með bankastjórum Landsbanka Íslands hf., Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni. Af þessum fundarpunktum verður ráðið að þar hafi meðal annars verið rætt um nýlega árangurslausa tilraun Glitnis banka hf. til að afla lánsfjár í Bandaríkjunum, en í tengslum við hana var eftirfarandi haft eftir Davíð Oddssyni seðlabankastjóra: „Dagarnir líða og við höfum vaxandi áhyggjur. Aðrar aðstæður 2006. Nú er markaðurinn lokaður í heild nema á sjúklegu verði sem gæti dæmt bankana úr leik.“ Einnig virðist hafa verið rætt um hvort seðlabankinn gæti bætt stöðu bankanna með því að lækka stýrivexti og efla gjaldeyrisvarasjóð. Þar var jafnframt haft eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni: „Þurfum að búa okkur undir „run“ á m € 4 ma. Icesave er að bindast hratt. Okkar feill að bíða of lengi með útboð í fyrra. Ef myndast fullkomin vantrú þá dugar ekki € 5-6 ma. gjaldeyrisforði SÍ.“ Við þetta bætti svo Halldór J. Kristjánsson orðunum „þolum ekki „run“ á Icesave“ og síðan Davíð Oddsson „minni tryggð en innlend innlán.“ Þá var þess einnig getið að starfsmaður Landsbanka Íslands hf. hafi átt fund með starfsmönnum Moody´s Inverstors Service daginn áður og sagt að þar hafi verið „ótrúlega mikil tortryggni gagnvart Íslandi og íslenskum bönkum“, en hann hafi fengið á tilfinningu að lánshæfiseinkunnir kynnu að verða færðar niður innan skamms.

Viðskiptaráðherra hélt ásamt aðstoðarmanni sínum og utanríkisráðherra fund 15. janúar 2008 með Jóni Sigurðssyni formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Í minnisblaði um fundinn sagði meðal annars eftirfarandi: „Talað um að menn séu alltaf að lána sjálfum sér – of mikil vensl á lánamarkaði og það þyrfti að skerpa regluverkið þannig að fyrir lægi hverjir eru raunverulegir eigendur hlutafjár. Fram kom að bankarnir væru sterkir fyrir og verði með skikkanlega ávöxtum eigin fjár ... Gætu komið upp vandamál hjá sparisjóðunum. Með eignir á of fáum stöðum. Of mikil áhætta. Bankarnir eiga að geta staðið af sér óveður. Eigin eign bankanna í hlutabréfum á ísl. markaðnum minni en ætla mætti og þ.a.l. áhrif verðfalls minni.“

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman til 6. fundar síns 15. janúar 2008. Í fundargerð var þess getið að Bolli Þ. Bollason hafi greint frá fundi ákærða með „forstjórum bankanna“, þar sem meðal annars hafi komið fram að uppi „væri vandi í fjármögnun Glitnis“. Forstjórarnir hafi verið spurðir um „hvað gæti snúið við neikvæðri umræðu“ og þeir þá nefnt „víkkun SÍ á veðhæfni og merki um að bankinn hygðist fyrr hefja vaxtalækkunarferli.“ Þar hafi einnig verið rætt um „áhyggjur vegna matsfyrirtækja, sérstaklega Moody´s.“ Þá kom fram í fundargerðinni að Áslaug Árnadóttir hafi greint frá vinnu innan viðskiptaráðuneytisins við endurskoðun á lögum um starfsemi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Loks var þess getið að Ingimundur Friðriksson hafi varpað „fram þeirri spurningu hvernig stjórnvöld myndu bregðast við fjármálaáfalli. Hann taldi það ekki lengur fjarstæðukenndan möguleika.“

Á bréfsefni Seðlabanka Íslands var 17. janúar 2008 gert skjal með fyrirsöginni „ljóti listinn“, sem sagt var að geymdi „samantekt þeirra aðfinnsla og neikvæðrar umfjöllunar um íslenskt fjármálakerfi sem birst hafa í erlendri umfjöllun á síðustu vikum“. Þar var þess getið að fjallað hafi verið um að skuldatryggingarálag bankanna hafi „stóraukist“ og teldi fyrirtækið Morgan Stanley að það væri „tvísýnt ... hvort að bankarnir geti fjármagnað sig á þessum kjörum – hversu lengi halda þeir út?“ Einnig væri bent á samsetningu skulda bankanna, sem reiddu sig mjög mikið á „markaðsfjármögnun en ekki nægileg innlánaöflun og annars konar stöðug fjármögnun“, svo og að skuldsetning þeirra væri helsta ástæðan að baki háu skuldatryggingarálagi. Það álag íslenska ríkisins hafi líka hækkað „gríðarlega vegna stöðu bankanna“ og hættu á að reynt gæti „á hlutverk þess sem lánveitandi til þrautavara“. Spurt væri hvort bankarnir væru orðnir of stórir til þess að koma mætti þeim til bjargar.

Í umræðum, sem fóru fram 17. janúar 2008 á Alþingi um stöðu og horfur í efnahagsmálum, vísaði ákærði til þess að fyrr í sömu viku hafi verið gefin út ný þjóðhagsspá, sem undirstrikaði styrk og sveigjanleika íslenska hagkerfisins en vekti einnig athygli á óvissu, sem uppi væri og hafi mest skapast af hræringum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Við það umrót, sem hafi verið á þeim, væri „mikilvægt að allir haldi ró sinni ... sérstaklega í bankaheiminum.“ Þar væru komnar upp nýjar aðstæður, því öflun lánsfjár væri erfið. Nýleg ákvörðun Seðlabanka Íslands um að breyta reglum um endurhverf viðskipti og veðhæfi skuldabréfa skipti þar miklu og væri hún „áreiðanlega ein af ástæðum þess að einn af stóru bönkunum okkar samkvæmt fréttum í morgun hætti við að útvega sér stórt lán á alþjóðlegum mörkuðum, a.m.k. í bili.“ Síðar í umræðunum sagði ákærði að rétt væri að aðstæður hafi „breyst nokkuð á undanförnum vikum“ og væri þá mikilvægt að greina vandann, ástæður hans og hvernig bregðast mætti við honum. Við þær aðstæður skipti „miklu máli að staða ríkissjóðs er sterk, að staða fjármálastofnananna á Íslandi er gríðarlega sterk og að sveigjanleiki hagkerfisins er mikill“.

Starfshópur um lausafjárvanda á vegum Seðlabanka Íslands, sem lagt var til að setja á fót í fyrrnefndu minnisblaði 9. nóvember 2007, kom saman til fundar 23. janúar 2008. Samkvæmt fundargerð greindi Tryggvi Pálsson þar meðal annars frá því að „lánasérfræðingar innan Landsbankans væru í vandræðum og hefðu aldrei verið jafn skelkaðir fyrr en á mánudaginn (21. janúar). Búið er að skera á lánalínur bankans. Fyrirhugað útboð Glitnis gekk ekki eftir.“ Sigurður Sturla Pálsson hafi sagt að fólk væri að verða „áhættufælnara og farið að setja sparifé sitt úr peningamarkaðssjóðum í innlán.“ Tryggvi hafi greint frá því að hafin væri vinna við tillögur að lagabreytingum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, en hann væri „mjög veikur og ekki væri gott að vekja athygli á því að svo stöddu.“ Farið hafi verið yfir áðurnefndan ljóta lista og Tryggvi lagt „áherslu á að farið yrði í þá vinnu að gera Seðlabankann „sjókláran“ ef allt færi á versta veg.“

Samtök fjármálafyrirtækja rituðu bréf til ákærða 25. janúar 2008, sem hafði að geyma „áskorun frá stjórn SFF“ til forsætisráðherra. Þar kom fram að stjórnin hafi þann dag fundað um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi, meðal annars um þrönga lausafjárstöðu á alþjóðamörkuðum, sem ljóst væri að hefði veruleg áhrif á nýjar lánveitingar fjármálafyrirtækja, en þau hafi þegar dregið verulega úr þeim. Vegna mikillar lækkunar á markaðsverði hlutabréfa hér á landi hafi á nokkrum mánuðum „heil landsframleiðsla glatast“. Mikilvægt væri að peningamálastefna tæki mið af þessu, en á undanförnum vikum hafi seðlabankar víða um lönd „gripið til snarpra aðgerða til að sporna við yfirvofandi samdrætti.“ Væri erfitt að sjá að Ísland gæti staðið þetta af sér „með 8-10% raunvaxtastigi, án þess að til harkalegrar lendingar komi fyrir hagkerfið.“ Að mati samtakanna væri brýnt að „vaxtalækkunarferill“ yrði settur af stað og stjórnvöld leituðu leiða til að sporna við samdrætti, meðal annars með aðgerðum til að auka útflutningstekjur.

Í minnisblaði, sem Tryggvi Pálsson sendi bankastjórn Seðlabanka Íslands 28. janúar 2008 með yfirskriftinni „hryllingsmynd“, sagði meðal annars eftirfarandi: „Stóru íslensku viðskiptabankarnir eru með eiginfjárstöðu sem veitir viðnámsþrótt og við eðlileg skilyrði teldist hún góð. Bankarnir höfðu góða lausafjárstöðu á liðnu hausti. ... Síðan þá hefur þeim aðeins tekist að afla sér nýs lánsfjár erlendis í afar takmörkuðum mæli og á mun lakari kjörum en áður var. ... Aðstæður á erlendum lánsfjármörkuðum og markaði fyrir skuldatryggingar eru einstaklega erfiðar og bera keim af markaðsbresti. Skuldatryggingarálag Kaupþings er skv. síðustu viðskiptum 595 punktar, Glitnis 440 punktar og Landsbankans 310 punktar. Ef ný lántaka fæst má hafa sem viðmið að kjörin yrðu um 50-70 punktum yfir skuldatryggingarálaginu. Þar sem álögin eru orðin þetta há má efast um að fjárfestar vilji taka þátt í útboðum þar sem áhættan er metin þetta mikil. Ef fjármagn fæst engu að síður á kjörum sem þessum verður bankinn að taka mið af hærri lántökukostnaði í innri verðlagningu sinni. Í því felst að reynt er að hækka vaxtaálag í lánveitingum bankanna og öðrum viðskiptum sem byggja á lántökukostnaði bankans. ... Vandinn núna er sá að hækkun vænts lántökukostnaðar er langt umfram það sem hægt er að mæta með tímabundinni lækkun á vaxtamun og aðhaldi í rekstrarkostnaði. Ef bankarnir næðu að fjármagna sig við núverandi aðstæður er ljóst að vaxtamunur þeirra af erlendum lánum yrði neikvæður. ... Eftir því sem lengri tími líður án þess að skuldatryggingarálag íslensku bankanna lækkar verður erfiðara að sannfæra fjárfesta um að bankarnir geti starfað áfram og greitt af lánum sínum. ... Að loknum rekstraruppgjörum bankanna í þessari viku hlýtur athyglin að beinast að horfum í rekstri þeirra á þessu ári. Sú mynd verður ekki glæsileg og ef fjármögnunarvandinn leysist ekki á næstu mánuðum blasir við hryllingsmynd.“

Seðlabanki Íslands sendi frá sér tilkynningu 28. janúar 2008 um að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hafi lýst yfir að lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins væru á krossgötum. Að mati fyrirtækisins kæmi Ísland vel út í samanburði við mörg önnur þróuð iðnríki með sömu lánshæfiseinkunn, en á móti kæmi að íslenska ríkið kynni að vera berskjaldað gagnvart bresti á trúverðugleika „vegna mikilla alþjóðlegra umsvifa stórra íslenskra viðskiptabanka.“ Mjög skuldsett hagkerfi hér á landi hafi ekki farið varhluta af aðstæðum á fjármálamörkuðum og hafi áframhaldandi alþjóðlegur vöxtur bankakerfisins leitt til þess að „ófyrirséðar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins hafa vaxið upp fyrir það sem æskilegt ... getur talist.“ Líklegt væri að íslensk stjórnvöld gætu mætt lausafjárskorti, varið innstæðueigendur og forðast greiðsluþrengingar, jafnvel við sérstaklega erfið skilyrði, en vöxtur erlendra skuldbindinga bankakerfisins gæti reynt á getu stjórnvalda til að gera þetta á þann hátt, sem samrýmst gæti lánshæfiseinkunn ríkisins.

Í tilefni af framangreindu mati Moody´s Investors Service gerði Ingimundur Friðriksson samdægurs minnisblað, sem sent var meðal annars til ráðuneytisstjóranna í forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Í því sagði að álit fyrirtækisins væri ágætt og á vissan hátt jákvætt, en þar væru skýrðar helstu forsendur þess að íslenska ríkið hefði enn hæstu lánshæfiseinkunn. Í álitinu kæmi fram að „fjárhagsgrunnur bankanna sé heilbrigður, þeir hafi nægt lausafé og betri samsetningu lánsfjármögnunar en áður.“ Fyrirtækið vekti athygli á hve næmt Ísland væri fyrir breytingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en landið hefði góða burði til að takast á við slíkt, auk þess sem ríkið gæti mætt hugsanlegum áföllum í fjármálakerfinu án þess að lánshæfismat þess myndi skerðast. Fyrirtækið hefði á hinn bóginn áhyggjur af miklum erlendum skuldum, sem tengdust útrás bankanna, og teldi að frekari skuldsetningu þeirra yrðu að fylgja aðgerðir ríkisins til að koma í veg fyrir að lánshæfiseinkunnir þess lækki. Fyrirtækið hafi gert „tvö sérstök próf eða greiningar, annars vegar um laust fé og hins vegar skuldir. Í báðum tilfellum stenst Ísland prófið sem ríki með hæstu mögulega lánshæfiseinkunn.“ Ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu framsendi þetta minnisblað með tölvubréfi til ákærða, sem svaraði um hæl með orðunum: „OK, þetta er ágætt svo langt sem það nær.“

Umræður urðu á Alþingi 29. janúar 2008 í tilefni af mati Moody´s Investors Service. Þar kvað ákærði matið „mjög jákvætt hvað varðar efnahagsstöðuna á Íslandi“ og leiddi getum að því að það hafi verið birt vegna þess að „þeir telja að þeir þurfi sérstaklega að rökstyðja að þeir hafi gefið ríkissjóði Íslands hæstu lánshæfiseinkunn“. Yrði að leiðrétta það, sem komið hafi fram í fréttum, að fyrirtækið teldi best að bankarnir flyttu úr landi, en á hinn bóginn væri vissulega rétt að „sú óbeina ábyrgð sem talin er hvíla á ríkissjóði vegna starfsemi þeirra“ myndi þá minnka, á sama hátt og ef þeir hættu starfsemi. Loks sagði ákærði eftirfarandi: „Efnahagsaðstæður eru þannig, og er það dregið mjög skýrt fram, að ekki er nein sérstök hætta á ferðum hérlendis jafnvel þótt kæmi til alvarlegrar fjármálakreppu sem þó er talið ólíklegt. Einnig er bent á að fjárhagsstaða bankanna sé traust þrátt fyrir þá erfiðleika sem nú eru á fjármagnsmörkuðunum og það sjáum við líka í þeim uppgjörum sem birt hafa verið á síðasta sólarhring. Ég tel mjög mikilvægt að þetta komi fram“.

Á fundi starfshóps Seðlabanka Íslands um lausafjárvanda 29. janúar 2008 var samkvæmt fundargerð rætt um að Moody´s Investors Service hefði lánshæfiseinkunnir íslensku bankanna til endurskoðunar, einkum vegna lélegrar arðsemi, viðskiptalíkana þeirra og þess hversu háðir þeir væru „fjárfestingarbankastarfsemi á áhættusömum markaði“, en niðurstöður um þetta yrðu birtar innan mánaðar. Þá var dreift á fundinum skýrslu með heitinu: „Ef allt fer á versta veg í lausafjárstöðu bankanna“, sem var gerð í fjármálasviði seðlabankans, en samkvæmt fundargerð starfshópsins hafði hún þegar verið afhent Fjármálaeftirlitinu. Í upphafi skýrslunnar sagði að tekin hafi verið saman stutt greining á stöðu stærstu viðskiptabankanna þriggja „miðað við væntanlegar endurgreiðslur og lausafjárstöðu þeirra“, en hún væri reiknuð „miðað við svartsýnustu forsendur.“ Bankarnir þrír teldust allir „kerfislega mikilvægir“, en vegna skilyrða á mörkuðum væri þeim „orðið mjög dýrt eða jafnvel ómögulegt“ að afla lánsfjár erlendis og hafi þetta valdið áhyggjum um stöðu þeirra ef svo yrði í langan tíma. Að gefnum svartsýnustu forsendum, sem nánar var lýst í skýrslunni, var komist að þeirri niðurstöðu að laust fé Glitnis banka hf. myndi aðeins nægja til loka janúar 2008, Kaupþings banka hf. til loka febrúar, en Landsbanka Íslands hf. út árið 2008. Til lengri tíma litið benti skuldatryggingarálag vegna bankanna þriggja, sem hafi „hækkað geysilega“ frá hausti 2007, til þess að lánshæfiseinkunnir þeirra hlytu að lækka, auk þess sem „næsta víst“ væri að álagið í óbreyttu horfi stæði í vegi fyrir að þeir byðu út skuldabréf á alþjóðamarkaði. Í skýrslunni var einnig fjallað um hugsanlegar aðgerðir „vegna mikils vanda í fjármálakerfinu“, en kæmi slíkur vandi upp gæti seðlabankinn veitt lánastofnun í lausafjárvanda lán á sérstökum kjörum og gegn öðrum tryggingum en almennt yrði gert, ríkið gæti með hugsanlegri aðstoð seðlabankans lagt viðskiptabanka til eigið fé til að bjarga honum „frá þroti“ og einnig gæti seðlabankinn gefið út yfirlýsingu um ábyrgð á skuldbindingum einstakra banka, fjármálakerfisins í heild eða Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Ef viðskiptabanki rataði í vandræði væri það stjórnenda hans og eigenda að leysa þau, en „opinberir aðilar“, þar á meðal seðlabankinn, kynnu að þurfa að hlutast til um að svo yrði gert. Gagnstætt þessu gæti þjóðnýting einnig komið til álita, en hún „væri neyðarúrræði því þá skapast sú hætta að ef fjármögnun tekst ekki þá væri lánstraust þjóðarinnar í húfi.“ Í niðurlagi skýrslunnar var síðan ítrekað að það væri hlutverk stjórnenda og eigenda viðskiptabanka að leysa úr vanda hans og yrði ábyrgðarlaust „að gera út á mögulega aðstoð hins opinbera við banka.“ Reynslan af fjármálaáföllum í öðrum löndum sýndi samt að stjórnvöld yrðu að huga að viðbúnaði, því ef „til kastanna kemur getur lítill tími verið til að ígrunda skynsamlegustu viðbrögð við óvæntum aðstæðum og þá getur vandaður undirbúningur skipt sköpum.“

3[breyta]

Framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja sendi tölvubréf til ákærða 4. febrúar 2008, þar sem sagði eftirfarandi: „Í viðhengi eru drög að minnisblaði á grunni þess sem við ræddum í síðustu viku. Þar sem umræða um stöðuna getur verið viðkvæm, viljum við kalla þetta drög. SFF eru reiðubúin að hitta þig og/eða aðra sem þú metur þörf á að ræða þetta mál við hvenær sem er á næstu dögum. Þá geri ég ráð fyrir að formaður SFF, Lárus, hringi í þig seinni partinn í dag.“ Drögin, sem fylgdu tölvubréfinu, virðast einnig hafa verið send í bréfi til ákærða sem „drög að minnisblaði til forsætisráðherra“, dagsett sama dag og merkt sem trúnaðarmál, en þau voru undirrituð af Lárusi Welding forstjóra Glitnis banka hf. Í upphafi minnisblaðsins sagði að tilefni þess væri áhyggjur „forystumanna í íslenskum fjármálageira af þeirri þröngu stöðu sem nú er að skapast í efnahagsmálum þjóðarinnar og þeim víðtæku áhrifum sem of hraður samdráttur gæti haft“. Aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefðu versnað á undanförnum mánuðum og gjörbreytt rekstrarforsendum íslenskra fyrirtækja, sem störfuðu á alþjóðamörkuðum. Þetta væri farið að setja mark sitt á starfsemi þeirra, meðal annars með því að kjör íslenskra banka hafi versnað og þeir brugðist við með því að draga úr útlánum. Þótt ástandið yrði væntanlega á ný orðið eðlilegt innan skamms væri „engu að síður nauðsynlegt að okkar mati að staldra við og styrkja innviðina til að lágmarka líkurnar á því að illa fari.“ Vísað var til þess að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hafi ákveðið að breyta horfum um lánshæfiseinkunnir tveggja íslenskra banka úr stöðugum í neikvæðar. Að auki hafi ríkið búið til óvenjulegar aðstæður með því að halda annars vegar úti banka, sem veiti fjármálafyrirtækjum landsins lán með 14% vöxtum, og hins vegar sjóði, sem veiti lán gegn „ríkisstyrktum 4,5% verðtryggðum vöxtum“ í samkeppni við fjármálafyrirtækin. Við þessar aðstæður væri óhjákvæmilegt að ítreka að þörf væri á að slaka „á aðhaldi í peningamálum hér innanlands til þess að búa í haginn fyrir þá óhjákvæmilegu aðlögun sem þegar er hafin“. Bent var á að afnám bindiskyldu væri tvímælalaust „aðgerð sem eðlilegt er að grípa til við núverandi aðstæður“ og yrði jafnframt að lækka vexti seðlabankans. Einnig mætti huga að því að taka upp reglur um takmarkaða skattskyldu erlendra aðila og skattafslátt vegna kaupa á hlutabréfum. Rétt væri að athuga hvort viðskiptaráðherra ætti að beita sér fyrir „endurskoðun á gagnsæisstefnu FME þar sem enginn vafi leikur á því að opinberar birtingar á úttektum FME á einstökum fjármálafyrirtækjum draga úr trúverðugleika á fjármálakerfið í heild“, auk þess sem mikilvægt væri að auka „heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í innlendum félögum“.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 7. fund sinn 5. febrúar 2008. Í stuttri fundargerð var því lýst að greint hafi verið frá niðurstöðu álagsprófs Fjármálaeftirlitsins fyrir bankana, sem birt yrði næsta dag, tilteknum gögnum hafi verið dreift um þá og getið hafi verið um skuldatryggingarálag þeirra, þar á meðal að „kjör Glitnis eru að nálgast kjör Kaupþings sem eru hæst.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til funda 1. og 5. febrúar 2008. Samkvæmt fundargerðum var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

4[breyta]

Ákærði sendi 7. febrúar 2008 svohljóðandi tölvubréf til utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur: „Ég tel nauðsynlegt að við tvö ásamt fjármálaráðherra fundum með bankastjórn SÍ í dag í kjölfarið á ferð formanns bankastjórnar til London þar sem hann ræddi við matsfyrirtæki og helstu fjármálastofnanir. Legg til að við hittumst kl. 16.30 í dag hjá mér.“ Í málinu liggur fyrir ódagsett orðsending Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til rannsóknarnefndar Alþingis um „minnisatriði af fundum með bankastjórn Seðlabankans á árinu 2008“, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Sýnist sem ég hafi setið alls 6 fundi með fulltrúum Seðlabanka Íslands á því tímabili sem tilgreint er í erindi Rannsóknarnefndar Alþingis. Þann fyrsta 6. febrúar 2008 og þann síðasta 8. júlí 2008. Fundirnir voru haldnir í forsætisráðuneytinu og forsætisráðherra boðaði alltaf til þeirra án þess að tiltekið væri sérstaklega hvað ætti að ræða. Voru fundirnir upplýsingafundir sem fjölluðu fyrst og fremst um framvinduna í vinnu Seðlabankans að því að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Fundirnir ... voru boðaðir tilviljanakennt og með skömmum fyrirvara, misjafnt var hverjir sátu þessa fundi, engin dagskrá lá fyrir á fundunum, engar fundargerðir voru ritaðar, engin gögn voru lögð fram og engar tillögur, hvorki af hálfu forsætisráðherra né Seðlabankans. Davíð Oddsson sat alla fundina og stundum voru hinir bankastjórarnir með honum og í einhverju tilviki minnir mig að Tryggvi Pálsson hafi verið með. Hafði Davíð Oddsson alltaf orð fyrir Seðlabankamönnum. Auk forsætisráðherra og mín sat fjármálaráðherra einhverja fundi þar sem fjallað var um lántökur til að stækka gjaldeyrisvaraforðann og í mörgum tilvikum sat Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu fundina og einhverja fundi sat aðstoðarkona forsætisráðherra. Þá minnir mig að Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu hafi setið einhverja fundi. Ég skráði hjá mér minnispunkta á þessum fundum og úr þeim vann ég þessi minnisatriði og hugleiðingar fyrir sjálfa mig ... Þar sem þetta voru upplýsingafundir lagði ég áherslu á að skrifa niður það sem kom frá Seðlabankanum en ekki það sem aðrir sögðu. Í nokkrum tilvikum fór ég yfir efni þessara funda á þingflokksfundum Samfylkingarinnar m.a. á þingflokksfundum 11. og 18. febrúar 2008. Í kjölfar fundarins í febrúar 2008 var haldinn fundur með fulltrúum fjármálastofnana í Ráðherrabústaðnum þar sem farið var yfir stöðu þessara stofnana.“

Í skriflegri samantekt Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um fund sinn og ákærða með fulltrúum Seðlabanka Íslands, sem hún dagsetti 6. febrúar 2008 en virðist samkvæmt áðurgreindu hafa verið haldinn 7. sama mánaðar, sagði meðal annars: „Davíð Oddsson innleiddi fundinn og sagði frá því að í febrúar 2006 hafi Seðlabankamenn farið til London og fengið miklar áhyggjur af stöðu mála enda hafi skapast mikil vandræði í framhaldinu. ... Fóru aftur núna í febrúar og heimsóttu matsfyrirtækin í London. Sagði að Fitch menn hafi spurt hvað myndi gerast ef íslenskir bankar fengju ekki lánsfé eftir 12 mánuði. Ljóst að af því hlytust veruleg vandræði. Sagði að Moodys hefði líka áhyggjur af Landsbankanum vegna þess að Icesave-reikningarnir geti verið mjög kvikir reikningar. Ef óþægilegar fréttir berist af Íslandi geti það haft verulega skaðleg áhrif á reikningana þ.e. fólk geti rokið til og tekið út af þessum reikningum sem myndi skapa vandræði fyrir Landsbankann. ... Í ferðinni til London sagði hann að rætt hafi verið við nokkra banka, þar af tvo stóra ... um tvennt. Annars vegar víxlaprógramm sem hafi verið tekið vel í og hins vegar um að stækka gjaldeyrisforða Seðlabankans. Stærsti bankinn taldi að kjör Íslands væru ekki mjög góð núna og töldu að það ætti að bíða. Annar banki taldi að það ætti að taka lán því það sýndi vilja til að berjast. Þá kom fram að hjá þriðja bankanum sé staða Íslands talin erfið og fram hafi komið hjá honum að talsmönnum Kaupþings væri ekki treyst og talsmenn Glitnis virkuðu örvæntingarfullir. Sá fjórði sagði að staða Íslands væri grafalvarleg. Lánsfjármarkaðir væru lokaðir fyrir íslenskum bönkum næstu 12 mán. Litið yrði á lántöku íslenska ríkisins sem desperation. ... Fram hafi komið hjá breskum bankamönnum að íslenska bankakerfið væri í verulegri hættu. Bankakerfið hafi þanist út með tilviljanakenndum og óskipulögðum hætti. ... Um miðbik fundarins rauk Davíð Oddsson skyndilega upp og lét gamminn geysa. Má segja að alla aðra hafi við það sett hljóða. Sagði hann að útrásin væri bull, della og þvæla. Bankarnir hafi farið fram með glæpsamlegum hætti og ekki væri hægt að þola það. Hann nefndi engin konkret dæmi um slíkt né heldur hvort bankinn eða aðrir hafi gert eitthvað til að stöðva eða koma upp um slíkt atferli. Þrátt fyrir þetta taldi seðlabankastjóri mikilvægt að ríkið tæki 1-1.5 milljarð evra að láni til 5 ára til að verja bankana. Byggja þannig upp gjaldeyrisforðann. Í framhaldinu minntist Davíð, með sama slætti, á meinta hótun KB-banka um að fara úr landi ef ekki fengist evruskráning. Sagði hann það innantóma hótun því færa mætti rök fyrir því að það væri til bóta fyrir íslenskt fjármála- og efnahagskerfi. Þá gæti ríkið og Seðlabankinn hugsanlega varið Landsbankann og Glitni áhlaupi og þyrftu ekki að hafa áhyggjur af Kaupþingi. Að lokum fjallaði hann um stöðu ísl. bankanna í fjármálakerfi heimsins. Taldi að þegar og ef til aðgerða kæmi og lánamarkaðir opnist aftur erlendis eftir 12 mán. eða síðar þá opnist þeir síðast gagnvart ísl. bönkunum þar sem mikilvægi þeirra er svo lítið. Sagði að aldrei væri hægt að verja alla bankana þrjá en hugsanlega tvo. Nefndi í því sambandi að hugsanlega gætu bankarnir selt einhverjar eigur og Landsbankinn og Glitnir sameinast.“

Í málinu liggja einnig fyrir minnispunktar, sem Tryggvi Pálsson tók saman um þennan fund, en samkvæmt þeim var hann þar staddur ásamt þremur bankastjórum Seðlabanka Íslands, ákærða, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu. Þessir minnispunktar bæta litlu við þá lýsingu, sem að framan greinir, en í þeim var þó haft eftir Davíð Oddssyni að niðurstaðan af fundum hans með bankamönnum í London hafi verið sem hér segir: „Íslensku bankarnir í mikilli hættu og íslenskt efnahagslíf í hættu. Markaðir lokaðir (í lengri tíma en áður haldið). CDS álög afar há og sýna að bankarnir geta ekki tekið lán og lánað þau út. Telja að íslenska ríkið hafi ekki bolmagn til að bjarga og skortselja þess vegna.“ Til bóta yrði að Kaupþing banki hf. flytti úr landi, en bankarnir hafi stefnt Íslandi „í þessa hættu“ og ætli bankastjórn seðlabankans að kalla forstjóra bankanna til sín. Í minnispunktunum var þess einnig getið að ákærði hafi sagt þetta vera „grafalvarlegt mál“, hann hafi rætt við bankastjóra og væri örvænting hjá ungum stjórnanda Glitnis banka hf., en „mesta öryggið í Landsbankanum.“ Hann hafi og spurt: „Getum við hér gert eitthvað?“

Bankastjórar Seðlabanka Íslands héldu ásamt Tryggva Pálssyni fund 8. febrúar 2008 með bankastjórum Landsbanka Íslands hf., Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni. Samkvæmt minnispunktum frá þeim fundi, sem ritaðir voru á bréfsefni Seðlabanka Íslands, greindi Davíð Oddsson þar í byrjun frá fyrrnefndum fundi með ráðherrum 7. sama mánaðar og að þar hafi verið rætt um hugsanlega erlenda lántöku íslenska ríkisins, sem Sigurjón Þ. Árnason hafi mælt á móti. Hann hafi talið að það yrði „sterkara að nota ríkisábyrgð“, en í undirbúningi væru tillögur Landsbanka Íslands hf. um að hann tæki „yfir annan hinn bankann“, helst Glitni banka hf. vegna stærðar hans. Þetta væri þó ekki þorandi „án stuðnings“, sem yrði „ríkisábyrgð gegn gjaldi í áföngum.“ Þetta yrði betri kostur en að ríkið fengi „Glitnir í fangið“ og myndi erlend lántaka þess ekki leysa neitt, en þetta yrði að „skoða næstu 1½-2 mánuði.“ Þá hafi komið þar fram hjá bankastjórum Landsbanka Íslands hf. að til skoðunar væri að færa Icesave reikninga „yfir í breskt félag“, en við það myndi hann missa „færanleika (upstream). Hinir bankarnir eiga erfitt með að ná fénu.“ Í málinu liggur fyrir ódagsett minnisblað frá Landsbanka Íslands hf. til ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands um „aðgerðir til að treysta undirstöður bankakerfisins“, sem handritað hefur verið á „8-10. febrúar ´08“. Þar var meðal annars vísað til þess að kjör íslensku bankanna á erlendum mörkuðum væru slík „að þeim er í raun ógerlegt að afla sér lánsfjár með eðlilegum hætti“. Til að bregðast við því voru settar fram tillögur um sameiningu Landsbanka Íslands hf. og Glitnis banka hf., svo og að íslenska ríkið veitti fyrrnefnda bankanum ábyrgð í þessu skyni til fimm ára fyrir allt að fimm til sjö milljarð evrur.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 8. febrúar 2008. Samkvæmt fundargerð bar iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, upp fyrirspurn um „þróun efnahagsmála“ og var þetta „rætt ítarlega“. Í fundargerðinni var að öðru leyti ekki getið um atriði, sem varðað gætu málefni fjármálafyrirtækja.

5[breyta]

Ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu sendi 10. febrúar 2008 tölvubréf til ákærða ásamt drögum að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar „um aðgerðir til að styrkja stöðu atvinnulífsins í kjölfar versnandi efnahagshorfa á alþjóðamörkuðum“. Í þeim drögum var vísað til þess að skömmu eftir mitt árið 2007 hafi horfur á alþjóðamörkuðum versnað, aðgangur að fé hafi þrengst verulega og hlutbréf farið að lækka í verði. Hafi íslenskar fjármálastofnanir ekki farið varhluta af því. Í kjölfarið hafi „þrengt að lánsfjármögnun íslenskra fyrirtækja jafnt þeirra sem starfa á innlendum markaði sem erlendis.“ Til að bregðast við þessu hafi ríkisstjórnin ákveðið að auka gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands með því að taka erlent lán að minnsta kosti að fjárhæð 1.500.000.000 evrur „jafnskjótt og ásættanleg lánskjör bjóðast á markaði“, en með því myndi gjaldeyrisforðinn aukast úr 175.000.000.000 krónum í 310.000.000.000 krónur. Teldi ríkisstjórnin „mikilvægt að íslensk fyrirtæki hafi sínar höfuðstöðvar hér á landi jafnvel þótt þau starfi einnig á alþjóðamarkaði“ og væri það því stefna hennar að skapa fyrirtækjum „samkeppnishæft rekstrarumhverfi á Íslandi“, meðal annars með því að fyrirtæki, sem þess myndu óska, fengju að færa bókhald sitt og ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Ríkisstjórnin væri reiðubúin til að „koma að öflugu kynningarátaki í samstarfi við samtök atvinnulífsins og Seðlabankann“ til að miðla upplýsingum til „erlendra greiningaraðila, fjárfesta og fjölmiðla.“ Þá hygðist ríkisstjórnin taka til endurskoðunar lagaákvæði um heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í innlendum hlutafélögum til að efla hlutabréfamarkað hér á landi.

Sami ráðuneytisstjóri sendi annað tölvubréf til ákærða 11. febrúar 2008, sem fylgdu ný drög að yfirlýsingu um sama efni og að framan greinir. Í nýju drögunum höfðu verið felld brott ummæli um mikilvægi þess að íslensk fyrirtæki hefðu höfuðstöðvar sínar hér á landi, að heimila ætti þeim að færa bókhald í erlendum gjaldmiðlum og að endurskoða ætti heimildir lífeyrissjóða til kaupa á innlendum hlutabréfum. Einnig hafði verið felld niður umfjöllun um fyrirhugaða erlenda lántöku ríkisins, en í staðinn var vísað til þess að á árinu 2006 hafi ríkið tekið erlent lán til að auka gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og yrði fylgst grannt með framvindu mála á alþjóða fjármálamarkaði „með það fyrir augum að grípa til sambærilegra ráðstafana ef ástæða þykir til og aðstæður á markaði teljast heppilegar.“ Þá hafði verið bætt við orðum um að nýlegt áhættumat Fjármálaeftirlitsins hafi sýnt glöggt að allir bankarnir stæðu traustum fótum og ættu „að standast verulega versnandi ytri aðstæður án þess að eigið fé þeirra fari niður fyrir eðlilegt öryggismörk.“ Einnig hafði verið bætt við nýjum lið í yfirlýsingunni, sem var þriðji liður hennar og svohljóðandi: „Íslensku bankarnir fjármagna starfsemi sína í auknum mæli með innlánum. Sú þróun dregur úr neikvæðum áhrifum lausafjárskorts. Stóraukin innlán kalla á hinn bóginn á eflingu Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og fjárfesta. Að undanförnu hefur verið unnið að endurskoðun á reglum sjóðsins ... Þangað til fjármögnun sjóðsins telst ásættanleg í ljósi stóraukinna innlána íslenskra banka og útibúa þeirra erlendis mun ríkissjóður baktryggja allar skuldbindingar tryggingasjóðsins.“

Ákærði sendi ráðuneytisstjóranum svar við framangreindu í tölvubréfi 12. febrúar 2008. Þar sagði meðal annars: „Var að renna yfir plaggið. Þetta er rýrt efnislega, eins og við vissum fyrir fram. Mér finnst 3. liðurinn mjög vafasamur og benda til þess að við teljum raunverulega hættu í þessum efnum yfirvofandi. Slík skilaboð megum við ekki senda. Einnig er vafasamt að lýsa yfir baktryggingu ríkissjóðs að ég tel. Kannski getum við bara sleppt síðustu setningunni í þessum lið, en þá er eftir áhættan af því að vera yfirleitt að nefna þetta atriði.“ Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ríkisstjórnin hafi látið frá sér fara yfirlýsingu af þeim toga, sem drög voru lögð að samkvæmt framansögðu.

Í Seðlabanka Íslands var gert minnisblað 12. febrúar 2008 um fundi, sem starfsmenn hans hafi átt í London fyrr í þeim mánuði og áður var getið um. Lýsingin þar á viðræðum við fulltrúa matsfyrirtækja og erlendra banka er í samræmi við það, sem fyrr greinir, en þó ítarlegri. Í lok þessa minnisblaðs voru niðurstöður dregnar saman í eftirfarandi orðum: „Það er ljóst að íslensku bankarnir, Kaupþing og Glitnir alveg sérstaklega, hafa stefnt sér og það sem verra er, íslensku fjármálalífi, í mikla hættu, jafnvel í hreinar ógöngur, með ábyrgðarlausri framgöngu á undanförnum árum. Hættulegt er að hafast ekkert að í þeirri von að markaðir opnist óvænt og allur vandi verði þá úr sögunni. Nauðsynlegt er að hefjast þegar handa við að vinda ofan af stöðunni svo hún verði ekki óleysanleg. Ekki er hægt að útiloka að miklu fyrr rætist úr markaðsaðstæðum og aðgengi að fjármagni en nú er talið. Ekkert bendir þó enn til þess og ef menn láta sér nægja að lifa í voninni verður of seint að bregðast við þegar ljóst verður að vonin rætist ekki.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 12. febrúar 2008. Samkvæmt fundargerð var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

6[breyta]

Ákærði flutti ræðu á viðskiptaþingi 13. febrúar 2008. Í ræðunni vísaði hann meðal annars til þess að upp úr miðju ári 2007 hafi horfur versnað mjög á alþjóðamörkuðum, aðgangur að fé þrengst verulega og hlutabréf lækkað í verði. Áhrifa þess hafi gætt hér á landi. Á síðustu vikum hafi skuldatryggingarálag íslensku bankanna hækkað töluvert og mætti telja líklegt að það hafi stafað „að hluta til af upplýsingaskorti alþjóðlegra fjárfesta um raunverulega stöðu bankanna.“ Sérfræðingar greiningarfyrirtækisins Credit Sights hafi til dæmis sagt áhættuna í tengslum við íslensku bankana ofmetna og skuldatryggingarálagið ekki gefa rétta mynd af raunstöðu þeirra. Þetta álag væri þó „grafalvarlegt mál“ og gerði bönkunum erfitt fyrir við öflun lánsfjár, sem að auki væri skortur á. Matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hafi staðfest þetta í nýlegri endurskoðun á lánshæfiseinkunnum íslenska ríkisins og teldi einnig „að fjárhagsstaða bankanna sé traust og að þeir hafi nægt lausafé.“ Eiginfjárhlutfall þeirra væri sterkt og hlutfallslega betra en hjá mörgum erlendum bönkum. Fjármálaeftirlitið hafi í liðinni viku birt niðurstöður úr álagsprófi, þar sem könnuð hafi verið geta bankanna til að standast samtímis lækkun á verði hlutabréfa, markaðsskuldabréfa og fullnustueigna og á útlánum og gengi íslensku krónunnar án þess að eiginfjárhlutfall þeirra færi undir lögboðið lágmark og hafi þeir allir staðist það próf. Þrátt fyrir þetta gætti „enn neikvæðrar umfjöllunar hjá einstaka greiningaraðilum og fjölmiðlum. Þar er iðulega farið með hreinar staðreyndavillur og lýsingar á stöðu íslenska hagkerfisins eru mjög ýktar. Það er áhyggjuefni að þessir aðilar skuli ekki taka tillit til þeirra ítarlegu upplýsinga sem öllum eru aðgengilegar og lýsa sterkri stöðu bankanna og ríkissjóðs. Hér virðast önnur öfl ráða ferðinni en leitin að sannleikanum.“ Ríkisstjórnin teldi engu að síður eðlilegt að vera í viðbragðsstöðu og undirbúa ráðstafanir til að draga úr afleiðingum hugsanlegrar lánsfjárkreppu á alþjóðamörkuðum.

Ákærði hélt ásamt fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra fund 14. febrúar 2008 með fulltrúum fjármálafyrirtækja. Samkvæmt dagskrá fyrir fundinn átti meðal annars að fjalla þar um stöðuna „á alþjóðafjármálamörkuðum og hér á landi“, en auk dagskrár var gert yfirlit um umræðuefni á fundinum. Í yfirliti þessu voru ýmis efnisatriði, sem áttu sér hliðstæður í áðurnefndum drögum að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. og 11. febrúar 2008, meðal annars að hún legði áherslu á „mikilvægi þess að íslensk fyrirtæki hafi höfuðstöðvar sínar hér á landi jafnvel þótt þau starfi einnig á alþjóðamarkaði“, hún stefndi að því að taka upp heimildir handa fyrirtækjum til að færa bókhald sitt og ársreikninga í erlendum gjaldmiðlum og fylgdist grannt með þróun á alþjóðlegum fjármálamarkaði með það fyrir augum að lán kynni að verða tekið erlendis á sama hátt og á árinu 2006 til að styrkja gjaldeyrisforða. Þá var jafnframt lýst yfir vilja til að standa að miðlun upplýsinga til erlendra greiningarfyrirtækja, fjárfesta og fjölmiðla í samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja eða aðra. Í minnisblaði um þennan fund, sem virðist stafa frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sagði að efnt hafi verið til hans „til að heyra hvernig fjármálafyrirtækin mætu sína eigin stöðu og möguleikana til að standast áhlaup vogunarsjóða eða annarra.“ Þar var meðal annars haft eftir fulltrúum fjármálafyrirtækjanna að lækka yrði stýrivexti Seðlabanka Íslands, bankarnir væru of stórir fyrir íslenskt samfélag, sem væri „langtímavandi sem er erfiðari viðfangs og fer ekki frá okkur“, og draga yrði úr vexti þeirra, sem væri þegar hafið. Einnig að verulegur skortur væri á lausafé, heildarskuldir bankanna, sem kæmu til greiðslu á næstu tveimur árum, væru um 16.000.000.000 evrur og um 36.000.000.000 evrur á fimm árum og styrkja yrði gjaldeyrisforðann verulega þannig að hann næmi fimm til tíu milljarð evrum. Þyrfti heimurinn „að skynja að fjármálakerfið hafi bakstuðning hjá ríkisvaldinu“ og væri „vantraustið á íslenskum aðilum ... algert og peningamarkaðurinn frosinn“, en spurning væri hvernig ríkið kæmi að því.

Fyrir þennan fund sendi Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu tölvubréf 14. febrúar 2008 til ákærða, fjármálaráðherra og ráðuneytisstjórans í forsætisráðuneytinu, þar sem sagði eftirfarandi: „Mér datt í hug að spyrja Tryggva Pálsson hvað það gæti verið sem stæði upp á bankana í núverandi stöðu, svo umræðan á fundinum á eftir yrði ekki öll í aðra áttina. Hér eru punktar sem hann sendi mér. 1. Stöðva vöxtinn og selja eignir en það dregur úr fjármögnunarþörf. 2. Sameina fjármálafyrirtæki ef það bætir lánshæfi þeirra. 3. Almennt kostnaðaraðhald og stjórnendur gætu gengið á undan með góðu fordæmi. 4. Bóka erlend innlán í erlendum dótturfélögum en ekki útibúum til að draga úr skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. 5. Efla eigið fé m.a. með að leita til nýrra hluthafa. 6. Bæta upplýsingagjöf og kynningar.“

Minnisblað var gert í Seðlabanka Íslands 14. febrúar 2008, þar sem dregin voru saman helstu atriði í lögum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Þar kom einnig fram að í árslok 2007 hafi eignir sjóðsins numið um 8.300.000.000 krónum auk „ábyrgðaryfirlýsinga að fjárhæð 657 m.kr.“ Um helmingur innstæðna í íslenskum bönkum væri í eigu útlendinga og að mestu frá viðskiptamönnum erlendra útibúa þeirra. Í lögum væri ekki kveðið á um almennt hámark greiðslna vegna tryggðra innstæðna, en ef eignir sjóðsins nægðu ekki fyrir þeim öllum mætti binda hámark greiðslna til einstakra innstæðueigenda við 20.887 evrur.

Ákærði fékk 15. febrúar 2008 tölvubréf frá nafngreindum starfsmanni Landsbanka Íslands hf., en með því framsendi sá síðarnefndi tölvubréf, sem virðist hafa verið sent þann dag til allra starfsmanna bankans. Með því fylgdi orðsending frá stjórnanda Icesave reikninga í Bretlandi til þeirra, sem störfuðu við þá, þar sem vísað var til þess að á undanförnum dögum hafi verið fjallað í fjölmiðlum um Ísland, Landsbanka Íslands hf. og Icesave reikningana og hafðar uppi spurningar um stöðu íslenskra banka og innstæðutryggingar. Hafi þessi umfjöllun vakið áhyggjur og skyldi áréttað að Icesave og Landsbanki Íslands hf. hefðu einstaklega sterkan fjárhag og nægilegt lausafé. Lýst var sterkri stöðu bankans, þar á meðal í samanburði við ýmsa erlenda banka, og lánshæfiseinkunn hans og íslenska ríkisins. Þá var tekið fram að innstæðueigendur nytu tryggingarverndar eftir íslenskum reglum og að auki breskum, þannig að hún næmi í heild 35.000 sterlingspundum á hvern viðskiptamann. Færi svo ólíklega að nokkru sinni yrði að leita í slíkar tryggingar þyrfti ekki, gagnstætt því sem haldið hefði verið fram, að reikna með töfum á útborgun eins og yrðu við greiðslu úr breska tryggingarkerfinu.

Fundir voru haldnir í ríkisstjórn Íslands 15., 19. og 22. febrúar 2008. Samkvæmt fundargerðum var ekki rætt þar um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

7[breyta]

Landsbanki Íslands hf. aflaði álitsgerðar 22. febrúar 2008 frá lögmannstofunni Allen & Overy LLP um leiðir, sem væru færar til að flytja innlánsreikninga úr útibúi hans í London til Heritable Bank Ltd. eða annars dótturfélags í Bretlandi. Samkvæmt framlagðri samantekt rannsóknarnefndar Alþingis um efni þessarar álitsgerðar voru þar nefndar þrjár leiðir til að koma þessu við. Í fyrsta lagi mætti gera það með samþykki innstæðueigenda og þá annaðhvort með því að leita eftir yfirlýsingum hvers og eins um samþykki eða ganga út frá ætluðu samþykki þeirra þar til annað kæmi í ljós. Teldi lögmannsstofan óvíst um lögmæti síðarnefnda kostsins. Í öðru lagi væri unnt að flytja innlánsreikninga til dótturfélags með atbeina dómstóla samkvæmt nánar tilteknum ákvæðum breskra laga, en í þriðja lagi með sérstakri löggjöf. Lögmannsstofan mælti með því að farin yrði sú leið að leita atbeina dómstóla í þessu skyni, en það gæti tekið sex mánuði að ljúka slíkri málsmeðferð.

Ákærði fékk tölvubréf 25. febrúar 2008 frá Finni Sveinbjörnssyni ásamt samantekt hans um „tillögur um viðbrögð vegna neikvæðra viðhorfa erlendis í garð íslenskra banka“, en í henni var þess getið að forsætisráðuneytið hafi 19. sama mánaðar leitað til hans um að verða „tengiliður milli þess og bankanna“ og veita aðstoð við gerð tillagna um „aðkomu stjórnvalda í yfirstandandi vanda.“ Í samantektinni kom fram að Finnur hafi síðustu daga rætt við fjölmarga stjórnendur og sérfræðinga innan bankanna og utan þeirra, auk þess að hafa setið „sendiherrastefnu í utanríkisráðuneytinu 22. febrúar 2008“. Ýmsar tillögur voru gerðar í samantektinni um hvernig bregðast mætti við neikvæðum viðhorfum, þar á meðal að ákærði myndi eiga fundi með ritstjórum sjö helstu viðskiptafjölmiðlanna í London og að ráðherrar og embættismenn yrðu reiðubúnir að sækja fundi eða ræða erlendis um íslenskt efnahagslíf og bankakerfi, svo sem utanríkisráðherra myndi gera á fundi viðskiptaráðs í Kaupmannahöfn í komandi mánuði. Þá væri brýnt að fá erlent lán til að efla gjaldeyrisforða og afla „skammtímalánalína erlendis“ ef unnt væri að gera það „við núverandi aðstæður þannig að hljótt fari í aðdragandanum og á viðunandi kjörum“, en reyndust aðstæður óheppilegar væri mikilvægt að bíða færis. Loks er þess að geta að í samantektinni var vísað til þess að Seðlabanki Íslands hafi í janúar 2008 rýmkað „aðgang fjármálafyrirtækja að lausafé með breytingum á reglum um verðbréf sem teljast veðhæf í reglulegum viðskiptum fjármálafyrirtækja við bankann“ og hafi þær almennt mælst vel fyrir innanlands sem utan. Lagt væri til að „stjórnarráðið“ héldi áfram viðræðum við seðlabankann um að rýmka enn frekar aðgang íslenskra banka að lausafé þar og þá jafnvel í erlendum gjaldmiðlum.

Ákærði átti fundi 26. og 27. febrúar 2008 með forsætisráðherra Luxemborgar, framkvæmdastjóra Evrópusambandsins á sviði efnahags- og gjaldmiðilsmála, forseta framkvæmdastjórnar þess og forsætisráðherra Belgíu. Samkvæmt minnisblöðum um þessa fundi var þar meðal annars rætt um þróun efnahagsmála á Íslandi, starfsemi íslenskra banka erlendis og hugsanlega aðild Íslands að samningi fjármálamálaráðuneyta, fjármálaeftirlita og seðlabanka Evrópu um viðbúnað gegn fjármálaáföllum.

Matsfyrirtækið Moody´s Investors Service lækkaði 28. febrúar 2008 lánshæfiseinkunnir íslensku viðskiptabankanna. Í minnisblaði starfsmanns Seðlabanka Íslands til bankastjórnar 29. sama mánaðar var því lýst að leitað hafi verið upplýsinga hjá fyrirtækinu um hvort þetta myndi hafa áhrif á lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins og því verið svarað neitandi, enda hefðu bankarnir komið vel út úr álagsprófum og lausafjárstaða þeirra væri góð, en öðru máli gæti gegnt ef hún versnaði. Lánshæfiseinkunnir bankanna hefðu verið lækkaðar „vegna þrýstings frá markaðnum“, en þeir væru þó „flokkaðir með þeim bönkum þar sem mestar líkur væru á að stjórnvöld hefðu afskipti af þeim ef þeir lentu í vandræðum.“

Seðlabanki Íslands mun hafa leitað ráðgjafar hjá Andrew Gracie, starfsmanni fyrirtækis með heitinu Crisis Management Analytics, sem virðist hafa skilað tillögum 29. febrúar 2008 um aðgerðaráætlun stjórnvalda til að draga úr hættu á fjármálaáfalli. Af kynningarefni um þessar tillögur verður ráðið að í þeim hafi verið gengið út frá því að íslensku bankarnir væru annaðhvort útilokaðir á alþjóðlegum lánsfjármarkaði eða háðir slíkum kjörum að lánsfjár yrði ekki aflað. Engin vissa væri fyrir því að markaðir myndu opnast þeim í tæka tíð áður en Glitnir banki hf. þarfnaðist endurfjármögnunar í október 2008 eða Kaupþing banki hf. á fyrsta fjórðungi ársins 2009, en ef það gerðist ekki yrði þörf á íhlutun stjórnvalda. Slík íhlutun gæti verið fólgin í fjárframlögum eða ríkisábyrgðum, en binda mætti slíka aðstoð við móðurfélög. Við þær aðstæður yrðu bankarnir ekki lífvænlegir og gæti komið til þess að ríkið yrði að taka þá yfir. Bankar hefðu almennt tilhneigingu til að bíða í þeirri von að markaðir myndu opnast þeim, en eftir því, sem lengri tími liði, yrði kostnaður af áfalli meiri, orðspor yrði fyrir meiri hnekki og kostum myndi fækka. Þá var sett fram áætlun um aðgerðir á tímabilinu frá mars til loka júlí 2008, en meðal þeirra yrði greining á kostnaði og endurskoðun á valkostum, aðgerðir til að gera þessa kosti trúverðuga, senda bönkunum skilaboð um „fund or else“ og halda áfram vinnu við viðlagaáætlanir.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 29. febrúar 2008. Samkvæmt fundargerð voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

8[breyta]

Tveir bankastjórar Seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson og Ingimundur Friðriksson, áttu fund 3. mars 2008 með aðalbankastjóra Englandsbanka og tveimur öðrum starfsmönnum þess banka. Samkvæmt minnisblaði Ingimundar um þennan fund var tilefni hans að kynna starfsemi íslenskra viðskiptabanka í Bretlandi frá sjónarhóli Seðlabanka Íslands og þá sérstaklega í ljósi aðstæðna á fjármálamörkuðum. Komið hafi fram í upphafi fundarins að Englandsbanka væri vel kunnugt um þessa starfsemi, þar á meðal „mikilvæga innlánastarfsemi“ Landsbanka Íslands hf. Davíð hafi gert grein fyrir umsvifum íslensku bankanna í Bretlandi og hröðum vexti innlána í útibúi Landsbanka Íslands hf., sem athygli fjölmiðla væri farin að beinast að, en það væri nokkurt áhyggjuefni „vegna þess hve innstæður af þessu tagi væru viðkvæmar.“ Hann hafi lagt áherslu á að „staða bankanna væri býsna góð“, lausafjárstaða þeirra væri rúm og hefðu þeir fyrir vikið „burði til þess að takast á við þrengingar á lánamarkaði um alllangt skeið“, en jafnvel þyrftu þeir ekki að „sækja á lánamarkað að öðru óbreyttu í eitt ár.“ Af orðum forsvarsmanna Englandsbanka mætti ráða að þeir hefðu ekki nægar upplýsingar til að „meta rétt stöðu íslensku bankanna“, enda teldu þeir til dæmis að innlánum frá Bretlandi væri meira eða minna varið í hraðan vöxt útlána á Íslandi. Af þessu tilefni hafi þeim verið gerð grein fyrir því að umsvif bankanna væru meiri utan Íslands en innanlands og þeir því minna háðir en áður „framvindu í íslenskum þjóðarbúskap“, þar á meðal lækkun á gengi krónunnar. Forsvarsmenn Englandsbanka hafi greinilega haft „vissar áhyggjur af efnahagsaðstæðum á Íslandi“, stýrivextir væru háir og töluvert ójafnvægi í efnahagslífinu. Davíð hafi þá bent á „undirliggjandi styrk íslenska hagkerfisins“, þar á meðal að ríkið væri skuldlaust og lífeyrissjóðir sterkir. Forsvarsmönnum Englandsbanka hafi verið kunnugt um álagspróf íslensku bankanna, samskipti eftirlitsstofnana landanna og fundi breska fjármálaeftirlitsins með Landsbanka Íslands hf. Þá sagði eftirfarandi í minnisblaðinu: „Augljóst var af orðum forsvarsmanna Bank of England að þeir voru uppteknir af mögulegum afleiðingum þess að mikið yrði tekið út af reikningum í bönkum, þ.m.t. Landsbanka Íslands í London. Það gæti haft smitáhrif. Þeir voru nokkuð uppteknir af fyrirkomulagi innstæðutrygginga og hvernig á þær myndi reyna ef til kæmi. Í orðum þeirra kom fram að þeir töldu að ekki hefði verið skýrt að fullu hvers lags innstæðutryggingar giltu á innstæðum í Landsbanka Íslands í London.“

Fjármálaeftirlitið boðaði til fundar 4. mars 2008 með Seðlabanka Íslands og Landsbanka Íslands hf. og sátu hann forstjóri og formaður stjórnar Fjármáeftirlitsins, Jónas Fr. Jónsson og Jón Sigurðsson, Tryggvi Pálsson af hálfu seðlabankans og bankastjórar Landsbanka Íslands hf., Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason. Af minnispunktum um fundinn verður ráðið að þar hafi meðal annars verið rætt um nýlega umfjöllun í breskum fjölmiðlum um innlánstryggingar og starfsemi útibús Landsbanka Íslands hf. í London, sem vegna tortryggni gæti verið betra að mati bankastjóranna „að hafa í dótturfélagi ... þó lausaféð nýtist verr.“ Spurt hafi verið á fundinum um hversu langt gæti verið í slíkar breytingar og hafi annar bankastjóranna svarað því til að þær yrðu engar „næstu 6 mánuði a.m.k.“, en síður yrði unnt að flytja til fé innan samstæðu Landsbanka Íslands hf. ef innstæður í útibúinu yrðu fluttar yfir í dótturfélagið Heritable Bank Ltd.

Umræður urðu á Alþingi 4. mars 2008 um stöðu efnahagsmála. Þar ræddi ákærði að vegna umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum mætti „koma réttum upplýsingum á framfæri um efnahagsmálin í landinu, vegna þess að hagkerfið er svo lítið og hefur svo mikla sérstöðu að það er fjöldi manns sem áttar sig ekki á því hvernig hlutirnir ganga hér fyrir sig.“ Þeir, sem settu sig inn í þessi mál, kæmust að því að „ástandið er allt annað en gefið er til kynna í þessum erlendu blöðum þar sem menn fara ekki djúpt í málin.“ Bankarnir gætu staðið frammi fyrir erfiðleikum við öflun lausafjár og yrðu stjórnvöld að „greiða fyrir því að þessu ástandi linni vegna þess að það hefur mjög erfið áhrif og vond hér á innlendum lánamarkaði þegar bankarnir þurfa að snögghemla“.

Fréttir voru fluttar af því í Ríkisútvarpinu 4. mars 2008 að Kaupþing banki hf. hafi tilkynnt þann dag að hann hafi tekið erlend lán að fjárhæð samtals um 130.000.000.000 krónur og hafi kjörin á þeim verið „talsvert betri en skuldatryggingarálagið gæfi til kynna.“ Bankinn ætti þegar rúmlega 13.000.000.000 evrur í lausu fé, sem „hafi dugað til 12 mánaða“, en með þessum nýju lánum væri hann „að hefja fjármögnun fyrir næsta ár.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 4. mars 2008. Samkvæmt fundargerð voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

9[breyta]

Seðlabanki Íslands tilkynnti 5. mars 2008 að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hafi breytt horfum um lánshæfismat „á skuldabréfum íslenska ríkisins og landsmati ... á bankainnstæðum í erlendri mynt úr stöðugum í neikvæðar.“ Þessi breyting hafi einkum stafað af lækkun, sem orðið hafi viku fyrr á „mati á fjárhagslegum styrk hjá þremur stærstu viðskiptabönkum landsins“, en bankakerfið væri „óbeint á ábyrgð sérhvers stjórnvalds“. Bankakerfið á Íslandi væri „af yfirstærð“, en bankarnir væru traustir með „sterka starfsemi, heilbrigða eiginfjárstöðu og góða lausafjárstöðu“ og væri hætta á „kerfisáfalli“ mjög lítil. Matsfyrirtækið legði „áherslu á að íslensk stjórnvöld væru fullfær um að fást við áfall ... í bankakerfinu, jafnvel þótt það stafaði af lausafjár- eða fjármögnunarerfiðleikum.“

Á fundi Alþingis 5. mars 2008 svaraði ákærði fyrirspurn, sem beint hafði verið til forsætisráðherra um hvernig fylgt hafi verið eftir tillögum nefndar um Ísland sem alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar. Hann kvað það hafa verið gert með því að sett hafi verið lög um starfstengda eftirlaunasjóði, lagt hafi verið fram frumvarp til laga, sem fæli í sér skattfrelsi söluhagnaðar af hlutabréfum, ákveðið hafi verið að stefna að því að lækka tekjuskatt á fyrirtækjum og unnið hafi verið markvisst að því að „draga úr skrifræði og kostnaði í reglusetningum hins opinbera, m.a. undir formerkjum þriggja ára aðgerðaáætlunar sem kallast Einfaldara Ísland.“ Þessu til viðbótar hafi verið ákveðið að leggja nýjan sæstreng milli Íslands og Evrópu, en öruggt fjarskiptasamband væri „ein af meginforsendum þess að hægt sé að markaðssetja Ísland sem ákjósanlegt land fyrir alþjóðlega fjármálastarfsemi.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 7. mars 2008. Samkvæmt fundargerð var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

10[breyta]

Í tölvubréfi, sem Finnur Sveinbjörnsson sendi meðal annars til ákærða 8. mars 2008, var greint frá fundi, sem haldinn hafi verið daginn áður með þátttöku tiltekinna starfsmanna viðskiptabankanna, innlendum og erlendum almannatenglum í þjónustu bankanna ásamt fulltrúum viðskiptaráðs og utanríkisráðuneytisins. Þar var þess getið að Landsbanki Íslands hf. kynni upphaflega að hafa talið sig hafa „einhverja sérstöðu umfram hina bankana“, en ljóst væri að hún væri óðum að hverfa, að minnsta kosti „ef skuldatryggingarálag er notað sem mælikvarði.“ Þá sagði að fullvíst væri talið að „neikvæð umræða sumra erlendra banka og einstakra miðla stafi af eiginhagsmunahyggju“, enda hafi íslensku bankarnir keppt undanfarið við erlenda banka, sérstaklega um innlán. Að öðru leyti voru ítarlega raktar hugmyndir um aðgang að fjölmiðlum, svo og fundi, sem nýta mætti til kynningar á stöðu íslensks efnahags og fjármálafyrirtækja.

Á fundi bankaráðs Landsbanka Íslands hf. 10. mars 2008 kom meðal annars til umræðu hækkandi skuldatryggingarálag allra íslensku bankanna og var þess getið í fundargerð að þótt bankinn hafi „haldið leiðandi stöðu sinni“ með lægsta álagið af þeim þremur væri „ljóst að álagið er alltof hátt og getur alls ekki staðist til lengri tíma.“ Þá kom fram að heildarinnlán á Icesave reikningum í Bretlandi væru um 4.675.000.000 sterlingspund og væri um fjórðungur þeirrar fjárhæðar á bundnum reikningum, en meðalinnstæða hafi lækkað hratt úr 45.000 sterlingspundum í 35.000. Í undirbúningi væri að bjóða sams konar reikninga í Hollandi, sem vonast væri til að gæti hafist í sumarbyrjun. Í tengslum við þetta var rætt um innlánstryggingar og þess getið að „Evrópubandalagsreglur gera ráð fyrir samræmdri skyldu ríkisstjórna til að ábyrgjast allt að EUR 20 þús.“ Einnig var rætt um lækkaða lánshæfiseinkunn bankans hjá Moody´s Investors Service.

Sama dag ritaði Landsbanki Íslands hf. bréf til Fjármálaeftirlitsins og vísaði til fyrra bréfs síns 6. september 2007, þar sem tilkynnt var ráðagerð um að taka við innlánum í útibúi bankans í Hollandi. Með þessu nýja bréfi sendi bankinn „ítarlegri kynningu á fyrirhugaðri innlánaþjónustu á einstaklingsmarkaði hjá útibúi Landsbankans í Amsterdam sem bera mun heitið Icesave.nl.“ Í kynningunni var meðal annars fjallað um innlánstryggingar og tekið fram að með því að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta veitti „einungis lágmarksvernd sem nemur um € 20.000 hefur útibú bankans í Hollandi sótt um aðild að hollenska innlánatryggingarkerfinu ... hjá hollenska Seðlabankanum ... til að tryggja innstæðueigendum Icesave.nl í Hollandi sömu vernd og hollenska kerfið veitir.“ Tryggingin myndi samkvæmt því nema allt að 38.000 evrum.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 11. mars 2008. Samkvæmt fundargerð var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

11[breyta]

Ákærði flutti ræðu hjá íslensk-ameríska verslunarráðinu 13. mars 2008. Þar fjallaði hann meðal annars um íslensk fjármálafyrirtæki og kvað þau standa undir um 10% af vergri landsframleiðslu, en eignir þeirra væru um áttföld sú framleiðsla. Einkavæðing ríkisviðskiptabanka, samruni banka og verulegar skattalækkanir hafi staðið að baki þeirri þróun og bankarnir breyst í alþjóðleg fyrirtæki, sem hafi bætt nýrri og mikilvægri stoð undir efnahagslífið. Ríkisstjórnin væri ákveðin í að tryggja að skilyrði yrðu til áframhaldandi velgengni á þessu sviði. Bankarnir hafi vissulega fundið fyrir óróleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, sem hafi dregið úr aðgangi að lánsfé, en þeir væru allt að einu sterkir að mati Fjármálaeftirlitsins og teldi ákærði þá myndu standa af sér óveður á mörkuðum.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 8. fund sinn 18. mars 2008. Undir dagskrárlið um stöðu og horfur á fjármálamörkuðum greindi Jónas Fr. Jónsson frá því samkvæmt fundargerð að hjá stærri bönkunum væri „orðið þröngt um laust fé í erlendri mynt“ og væru helstu áhyggjuefnin gengislækkun „íslensku krónunnar, lækkun hlutabréfa kjölfestufjárfesta og veikari staða eignarhaldsfélaga.“ Tryggvi Pálsson hafi sagt lausafjárvanda meira knýjandi en áður hafi verið talið og bærist „neikvæður tónn“ frá erlendum bönkum og fjárfestum. Hann hafi bætt því við að „hættan væri orðin veruleg og bráð.“ Ingimundur Friðriksson hafi tekið fram að það virtist erfitt að efla gjaldeyrisforðann og reynt hafi verið að koma á samstarfi við erlenda seðlabanka. Hann hafi ásamt Davíð Oddssyni átt fund með stjórnendum Englandsbanka, sem væri vonast til að skilaði árangri en „fyrstu viðbrögð vekja hóflega bjartsýni.“ Þá hafi verið kynntar tillögur Andrew Gracie frá 29. febrúar 2008, sem áður var getið.

Starfshópur Seðlabanka Íslands um lausafjárvanda kom einnig saman til fundar 18. mars 2008. Samkvæmt fundargerð greindi Tryggvi Pálsson þar frá áðurnefndum fundi samráðshópsins sama dag og var farið yfir „stöðuna almennt á fjármálamörkuðum.“ Þá hafi Tryggvi reifað fyrrnefndar tillögur Andrew Gracie og hafi verið „samþykkt að fara að hans ráðum varðandi næstu skref.“ Tryggvi hafi lagt „áherslu á að safna saman helstu úrræðum og setja upp á skipulagðan hátt“ og hafi starfshópurinn í því skyni skipt með sér verkum á nánar tiltekinn veg. Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 18. mars 2008. Samkvæmt fundargerð tók samgönguráðherra, Kristján L. Möller, upp „umræður um stöðu efnahagsmála í landinu og beindi fyrirspurn til forsætis- og fjármálaráðherra um gjaldeyrismarkaðinn, áhrif á gengi og efnahagsmálin.“ Sagði jafnframt að „forsætisráðherra fór yfir stöðu mála“ og „málið rætt.“

12[breyta]

Jón Steinsson hagfræðingur sendi tölvubréf til ákærða 20. mars 2008, sem hófst með þeim orðum að þetta hafi „aldeilis verið viðburðarrík vika. Og líklega er skjálfti í mörgum varðandi það hvernig markaðir opna á þriðjudaginn.“ Kvað Jón útlitið frá sínum bæjardyrum vera þannig að margir fagfjárfestar væru í vandræðum. Það væri þó mjög tvíeggjað fyrir ríkið að grípa til sérstakra aðgerða til að hjálpa þeim og væri slíkt aðeins „réttlætanlegt ef aðgerðirnar eru nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir að hagkerfið fari á hliðina“. Einnig væri „nauðsynlegt að vera með einhvers konar plan tilbúið ef til þess kemur að t.d. einn af stóru bönkunum lendir í verulegum vandræðum“, sem vísast myndi stafa af erlendri fjármögnun hans. Þyrfti þá ríkið að taka stórt erlent lán og endurlána þeim banka, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi verið stofnaður til að veita slík lán og mætti ætla að ríkið gæti þar fengið ágætis kjör. Aðalvandinn yrði hvaða kjör ríkið myndi bjóða bankanum, sem væri í vanda. Ef til vill hefði lán frá sjóðnum of neikvæð áhrif á ímynd íslensku bankanna, þannig að betra yrði að gefa út skuldabréf í evrum og selja þau. Í öllu falli væri „líklega mikilvægt að vera með slíkt plan að einhverju leyti tilbúið þar sem svona hlutir gerast hratt þegar þeir gerast.“ Meginvandinn væri á hinn bóginn sá að bankarnir ættu ekki erfitt með að fjármagna sig í krónum, heldur í erlendum gjaldmiðlum. Væri því „spurning hvort ríkið og Seðlabankinn eigi að bjóða bönkunum upp á einhverja fjármögnunarkosti í erlendri mynt áður en málin komast á það stig að einhver bankanna verður kominn í veruleg vandræði.“ Það myndi „slá á ótta markaðarins ef ríkið byði bönkunum fjármögnunarlínu í evrum upp á svo sem milljarð evra (samtals)“, en það yrði flókið, því ákveða þyrfti veð og kjör.

Richard Portes, prófessor í hagfræði við London Business School, sendi tölvubréf 20. mars 2008 til Finns Oddssonar framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs og lýsti þeirri skoðun að einhver yrði að greina ákærða, Davíð Oddssyni og eftir atvikum forstjóra Fjármálaeftirlitsins frá því að ýtrustu aðgerða væri þörf. Þeir tveir fyrstnefndu eða allir þrír yrðu að lýsa því yfir opinberlega að bankarnir væru í grundvallaratriðum traustir, öll úrræði Seðlabanka Íslands og íslenska ríkisins stæðu þeim að baki og það yrði ekki látið viðgangast að þeir féllu. Jafnframt yrði alvarlega að íhuga hvernig fengist yrði við spákaupmenn. Tölvubréfinu lauk með spurningu um hver væri í nægilega sterkri stöðu til að knýja á um þetta við ákærða og Davíð Oddsson. Tölvubréf þetta var framsent samdægurs til ráðuneytisstjórans í forsætisráðuneytinu með svofelldri orðsendingu: „Hér neðar fara skilaboð frá Portes. Hann er áhyggjufullur, enda búinn að vera stöðugt að tækla fréttamenn frá FT o.fl. vegna Íslands. Ég velti fyrir mér hvort það væri ástæða til að setja upp conference call með honum og Geir og mögulega nánustu efnahagsráðgjöfum Geirs, svo hann geti útskýrt frekar.“ Ráðuneytisstjórinn framsendi þessi tölvubréf sama dag til ákærða og lét þess getið að sér fyndist „þetta kannski fulllangt gengið, er það ekki?“ Finnur Sveinbjörnsson, sem jafnframt hafði fengið síðastnefnt tölvubréf, sendi í framhaldi af þessu svar til ráðuneytisstjórans og ákærða, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Ég sá fréttaviðtalið við Davíð O. í gær á netinu. Því miður notaði hann býsna sterk orð. Mér fannst þó jákvætt að hann gat þess ... að til stæði að rýmka reglur um aðgengi fjármálafyrirtækja að lausafé. Ég skil vel áhyggjur Portes. Bæði er að hann fylgist vel með bönkunum og sér CDS-álagið hækka sífellt og margir (neikvæðir) fjölmiðlamenn leita til hans um álit og skýringar. Geir hefur sagt afdráttarlaust að fjárhagsstaða ríkis/Seðlabanka sé það sterk að þessir aðilar geti og muni grípa inn í ef á þarf að halda. Mér hefur fundist þessar yfirlýsingar afdráttarlausar og ég er ekki viss um að það sé við hæfi eða hjálpi að setja upp dæmi ... eða sýna einhverja útreikninga á því hvernig aðkoma ríkis/Seðlabanka gæti orðið ef til kæmi. Hvort núverandi ástand sé orðið þannig að það kalli á róttækar aðgerðir ... krefst nánari umræðu. Slíkt getur orðið tvíeggjað sverð fyrir utan það að vera hápólitískt álitaefni. Það eru ótal dæmi um það að stjórnvöld/seðlabankar reyni að berjast gegn markaðinum, fyrst og fremst til að verja/stýra gengi gjaldmiðla, en með misjöfnum árangri. Það má ekki gleyma því að „alvöruspákaupmenn“ hafa mikið fé handa á milli. En að Portes hitti samráðshópinn hans Bolla á símafundi?“

Finnur Oddsson sendi tölvubréf til ráðuneytisstjórans í forsætisráðuneytinu 20. mars 2008 og fylgdi því minnisblað Viðskiptaráðs til ákærða, en í bréfinu sagði meðal annars: „Það er ljóst að staðan er grafalvarleg og það þolir enga bið að nú sé gripið til aðgerða sem senda skýr skilaboð um styrkan stuðning við fjármálakerfið.“ Minnisblaðið hófst með eftirfarandi orðum: „Ísland rambar í dag á barmi fjármála- og gjaldeyriskreppu. Ástæður þeirrar stöðu sem nú er upp komin eru margvíslegar og verða ekki reifaðar hér. Ljóst er að staðan mun aðeins versna ef ekki kemur til umsvifalausra aðgerða af hálfu hins opinbera og Seðlabanka Íslands. Þess má geta að yfir páskahátíðir eru markaðir opnir í tvo daga erlendis en engan á Íslandi. Ísland er hinsvegar stöðugt í fréttum erlendra fjölmiðla og á því verður ekkert lát yfir páskahelgina. Fréttir af stuðningsaðgerðum við fjármálakerfið verður að flytja fyrir opnun markaða á þriðjudag, 25. mars, sem mótvægi við erlendan fréttaflutning af slæmri stöðu. Eins og áður kemur fram þurfa þær fréttir að berast frá stjórnvöldum, en fyrst og fremst frá Seðlabanka Íslands. Hér er um dagspursmál að ræða. Þrátt fyrir að ástand á íslenskum fjármálamarkaði sé alvarlegra en öðrum mörkuðum, virðist hingað til hafa verið minna um aðgerðir sem sporna gegn slíkum vandamálum en í öðrum löndum.“ Í tillögum Viðskiptaráðs um aðgerðir, sem komu í framhaldinu, voru meðal annars teknar upp sömu ábendingar og fram höfðu komið frá Richard Portes um nauðsyn yfirlýsinga frá forsætisráðherra og Seðlabanka Íslands. Ráðuneytisstjórinn framsendi þetta tölvubréf til ákærða með orðsendingu, þar sem meðal annars sagði eftirfarandi: „Mér sýnist þetta skýra sig nokkuð sjálft og fyrirhugaðar aðgerðir sem verða kynntar á mánudag eru í takt við þessar hugmyndir. ... Það er síðan sjálfsagt að bæði DO, ÁMM og þú lýsi yfir stuðningi við bankana við þetta tækifæri sem kæmi í kvöldfréttirnar á mánudag. Hins vegar er varla hægt að ganga lengra en gert hefur verið með yfirlýsingar um að ríki og SÍ muni „bjarga“ bönkunum.“

Forstjóri Heritable Bank Ltd. gerði minnisblað 20. mars 2008, sem sent var auk annarra til bankastjóra Landsbanka Íslands hf., en í því var sett upp áætlun um hvernig standa mætti að því að flytja Icesave reikninga og tilsvarandi eignir frá útibúi síðarnefnda bankans í London yfir í fyrrnefnda bankann. Þar var einnig tekið fram að með þessu myndi starfsemi í tengslum við reikningana eiga undir eftirlit breska fjármálaeftirlitsins, FSA, og jafnframt ættu reikningarnir undir breska innlánstryggingarkerfið. Nauðsynlegt yrði að færa eignir yfir í Heritable Bank Ltd. til að styðja við þessa auknu starfsemi, svo og að gera samning með samþykki FSA um flutning innstæðufjár frá þeim banka til Landsbanka Íslands hf. Forstjórinn hvatti til þess að fundur yrði haldinn um þetta 31. mars 2008 til að taka ákvarðanir og benti á að það gæti tekið nokkurn tíma að koma fram flutningi innstæðnanna með atbeina dómstóla.

Greiningardeild bankans J.P. Morgan birti skýrslu um íslenskan fjármálamarkað 21. mars 2008. Þar var fjallað um efnahagsmál á Íslandi, stöðu viðskiptabankanna þriggja og hvernig framvinda mála gæti orðið, en skýrslunni lauk með því að bent var á að greiðsluþrot eins bankans eða fleiri gæti haft veruleg áhrif á alþjóðlegum fjármálamarkaði, þar sem skuldabréf frá þeim væri víða að finna í svonefndum skuldavafningum. Viðbrögð á Íslandi á komandi dögum og vikum hefðu þannig ekki aðeins veruleg áhrif hér á landi, heldur almennt á alþjóðlegum mörkuðum.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 9. fund sinn 25. mars 2008. Samkvæmt fundargerð lagði Ingimundur Friðriksson þar fram fréttatilkynningu frá Seðlabanka Íslands um hækkun vaxta og „breytingar á reglum.“ Hann hafi skýrt „ástæður aðgerða bankans“ og bætt við „að reglubundnum gjaldeyriskaupum bankans hefur verið hætt tímabundið.“ Þá sagði að rætt hafi verið um „þróun á erlendum mörkuðum sem hafa braggast í bili“, svo og að „skilmálar í lánum íslensku bankanna geta leitt til þess að lánasamningum yrði rift ef viðkomandi banki fer í yfirtöku eða sameiningu.“ Fjármálaeftirlitið og seðlabankinn hafi tekið saman „yfirlit um helstu mögulegu aðgerðir“, þar sem meðal annars væri að finna greiningu á innlánum viðskiptabanka og sparisjóða með yfirliti um stærðardreifingu innstæðna og samantekt um úrræði stjórnvalda vegna óróleika á fjármálamörkuðum, en að „loknum umræðum var skjölunum skilað aftur“ og ákveðið að unnið yrði frekar við þessi yfirlit. Þau liggja ekki fyrir í málinu.

Lögfræðistofan Allen & Overy LLP skilaði til Landsbanka Íslands hf. álitsgerð 25. mars 2008 um ýmis atriði í tengslum við stofnun dótturfélags í Hollandi til að taka yfir í heild eða að hluta starfsemi, sem þar hafi farið fram í útibúi.

Fulltrúar Seðlabanka Íslands og Landsbanka Íslands hf. áttu fund 25. mars 2008. Af hálfu seðlabankans sátu fundinn Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason, Sigurður Sturla Pálsson og Tryggvi Pálsson, en af hálfu Landsbanka Íslands hf. Sigurjón Þ. Árnason og Jón Þorsteinn Oddleifsson. Samkvæmt minnispunktum um fundinn kom meðal annars þar fram að um 77.000.000 sterlingspund hafi farið út af Icesave reikningum „vegna frétta í breskum blöðum.“ Þá sagði eftirfarandi í lið undir fyrirsögninni aðgerðir: „Covered bond: Setja gjaldeyrisskapandi lán bankanna, þ.e. sjávarútvegslánin (≈2 ma.) í sértryggð skuldabréf sem stjórnvöld hefðu til tryggingar fyrirgreiðslu sinni og þarmeð tryggja erlendu lántökurnar. NO THIRD PARTYS GUARANTEES skilmálar í erl. lánasamningum Landsbankans. CHANGE OF CONTROL skilmáli hjá yfirtekna bankanum (Glitni) gætu líka valdið vanda. Sigurjón afhenti drög að yfirliti um skilmála í lánum LÍ. Sigríði Logadóttur afhent plaggið.“

Í málinu liggur fyrir að Seðlabanki Íslands hafi tilkynnt 25. mars 2008 að hann hafi breytt reglum um bindiskyldu á þann hátt að skuldbindingar erlendra útibúa íslenskra banka ættu ekki lengur að mynda grunn bindingar.

Ákærði flutti ræðu á ársfundi Seðlabanka Íslands 28. mars 2008, þar sem hann sagði meðal annars eftirfarandi: „Neikvæð umfjöllun um íslensk efnahagsmál eins og birst hefur í nokkrum erlendum dagblöðum að undanförnu hefur komið okkur í opna skjöldu. Þegar horft er á staðreyndir í efnahagslífi okkar kemur í ljós að öllum hagtölum og hagspám ber í meginatriðum saman um að horfurnar séu góðar, staða efnahagsmála sé í meginatriðum sterk og staða bankanna traust. Þetta hefur verið rækilega staðfest af þekktum erlendum fræðimönnum ... Mikill hagvöxtur síðustu ár hér á landi ásamt velheppnaðri einkavæðingu hefur skilað sér í góðri afkomu ríkissjóðs sem meðal annars hefur verið nýtt til að greiða niður skuldir. ... Það þýðir að ríkissjóður hefur mikinn fjárhagslegan styrk og getur tekið að láni verulegar fjárhæðir ef á þarf að halda. Það er því engum vafa undirorpið að ríkissjóður og Seðlabankinn gætu hlaupið undir bagga ef upp kæmi alvarleg staða í bankakerfinu. Ég hef ítrekað verið spurður um þetta af erlendum aðilum á liðnum vikum og hef ávallt svarað því til að íslensk stjórnvöld muni við slíkar aðstæður hiklaust grípa til sömu aðgerða og ábyrg stjórnvöld annars staðar. Þetta vil ég árétta. ... Fjármálafyrirtæki um allan heim glíma um þessar mundir við tímabundið andstreymi. Íslensk fjármálafyrirtæki finna fyrir þessum aðstæðum en til viðbótar hafa stóru bankarnir þrír þurft að glíma við það vandamál að svokallað skuldatryggingaálag hvers þeirra hefur rokið upp úr öllu valdi. Að mínu mati er þetta fullkomlega órökrétt því tölur úr rekstri og efnahag bankanna gefa ekkert tilefni til þessarar þróunar. ... Íslenskt bankakerfi og íslensk efnahagsmál standa traustum fótum þótt á móti blási um þessar mundir. Kerfisbundið afnám ýmiss konar hafta í efnahagsstarfseminni á síðustu fimmtán árum eða svo, einkavæðing, markvissar skattalækkanir og alþjóðavæðing íslensks atvinnulífs hafa þegar skilað stórfelldum ávinningi og lagt grunninn að nýju framfaraskeiði á komandi árum. Við munum hiklaust halda áfram á þeirri braut þegar við höfum unnið okkur út úr þeim tímabundnu erfiðleikum sem nú steðja að.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til funda 25. og 28. mars 2008. Samkvæmt fundargerðum voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

13[breyta]

Bankastjórar Seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson, áttu ásamt Sigurði Sturlu Pálssyni og Tryggva Pálssyni fund 30. mars 2008 með bankastjórum Landsbanka Íslands hf., Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, ásamt Jóni Þorsteini Oddleifssyni. Samkvæmt minnispunktum frá fundinum greindi Halldór J. Kristjánsson frá því að enn hafi fé streymt út af Icesave reikningum í kjölfar „slæmra frétta í dag“, en „í umræðunni“ sé uppi tortryggni vegna íslenskra innstæðutrygginga. Frá byrjun ársins hafi verið tekin út af þessum reikningum um 600.000.000 sterlingspund og hafi heildsöluinnlán að auki lækkað um 600.000.000 evrur. Sigurjón Þ. Árnason hafi látið þess getið að aukinn fréttaflutningur ylli því „að fólk rífur út“ innstæður sínar. Um 125.000.000 sterlingspund hafi verið tekin út „um helgina og þá er ⅓ Icesave farið.“ Jafnframt að bankinn hafi átt viðræður við breska fjármálaeftirlitið, FSA, sem vilji að Landsbanki Íslands hf. „fari undir þeirra regluverk“, en þá verði að færa eignir til Bretlands og setja inn í dótturfélag. Þetta hafi bankinn ætlað að gera á sex mánuðum, en um tvær leiðir væri að velja, annaðhvort „að láta dómskerfið færa eignirnar“ eða senda eigendum innstæðna bréf og færa þær ef þeir geri ekki athugasemdir. Hann bætti síðan við: „Við getum ekki uppfyllt skilyrði FSA því heildsöluinnlánin eru að hverfa út. ... Við ráðum ekki við þetta einir. ... Líkurnar á að íslensku bankarnir komist í gegnum þetta eru mjög mjög litlar. ... Ef einhver „panikerar“ núna þá myndast „run“ og menn fá ekki nema ⅓ krafna.“

Umræður voru á Alþingi 31. mars 2008 um ástandið í efnahagsmálum. Þar sagði ákærði meðal annars eftirfarandi: „Það er hins vegar fáránleg kenning að halda því fram að ríkisstjórnin eða Seðlabankinn, yfirvöld í landinu, séu ekki að gera neitt út af því ástandi sem upp hefur komið. Fólk talar saman og vinnur vinnuna sína þó að ekki séu upphrópanir um það á hverjum einasta degi í fjölmiðlum. Bankinn undirbjó aðgerðir um páskahelgina og hafði um það gott samstarf við ríkisstjórnina, þ.e. þau atriði þar sem eðlilegt er að hafa slíkt samstarf. Að sjálfsögðu ekki um vaxtaákvörðunina vegna þess að hún er alfarið á ábyrgð bankans. En í framhaldi af þessum samtölum er ríkissjóður nú að gefa út ný skuldabréf og það er auðvitað ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera það þó að bankinn annist framkvæmdina ... Seðlabankinn hefur síðan, eins og aðrir seðlabankar um víða veröld, verið að gera ráðstafanir til að auka lausafé bankanna til að hlaupa undir bagga með þeim“.

Seðlabanki Íslands tilkynnti 1. apríl 2008 að matsfyrirtækið Standard & Poor’s Financial Services hafi tekið lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins til athugunar „með neikvæðum vísbendingum“. Þetta hafi verið gert sökum þess að fyrirtækið teldi upplýsingar skorta „um hvernig íslensk stjórnvöld ætla að takast á við aukin efnahagsleg viðfangsefni“, sem stafi að mestu af þrýstingi „í tengslum við lánsfjármögnun Íslands í erlendum gjaldmiðli sem gæti leitt til beins opinbers stuðnings við þrjá stærstu bankana“. Seðlabankinn tilkynnti einnig sama dag að matsfyrirtækið Fitch Ratings hafi breytt horfum fyrir lánshæfiseinkunnir ríkisins úr stöðugum í neikvæðar og væri það tengt því að lánshæfiseinkunnir þriggja stærstu bankanna væru til „neikvæðrar athugunar“. Fyrirtækið hafi ítrekað að lánshæfi ríkisins stæði á sterkum grunni, en engu að síður væri „stærð íslenska fjármálakerfisins á samstæðugrunni í lok júní 2007 næstum 900% af vergri landsframleiðslu og því gefur það til kynna mikilvægi þess að viðbrögð stjórnvalda við vanda í fjármálakerfi séu viðeigandi og yfirveguð ... og feli í sér stuðning og efli traust á bönkunum án þess að grafa undan lánshæfi ríkissjóðs.“

Ákærði og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir funduðu með bankastjórn Seðlabanka Íslands 1. apríl 2008. Samkvæmt minnisblaði, sem Ingibjörg Sólrún gerði um fundinn, greindi Davíð Oddsson frá því að 193.000.000 sterlingspund hafi „runnið út af Icesave reikningum um helgina og þar til þennan dag. Sagði að Landsbankinn gæti þolað svona í 6 daga.“ Jafnframt að breska fjármálaeftirlitið vildi að Landsbanki Íslands hf. færði þessa reikninga yfir í breskt dótturfélag, líklega vegna reglna um innstæðutryggingar, en bankinn yrði að leggja fram tryggingu að fjárhæð 1.500.000.000 sterlingspund „til að vera trúverðugur.“ Bankinn ætti ekki nema um þriðjung þeirrar fjárhæðar og hafi verið spurt hvort „Ísland (!) geti tryggt bankanum 1 milljarð punda á 8 dögum.“ Ekki hafi komið fram hvernig seðlabankinn hafi svarað þeirri spurningu. Hann hafi undanfarið leitað „fyrir sér um lánalínur“ og þegar gert samning um eina, en ætti í viðræðum við evrópska seðlabankann „um 2 milljarða evra“ og breska seðlabankann „um 3 milljarða evra“, en um hvorugt væri komin niðurstaða. Mikilvægt væri að sýna fram á að slíkt samstarf væri komið á. Tækist að fá aðgang að „5 milljörðum evra í gegnum lánalínur“ kæmi það í sama stað niður og að auka gjaldeyrisforðann, en að öðrum kosti yrði að „fara í skuldabréfaútgáfu“.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt sinn 10. fund 1. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð kom þar til umræðu að erlendu innlánsreikningarnir Kaupthing Edge færu vaxandi í Bretlandi, en Icesave reikningar færu minnkandi. Af því tilefni hafi Áslaug Árnadóttir bent á hversu mikilvægt væri að Kaupþing banki hf. væri með þessa starfsemi í erlendu dótturfélagi í stað þess að hafa hana í útibúi eins og Landsbanki Íslands hf. Hún hafi einnig getið þess að hún hafi sem formaður stjórnar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta nýlega átt fund með sendinefnd frá breska tryggingarsjóðnum, þar sem komið hafi fram að í undirbúningi væru breytingar á reglum um hann, sem myndu gera samanburð við íslenska sjóðinn „enn óhagstæðari“. Á fundinum var síðan farið yfir tvö vinnuskjöl, annars vegar skjal með fyrirsögninni: „Úrræði stjórnvalda gegn óróleika á fjármálamörkuðum“, sem Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið höfðu tekið saman, og hins vegar skjal um mat á kostnaði vegna breyttra skilyrða á fjármálamarkaði, sem bankinn hafi gert. Í fyrrnefnda vinnuskjalinu sagði að samantektin þar væri gerð í samræmi við tillögur, sem Andrew Gracie hafi sett fram, og beindist að tvenns konar úrræðum, annars vegar til að „losa um lausafjárþrengingar á fjármálamörkuðum“ og hins vegar vegna „lausafjár- eða eiginfjárvanda fjármálafyrirtækis“. Vegna þess fyrrnefnda gæti seðlabankinn þurft að falla frá skilyrðum um lánshæfismat útgefenda skuldabréfa, slaka á bindiskyldu fjármálafyrirtækja, gefa út innstæðubréf, víkka út veðreglur, gera gjaldmiðlaskiptasamninga við aðra seðlabanka, gefa út skuldabréf í evrum, efla gjaldeyrisforðann, gera gjaldmiðlaskiptasamninga við fjármálafyrirtæki og eiga endurhverf viðskipti með gjaldeyrisforða við erlend fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið gæti þurft að auka upplýsingagjöf og samskipti, hvetja til samruna eftirlitsskyldra fyrirtækja og beita álagsprófum. Stjórnvöld gætu orðið að auka sjóðstreymi frá Íbúðalánasjóði til fjármálafyrirtækja, veita lífeyrissjóðum heimild til að lána verðbréf, leitast við að fá gerðan nýjan samning milli Norðurlandanna um fjármálastöðugleika og viðbúnaðarstarf, hvetja fjármálafyrirtæki til að flytja erlend innlán úr útibúum í dótturfélög, stöðva vöxt sinn og selja eignir, liðka fyrir um sameiningu fjármálafyrirtækja og setja gjaldeyrisskapandi lán bankanna í sértryggð skuldabréf. Vegna viðbragða við lausafjárvanda eða eiginfjárvanda fjármálafyrirtækja gæti seðlabankinn þurft að veita ýmsar tilslakanir, svo sem á bindiskyldu, lýsa opinberlega yfir trausti á fjármálakerfinu og einstökum fjármálafyrirtækjum, lýsa yfir ábyrgð á skuldbindingum fjármálafyrirtækis og veita þrautavaralán. Fjármálaeftirlitið kynni að þurfa að grípa til vettvangsathugana og sérstakrar endurskoðunar, beita sér fyrir markaðslausnum, skipa sérfræðinga til að kanna þætti í rekstri fjármálafyrirtækja og huga að breytingum á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit, þar á meðal til að geta boðað til hluthafafunda, tekið yfir vald þeirra, takmarkað vald félagsstjórnar eða vikið henni frá og takmarkað starfsheimildir fjármálafyrirtækja. Stjórnvöld yrðu að vera því viðbúin að hvetja til markaðslausna, loka bönkum sem ekki væru kerfislega mikilvægir, veita eiginfjárframlög, breyta lögum til að geta fært bankaviðskipti til þriðja aðila, mynda bráðabirgðabanka til að taka yfir starfsemi meðan á endurskipulagningu stæði og þjóðnýta banka.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 1. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

14[breyta]

Þorsteinn Þorgeirsson starfsmaður í fjármálaráðuneytinu ritaði tölvubréf 2. apríl 2008 til ráðuneytisstjóra þess og fjármálaráðherra, þar sem greindi frá því að hann hafi ásamt Finni Sveinbjörnssyni farið á fund með starfsmönnum bankans J.P. Morgan. Þeir hafi meðal annars lýst þeirri skoðun að alþjóðalega fjármálakerfið yrði um hálft annað ár „að klóra sig fram úr vandanum“, en hann væri þó meiri á jaðri þess, eins og á Íslandi. Erfiðara væri að „selja pappíra þaðan“ og þótt undirstöður í íslensku bönkunum væru góðar væri „ímyndin einfaldlega sú að þeir væru í sjálfheldu hvað fjármögnun varðar og að aðeins aðgerðir ríkissjóðs geti leyst þá úr þeirri stöðu og hjálpað þeim að endurheimta lánstraustið sem þeir nutu áður.“ Útséð væri að þeir fengju nokkurn tíma aftur þau góðu kjör, sem hafi verið í boði fyrir stuttu. Seðlabanki Íslands væri ekki „álitinn trúverðugur þrautavari“, enda hafi hann ekki sýnt að hann hefði nægilegan aðgang að erlendu lánsfé. Markaðsaðilar teldu þörf íslensku bankanna fyrir erlent fé verulega og væri mikilvægt að stjórnvöld settu á fót sjóð til að koma þeim til aðstoðar. Yrðu aðgerðir stjórnvalda ekki fullnægjandi að mati markaðsaðila gæti atlagan hafist fyrir alvöru og afleiðingarnar orðið alvarlegar fyrir fjármálastöðugleika hér á landi. Það væru öðru fremur hagsmunir þjóðarinnar að „bankarnir fengju þá líflínu fjármagns“, sem þeir þyrftu, og yrði það að gerast hratt. Seðlabankinn þyrfti að gera samninga við nokkra erlenda seðlabanka um aðgang að fé þeirra, bjóða svo út skuldabréf til um tíu ára og afla þannig fjár til að „endurfjármagna bankana“. Yrði að tryggja aðgengi að 10.000.000.000 evrum, byggja upp gjaldeyrisvarasjóð og endurlána bönkunum, en vaxtamunur yrði í raun kostnaðurinn af þessu. Hann væri miklum mun minni en kostnaður þjóðfélagsins „af hruni bankakerfisins.“

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman til 11. fundar síns 2. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð kvað Bolli Þór Bollason tíma kominn til að „taka saman aðgerðaráætlun og draga mörkin“, en hann hafi skilið „málið ráðherramegin“ þannig að taka ætti á stóru bönkunum þremur og innlánstryggingum. Ákveðið var að skipa tvo vinnuhópa, annan sem myndi „setja á blað trúverðuga sviðsmynd“ af því að einn bankanna „lenti í vanda“ og hinn til að greina álitaefni varðandi innlánstryggingar og draga upp „tillögu að yfirlýsingu stjórnvalda sem grípa mætti til ef þörf er talin á“, en þessir hópar tækju til starfa samdægurs. Þá kom fram að rætt hafi verið um að bankarnir yrðu sjálfir að „grípa til allra nauðsynlegra aðgerða“ og hafi Jónas Fr. Jónsson nefnt að kalla mætti fulltrúa þeirra í forsætisráðuneytið „þegar stefnan liggur fyrir“ til að gera þeim þetta ljóst og hvaða takmarkanir yrðu á opinberri aðstoð. Ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu sendi þessa fundargerð til ákærða með tölvubréfi 5. apríl 2008.

Samráðhópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 12. fund sinn 4. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð dreifði Áslaug Árnadóttir samantekt um innstæðutryggingar og greindi einnig frá „tillögu breska tryggingarsjóðsins um að hann tæki að sér, ef á reyndi, að greiða út bætur til þarlendra innstæðueigenda en fengi síðan endurgreitt frá íslenska tryggingarsjóðnum.“ Í tengslum við þetta hafi Baldur Guðlaugsson bent á að „miða þyrfti útreikninga við að allt færi á versta veg.“ Þá kom fram að vinnuhópur, sem bregða ætti upp „sviðsmynd um áfall“, væri tekinn til starfa og hafi Bolli Þór Bollason lagt áherslu á að báðir hóparnir skiluðu niðurstöðum sem fyrst. Tryggvi Pálsson hafi minnt á aðgerðaáætlun Andrew Gracie, sem gerði ráð fyrir því að „bönkunum yrði stillt upp við vegg þegar hið opinbera er búið að marka stefnuna“.

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. rituðu bréf 4. apríl 2008 til breska fjármálaeftirlitsins, þar sem greint var frá því að bankinn teldi heppilegast að fara þá leið að flytja Icesave reikninga og allar eignir frá útibúi bankans í London til Heritable Bank Ltd., en með því yrðu úr vegi ætluð vandamál í tengslum við íslenska innstæðutryggingarkerfið. Mikilvægt væri að flýta þessum flutningi og væri því ákjósanlegt að fara þá leið að ætla að innstæðueigendur væru honum samþykkir nema þeir létu annað í ljós, en ef lagaleg vandkvæði væru á þessu yrði að leita atbeina dómstóla til flutningsins. Að öðru leyti var lýst í bréfinu ráðagerðum um hvernig staðið yrði að því að færa starfsemi útibúsins yfir til dótturfélagsins og lausafjárstýringu hagað.

Sama dag komu bankastjórar Landsbanka Íslands hf. til fundar við seðlabankastjórana Davíð Oddsson og Ingimund Friðriksson ásamt Tryggva Pálssyni. Samkvæmt minnispunktum frá fundinum var spurt hvort léttara væri yfir íslensku bönkunum og kvað Sigurjón Þ. Árnason það vera og bætti svo við: „Swappum á móti hvor öðrum og fáum pening í ECB. ... Léttara yfir en ekki búnir að leysa vandann. Hræddir við að þessir samningar verði stoppaðir. 13-14% af íslenska kerfinu fjármagnað í ECB.“ Halldór J. Kristjánsson hafi sagt að Icesave væri „í neikvæðri umræðu“ og væri „góður dagur ef ekki fer meira en 25 m. út.“ Sigurjón hafi svo sagt að „£ 1,2 ma. hafa farið út.“ Halldór hafi upplýst að viðskiptavinir væru um 200.000 og væri „ekki „run“ en FSA að fara á taugum út af þessu.“ Tillaga hafi verið send þennan dag til breska fjármálaeftirlitsins, FSA, um flutning Icesave reikninganna yfir í Heritable Bank Ltd. FSA hafi verið „með smásmugulegri spurningar“ og væru þeir „hræddir við FSA“, en þar yrði „að fá skilning á hærra plani“.

Samkvæmt fundargerð frá fundi bankaráðs Landsbanka Íslands hf. 7. apríl 2008 kynntu bankastjórar þar ráðagerðir um sameiningu starfstöðva í London og tilhögun, sem rætt hafi verið um við breska fjármálaeftirlitið, en þeir myndu eiga fund með stofnuninni 11. sama mánaðar. Spurt var hvað myndi gerast ef þessum ráðagerðum yrði hafnað og var svar Sigurjóns Þ. Árnasonar eftirfarandi: „Þá verður að hugsa þetta upp á nýtt“. Að því búnu voru tillögur bankastjóranna samþykktar. Á fundinum var einnig farið yfir stöðu og horfur á fjármálamörkuðum og kom fram í því sambandi að mikilvægt væri að „ekki dragist að fá sterkt útspil frá Seðlabankanum.“ Sigurjón hafi lýst þeirri skoðun að „stemningin hérlendis væri alltof jákvæð og væntingar um að ástandið hefði þegar lagast, sem er ekki rétt“, svo og að hugsanleg sameining banka við ríkjandi aðstæður væri „flókin vegna fjármögnunarmála.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 7. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

15[breyta]

Sigurður Einarsson, formaður stjórnar Kaupþings banka hf., ritaði bréf til ákærða 9. apríl 2008 og sendi jafnframt afrit til Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra. Í bréfinu lýsti Sigurður þeirri skoðun að ákærða og Seðlabanka Íslands hafi orðið vel ágengt með yfirlýsingum um íslenskt efnahagslíf á undanförnum vikum, en til að fylgja því eftir bað hann um að fá að hitta ákærða á fundi til að greina frá viðbrögðum, sem hann hafi fengið frá mörgum erlendum banka- og fjölmiðlamönnum. Í bréfinu var því lýst nánar hvernig Sigurður teldi að standa þyrfti að næstu aðgerðum, þar á meðal að seðlabankinn næði „samkomulagi við trúverðugan aðila um lánalínur“, og væri þá æskilegt að greina ekki opinberlega frá því hversu stór hún væri. Til að svo gæti orðið þyrfti sá, sem samið yrði við, að hafa „trúverðugleika sem einungis evrópski eða jafnvel bandaríski seðlabankinn hafa“.

Seðlabanki Íslands tilkynnti 9. apríl 2008 að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hefði gefið út ársskýrslu um Ísland, sem fæli í sér „árlega endurnýjun upplýsinga til markaðarins en ekki ákvörðun um lánshæfismat.“ Samkvæmt skýrslunni standist Ísland mjög vel samanburð við önnur ríki, sem hafi jafn háar lánshæfiseinkunnir, á marga mikilvæga mælikvarða. Það væri mat fyrirtækisins að ekki væri fyrirsjáanlegt „áfall sem myndi raska greiðslugetu stjórnvalda“, en bankakerfið hafi stofnað til mikilla erlendra skulda og væri áhyggjuefni „að þessar óbeinu skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum reyni á getu stjórnvalda sem lánveitanda til þrautavara á þann veg að það samrýmist ekki lánshæfiseinkunninni“. Fyrirtækið teldi einnig að „nýlegar aðgerðir Seðlabanka Íslands hjálpuðu til við að létta á erfiðum fjármögnunarskilyrðum sem bankarnir sæta um þessar mundir.“

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt sinn 13. fund 10. apríl 2008. Í fundargerð var meðal annars greint frá því að farið hafi verið yfir vinnuskjal um sviðsmyndir fjármálaáfalls og komið hafi fram að það yrði að „þrýsta ... á bankana að bregðast við.“ Þá hafi verið dreift skjali um greiðslur úr innstæðudeild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ásamt drögum „að auglýsingu um frest til að lýsa kröfum“ og tveimur kostum um „yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.“ Þessi gögn varðandi tryggingarsjóðinn eru meðal gagna málsins, en skjalið, sem fyrst var nefnt og merkt trúnaðarmál, hafði að geyma samantekt um verkferli við kröfugerð á hendur sjóðnum og greiðslu krafna. Drögin að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar gáfu að undangenginni lýsingu á meginatriðum laga nr. 98/1999 tvo kosti, þar sem í öðrum sagði eftirfarandi: „Ríkisstjórnin lýsir því yfir að ríkissjóður muni veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta lán, sem stjórn sjóðsins er heimilt að taka á grundvelli 10. gr. laganna, til að sjóðnum sé fært að greiða kröfuhöfum (lágmarksgreiðslu/greiðslu að fjárhæð xxx).“ Hinn kosturinn var svohljóðandi: „Ríkisstjórnin lýsir því yfir að ef nauðsyn ber til mun ríkissjóður ábyrgjast allar innstæður/hluta innstæðna í xxx/öllum viðskiptabönkum og sparisjóðum á meðan óróleiki er á fjármálamörkuðum.“ Samkvæmt fundargerð samráðshópsins var ekki rætt frekar hvernig hagað yrði framhaldi þessa viðfangsefnis.

Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ritaði bréf 14. apríl 2008 til formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, þar sem vísað var til samtals, sem þeir hafi átt 7. sama mánaðar, og heimsóknar starfsmanna sjóðsins til Íslands í framhaldi af því. Því til samræmis væri send frumskýrsla sjóðsins um mat á stöðu Íslands, sem gerð hafi verið fyrir þátttakendur í fyrirhuguðum gjaldmiðlaskiptasamningum við seðlabankann. Í bréfinu var sérstök athygli vakin á því að um fernt væri rætt í nánar tilteknum lið í frumskýrslunni og því áliti lýst að þetta væru grundvallaratriðin þegar tekist yrði á við rót vandans, sem steðjaði að. Þessi atriði voru í fyrsta lagi að telja bankana á að minnka efnahagsreikninga sína og auka þannig trúverðugleika aðgerða, en í þessu skyni yrði að krefja hvern banka fyrir sig um áætlun um hvernig þetta yrði gert, leggja fyrir þá að stöðva greiðslu arðs til hluthafa og bæta þannig lausafjárstöðu sína, krefja þá um áætlun um hversu fljótt þeir gætu aflað lauss fjár með því að selja eignir og takmarka veitingu leyfa til að opna útibú erlendis. Í öðru lagi yrði að halda áfram vinnu við viðbúnaðaráætlun og þá sérstaklega að gera drög að frumvörpum til nauðsynlegra breytinga á lögum ef til þess kæmi að banki félli. Í þriðja lagi yrði að haga fjármálum ríkisins á trúverðugan hátt, þar á meðal með því að halda skuldum þess áfram í lágmarki, en með þessu yrði um leið aukið traust á bankakerfinu ef til þess kæmi að ríkið yrði að hlaupa undir bagga. Bent var á að gagnstætt þessu væri ráðgert í þjóðhagsáætlun að fjárfestingar ríkisins yrðu auknar, félagslegar bætur myndu hækka og skattar lækka. Í fjórða lagi væri síðan ráðgert að reglubundin athugun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á málefnum Íslands færi fram innan nokkurra mánaða til þess að unnt yrði að leggja mat á þróun mála og veita ráðgjöf um stefnumörkun á grundvelli ítarlegri upplýsinga.

Formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands sendi bréf 15. apríl 2008 til æðstu stjórnenda Englandsbanka, seðlabanka Evrópu og seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs. Þar var vísað til þess að Seðlabanki Íslands hafi leitað til þessara fimm banka um að gera við sig gjaldmiðlaskiptasamninga og var því lýst hversu mikilvægir slíkir samningar yrðu og af hvaða sökum. Seðlabankar norrænu landanna þriggja hafi lýst sig reiðubúna til að huga að því að gera slíka samninga að fjárhæð 500.000.000 evrur að fullnægðum vissum skilyrðum, enda tækist samkomulag um ýmis tæknileg atriði. Hinir bankarnir tveir hafi á hinn bóginn áskilið að fengið yrði mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu Íslands og hafi þess verið aflað. Það mat væri sent með bréfinu og væri óskað eftir viðbrögðum við erindinu svo fljótt sem verða mætti. Með bréfinu fylgdi einnig samantekt Seðlabanka Íslands um stöðu efnahagsmála á Íslandi og fjármálakerfið hér á landi, þar sem jafnframt var gerð grein fyrir tilgangi gjaldmiðlaskiptasamninganna, sem óskað væri eftir að gera.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 15. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð lagði fjármálaráðherra fram nýja þjóðhagsspá, þar sem var meðal annars fjallað um innlendan og alþjóðlegan fjármálamarkað, og var „málið rætt.“ Að öðru leyti ber fundargerðin ekki með sér að rætt hafi verið um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

16[breyta]

Samkvæmt minnisblaði frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur átti hún ásamt ákærða fund 16. apríl 2008 með bankastjórn Seðlabanka Íslands. Þar hafi verið greint frá viðræðum seðlabankans um gjaldmiðlaskiptasamninga við Englandsbanka, seðlabanka Evrópu, seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs og Alþjóðagreiðslubankann, en sá síðastnefndi hafi samþykkt að „hækka sína lánalínu“ í 500.000.000 bandaríkjadali og væri tilbúinn að tvöfalda þá fjárhæð. Almennt hafi komið fram hjá bankastjórninni að „þeir væru bjartsýnir á að við fengjum fyrirgreiðslu hjá þessum bönkum ... Viðhorfið hafi verið fremur jákvætt.“ Þá væri búið að gera samning við norrænu bankana „um 1,5 milljarð evra“, en seðlabanki Evrópu hafi gert „kröfu um meðferð“ hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sá breski hafi farið fram á að fengið yrði álit sjóðsins um að „það stæðist sem sagt væri um íslenskt efnahagslíf.“ Það álit hafi verið fengið. Samningar við norrænu bankana væru „líklega komnir um borð“, en í viðræðum við þann breska hafi verið sóst eftir að fá 3.000.000.000 evrur. Ef lánalínur væru orðnar um „6 milljarðar evra og gjaldeyrisforðinn er styrktur um 2 milljarða evra þannig að hann verði 4 milljarðar evra, er viðbúnaður í heild 10 milljarðar evra sem gæti fælt vogunarsjóðina frá.“ Þá sagði einnig eftirfarandi í minnisblaðinu: „Fram kom að skilyrði IMF og Norrænu bankanna eru eftirfarandi: 1) Hækka þarf gjaldeyrisforðann um 1-2 milljarða evra. 2) Vald Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins verði notað til þess að draga úr umfangi bankanna (down-size). 3) Stefna þarf að breytingu á Íbúðalánasjóði. 4) Draga þarf úr eða halda aftur af ríkisútgjöldum og skoða ákvæði í kjarasamningum um verðtryggingu. 5) Vegna viðkvæmni fjármálakerfisins þarf að gera úttekt á því á vegum IMF (FSAP). Fram kom á fundinum að Seðlabankinn telji ekkert því til fyrirstöðu að hann geti uppfyllt þau skilyrði sem að honum snúa og jafnframt kom fram að við hljótum að fagna úttekt á vegum IMF (article IV)“.

Breska fjármálaeftirlitið, FSA, ritaði bréf til bankastjóra Landsbanka Íslands hf. 16. apríl 2008. Í upphafi þess var vitnað til viðræðna í liðinni viku, þar sem fram hafi komið að FSA teldi reikninga á borð við Icesave reikninga leiða af sér meiri áhættu vegna lausafjárstöðu en annars konar innlánsreikninga, sérlega við þær aðstæður, sem uppi væru. Að auki væri Landsbanki Íslands hf. undir auknum þrýstingi vegna umfjöllunar í fjölmiðlum ásamt áhyggjum á heildsölumarkaði um styrkleika íslensks efnahagslífs og fjármálafyrirtækja. Til samans ylli þetta hættu á að miklar og örar úttektir gætu orðið af Icesave reikningunum. Að öðru leyti var því lýst hvernig FSA teldi að samkomulag hafi tekist um atriði varðandi lausafjárstýringu, innstæðutryggingar, vaxtaboð og flutning reikninganna frá útibúi Landsbanka Íslands hf. til dótturfélags hans. Um það síðastnefnda kom fram að sammæli hafi orðið um að þetta yrði ekki gert í flýti og yrði FSA að gera áreiðanleikakönnun á sama veg hvort sem bankinn kysi að leita atbeina dómstóla til að flytja reikningana eða myndi byggja á ætluðu samþykki innstæðueigenda.

Með bréfi til ákærða 17. apríl 2008 greindi framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði efnahags- og gjaldmiðilsmála frá því að fyrr í þeim mánuði hafi verið gerður samningur fjármálaeftirlita, seðlabanka og fjármálamálaráðuneyta ríkja Evrópusambandsins um viðbúnað gegn fjármálaáföllum. Í samningnum væri ákvæði um að ríkjum utan sambandsins á evrópska efnahagssvæðinu byðist að gerast aðilar að honum. Undirritun samningsins væri hafin og ráðgert að henni lyki ekki síðar en í lok júní 2008.

Ákærði flutti ávarp á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 18. apríl 2008. Þar vék hann meðal annars að því að fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafi borið því við að ekkert væri aðhafst vegna þeirra búsifja, sem þjóðarbúið hafi orðið fyrir vegna hremminga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Um þetta sagði ákærði meðal annars: „Sannleikurinn er sá að á vegum ríkisstjórnarinnar, en þó sérstaklega Seðlabankans, hefur að undanförnu verið unnið baki brotnu að því að greiða úr þeim vanda sem hinar alþjóðlegu aðstæður hafa skapað. Slíkar aðgerðir eru þess eðlis að undirbúningur þeirra tekur langan tíma og ekki er hægt að flytja af þeim fréttir frá degi til dags. Mikil opinber umræða getur verið óheppileg, skapað óraunhæfar væntingar og þar með jafnvel haft neikvæð áhrif.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 18. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

17[breyta]

Í málinu liggur fyrir minnisblað, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði um fund með ákærða „18. eða 19. apríl“ 2008, en í upphafi þess sagði að hún hafi óskað eftir fundinum „í kjölfar aðalfundar Samtaka atvinnulífsins.“ Meðal þess, sem getið var um í minnisblaðinu, voru viðræður um „efnahagsmálin og mikilvægi þess að það væri annars vegar hugað að björgunaraðgerðum og hins vegar framtíðarsýn“, svo og að Ingibjörg hafi rætt „um krísunefndina á vegum forsætisráðuneytis og mikilvægi þess að fá tillögur frá henni.“

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman til 14. fundar síns 21. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð var lagt fram á fundinum og rætt um „endurbætt vinnuskjal“ um sviðsmyndir fjármálaáfalls, en í þessu skjali, sem liggur fyrir í málinu, var brugðið upp þrennum mismunandi aðstæðum, þar sem bankar hefðu ratað í vandræði, og bornar upp allmargar spurningar um hver viðbrögð Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og ríkisins ættu að verða í einstökum atriðum. Leitast var við að svara þessum spurningum og dregnar voru fram niðurstöður, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Yfirvöld þurfa að yfirfara viðlagaáætlanir og útbúa heildstæða aðgerðaáætlun, t.d. að setja upp lista yfir aðila sem gætu komið að tímabundinni stjórnun viðkomandi starfsemi, þá valkosti sem yfirvöld standa frammi fyrir, t.d. yfirtöku eigna/skulda, brúunarbanka, sölu eigna, útskiptingar á starfsmönnum o.þ.h. Einnig þyrfti samhliða yfirtöku eigna/skulda að hafa heildstæða áætlun um samskipti við lánadrottna. Yfirvöld þurfa einnig að hefja fjármögnun vegna mögulegra björgunaraðgerða sem allra fyrst og ljóst er að öflun gjaldeyris eða trygg leið til öflunar hans í þessu skyni er bráðnauðsynleg.“ Að lokinni umfjöllun um vinnuskjalið sagði Bolli Þór Bollason að „næstu skref í viðbúnaðarstarfinu“ yrðu í fyrsta lagi að móta „sameiginlega stefnu stjórnvalda og setja þrýsting á bankana“ sem „ráðherrar og stjórnendur FME og SÍ“ myndu gera, í öðru lagi að undirbúa lagafrumvörp, sem fjármála- og viðskiptaráðuneyti myndu annast, í þriðja lagi að sinna málefnum, sem sneru að Íbúðalánasjóði og kæmu í hlut fjármálaráðuneytisins, og loks yrði í fjórða lagi „aðgerðaráætlun útfærð“, en í því efni væri „nauðsynlegt að móta afstöðu fyrir næsta fund um hvernig staðið yrði að gerð aðgerðaráætlunar.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 22. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

18[breyta]

Aðalbankastjóri Englandsbanka ritaði bréf 23. apríl 2008 til formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Þar kom fram að sá fyrrnefndi hafi ásamt samstarfsmönnum sínum farið ítarlega yfir beiðni seðlabankans um gerð gjaldmiðlaskiptasamnings og litið meðal annars til gagna, sem send hafi verið þremur norrænum seðlabönkum vegna sams konar erinda. Eftir þá skoðun hafi aðalbankastjórinn og samstarfsmenn hans ekki sannfærst um að gjaldmiðlaskiptasamningur eins og seðlabankinn óskaði eftir gæti borið árangur. Í því sambandi var vísað til þess að stærð íslensku viðskiptabankanna þriggja væri orðin slík að verulega erfitt yrði fyrir seðlabankann að gegna hlutverki sem lánveitandi til þrautavara og væri þetta að verða ljóst á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Eina lausnin við þessu væri að bregðast skjótt við með verulegri minnkun íslenska bankakerfisins, svo sem með því að selja einn eða fleiri banka eða stóran hluta erlendra eigna þeirra. Slíkt væri ekki auðvelt, en aðalbankastjórinn væri reiðubúinn að ræða um hvernig alþjóðasamfélagið gæti veitt aðstoð í þeim efnum og taka það meðal annars upp á fundi seðlabankastjóra helstu iðnríkja heims, sem haldinn yrði 4. maí 2008. Ef þetta yrði gert mætti ræða á ný um gjaldmiðlaskiptasamning, þótt hann bæri líklega fremur svip pólitískrar aðgerðar en fjármálalegrar.

Þetta bréf var framsent til ákærða með tölvubréfi frá Seðlabanka Íslands 23. apríl 2008. Síðar sama dag var ákærða einnig sent með tölvubréfi afrit af bréfi, sem formaður bankastjórnar seðlabankans sendi aðalbankastjóra Englandsbanka, en þar var óskað eftir að sá síðarnefndi tæki afstöðu sína til endurskoðunar. Formaður bankastjórnarinnar lýsti sig meðal annars fyllilega sammála því að nauðsynlegt væri að viðskiptabankarnir þrír drægju úr stærð sinni, en gjaldmiðlaskiptasamningur eins og leitað væri eftir myndi einmitt bæta mjög aðstöðu til að koma því í kring.

Ákærði átti fund með forsætisráðherra Bretlands 24. apríl 2008. Samkvæmt minnisblaði um fundinn spurði sá síðarnefndi hvort miklir erfiðleikar væru í íslenskum efnahagsmálum og svaraði ákærði að þeir væru helst „truflanir á lánsfjárstreymi.“ Íslensku bankarnir væru orðnir „nokkuð stórir miðað við íslenskan þjóðarbúskap“, en útlitið væri orðið betra en fyrir nokkrum vikum og til að tryggja frekari bata „hefðu íslensk stjórnvöld áhuga á samstarfi varðandi lánalínur á milli Seðlabanka Íslands og Englandsbanka eða á milli fjármálaráðuneyta ríkjanna.“ Þetta væri ekki spurning um lánafyrirgreiðslu, heldur „traustvekjandi aðgerð.“ Breski forsætisráðherrann kvaðst þá telja „best að sjá hvaða niðurstaða fengist úr viðræðum Seðlabanka Íslands og Englandsbanka en hann myndi jafnframt ræða við aðalbankastjórann þar.“ Þessu svaraði ákærði með því að hann hefði „á tilfinningunni að Englandsbanki væri fremur tregur í taumi og það væri miður því vandi Íslands væri aðallega ímyndarvandi.“

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. rituðu bréf 24. apríl 2008 til breska fjármálaeftirlitsins, FSA. Þar var greint frá viðhorfum bankastjóranna til þeirra atriða, sem talin voru í áðurgreindu bréfi FSA frá 16. apríl 2008 og samkomulag hafi tekist um á fundi þeirra 11. sama mánaðar. Flutningur á Icesave reikningum frá útibúi bankans í London til dótturfélags væri þó langtímamarkmið, sem yrði að íhuga vandlega áður en nokkuð yrði gert, en að líkindum yrði skynsamlegast að framkvæma þetta með atbeina dómstóla ef og þegar heppilegur tími kæmi til slíkrar aðgerðar. Yrði ákveðið að færa þessa starfsemi í dótturfélag treysti Landsbanki Íslands hf. því að skilmálar, sem samkomulag hafi tekist um, myndu þá gilda. FSA svaraði þessu með bréfi 25. apríl 2008, þar sem nokkrar athugasemdir voru gerðar við skilning bankastjóra Landsbanka Íslands hf. um samkomulag milli þeirra. Þar var einnig tekið fram að FSA væri nú ljóst að flutningur Icesave reikninganna til dótturfélags stæði ekki til innan skamms tíma, en FSA myndi áfram líta á þetta sem valkost og væri reiðubúið til að ræða það frekar.

Tveir af bankastjórum Seðlabanka Íslands áttu ásamt þremur öðrum starfsmönnum bankans fund 25. apríl 2008 með forstjóra Fjármálaeftirlitsins, forstjóra Glitnis banka hf., formanni stjórnar Kaupþings banka hf. og bankastjórum Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt minnispunktum um fundinn greindi Davíð Oddsson frá því í upphafi hans að bankastjóri seðlabanka Evrópu hefði hringt til sín „og var niðri fyrir, hálf æstur“ út af mikilli notkun íslensku bankanna þriggja á lausafjárfyrirgreiðslu bankans með óeðlilegum bréfum á hendur hverjum öðrum, en um 4.000.000.000 evrur hefðu farið í slíkum viðskiptum gegnum seðlabankann í Luxemborg. Davíð hafi sagt þetta vera „gríðarleg vandræði“ og væru „samtöl“ við erlenda seðlabanka, sem hafi átt að ljúka fyrir 10. maí 2008, „sett í uppnám.“ Gefið væri í skyn „að við séum að brjóta reglur“, sem „við megum ekki við ... núna.“ Krafist hafi verið að fulltrúar íslensku bankanna, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands kæmu til fundar næsta mánudag í seðlabankanum í Luxemborg. Í minnispunktunum var haft eftir öðrum bankastjóra Landsbanka Íslands hf. að hann ætti „ýmis bréf og meðal þeirra eru bréf milli bankanna sem eru repóhæf ... Kannski finnst þeim óeðlilegt að við eigum bréf á hvern annan, það gerist einnig hjá öðrum.“ Davíð Oddsson hafi lýst því að hann hafi sagt bankastjóra seðlabanka Luxemborgar í samtali, sem þeir hafi átt af þessu tilefni, að „íslensku bankarnir hefðu verið í góðri trú“ og hafi hann spurt hvort unnt væri að „frysta og lækka svo í áföngum.“ Erlendi bankastjórinn hafi sagst skilja að þannig yrði að gera þetta og svo spurt „hvort væri krísa“, sem Davíð hafi neitað. Á fundinum hafi Davíð síðan tekið fram að það yrði „að róa þessa menn svo að ekki verði áfall“, svo og að ef „við náum ekki öðrum aðgerðum þá gæti orðið dýfa í lánshæfi.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 25. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

19[breyta]

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt sinn 15. fund 28. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð greindi Ingimundur Friðriksson frá kvörtun, sem Seðlabanka Íslands hafi borist frá bankastjóra seðlabanka Evrópu 25. sama mánaðar, vegna „endursölu verðbréfa íslensku viðskiptabankanna til ECB gegnum Luxembourg.“ Hafi bankastjórinn talið umfangið vera of mikið miðað við starfsemi íslensku bankanna í Luxemborg og væru skuldabréfin „að hluta til málamyndagerningar milli íslensku bankanna.“ Á fundi, sem haldinn hafi verið með forráðamönnum bankanna í framhaldi af þessari kvörtun og greint var frá hér að framan, hafi komið fram að endurkaup seðlabanka Evrópu af íslensku bönkunum „hlaupa á nokkrum milljörðum evra“, en þar af væru „rúmlega 1,5 ma evra í bréfaviðskiptum þeirra á milli.“ Ingimundur hafi tekið fram að „alvarlegur fjármögnunarvandi steðjar að ef vinda þarf ofan af endurkaupum þessum í skyndi.“ Jónas Fr. Jónsson hafi sagt bankana hafa talið sig fara eftir reglum seðlabanka Evrópu, en „það veki athygli hvað aukningin er mikil á stuttum tíma.“ Tryggvi Pálsson hafi getið þess að viðbrögð seðlabanka Evrópu „gætu verið vísbending um neikvæða afstöðu ... til þreifinga Seðlabankans að undanförnu.“ Samkvæmt fundargerð var að þessu loknu greint frá fundi ákærða með forsætisráðherra Bretlands 24. apríl 2008. Loks var á fundinum farið yfir aðgerðaáætlun og lét Áslaug Árnadóttir þess getið að viðskiptaráðuneytið ynni að smíð lagafrumvarpa í samráði við Fjármálaeftirlitið, þar á meðal um breytingu á lögum um sértryggð skuldabréf, auk þess sem Jónas Fr. Jónsson „lagði fram lista sem dregur fram helstu stefnumarkandi ákvarðanir sem stjórnvöld þyrftu að taka í aðdraganda fjármálaáfalls (nefndur ólystugi matseðillinn).“ Í þeim lista var meðal annars getið hvort auka ætti „möguleika fjármálafyrirtækja til þess að selja fjármálagerninga til opinberra aðila“, ákveða yrði „fjárhæð (umfram lágmarkstryggingavernd) sem ríkið er reiðubúið að ábyrgjast“ og heildarfjárhæð hugsanlegs eiginfjárstuðnings, afmarka yrði skýrlega hverjir myndu njóta stuðnings á grundvelli fjárhagslegra viðmiðana og kerfislegs mikilvægis, ákveða yrði meginskilyrði fyrir eiginfjárstuðningi, þar á meðal „stjórnendur, þynning hluta, sala eigna“, og hafa yrði tilbúin lagafrumvörp um „eiginfjárstuðning (þynningu hluta), þvingaðan samruna, brúunarbanka.“ Ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu sendi ákærða þessa fundargerð með tölvubréfi 29. apríl 2008.

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. sendu bréf 28. apríl 2008 til breska fjármálaeftirlitsins, FSA, þar sem að mestu var rætt um atriði, sem vörðuðu lausafjárstýringu. Þar var einnig tekið fram að bankinn skildi afstöðu FSA til flutnings Icesave reikninga frá útibúi hans til dótturfélags, svo og að skoðanaskipti um það efni myndu halda áfram ef og þegar bankinn ákvæði að frekari skref yrðu stigin til slíkra breytinga.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 29. apríl 2008. Samkvæmt fundargerð var ekki rætt þar um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja, en viðskiptaráðherra kynnti frumvarp til laga um breytingu á lögum um sértryggð skuldabréf nr. 11/2008 og lagði til að málið yrði sent til þingflokka stjórnarflokkanna, sem var samþykkt.

20[breyta]

Samkvæmt minnisblaði, sem Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri tók saman í október 2008, meðal annars um samskipti við erlenda seðlabanka á því ári, óskaði bankastjóri sænska seðlabankans eftir að fá að senda í apríl 2008 sérfræðinga hingað til lands til að „taka út stöðu íslenskra banka sérstaklega.“ Í málinu liggur fyrir skýrsla þessara sérfræðinga 30. apríl 2008, þar sem meðal annars kom fram að eignir íslensku bankanna þriggja væru af háum gæðum og gegndi sama máli um eiginfjárstöðu þeirra. Fyrstu merki um batnandi stöðu á lánsfjármarkaði væru þegar komin fram, svo sem séð yrði af verulegri lækkun á skuldatryggingarálagi. Á hinn bóginn væri brýnt að halda uppi trú fjárfesta á getu Seðlabanka Íslands til að standa undir því hlutverki að geta lagt bönkunum til lausafé, bæði í innlendum og erlendum gjaldmiðlum, ef allt um þryti. Gjaldmiðlaskiptasamningar milli Seðlabanka Íslands og annarra seðlabanka gætu verið skilvirk leið til að tryggja slíkt traust, enda yrði þannig sýnt að Íslendingar nytu alþjóðlegs stuðnings. Einnig skipti máli við ríkjandi markaðsaðstæður að vantrú á því að Íslendingar væru færir um að styðja við kerfislega mikilvæga banka sína gæti haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika í öðrum löndum. Seðlabanki Íslands hefði þegar um 2.500.000.000 evrur í gjaldeyrisvarasjóði og hefði í hyggju að auka hann um einn eða tvo milljarð evra. Gjaldmiðlaskiptasamningar, sem tryggja myndu aðgang að fimm til sex milljarð evrum til viðbótar, yrðu til þess að Seðlabanki Íslands réði yfir sem svaraði 40% af erlendum innlánum í bönkunum þremur eða um tvöfalda þá fjárhæð, sem kæmi í gjalddaga á árinu 2008 af skuldum bankanna í erlendum gjaldmiðlum.

Í öðru minnisblaði frá Ingimundi Friðrikssyni 20. júní 2008 var þess getið að bankastjóri seðlabanka Svíþjóðar hafi 4. maí sama ár greint seðlabankastjórum helstu iðnríkja heims frá mati sínu á stöðu mála á Íslandi, sem reist væri á framangreindu áliti sérfræðinga sænska bankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Jafnframt sagði þar eftirfarandi um þetta: „Enginn var tilbúinn að gera samning við Seðlabanka Íslands. Viðhorf til hugsanlegrar samningsgerðar við Seðlabankann virðast hafa verið sérstaklega neikvæð á fundinum sem olli því m.a. að afstaða sænska seðlabankans varð mun neikvæðari en áður.“

Samkvæmt fundargerð frá fundi bankaráðs Landsbanka Íslands hf. 6. maí 2008 var meðal annars greint þar frá því að „forsendubreyting hefur orðið varðandi stofnun nýs dótturfélags í London þannig að það frestast.“ Einnig var þar samþykkt tillaga um „að stofna dótturfélög annars vegar í Hollandi og hins vegar í Canada sem sæki um leyfi til að umbreyta útibúum bankans í þeim löndum yfir í almennan viðskiptabanka.“ Rætt var um stöðu og horfur á alþjóðamarkaði og þess getið að enn væru þar miklar sveiflur, en „meiri jákvæðni virðist þó gæta á meðal markaðsaðila, útgefenda og fjárfesta um þróunina framundan.“ Þá hafi skuldatryggingarálag íslensku bankanna „farið nokkuð hratt niður á við undanfarnar vikur.“ Loks er þess að geta að samkvæmt fundargerðinni var rætt um stöðu fyrirhugaðrar innlánastarfsemi í Hollandi og „önnur innlánaverkefni erlendis“, en formaður bankaráðsins hafi tekið fram „að hann teldi skynsamlegt að sækja um bankaleyfi í fleiri löndum til innlánastarfsemi.“ Ríkisstjórn Íslands hélt fundi 2. og 6. maí 2008. Samkvæmt fundargerðum var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

21[breyta]

Samkvæmt minnisblaði, sem virðist stafa frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, átti hún ásamt ákærða fund með Davíð Oddssyni seðlabankastjóra 7. maí 2008. Þar var haft eftir Davíð að „engar líkur væru á að Evrópubankinn yrði með og líklega ekki breski bankinn þrátt fyrir ... góð fyrirheit“, en ekki hafi komið fram hvaða ástæður væru fyrir því. Þá hafi verið sagt frá því að íslensku viðskiptabankarnir hafi haft „repólínu í Luxemborg upp á 4 milljarða evra“ og hafi bankastjóri seðlabanka Evrópu reiðst mjög yfir því, sem hann teldi misnotkun á þessum aðgangi, en um „1,5 milljarðar evra væru bréf milli bankanna og tengdra aðila.“ Krafist hafi verið að undið yrði ofan af þessu og hafi það þegar verið gert að hluta. Davíð hafi jafnframt greint frá því að „það færi í taugarnar á breska bankanum að íslensku bankarnir séu farnir að auka innlánastarfsemi og þeir séu að bjóða upp á betri kjör en þeir bresku ... og þetta sé næsta vandamál.“ Hann hafi lýst því að vonast væri til að ekki kæmi „bakslag í norrænu bankana“, en Seðlabanki Íslands hefði aðgang að 1.500.000.000 evrum hjá þeim, auk 750.000.000 evra hjá Alþjóðagreiðslubankanum.

Í áðurnefndu minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar frá október 2008 var þess meðal annars getið að samkvæmt beiðni Seðlabanka Íslands í lok mars á sama ári hafi Alþjóðagreiðslubankinn veitt honum „1 ma. evra lánalínu“, en um „mánaðarlegan samning“ hafi verið að ræða, sem seðlabankinn hafi átt að óska eftir að fá framlengdan eftir lok hvers tímabils. Vegna ókunnugleika um þetta fyrirkomulag hafi misfarist að óska eftir framlengingu við lok fyrsta tímabilsins „í byrjun maí“. Þegar þetta hafi komið í ljós hafi tafarlaust verið óskað eftir framlengingu, sem hafi verið neitað um, en „augljóst virtist að samningur bankastjórans við Seðlabanka Íslands hefði ekki fallið í góðan jarðveg í stjórn bankans.“

Á Alþingi var borin upp skrifleg fyrirspurn til ákærða um eftirfarandi: „Hvernig hefur samskiptum ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra, viðskiptaráðherra eða eftir atvikum annarra ráðherra og Seðlabankans verið háttað undanfarna mánuði? Hversu margir fundir, formlegir eða óformlegir hafa verið haldnir milli aðila, hafa bréf eða orðsendingar gengið á milli o.s.frv.? ... Er rétt að ríkisstjórnin hafi fyrir nokkrum mánuðum hafnað eða ekkert gert með beiðni frá Seðlabankanum um að auka gjaldeyrisvaraforðann?“ Ákærði svaraði þessari fyrirspurn á þingfundi 7. maí 2008. Þar sagði hann meðal annars: „Það eru haldnir reglubundnir formlegir fundir sem eru undirbúnir fyrir fram þar sem báðir aðilar leggja fram ákveðið efni sem síðan er farið yfir og slíkir fundir hafa verið með venjubundnum hætti. En vegna þeirra aðstæðna sem hafa verið að undanförnu ... þá hefur þetta samstarf verið enn meira og enn þéttara en oft áður. ... Menn hafa verið að funda mjög mikið um ákveðin atriði, bæði símleiðis og með öðrum hætti og síðasti fundurinn um þessi mál var óvænt í morgun. Þetta er því allt saman eins og það á að vera. Ég hef hins vegar ekki látið taka saman hversu margir þessir fundir eru, hversu mörg símtöl hafa átt sér stað eða hvaða orðsendingar hafa gengið á milli.“ Um síðasta þáttinn í fyrirspurninni sagði ákærði að þetta væri „hrein fjarstæða ... og bæði ríkisstjórn og Seðlabanki, eins og ég hef margoft látið koma fram, vinna af fullum krafti í því máli.“ Í umræðum, sem urðu í framhaldi af svari ákærða, bætti hann því við að tekist hafi að „spara heilmikla peninga“ með því að frestað hafi verið um einn eða tvo mánuði að taka lán til að efla gjaldeyrisforða, enda hafi lánskjör batnað. Í riti um fjármálastöðugleika, sem Seðlabanki Íslands gaf út 8. maí 2008, var meðal annars grein undir fyrirsögninni „álit Seðlabanka Íslands“, sem bar heitið: „Ríkjandi aðstæður reyna á viðnámsþrótt bankanna“. Í byrjun greinarinnar sagði að atburðarás, sem „hófst eftir mitt síðasta ár og afleiðingar hennar á alþjóðlegum fjármálamarkaði voru óvæntar“, og voru ástæður hennar raktar nánar. Í framhaldi af því sagði að ársreikningar þriggja stærstu bankanna hér á landi hafi sýnt að þeir væru „þróttmiklir“ og „ágætlega í stakk búnir til að takast á við vaxandi vanskil og útlánatöp.“ Aðstæður á alþjóðlegum mörkuðum hafi á hinn bóginn haft „meiri áhrif á íslensku bankana en ella þar sem erlend markaðsfjármögnun er stór hluti af skuldum þeirra.“ Við þessu hafi þeir brugðist með því að hægja á vexti útlána, ráðast í einkaútgáfur, draga úr kostnaði og auka innlán, en almennt hafi það síðastnefnda gengið vel og hafi í árslok 2007 meira en ⅔ hlutar innlána verið frá útlöndum. Í lok greinarinnar sagði síðan eftirfarandi: „Á heildina litið er niðurstaða Seðlabankans enn sú að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert.“

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman til 16. fundar síns 9. maí 2008. Samkvæmt fundargerð hafði gengi íslensku krónunnar lækkað þennan dag og þann næsta á undan og væri sú skýring helst nefnd „á markaðnum ... að vonbrigðum hafi valdið að á fréttamannafundi í Seðlabankanum hafi ekki verið sagt frá styrkingu gjaldeyrisforðans eða öðrum opinberum aðgerðum.“ Á fundinum var greint frá því að fjármálaráðherra hafi 6. maí 2008 tilkynnt að Ísland vildi gerast aðili að samningi fjármálaeftirlita, seðlabanka og fjármálamálaráðuneyta ríkja Evrópusambandsins um viðbúnað gegn fjármálaáföllum. Þá var lögð fram greinargerð frá viðskiptaráðuneytinu um „ábyrgð á innstæðum“, þar sem meðal annars kom fram að heildarfjárhæð „tryggðra innstæðna“ samkvæmt lögum nr. 98/1999 hafi í árslok 2007 verið um 2.318.000.000.000 krónur, en heildareignir í innstæðudeild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta væru á fundardegi „tæplega 11 ma.kr. auk ábyrgðaryfirlýsinga frá aðildarfélögum að fjárhæð 6.045 m.kr.“ Ríkisstjórnin gæti gefið út yfirlýsingu um að ríkið myndi veita tryggingarsjóðnum lán til þess að honum yrði fært að greiða hverjum innstæðueiganda allt að 1.700.000 króna lágmarksgreiðslu eftir ákvæðum laga nr. 98/1999 eða að ríkið tæki á sig ábyrgð á slíkum greiðslum. Ef síðarnefnda leiðin yrði farin þyrfti að ákveða hvort ábyrgð ríkisins tæki til innstæðna í öllum viðskiptabönkum og sparisjóðum, hvort ábyrgðin stæði um tiltekinn tíma og hversu há hún yrði. Miðað við fjárhæðir, sem ráðuneytið hafi aflað í september 2007, myndi tryggingarvernd fyrir lágmarksfjárhæðinni nema samtals 115.300.000.000 krónum, en yrði á hinn bóginn miðað við tryggingarvernd allt að 10.000.000 krónum gæti komið til greiðslu á 732.000.000.000 krónum. Af síðastgreindri fjárhæð væru 482.600.000.000 krónur komnar til vegna innstæðna í Landsbanka Íslands hf.

Ríkisstjórn Íslands hélt fund 9. maí 2008. Samkvæmt fundargerð voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

22[breyta]

Í minnisblaði, sem virðist stafa frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, átti hún ásamt ákærða fund með bankastjórn Seðlabanka Íslands 15. maí 2008. Á fundinum hafi verið greint frá því að komnir væru á samningar við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs um gjaldmiðlaskiptasamninga fyrir 1.500.000.000 evrur, en að auki myndi Alþjóðagreiðslubankinn „koma með 1.500 millj. dollara“ og finnski seðlabankinn bæta við 250.000.000 evrum á síðara stigi. Væri því tiltækur gjaldeyrisvarasjóður, gjaldmiðlaskiptasamningar og lán fyrir samtals 6.000.000.000 evrur. Á fundinum hafi einnig verið rætt um mikilvægi þess „að bankarnir dragi úr starfsemi sinni.“

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 17. fund sinn 15. maí 2008. Samkvæmt fundargerð var meðal annars greint frá því á fundinum að enn væri unnið að gerð lagafrumvarpa í viðskiptaráðuneytinu, sem áður hafi verið rætt um, en sú vinna væri langt komin og mætti ljúka henni „mjög hratt ef á þyrfti að halda.“

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing dagsett 16. apríl 2007, sem undirrituð var af ákærða, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og öllum þremur bankastjórum Seðlabanka Íslands. Samkvæmt því, sem fram kom í munnlegum skýrslum ákærða og nokkurra vitna fyrir dóminum og nánar er greint frá hér síðar, mun þessi yfirlýsing hafa verið undirrituð 16. maí 2008. Í yfirlýsingunni, sem var merkt sem algert trúnaðarmál og stíluð til bankastjóra seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs, sagði að tilgangurinn með gjaldeyrisskiptasamningum erlendu seðlabankanna þriggja og Seðlabanka Íslands væri að auka trú á efnahag Íslands til skamms tíma og veita þannig svigrúm til að fást við grundvallaratriði. Ekki væri ætlast til þess að gjaldeyrisskiptasamningarnir yrðu nýttir, en yrði það gert yrði féð nýtt til að stækka gjaldeyrisvarasjóð. Samningarnir yrðu þá nýttir í jöfnum hlutföllum og mætti hvorki verja fénu til að grípa inn í markaði né endurfjármagna banka. Yrði slík endurfjármögnun nauðsynleg myndi ríkisstjórnin nýta annað fé í því skyni og ekki styrkja bankana eða hluthafa í þeim. Til að auka traust og tryggja stöðugleika fjármálakerfisins og þjóðarhags væri því lýst yfir að gripið yrði til eftirfarandi aðgerða: Í fyrsta lagi að ríkisstjórnin afli sér með hraði eins til tveggja milljarð evra, en yrði gengið á gjaldmiðlaskiptasamningana myndi ríkisstjórnin taka lán sömu fjárhæðar. Í öðru lagi að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið neyti valdheimilda sinna til að þrýsta á bankana til að draga úr heildarstærð efnahagsreikninga sinna með þeim aðferðum, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi lagt til. Í þriðja lagi verði með hraði gerð trúverðug áætlun um endurskipulagningu íbúðalánakerfisins og sú áætlun gerð opinber til að auka skilvirkni peningamálastefnunnar. Í fjórða lagi verði fylgt þeirri stefnu að viðhalda lágu skuldastigi hins opinbera og styrkja umgjörð ríkisfjármála til að gæta varfærni í efnahagsmálum og forðast frekari skuldasöfnun, en þetta verði gert eftir þeim tillögum, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi sett fram. Að auki verði hugað að því hvernig bregðast megi við kaupmáttarákvæðum í kjarasamningum. Í fimmta lagi verði kærkomið að fá uppfært mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fjármálakerfinu til að geta metið stöðuna af meiri nákvæmni, en í viðræðum við sjóðinn vegna reglubundinnar úttektar gefist tækifæri til að meta stöðuna í heild. Í sjötta lagi muni Seðlabanki Íslands veita seðlabönkunum þremur ítarlegar upplýsingar um hvernig framangreindum aðgerðum miði áfram.

Tilkynnt var 20. maí 2008 að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hafi lækkað tvo liði í lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins úr flokknum Aaa í Aa1, en sagt horfur þá vera stöðugar. Í skýringum fyrirtækisins kom fram að þessi lækkun ætti rætur að rekja til hættu á því að ríkið kynni að þurfa að afla verulegra fjárhæða í erlendum gjaldmiðlum vegna skuldbindinga íslenskra viðskiptabanka, en þó væri mjög ólíklegt að slík staða gæti komið upp. Einnig yrði að taka tillit til þess að Ísland ætti aðgang að erlendu fé til að fást við hvers konar vanda í efnahagsmálum, svo sem sæist glöggt af gjaldmiðlaskiptasamningum við hin Norðurlöndin, sem nýlega hafi verið tilkynnt um, og væri því áhætta í tengslum við greiðslugetu hverfandi.

Ríkisstjórn Íslands hélt fundi 13., 16. og 20. maí 2008. Samkvæmt fundargerðum kynnti ákærði gjaldmiðlaskiptasamninga Seðlabanka Íslands við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs á fundinum 16. maí og var „málið rætt“, en að öðru leyti var ekki fjallað á þessum fundum um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

23[breyta]

Í minnisblaði til ráðherra og ráðuneytisstjóra 21. maí 2008, sem virðist hafa verið gert af starfsmönnum í fjármálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu, var vísað til þess að ákærði hafi á ársfundi Seðlabanka Íslands í mars á sama ári greint frá ráðagerðum um erlenda lántöku ríkisins til að styrkja gjaldeyrisvaraforða bankans. Íslenska hagkerfið væri viðkvæmt fyrir áhrifum alþjóðlegrar lánsfjárkreppu vegna mikilla erlendra fjárfestinga og ójafnvægis í efnahagslífinu. Stærsta áhættan við lánsútboð fyrir ríkið væri sú að ekki tækist að selja þá fjárhæð, sem það hljóðaði á, eða að kjör yrðu ekki viðunandi, en lántakan yrði engu að síður að vera það stór að sýnilegt yrði á markaði að ríkið gæti náð í talsvert lánsfé með ásættanlegum kjörum. Seðlabanki Íslands, sem myndi annast slíkt útboð, teldi aðstæður á erlendum fjármálamörkuðum hafa batnað mikið á undanförnum vikum og legði því til að efnt yrði til útboðs á skuldabréfum að fjárhæð 1.000.000.000 evrur, sem mætti hækka ef eftirspurn yrði næg. Stefnt yrði að því að ljúka lántökunni í síðasta lagi í lok fyrstu viku júní 2008, en yrðu undirtektir dræmar mætti búast við að lántökunni yrði frestað um óákveðinn tíma. Við slíku byggist seðlabankinn þó ekki.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði í 18. sinn 21. maí 2008. Í fundargerð kom meðal annars fram að gerð hafi verið grein fyrir því að lokið hafi verið við gjaldmiðlaskiptasamninga Seðlabanka Íslands við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs, svo og að rætt hafi verið um breytingu á lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins hjá Moody´s Investors Service. Þá var þess og getið að í viðskiptaráðuneytinu lægju fyrir drög að lagafrumvarpi um þau atriði, sem rætt hafi verið um á fundi samráðshópsins 28. apríl 2008, og væri unnt að leggja það fram með eins sólarhrings fyrirvara.

Samkvæmt fundargerð frá fundi í bankaráði Seðlabanka Íslands 23. maí 2008 komu þar til umræðu gjaldmiðlaskiptasamningar, sem gerðir höfðu verið við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs, og létu margir fundarmenn í ljós að þeir teldu vel hafa verið að verki staðið. Einn fundarmanna lét þess einnig getið í því sambandi að „nýta þyrfti styrk ríkissjóðs til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans“, annar kvaðst telja ástæðu til að „bankaráðið kæmi oftar saman þegar jafn afgerandi atburðir yrðu“ og hefði hann efasemdir um að einhverju hámarki hafi verið náð „um óefni í efnahagslífinu“, en sá þriðji lýsti þeirri skoðun að bankarnir „væru komnir yfir erfiðustu hjallana en þjóðin ekki.“ Þá hafi formaður bankastjórnar greint frá því að veðlán bankans til fjármálafyrirtækja næmu samanlögð í hverri viku um það bil sömu fjárhæð og fjárlögum ríkisins, en tryggingar fyrir um 170.000.000.000 krónum „væru bréf sem bankarnir gæfu út hver til annars til að leggja fram í veðlánum.“

Í bréfi, sem breska fjármálaeftirlitið, FSA, sendi bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 23. maí 2008, var lýst áhyggjum af því að ekki hafi enn tekist að fá niðurstöðu um lausafjárkröfur, sem gera þyrfti vegna innlánasöfnunar í útibúi bankans í London, þrátt fyrir viðræður undangenginna tveggja mánaða. Þá kom einnig fram að FSA hefði áhyggjur af því við ríkjandi markaðsaðstæður að tryggð viðskiptavina myndi ekki standa því í vegi að þeir tækju út innstæður sínar ef áhlaup hæfist á bankann. Að því gefnu að bankinn hætti ekki að færa úr Bretlandi fé frá útibúi sínu í London yrði að ætlast til að það hefði handbært fé til að mæta á allt að átta dögum úttektum á 30% af innstæðum, sem þar hafi verið safnað á óbundna reikninga.

Ríkisstjórn Íslands hélt fundi 23. og 27. maí 2008Samkvæmt fundargerð frá fyrri fundinum kynnti fjármálaráðherra þar frumvarp til laga um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008, sem samþykkt var að senda þingflokkum stjórnarflokkanna til meðferðar. Í 1. gr. þess frumvarps var ráðgert að fjármálaráðherra yrði heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka á árinu 2008 lán að fjárhæð allt að 500.000.000.000 krónur eða jafnvirði hennar í erlendri mynt og endurlána Seðlabanka Íslands þann hluta, sem tekinn yrði að láni í erlendri mynt. Í athugasemdum við frumvarpið kom fram að ráðgert væri að nýta þessa heimild annars vegar til að taka erlent lán, sem yrði endurlánað seðlabankanum til að styrkja gjaldeyrisforða hans, og hins vegar til að gefa út ríkisverðbréf á innlendum markaði. Að öðru leyti verður ekki séð af fundargerðum að rætt hafi verið á þessum fundum um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

24[breyta]

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 19. fund sinn 29. maí 2008. Í fundargerð var meðal annars greint frá því að rætt hafi verið um tilkynningu Landsbanka Íslands hf. „um markaðssetningu á Icesave innlánum í Hollandi gegnum útibúið í Amsterdam en það eykur enn skuldbindingar Tryggingarsjóðsins“, svo og að komið hafi fram að hjá Fjármálaeftirlitinu lægju fyrir tíu umsóknir um stofnun útibúa íslenskra banka erlendis. Jafnframt að skuldatryggingarálag hafi verið „að færast upp á síðustu vikum fyrir Kaupþing og Glitni.“ Undir dagskrárliðnum „möguleg ákvarðanataka á undirbúningsstigi (ólystugi matseðillinn)“ kvaðst Jónas Fr. Jónsson „staldra við 5 m.kr. viðmiðið í innlánum sem dekkar 95% innlána, sbr. skýrslu viðskiptaráðuneytisins, dags. 9. maí sl., um ábyrgð á innstæðum.“ Í framhaldi af því hafi Baldur Guðlaugsson lýst því áliti að „ekki væri hægt að hafa mótaða skoðun, allt væri háð aðstæðum.“ Jónas hafi nefnt af því tilefni að stuttur tími gæfist til viðbragða eins og hafi sýnt sig erlendis, en „tveggja sólarhringa fyrirvari væri lúxus og því væri nauðsynlegt að vera undirbúin“, enda yrði að „einangra vandamál og koma í veg fyrir útbreiðslu skaðans.“ Baldur hafi þá sagt „að fráleitt væri að hægt sé að marka stefnu nú.“ Enn hafi Jónas svarað með því að í tilteknu bresku tilviki hafi það tekið stjórnvöld „marga daga að átta sig á stöðunni og undirbúningur þeirra hefði reynst ónógur“, en hver dagur í töf gæti aukið tjónið verulega. Bolli Þór Bollason hafi talið „meira talnaefni vanta“, en gagnlegt yrði að sjá „hversu fjárhæðin breytist við mismunandi viðmið, hversu stór erlendu innlánin eru og hve mikið fé gæti komið frá erlendum tryggingarsjóðum.“ Jónas og Áslaug Árnadóttir hafi tekið að sér að afla þeirra upplýsinga. Jafnframt kvaðst Bolli vilja „fá skriflega lýsingu á hugsanlegum smitáhrifum í áfalli“ og Baldur bætt við að „einnig þurfi að koma fram plúsar og mínusar við aðgerðir“, en í tilefni af því síðarnefnda hafi Jónas bent á að útreikningar Seðlabanka Íslands „á mögulegum kostnaði við lausn fjármálaáfalls og hagvaxtartap“ hefðu þegar verið lagðir fram á fundi samráðshópsins. Ingimundur Friðriksson hafi lýst þeirri skoðun að unnt ætti að vera að taka ákvörðun þegar umbeðnar upplýsingar lægju fyrir. Hann benti einnig á að „útreikningar á kerfislegu mikilvægi“ lægju þegar fyrir hjá samráðshópnum, en Tryggvi Pálsson tók fram að það væri „kristaltært að stóru bankarnir þrír væru kerfislega mikilvægir“.

Breska fjármálaeftirlitið ritaði bréf 29. maí 2008 til bankastjóra Landsbanka Íslands hf., þar sem því var lýst að gengið væri út frá því að bankinn færi eftir reglum um lausafjárstýringu, sem fram komu í fylgiskjali með bréfinu. Í þeim reglum var meðal annars kveðið á um að bankinn yrði á hverjum tíma að eiga í varasjóði að minnsta kosti 5% af öllum óbundnum innstæðum í sterlingspundum og skyldi hann varðveittur á reikningi við Englandsbanka eða á annan nánar tilgreindan hátt. Þá yrði bankinn að hafa handbært fé til að mæta á allt að átta dögum úttektum á 30% af óbundnum innstæðum í sterlingspundum, en takmarkanir væru ekki settar við því að innlánsfé, sem bærist útibúi bankans í London, yrði látið renna til höfuðstöðva hans á Íslandi.

Ríkisstjórn Íslands hélt fund 30. maí 2008. Samkvæmt fundargerð var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

25[breyta]

Samkvæmt fundargerð frá fundi bankaráðs Landsbanka Íslands hf. 2. júní 2008 hafði matsfyrirtækið Fitch Ratings þá nýlega staðfest lánshæfiseinkunnir bankans, en lækkað á hinn bóginn einkunnir hinna íslensku bankanna tveggja. Um leið hafi þeir verið teknir af lista yfir þá, sem hugsanlega myndu sæta lækkun á lánshæfiseinkunnum, en horfur þeirra væru enn neikvæðar. Skuldatryggingarálag Landsbanka Íslands hf. hafi lækkað og væri um helmingur af álagi Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. Viðræður væru aftur hafnar við erlenda fjárfesta, en þeir hafi lengi neitað að eiga slík samskipti. Gjaldmiðlaskiptasamningar Seðlabanka Íslands við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs hafi haft „jákvæð áhrif á þróunina gagnvart íslensku bönkunum en nægir þó ekki til að endurheimta fyrra traust.“ Markaðurinn væri „að einhverju leyti að byrja að jafna sig á sjokkinu sem varð í mars s.l. en lítið þarf til að allt fari úr skorðum á nýjan leik.“ Miðað við stöðuna yrði að búast áfram við takmörkuðu aðgengi íslenskra banka að skuldabréfamörkuðum. Undir dagskrárliðnum „Icesave Holland“ kom fram að byrjað hafi verið að bjóða innlán gegnum útibú bankans í Amsterdam 29. maí 2008 og hafi viðbrögð „verið mjög góð ef marka má fjölda stofnaðra reikninga“, en „breytt verður í dótturfélag við fyrsta tækifæri.“ Næstu skrefin yrðu að bjóða Icesave reikninga í Belgíu, Luxemborg, Þýskalandi og Noregi, en á árinu 2009 yrði stefnt að því að bæta við Ítalíu, Sviss, Spáni, Austurríki og Kanada. Önnur Evrópulönd og Bandaríkin yrðu „skoðuð síðar“ ásamt Hong Kong og Singapore. Á fundinum var einnig greint frá samskiptum bankastjóra við breska fjármálaeftirlitið, FSA, og reglur, sem það hafi sett framkvæmt áðursögðu 29. maí 2008. Þess var getið í því sambandi að „viðbrögð og kröfur FSA eru mjög hörð“, svo og að „sýnilegt er að FSA er að gæta breskra hagsmuna fremur en einungis hefðbundins regluverks.“

Í minnisblaði, sem tveir starfsmenn Seðlabanka Íslands sendu til bankastjórnar um símafund við starfsmenn Moody´s Inverstors Service 5. júní 2008, kom meðal annars fram að þeir síðarnefndu hefðu þar ítrekað „skoðun sína að Ísland hefði líklega haldið Aaa lánshæfiseinkunninni ef ekki hefði verið fyrir bankakerfið.“

Samkvæmt frétt, sem birtist í íslenskum fjölmiðli 6. júní 2008, hafði verið birt viðtal við ákærða á „fréttavef Bloomberg í Riga, Lettlandi.“ Þar hafi meðal annars komið til tals efasemdir erlendra fjármálasérfræðinga um íslenska bankakerfið og gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Hafi verið haft eftir ákærða að það þyrfti „virkilega að skoða stærð bankanna og þeir þurfa að líta í eigin barm“, en sem „leikmenn í opnu hagkerfi þurfum við að hafa forða í takt við heildarhagkerfið, sér í lagi í tengslum við stærð bankageirans.“

Innan Seðlabanka Íslands var á ný gerð samantekt 24. júní 2008 undir fyrirsögninni „ljóti listinn“ um aðfinnslur og neikvæðar umræður um „íslenskt fjármálakerfi sem birst hafa í erlendri umfjöllun á síðustu vikum“. Þar var meðal annars getið um að rætt hafi verið um að lánshæfiseinkunnir viðskiptabankanna og íslenska ríkisins hafi lækkað, svo og að Moody´s Investors Service hafi til skoðunar að lækka lánshæfiseinkunnir Landsbanka Íslands hf. sökum þess að Icesave reikningar væru ekki „stöðug innlán“.

Í málinu liggur fyrir að viðskiptaráðuneytið gerði 30. júní 2008 aðra útgáfu af samantekt um verkferli við kröfugerð á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og greiðslu krafna. Þessi samantekt, sem merkt var sem trúnaðarmál, var í meginatriðum eins og fyrri samantekt frá 10. apríl sama ár, sem áður var getið.

Bankastjóri seðlabanka Luxemborgar ritaði bréf 30. júní 2008 til stjórnanda dótturfélags Landsbanka Íslands hf. þar í landi. Í bréfinu var vísað til þess að þeir hafi áður átt fund um þá framkvæmd dótturfélagsins að nota skuldabréf annarra íslenskra banka sem tryggingar í viðskiptum innan evrópska myntsamstarfsins, en eftir það hafi hlutfall slíkra trygginga í viðskiptum dótturfélagsins minnkað úr 40% í um 30%. Með fullum stuðningi frá bankastjórn seðlabanka Evrópu væri nú tilkynnt að frá 15. júlí 2008 mætti dótturfélagið ekki nota skuldabréf annarra íslenskra banka sem tryggingar fyrir meira en 25% af viðskiptum sínum og yrði að auki að láta alveg af þessu svo fljótt sem auðið væri. Þessi ákvörðun hafi verið tekin í ljósi þess að fram hafi komið að bankarnir þrír notuðu slík skuldabréf á víxl sem tryggingar, en sterk tengsl milli þeirra vektu áhyggjur af áhættu í þessum viðskiptum, því ef einhver einn af bönkunum rataði í vandræði væru verulegar líkur á að hinir bankarnir tveir yrðu fyrir miklum áhrifum.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til funda 6., 10., 18. og 27. júní og 1. júlí 2008. Samkvæmt fundargerðum voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

26[breyta]

Hollenska fjármálaeftirlitið ritaði bréf 3. júlí 2008 til Fjármálaeftirlitsins, þar sem vísað var til þess að Landsbanki Íslands hf. hafi rekið útibú í Hollandi frá árinu 2006 og ráðgerði Kaupþing banki hf. jafnframt að hefja slíka starfsemi, en báðir bankarnir hefðu í hyggju að safna innlánum frá almenningi þar í landi. Í ljósi aðstæðna í efnahagsmálum á Íslandi og þá sérstaklega varðandi íslenska banka væri óskað eftir áliti Fjármálaeftirlitsins um áhættustýringu bankanna tveggja, svo og upplýsinga meðal annars um lausafjárkröfur og lausafjárstýringu. Hollenska fjármálaeftirlitið vildi einnig fá vitneskju um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og þá einkum um það hvernig hollenskum innstæðueigendum yrði veitt lágmarksvernd. Í þessu skyni væri óskað eftir fundi með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins.

Tveir af bankastjórum Seðlabanka Íslands áttu ásamt tveimur öðrum starfsmönnum bankans og forstjóra Fjármálaeftirlitsins fund 4. júlí 2008 með bankastjóra seðlabanka Luxemborgar og tveimur öðrum fulltrúum þess banka og fjármálaeftirlitsins þar í landi. Samkvæmt minnispunktum um fundinn vísaði erlendi seðlabankastjórinn til þess að íslensku viðskiptabankarnir hafi í febrúar eða mars 2008 byrjað að leggja inn kröfur hver á hendur öðrum til að fá fyrirgreiðslu í seðlabanka Luxemborgar og komist þar fljótt í skuld að fjárhæð 3.000.000.000 evrur. Í apríl hafi verið tekið fyrir að bankarnir gætu notað kröfur á hendur hverjum öðrum á þennan hátt og talið að þeir hefðu nægilegt fé til að láta af þessu, sem þeir hafi og gert í einn mánuð. Skuldir bankanna við seðlabankann væru á hinn bóginn nú komnar upp í 5.000.000.000 evrur og teldi stjórn hans að þeir beittu blekkingum. Sú skoðun væri þar orðin ríkjandi að eignir bankanna þriggja væru af litlum gæðum og hugsanlega yrðu þeir útilokaðir frá viðskiptum. Rætt væri um veika fjárhagsstöðu helstu eigenda bankanna, svo og að hvergi væri annars staðar að finna slíka stærð á bankakerfi í samanburði við hagkerfið að öðru leyti. Fé væri lagt í óviðunandi áhættu og vildi seðlabanki Evrópu ekki gefa öðrum þjóðum fordæmi af þessum toga. Íslensku bönkunum yrði ekki lengur veitt fyrirgreiðsla í þessum mæli, enda væru 5.000.000.000 evrur langt umfram það, sem ásættanlegt gæti talist. Á þessum fundi kom fram að mennirnir þrír frá Luxemborg myndu sama dag eiga fundi með fulltrúum íslensku bankanna og hafi erlendi seðlabankastjórinn spurt í lok fundarins hversu hreinskilinn hann mætti vera við þá. Formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands hafi svarað því til að mikilvægt væri að segja þessa hluti beint út svo að fulltrúar íslensku bankanna myndu skilja alvöru málsins og að þetta væri ekki eingöngu vandamál seðlabankans.

Í framhaldi af ofangreindum fundi átti bankastjórn Seðlabanka Íslands ásamt Tryggva Pálssyni og forstjóra Fjármálaeftirlitsins fund með ráðuneytisstjórum forsætisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins. Samkvæmt fundargerð frá þeim fundi greindi Davíð Oddsson frá því, sem komið hafi fram á fyrri fundinum, og bætti því við að bankastjóri seðlabankans í Luxemborg hafi áður sagt sér að „bankarnir væru í raun komnir á hausinn.“ Nýjar reglur um viðskipti í seðlabanka Evrópu yrðu kynntar með haustinu og tækju gildi í desember 2008 og lýsti Davíð þeirri skoðun að „lántökukostnaður ríkisins muni versna og skiptasamningar norrænna seðlabanka verði ekki virkir.“ Hann hefði á tilfinningunni að samstaða hafi myndast hjá seðlabanka Evrópu og norrænu seðlabönkunum um að betra væri „að setja íslensku bankana á hausinn en að þeir valdi skaða hjá ECB í innlánstryggingarkerfi Evrópu.“ Ingimundur Friðriksson kvað íslensku bankana „þurfa að trappa sig niður“ og bætti Davíð því við að „ríkið þurfi að taka lánið sitt“, svo og að það væru bersýnilega „fyrirmæli um að þrengja að okkur af því bankarnir hafa stigið á tær.“

Í málinu liggur fyrir skýrsla um kreppu í íslenska bankakerfinu, dagsett 4. júlí 2008, eftir Willem H. Buiter og Anne C. Sibert, prófessora í hagfræði við nánar tiltekna breska háskóla, en Landsbanki Íslands hf. mun hafa fengið þessa skýrslu gerða. Í samantekt um helsta efni hennar var meðal annars vísað til stærðar íslenska bankakerfisins í samanburði við hagkerfið, en í lok þriðja ársfjórðungs 2007 hafi markaðsvirði erlendra eigna og skulda bankanna numið um sjöfaldri þjóðarframleiðslu. Binditími erlendra eigna væri að meðaltali lengri en erlendra skulda og væru eignirnar að jafnaði síður lausar. Þrátt fyrir gæði eignanna væru bankarnir því viðkvæmir fyrir áhlaupi og tregðu á alþjóðlegum lánamörkuðum. Seðlabanki Íslands gæti hvorki orðið lánveitandi til þrautavara ef bönkunum tækist ekki að endurfjármagna erlendar skuldir né viðskiptavaki til þrautavara fyrir bundnar eignir, sem bankarnir kynnu að vilja selja. Yrði því annaðhvort að hætta alþjóðlegri fjármálaþjónustu hér á landi eða taka upp annan gjaldmiðil en íslensku krónuna til að fá vænlegan lánveitanda og viðskiptavaka til þrautavara. Í þeim efnum væri eini kosturinn að Ísland gengi í Evrópusambandið og gerðist fullgildur aðili að myntsamstarfi þess. Þriðji kosturinn væri þó fyrir hendi, því stjórnvöld gætu ef tíminn yrði nægur byggt upp mikinn forða gjaldeyris til að vega á móti áhættu af bundnum erlendum eignum bankanna og lokun erlendra bankamarkaða fyrir íslenska bankakerfið. Vafasamt væri þó að alþjóðleg bankastarfsemi yrði arðsöm fyrir íslensku bankanna ef þeir þyrftu að bera kostnað af þessu. Bregðast yrði við brýnasta vandanum með margs konar ráðstöfunum bankanna, Seðlabanka Íslands og stjórnvalda, sem gætu falist í lántöku frá erlendum seðlabönkum gegnum erlend útibú íslensku bankanna, gjaldmiðlaskiptasamningum seðlabankans við erlenda seðlabanka, lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, nýtingu á fé Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna sem tryggingu fyrir erlendum lánum og útgáfu skuldabréfa með tryggingu í framtíðartekjum af virkjun vatnsafls og jarðvarma. S endinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gerði skýrslu 4. júlí 2008 um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi og fjármálastöðugleika. Í henni var því lýst að íslenska hagkerfið væri auðugt og sveigjanlegt, meðaltekjur með þeim hæstu og tekjuójöfnuður með því minnsta í heiminum, markaðir væru opnir og sveigjanlegir, stofnanir öflugar, skuldir hins opinbera lágar og stjórnun á náttúruauðlindum eftirtektarverð. Í þessu ljósi væru langtímahorfur íslenska hagkerfisins öfundsverðar. Hagkerfið væri á hinn bóginn á erfiðum og óvissum tímamótum, en komið væri að lokum langvarandi þensluskeiðs, sem erlendar lántökur hafi staðið undir og valdið hafi stórfelldri aukningu eigna og skulda einkafyrirtækja, miklu þjóðhagslegu ójafnvægi og mikilli þörf fyrir erlent lánsfé. Vegna aðstæðna á alþjóðlegum lánamörkuðum hafi íslensku bankarnir og gjaldmiðillinn orðið fyrir miklum þrýstingi, en við því hafi bankarnir brugðist með því að draga úr útlánum og hagræða. Stjórnvöld hafi gert ráðstafanir til að efla traust, Seðlabanki Íslands hafi hækkað stýrivexti og rýmkað skilyrði fyrir lánveitingum ásamt því að auka aðgang sinn að erlendu fé með gjaldmiðlaskiptasamningum við norræna seðlabanka. Þá hafi stjórnvöld lýst vilja til að stækka gjaldeyrisforða seðlabankans. Þrátt fyrir aðgerðir vegna óróa á mörkuðum stæðu bankarnir enn frammi fyrir verulegum áhættum og ætti að halda áfram af krafti aðgerðum til að draga úr þeim. Yfirvöld ættu að styrkja viðlagaundirbúning og viðbragðsáætlanir enn frekar í framhaldi af vinnu, sem þegar væri að baki, þar á meðal með því að sameina öll atriði í fyrirliggjandi viðbragðsáætlunum í eina heildstæða áætlun, en að auki ætti að efla hana með því að veita Fjármálaeftirlitinu auknar lagaheimildir.

Tryggvi Pálsson gerði drög að vinnuskjali með yfirskriftinni „Aðkallandi ákvarðanataka stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli“ fyrir samráðshóp um fjármálastöðugleika og viðbúnað og voru þau dagsett 7. júlí 2008. Í upphafi þessa skjals sagði eftirfarandi: „Hætta á fjármálaáfalli hérlendis fer stöðugt vaxandi. Úrræðum íslensku bankanna við fjármögnun fer fækkandi þrátt fyrir að þeir hafi enn jákvæða afkomu og eiginfjárhlutföll yfir lágmarki laganna. Þrengt hefur einnig að fjármögnun ríkissjóðs erlendis þrátt fyrir afar sterka stöðu hans.“ Vísað var til þess að á liðnum misserum hafi verið unnið að margvíslegum viðlagaundirbúningi, sem vonast hafi verið til að ekki myndi reyna á. Hafi virst rofa heldur til eftir miðjan maí og framan af júní 2008 eftir að Seðlabanki Íslands tilkynnti um gjaldmiðlaskiptasamninga við norræna seðlabanka og hafi um leið orðið fremur hagstæð þróun á erlendum mörkuðum. Slegið hafi á hinn bóginn í bakseglin og mætti fullyrða „að ástandið hafi aldrei verið jafn alvarlegt og nú.“ Ákvarðanataka „stjórnvalda um hvort og þá með hvaða hætti þau ætla að takast á hendur frumkvæði og aukna ábyrgð er orðin aðkallandi.“ Um mat á stöðunni, sem þá var uppi, var meðal annars bent á að senn væri liðið ár frá því að erfiðleikar íslensku bankanna með erlenda fjármögnun sína hafi byrjað, lausafjárstaða þeirra væri enn fullnægjandi en vandamál væru fyrirsjáanleg á næstu mánuðum. Seðlabanki Íslands hafi veitt fjármálafyrirtækjum lán að fjárhæð samtals 416.000.000.000 krónur og væri um fjórðungur þeirra einungis tryggður með verðbréfum, sem tveir af bönkunum hafi gefið út og framselt sjálfir, og um 136.000.000.000 krónur með verðbréfum frá öllum bönkunum, sem Icebank hafi selt. Seðlabankanum væri vel ljós áhætta af tapi vegna þessa og þyrfti að grípa til aðgerða til að draga úr henni. Endurgreiðslur á erlendum langtímalánum bankanna þriggja ættu að nema 194.000.000.000 krónum á árinu 2008, 905.000.000.000 krónum 2009 og 837.000.000.000 krónum 2010, en „skammtímalánalínur“ þeirra veittu aðgang að um 538.000.000.000 krónum. Bankarnir hafi leitað eftir innlánum erlendis með þeim afleiðingum að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hafi aukist og magnað upp andstöðu við bankana erlendis, en leiða mætti að því líkur að á vettvangi evrópska myntsamstarfsins væri „sú skoðun orðin ríkjandi ... að smitáhrifin á Evrópu af fjármálaáfalli hérlendis sé minni áhætta en áframhaldandi starfsemi íslenskra banka í óbreyttri mynd.“ Endursala bankanna á skuldabréfum til evrópskra seðlabanka, aðallega í Luxemborg, hafi valdið því að gagnaðgerðir væru fyrir dyrum og þá líklega í þeirri mynd að bönkunum yrði gert að endurgreiða lán, sem fengin hafi verið „út á gagnkvæm skuldabréf íslenskra banka“, en þau skuldabréf væru komin á hendur seðlabanka Evrópu. Einnig væru líkur á að bönkunum yrði gert að endurgreiða lán, sem fengin hafi verið „út á önnur verðbréf sem ekki uppfylla nýjar kröfur sem verða settar.“ Í versta falli yrðu bankarnir og jafnvel íslenska ríkið ekki lengur taldir „hæfir gagnaðilar“ á þessum vettvangi. Norrænu seðlabankarnir kynnu að auki að setja ný skilyrði ef Seðlabanki Íslands vildi nýta sér gjaldmiðlaskiptasamninga þeirra og væru tilraunir til lántöku fyrir ríkissjóð „ekki að skila viðunandi árangri í magni og kjörum.“ Samandregið væri niðurstaða stöðumatsins sú „að lausafjárstaða bankanna verður orðin óviðunandi á næstu mánuðum að öðru óbreyttu og hætta er á innlánsflótta. Afl ríkissjóðs er takmarkað í erlendum gjaldeyri og bandamönnum fer fækkandi.“ Stjórnvöld hefðu í meginatriðum val um þrjár leiðir gagnvart bönkunum, í fyrsta lagi svonefnda hreina markaðslausn, í öðru lagi markaðslausn með opinberum stuðningi og í þriðja lagi opinbera yfirtöku, en brýnt væri að leggja mat á kosti og galla hverrar þeirra. Ef beitt yrði hreinni markaðslausn tækju stjórnvöld ekki á sig frekari skuldbindingar. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta ætti um 11.000.000.000 krónur en til lágmarks tryggingarverndar þyrfti meira en 115.000.000.000 krónur og hefði sjóðurinn enga burði til að brúa það bil. Að auki hafi verið ráðgert að sjóðurinn yrði að greiða eigendum erlendra innstæðna í sama gjaldmiðli og innlánið væri, sem kosta myndi erlendar lántökur. Í fræðilegri umfjöllun hafi verið talið að hrein markaðslausn væri nánast útilokuð, enda væri tjón af fjármálaáfalli svo verulegt að stjórnvöld yrðu að skipta sér af rás atburða og myndu neyðast til að hlaupa undir bagga. Varðandi markaðslausn með opinberum stuðningi var bent á að þeir, sem ættu hagsmuna að gæta, „reyna að minnka áhættu sína með því að fá stjórnvöld til að takast á herðar skuldbindingar.“ Væri þrýstingur á erlenda lántöku ríkisins til að efla gjaldeyrisforðann dæmi um slíkt og jafnframt viðleitni til að fá stjórnvöld til að stuðla að því að íslensku bankarnir „endurgreiði fjármögnun sína í seðlabanka Luxemborgar og dragi úr umsvifum erlendis.“ Þegar leitað væri lausnar af þessum toga væri gjarnan reynt að fá aukið hlutafé eða nýja eigendur að fjármálafyrirtækjum. Til greina gæti komið að þrýsta á íslenskan banka um að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi eða að einn banki yrði yfirtekinn af öðrum, innlendum eða erlendum. Í slíkum tilvikum gætu komið fram kröfur um að stjórnvöld liðkuðu fyrir með því að takast á herðar skuldbindingar og yrði að setja skilyrði fyrir slíku. Ef markaðslausnum með eða án þátttöku stjórnvalda yrði ekki beitt stæðu þau frammi fyrir því hvort taka þyrfti yfir einn eða fleiri banka, en lagaúrræði til þessa væru takmörkuð. Samningsstaða gagnvart lánardrottnum gæti orðið betri við yfirtöku, en óvíst væri hvort tími ynnist til að nýta þá stöðu. Við yfirtöku eins eða fleiri af stóru bönkunum fengi ríkið „allan vanda þeirra í fangið“ og ef illa tækist til kynni að fara svo að það gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Í samantekt um næstu skref var bent á að stjórnvöld þyrftu á næstu vikum að marka hvaða meginleið ætti að fara ef til fjármálaáfalls kæmi, en eftir því sem sú stefnumörkun myndi dragast yrði hættara við að „trúverðugleiki minnki, úrræðum fækki og kostnaður stjórnvalda og þjóðarbúsins aukist.“ Áleitnustu spurningarnar snúi að kerfislega mikilvægum bönkum og innstæðutryggingum, meðal annars hvort hið opinbera ætti að taka á sig skuldbindingar vegna bankanna og þá hvernig og í hvaða mæli. Einnig hvort veita ætti Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta aðstoð til að hann gæti staðið undir lágmarksbótum eða jafnvel hærri fjárhæð, svo og hvort ríkið gæti tekið á sig frekari skuldbindingar án þess að stefna greiðsluhæfni sinni í voða. Samráðshópurinn væri vettvangur fyrir „upplýsingaskipti og samvinnu við útfærslur“, en auka þyrfti stórlega viðbúnaðarvinnu og fá aðstoð ráðgjafa. Á vegum stjórnvalda eða samráðshópsins þyrfti „án tafar að kalla til aðgerðahóp í fullu starfi“ og velja honum stjórnanda.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman til 20. fundar síns 7. júlí 2008. Á fundinum kynnti Tryggvi Pálsson framangreind drög að vinnuskjali, dreift var vinnuskjali frá viðskiptaráðuneytinu um áætlaðar innstæður í bönkum og sparisjóðum innan nokkurra mismunandi fjárhæðarmarka miðað við stöðu þeirra í september 2007 og greint var frá heimsókn bankastjóra seðlabanka Luxemborgar 4. júlí 2008. Samkvæmt fundargerð lýsti Jónas Fr. Jónsson því að „logn hefði verið á mörkuðum þegar hópurinn hittist síðast en nú ríki aftur kaldir vindar“, svo og að grimmur tónn hafi falist í skilaboðum, sem komið hafi fram í heimsókn erlenda seðlabankastjórans. Baldur Guðlaugsson hafi spurt „hvort bankarnir skilji alvarleika málsins“ og Jónas sagt að það væri „nokkuð mismunandi milli banka.“ Tryggvi hafi bætt því við „að stjórnendur bankanna geri sér grein fyrir stöðunni en þeim hefur ekki verið stillt upp við vegg af stjórnvöldum“, sem hafi ekki „gert upp við sig hversu langt þau vilja ganga.“ Bolli Þór Bollason hafi sagt að „nú væri meiri hætta á að allir stóru bankarnir þrír lendi í vanda“, en Baldur spurt „hvort innlend hætta væri að aukast og hvað væri að valda því.“ Tryggvi hafi þá látið þess getið að lánveitingar Seðlabanka Íslands, sem eingöngu væru tryggðar með verðbréfum íslensku bankanna, væru orðnar um 266.000.000.000 krónur. Jónas hafi minnt á „að áfallið gæti gerst á morgun“ og yrði þá „að róa innstæðueigendur með yfirlýsingu eða láta allt fara í rúst.“ Baldur hafi sagt að „stilla þyrfti bönkunum upp við vegg ef þeir væru ekki að gera nóg til að bæta stöðuna.“ Haft var eftir Bolla „að engin auðveld lausn væri til“, upphæðir væru „gígantískar og erfitt að meta hvort t.d. skuldbinding um að tryggja 5 m.kr. innstæður hafi nægilega róandi áhrif“. Ný staða væri komin upp eftir skilaboðin, sem bankastjóri seðlabankans í Luxemborg hafi flutt frá seðlabanka Evrópu. Væru öll skref áhættusöm, en hann væri sammála því, sem fram kæmi í vinnuskjali Tryggva, og „athuga þyrfti hvort aðgerðarhópur yrði settur af stað.“ Baldur hafi þá sagt að „fyrst þyrfti að koma því til vitundar bankanna hver staðan sé og hvaða skorður ríkissjóður býr við“, en Ingimundur Friðriksson látið þess getið að mikilvægt væri að seðlabanki Evrópu „sjái að bankarnir bregðist við“, auk þess sem seðlabankar Luxemborgar og Noregs hafi „lýst yfir miklum áhyggjum af eigendum bankanna.“ Seðlabanki Íslands „myndi fylgja málinu eftir og eiga áframhaldandi samtöl við bankana.“ Jónas hafi lýst þeirri skoðun að æskilegt væri að „eigið fé bankanna yrði aukið og eigendahópurinn breikkaður“, en einnig þyrftu að liggja fyrir drög að yfirlýsingu um innlánstryggingar. Bolli hafi talið eðlilegt að seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið „fylgdu málum eftir við bankana í þessari viku en ráðherrar kæmu að málinu í næstu viku.“ Baldur hafi velt því upp „hvort bíða mætti með seinna skrefið ef hið fyrra skilaði nægum árangri.“ Bolli hafi þá bætt við að nauðsynlegt væri „að stjórnvöld segi hvað þau hyggjast ekki gera, m.a. það að hjálpa ekki eigendum.“ Tryggvi hafi lýst þeirri skoðun að „stjórnendur bankanna séu meðvitaðir um stöðuna, hafi velt fyrir sér öllum kostum en veigri sér við að taka erfiðar ákvarðanir.“ Þeir hefðu „engar töfralausnir til að endurgreiða seðlabanka Luxemborgar heldur sé hætt við að vandinn færist yfir á Seðlabanka Íslands.“ Spurning væri hvort takmarka mætti áhættuna með því að Kaupþing banki hf. flytti höfuðstöðvar sínar úr landi og innlán í útibúum íslensku bankanna erlendis yrðu færð yfir í dótturfélög. Baldur hafi lagt til að „hugsað yrði til næsta fundar hver stjórnandi aðgerðahópsins gæti verið og hvert yrði hlutverk hópsins.“ Bolli hafi að endingu spurt hver staðan væri við gerð frumvarps um „breytingar á lagaákvæðum á fjármálamarkaði“ og hafi verið ákveðið að Áslaug Árnadóttir sendi drög að því til samráðshópsins að loknum fundi. Þau drög liggja fyrir í málinu.

Samkvæmt minnisblaði, sem mun stafa frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, boðaði ákærði hana til fundar 8. júlí 2008 ásamt Davíð Oddssyni seðlabankastjóra og ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu. Þar hafi Davíð greint frá því að „íslensku bankarnir ættu 5,1 milljarð evra í skuldabréfum í evrópska seðlabankanum“ og þyrftu þau „að fara niður um 3 milljarða evra strax þannig að markið um að bréf í bönkunum fari niður í 25% náist fyrir áramót.“ Hann hafi jafnframt átt samtal við bankastjóra seðlabanka Luxemborgar, sem „hafi farið hörðum orðum um íslensku bankana.“ Skuldatryggingarálag þeirra færi einnig hækkandi. Davíð hafi sagt „bankana illa liðna“ og hafi Englandsbanki „kippt að sér hendinni ... vegna þess að ekki megi hjálpa íslensku bönkunum“, enda þættu þeir „skúrkar og teygja lagarammann til hins ítrasta.“ Hann hafi einnig sagt „að „ástarbréfin“, sem bankarnir gæfu út hver á aðra hafi mátt vera ca 25% af skuldabréfum bankanna“ og hafi þeim verið sagt að koma því í lag, en hermt væri að þeir hafi brugðist við með því að hækka „allan stabbann til að ná þessu niður í 25%.“ Þá hafi komið fram að ríkinu stæði til boða að fá 500.000.000 evrur að láni „með 180 punktum“ og teldi Davíð mikilvægt að taka slíkt lán, þar sem „það skapaði vaxandi trú á að kerfið standist.“ Ekki ætti að endurlána það, en það gæti „auðveldað bönkunum að fara út á markað og sækja sér fé.“

Seðlabanki Íslands gerði minnisblað 8. júlí 2008, sem var á ensku, en samkvæmt framlagðri þýðingu sagði í upphafi þess að það hefði að geyma „viðbótarupplýsingar við minnisblað til seðlabankastjóra sænska, danska og norska seðlabankans, dags. 16. apríl 2008, sem var afhent í algerum trúnaði“. Í minnisblaðinu var meðal annars greint frá því að Seðlabanki Íslands hafi í framhaldi af gerð gjaldmiðlaskiptasamninga við norrænu seðlabankana þrjá hafið undirbúning erlendrar lántöku til að styrkja gjaldeyrisforða sinn, en Alþingi hafi veitt heimild til hennar á liðnu vori og væri stefnt að því að auka þennan forða talsvert. Þá sagði einnig eftirfarandi: „Íslensku viðskiptabankarnir hafa unnið að því að minnka efnahagsreikninga sína, m.a. að tillögu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem var staðfest í síðustu FSAP-heimsókn sjóðsins til Íslands. Þessi vinna mun halda áfram og henni verður fylgt eftir af stjórnvöldum. Í stefnuyfirlýsingu bankastjórnar Seðlabanka Íslands frá 3. júlí 2008 segir m.a.: Viðskiptabankarnir gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda trausti á fjármálakerfinu. Við ríkjandi aðstæður á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum ber þeim að standa vörð um lausafjár- og eiginfjárstöðu sína og leita leiða til þess að draga eftir megni úr þörf fyrir erlent lánsfé og laga umfang sitt að gerbreyttum aðstæðum.“ Þess var jafnframt getið að í júní 2008 hafi verið tilkynnt „um aðgerðir varðandi Íbúðalánasjóð.“ Sumar þeirra hafi verið tímabundnar og þeim „ekki endilega fagnað af Seðlabankanum“, en aðrar hefðu að geyma fyrstu skrefin „í átt að nauðsynlegum umbótum“. Að öðru leyti var þar fjallað um ríkisfjármál, nýlega skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stefnumörkun seðlabankans til að „koma böndum á verðbólguna.“

Breska fjármálaeftirlitið, FSA, sendi tölvubréf til bankastjóra Landsbanka Íslands hf. 8. júlí 2008, þar sem meðal annars var vikið að því að af viðræðum við þá í nýlegri heimsókn væri ljóst að verulega bæri á milli í mati þeirra og mati FSA á áhættum í íslensku efnahagslífi og hvernig þær gætu breyst í áhættu fyrir breska eigendur Icesave reikninga. FSA teldi þá áhættu ekki síst felast í getu Seðlabanka Íslands til að styðja við bankakerfið og leggja Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta til fé. Þessu til viðbótar hafi umræða í fjölmiðlum aukist, fyrirspurn hafi verið borin upp í breska þinginu og nýjar hagtölur lægju fyrir, en til samans leiddi þetta til þess að FSA teldi áhættu breskra innstæðueigenda færast í aukana. Vísað var til þess að í viðræðunum hafi orðið að samkomulagi að Landsbanki Íslands hf. myndi svo fljótt sem auðið væri flytja Icesave reikningana í breskt dótturfélag og yrði miðað við að það gerðist fyrir árslok 2008. Bankinn myndi takmarka heildarfjárhæð innstæðna á reikningunum við 5.000.000.000 sterlingspund þar til þessi flutningur væri um garð genginn og jafnframt forðast að vextir af þeim yrðu með þeim hæstu, sem byðust á markaði. Að auki hafi verið sammæli um að frekari skýringa væri þörf á reglum um innlánstryggingarkerfi á evrópska efnahagssvæðinu. Boðað var að fulltrúar FSA myndu heimsækja aðalstöðvar Landsbanka Íslands hf. innan skamms tíma.

Ríkisstjórn Íslands hélt fund 8. júlí 2008. Samkvæmt fundargerð voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

27[breyta]

Tveir bankastjórar Seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson og Ingimundur Friðriksson, áttu ásamt Tryggva Pálssyni fund 11. júlí 2008 með Sigurði Einarssyni formanni stjórnar Kaupþings banka hf. Samkvæmt minnisblaði um fundinn vék sá fyrstnefndi þar meðal annars að viðræðum sínum við bankastjóra seðlabanka Luxemborgar 4. sama mánaðar og lét þess getið að „áhyggjuefni væri fjandsamleg afstaða í garð okkar“, sem fyndist einnig frá Noregi, þar sem trúað væri „að íslensku bankarnir fari á hausinn.“ Skuldatryggingarálag hafi hækkað á nýjan leik og þrýst væri á Seðlabanka Íslands að „beita sér fyrir lækkun efnahags bankanna“. Hann hafi sent bréf um það, en teldi ekki „gagnlegt að selja eignir á brunaútsölu.“ Ekki væri þó aðeins rætt um íslensku bankana, heldur einnig „veika stöðu eigenda þeirra.“ Í framhaldi af því hafi Davíð spurt: „Erum við að fá allt í hausinn? Getum við ekki bjargað nema e.t.v. einum bankanna?“ Sigurður hafi svarað að Kaupþing banki hf. og Landsbanki Íslands hf. hafi „verið að skoða stöðu sína“, en samskipti þeirra þyrfti að bæta. Allir íslensku bankarnir væru í vanda og bætti þá Davíð við að „færi einn þá færu þeir allir saman.“ Sigurður hafi getið þess að viðræður stæðu yfir „við fjárfesti“ um kaup á 20% hlut í Kaupþingi banka hf. „fyrir fáránlegt verð“ og væri búist við að „viðræðurnar gangi upp sem gæti orðið í september nk.“ Bankinn væri einnig að vinna við sölu eigna erlendis og var getið um dæmi af því. Sigurður hafi svo spurt „hvort bankinn ætti að finna sér aðra heimilisfesti“, en hann hafi „ráðið færa aðila til að skoða það mál“, sem hafi ekki enn verið rætt í stjórn bankans. Davíð hafi sagt að slíkt „kæmi vel út fyrir Ísland“, en Ingimundur spurt hve langan tíma þessi skoðun tæki. Sigurður hafi talið sig mundu fá niðurstöður eftir fjórar vikur og væru samskipti góð við fjármálaeftirlit á þeim stöðum, sem helst kæmu til greina. Davíð hafi bætt því við að ef vel yrði að flutningi staðið „væri trúverðugra að stjórnvöld gætu bjargað því sem eftir yrði.“ Ingimundur hafi „ítrekað þörfina fyrir að lækka endursöluna í Luxemborg“ og Sigurður svarað því til að bankinn hafi „lækkað í gær um 200 m. evra og ætlunin væri að taka „ástarbréfin“ út.“ Davíð hafi sagt að „endurkaup seðlabankans í Luxemborg mættu ekki fara fyrir niður fyrir 3 ma. evra því annars væri þetta búið.“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sendi tölvubréf til ákærða 13. júlí 2008 og fylgdu með því „glærurnar sem hagfræðingarnir Willem H. Buiter og Anne C. Sibert“ hafi notað á fundi, sem Landsbanki Íslands hf. hafi fengið þau á, en þangað hafi einnig verið boðið „fulltrúum frá atvinnulífinu og völdum hagsfræðingum.“ Hún lét þess getið að erlendu hagfræðingarnir hafi einnig sótt fund í Seðlabanka Íslands og „eflaust farið þar yfir mál með svipuðum hætti“.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt sinn 21. fund 14. júlí 2008. Af fundargerð verður ráðið að meginhluta fundarins hafi verið varið til umræðna um málefni tveggja tiltekinna sparisjóða, sem hafi verið að falli komnir. Þar hafi þó verið dreift yfirliti frá Fjármálaeftirlitinu um stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og bent á að samkvæmt því væri „áætluð upphæð til að standa við lágmarkstryggingarvernd“ vegna innlána yfir 420.000.000.000 krónur í staðinn fyrir 115.000.000.000 krónur, sem miðað hafi verið við í fyrri gögnum frá viðskiptaráðuneytinu, en ekki „væri ljóst hvort ríkissjóður réði við þá skuldbindingu.“ Þá hafi Tryggvi Pálsson látið þau orð falla að ekki væri „seinna vænna að ganga frá stefnumörkun hins opinbera“.

Seðlabankastjórarnir Davíð Oddsson og Ingimundur Friðriksson funduðu ásamt Tryggva Pálssyni með bankastjórum og tveimur öðrum starfsmönnum Landsbanka Íslands hf. 14. júlí 2008. Í minnisblaði um fundinn var greint frá því að Davíð hafi farið „yfir skilaboð seðlabankastjóra Luxemborgar“ og sagt íslensku bankanna verða að ná sátt við seðlabanka Evrópu, þar sem þeir „mættu ekki við því að lokað verði á endurkaup íslensku bankanna.“ Sigurjón Þ. Árnason hafi svarað því til að Landsbanki Íslands hf. hafi brugðist strax við, en „engin önnur dagsetning hefði verið nefnd.“ Bankinn treysti sér til að lækka skuld sína við seðlabanka Evrópu og fá svo tilfinningu „fyrir framhaldinu í Luxemborg“, en bankinn yrði „þá að koma þessum pappírum fyrir annarsstaðar, t.d. gegnum milliliði en það sé dýrara.“ Davíð hafi sagt að þetta væri það sama og Icebank væri að gera í Seðlabanka Íslands. Sigurjón hafi lýst þeirri skoðun að ekki væri „langt í næsta áhlaup á Ísland“, skuldatryggingarálag Kaupþings banka hf. væri orðið verulega hátt og hlytu þá innlán á Icesave reikningum að minnka, en aftur væri farið að fjalla um íslensku innlánin í breskum fjölmiðlum, þingmenn væru spurðir um þau og hlyti þetta að vera skipulögð aðför. Halldór J. Kristjánsson kvað „innlánssókn Landsbankans í Hollandi“ hafa byrjað vel og gengi einnig vel í Bretlandi. Samkvæmt minnisblaðinu bar Davíð upp fyrirspurn um flutning innstæðna úr erlendum útibúum bankans til dótturfélaga og kvað Halldór það verða gert í Hollandi á fyrsta fjórðungi ársins 2009. Málið væri í skoðun í Bretlandi, en fá þyrfti jákvæða umsögn breska fjármálaeftirlitsins „og 5-6 mánaða frest eftir það.“ Sigurjón hafi sagst „ekki vera viss um að flutningurinn borgi sig nema fyrir Tryggingarsjóð innstæðueigenda.“ Landsbanki Íslands hf. hafi misst innstæðurnar úr 4.900.000.000 sterlingspundum niður í rúmlega 4.000.000.000 sterlingspund og hefði bankinn „ekki lifað af nema fyrir það að útibú var með innlánin.“ Ingimundur hafi í framhaldi af þessu spurt hvort hafinn væri undirbúningur að flutningi innlána úr útibúinu í Bretlandi til dótturfélags „og var því svarað að svo væri ekki.“ Sigurjón hafi svo í lok fundarins látið þess getið að Landsbanki Íslands hf. væri að „undirbúa útibú frá Luxemborg í Belgíu og Sviss til að taka við innlánum í þessum löndum“, svo og að miklu skipti að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta næði „samningi við breska tryggingarsjóðinn um að sá síðarnefndi borgi út ef til kæmi.“ Stjórn sjóðsins „væri búin að samþykkja þetta og þetta virkaði eins og lánalína til Íslands.“

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom aftur saman 15. júlí 2008 og var það 22. fundur hans. Samkvæmt fundargerð var þar rætt á ný um málefni tveggja sparisjóða, en einnig um atriði varðandi Íbúðalánasjóð. Jafnframt hafi verið rætt um drög að lagafrumvarpi frá viðskiptaráðuneytinu, sem áður hafði verið dreift á fundi samráðshópsins, og hafi Bolli Þór Bollason tekið fram að hann teldi „nauðsynlegt að vinna textana áfram þótt ólíklegt væri að slíkar breytingar gætu náð fram að ganga við núverandi aðstæður.“ Á hinn bóginn væri rétt að „undirbúa frumvarp eða bráðabirgðalagatexta sem tæki á hugsanlegum vanda eins af stóru bönkunum undir forystu fjármálaráðuneytis“ og tók Baldur Guðlausson að sér að „koma því í farveg.“

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. svöruðu 15. júlí 2008 áðurgreindu tölvubréfi breska fjármálaeftirlitsins, FSA, frá 8. sama mánaðar. Í bréfi bankans var tekið fram að bankastjórarnir hafi ekki litið svo á að fundur, sem þeir hafi átt með FSA nokkru áður, hafi verið haldinn til að gefa skuldbindandi yfirlýsingar. Vegna atriða, sem getið hafi verið í tölvubréfi FSA, yrði að ítreka að bankastjórarnir hafi lýst sig reiðubúna til að kanna aftur hvort flytja ætti Icesave reikningana úr útibúi bankans í London til dótturfélags og jafnframt að athuga af alvöru kosti, sem kynnu að bjóðast til þess. Að ýmsu yrði á hinn bóginn að huga áður en ákvörðun yrði tekin um það, þar á meðal hvað raunhæft væri að ætla að þetta tæki langan tíma og hvaða kröfur ættu að gilda um lausafjárstöðu dótturfélags. Þá væri bankanum ófært að skuldbinda sig til að hlíta því að heildarinnstæður á Icesave reikningunum færu ekki upp fyrir ákveðin mörk eða að vextir, sem byðust af þeim, yrðu ekki með þeim hagstæðustu á markaði. Einnig var tekið fram að bankinn teldi engan vafa leika á því hvað fælist í reglum um innstæðutryggingar á evrópska efnahagssvæðinu, en reglur Evrópusambandsins um það efni hafi verið innleiddar í íslenska löggjöf og bankinn að auki samið um viðbótarvernd gegnum breskar innstæðutryggingar umfram þá fjárhæð, sem þær íslensku tækju til.

Í málinu liggur fyrir skjal með fyrirsögninni „efnahagsstefna á krossgötum“, sem dagsett var 15. júlí 2008 og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mun hafa afhent ákærða. Þar var því meðal annars lýst að dökkar efnahagshorfur stafi ekki síst af neikvæðum ytri aðstæðum, svo sem víðtækri lausafjárþurrð og áhættufælni fjárfesta um allan heim. Horfur fyrir „fjármálageirann“ væru sérstaklega tvísýnar vegna þessa og hafi óvissa um aðgang íslenskra banka að lánveitanda til þrautavara í erlendum gjaldmiðlum leitt til þess að mjög hafi dregið úr trausti á íslenska fjármálakerfinu, sem birtist meðal annars í háu skuldatryggingarálagi. Hagstjórn næstu ára væri því sérstaklega vandasöm, en meðal þess, sem þar yrði að takast á við, væru mikilvæg álitaefni um aðgerðir til að „styrkja umhverfi fjármálastofnana svo sem er varðar lausafé“. Væri því lagt til að settur yrði á fót „fámennur hópur reyndra sérfræðinga, sem móti tillögur að úrbótum í kyrrþey og leggi síðan tillögur sínar fyrir ríkisstjórnina innan skamms tíma.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 15. júlí 2008. Samkvæmt fundargerð voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

28[breyta]

Seðlabanki Íslands sendi bréf 17. júlí 2008 til forstjóra Kaupþings banka hf., en samhljóða bréf mun einnig hafa verið sent forstjóra Glitnis banka hf. og bankastjóra Landsbanka Íslands hf. Í bréfinu var greint frá því að veðlán seðlabankans til fjármálafyrirtækja hafi aukist mikið á undanförnum mánuðum og væri stór hluti þeirra tryggður með „óvörðum skuldabréfum og víxlum ... stóru viðskiptabankanna þriggja.“ Seðlabankinn yrði að huga að gæðum trygginga og áhættu og væri svo komið að bregðast yrði við, enda væri ekki „eðlilegt að fjármálafyrirtæki geti með skuldabréfaútgáfu sín á milli stýrt lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabankans.“ Upp frá þessu yrðu því engin ný óvarin skuldabréf á innlend fjármálafyrirtæki samþykkt sem veðhæf nema að undangenginni sérstakri athugun og yrðu sett „fjárhæðarmörk á hvern útgefanda“. Fjármálafyrirtækjum yrði „gefinn ákveðinn tími“ til að laga sig að breyttum reglum, en seðlabankinn myndi jafnframt breyta reglum til að auðvelda þeim að nota varin skuldabréf í viðskiptum við hann.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri ritaði bréf 17. júlí 2008 til bankastjóra seðlabanka Luxemborgar, þar sem vísað var til þess, sem fram hafi komið á fundi þeirra 4. sama mánaðar, og því lýst að í framhaldi af honum hafi bankastjórn Seðlabanka Íslands átt fundi með stjórnendum viðskiptabankanna þriggja til að leggja áherslu á mikilvægi þess að brugðist yrði skjótt við því, sem erlendi seðlabankastjórinn hafi óskað eftir. Þess væri vænst að merki um þetta hefðu þegar sést, en um leið yrði að leggja áherslu á að íslenskir bankar nytu jafnræðis við aðra. Þess var og getið að íslensku bankarnir héldu áfram aðgerðum til að minnka umfang sitt, en við ríkjandi aðstæður væri það óumflýjanlega seinlegt og yrði að ganga fram af varfærni. Samdráttur hafi þegar orðið með fækkun starfsmanna og hagræðingu.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lét frá sér fara tilkynningu 21. júlí 2008 um að hann hafi samþykkt að leggja til við forsætisráðherra og forseta Alþingis að þing yrði kallað saman til funda „strax að aflokinni verslunarmannahelgi til að ræða stöðuna í efnahags- og atvinnumálum og hvað vænlegast er að gera til að verja þjóðarbúið frekari áföllum“. Þessari tilkynningu var komið á framfæri við ákærða með tölvubréfi sama dag.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 23. fund sinn 22. júlí 2008. Samkvæmt fundargerð var þar í byrjun rætt um erfiðleika tveggja sparisjóða og jafnframt nokkurra smærri fjármálafyrirtækja, en að því búnu lýsti Bolli Þór Bollason því að næsta verkefni samráðshópsins yrði að láta vinna drög að texta bráðabirgðalaga eða frumvarps og væri tilgangurinn sá að fá fram svör við „ólystuga matseðlinum“. Áslaug Árnadóttir gerði af þessu tilefni athugasemd við að sú vinna yrði undir stjórn fjármálaráðuneytisins, enda væri um að ræða löggjöf á sviði viðskiptaráðuneytisins. Eftir nokkra umræðu hafi niðurstaðan orðið sú að fjármálaráðuneytið myndi stýra vinnuhópi í þessu skyni, en viðskiptaráðuneytið myndi kanna hvaða breytingar þyrfti að gera á löggjöf á sínu málasviði. Þá sagði í fundargerðinni að Jónas Fr. Jónsson hafi minnt á yfirlit frá Fjármálaeftirlinu, sem áður hafi verið lagt fram um fjárhæð, sem „innstæðutryggingin gæti kallað á“, en þær 421.000.000.000 krónur, sem þar um ræddi, hafi aðeins svarað til lágmarkstryggingarverndar. Ingimundur Friðriksson hafi vikið að söfnun innlána í erlendum útibúum bankanna, en breska fjármálaeftirlitið hafi hvatt Landsbanka Íslands hf. til að flytja „innlánasafn sitt“ í þarlent dótturfélag. Það ferli væri ekki hafið og bankinn virtist því andsnúinn, en af því tilefni spurði hann hvort „þessari breytingu væri hægt að koma á með reglusetningarvaldi.“ Áslaug hafi svarað því til að ekki væri unnt að banna stofnun útibúa og móttöku innlána, heldur aðeins að tefja. Jónas hafi þá getið þess að beita mætti kröfum um aukið eigið fé eða stighækkandi framlög í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Tryggvi Pálsson hafi sagt að „bankarnir, sérstaklega Landsbankinn, hefðu með innlánssókn sinni í útibúum erlendis meir en tvöfaldað skuldbindingar Tryggingarsjóðsins.“ Færi allt á versta veg gæti þurft að sniðganga þessar auknu skuldbindingar með því að setja það skilyrði fyrir lántöku sjóðsins að íslenskir innstæðueigendur nytu forgangs eða greitt yrði til erlendra með íslenskum krónum. Þótt þetta kynni að ganga gegn samningnum um evrópska efnahagssvæðið yrði að sjá til þess að ríkið tæki ekki á sig skuldbindingar, sem myndu stefna því í þrot, en eins og staðan væri yrði ekki staðið við lágmarksskuldbindingar um innstæðuvernd. Ingimundur hafi getið þess að norsk yfirvöld hafi sagst ekki mundu leyfa íslenskum bönkum að taka við innlánum þar í skjóli norska tryggingarsjóðsins, þótt það væri andstætt reglum á evrópska efnahagssvæðinu. Jónas hafi svo ítrekað „að þrýsta yrði á flutning innlána yfir í dótturfélög.“

Breska fjármálaeftirlitið, FSA, sendi tölvubréf 22. júlí 2008 til bankastjóra Landsbanka Íslands hf. Þar var því lýst að bréf bankastjóranna 15. sama mánaðar vekti áhyggjur, enda væri að mati FSA lítill vafi í ljósi undanfarinna atburða um að hætta hafi aukist á að íslenskir bankar yrðu fyrir áhlaupi og að Landsbanki Íslands hf. réði ekki yfir nægu lausafé til að standa við skuldbindingar útibús síns í London. Bent var á að rætt hafi verið á breska þinginu 16. sama mánaðar um áhyggjur af innstæðutryggingum vegna útibúa banka frá öðrum ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu og þá sérstaklega um Icesave reikninga. Þar hafi einnig verið lýst efasemdum um getu íslenska ríkisins til að standa undir kröfum, sem komið gætu fram ef Landsbanki Íslands hf. félli, í ljósi samanburðar á heildarskuldbindingum íslenskra banka við þjóðarframleiðslu. Að þessu virtu ylli vonbrigðum að bankinn teldi sig ekki geta takmarkað vöxt innstæðna á Icesave reikningunum við ákveðna fjárhæð og yrði FSA að ítreka að þær færu ekki fram úr 5.000.000.000 sterlingspundum. Yrði einnig að ræða samdrátt á þessum reikningum í framtíðinni. Í ljósi aðstæðna yrði einnig að krefjast þess að bankinn hefði í varasjóði við Englandsbanka 10% af öllum óbundnum innstæðum í sterlingspundum í stað 5% áður. Ef þessum kröfum yrði ekki mætt yrði FSA að taka til athugunar að neyta valdheimilda sinna til að vernda breska neytendur. Þessu til viðbótar væri óskað eftir skýrri skuldbindingu Landsbanka Íslands hf. um að starfsemi útibús hans í London yrði flutt í dótturfélag og skyldi stefnt að því að það yrði gert fyrir árslok 2008. Vegna fyrirhugaðrar heimsóknar fulltrúa FSA til aðalstöðva bankans væri óskað eftir skriflegri staðfestingu um samþykki þessara skilyrða fyrir 30. júlí 2008.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 22. júlí 2008. Samkvæmt fundargerð var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja, en þess var getið að starfandi forsætisráðherra hafi upplýst að beiðni þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 21. sama mánaðar um að Alþingi yrði kallað saman hafi hlotið afgreiðslu og væri ekki ástæða til að verða við henni.

29[breyta]

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. sendu bréf 28. júlí 2008 til breska fjármálaeftirlitsins, FSA, þar sem því var meðal annars lýst yfir að bankinn stefndi eindregið að því að flytja starfsemi í tengslum við Icesave reikninga í Bretlandi yfir í dótturfélag þar innan sanngjarns tíma, að bankinn væri reiðubúinn til að stefna að því að innstæður á þeim reikningum færu ekki fram úr 5.000.000.000 sterlingspundum fram til ársloka 2008 og að bankinn samþykkti að hækka varasjóð í sem svaraði 10% af heildarfjárhæð óbundinna innlána í þeim gjaldmiðli. Í bréfinu voru jafnframt gerðar tillögur um umræðuefni vegna væntanlegs fundar með fulltrúum FSA 31. júlí og 1. ágúst 2008. Bankastjórarnir sendu samdægurs afrit af þessu bréfi ásamt minnisblaði til forstjóra Fjármálaeftirlitsins og Ingimundar Friðrikssonar seðlabankastjóra. Í minnisblaðinu sagði meðal annars að í viðræðum við fulltrúa FSA myndi Landsbanki Íslands hf. leggja áherslu á að öll réttindi útibús bankans og reglur um lausafjárstýringu yrðu látnar gilda óbreyttar um dótturfélag hans, en þetta væri „grundvallaratriði til að raska ekki lausafjárstöðu Landsbankasamstæðunnar í heild.“ Jafnframt að hækkun á fjárhæð í varasjóði yrði háð skýrum reglum um ráðstöfun fjárins, þannig að nýta mætti það ef óvæntar útgreiðslur kæmu til, en helst vildi bankinn fá að varðveita þetta fé hjá Seðlabanka Íslands. Loks yrði erfitt fyrir bankann að skuldbinda sig til að innstæður á Icesave reikningunum færu ekki fram úr tiltekinni hámarksfjárhæð, en þetta yrði þá annaðhvort að vera háð vikmörkum eða að hærra hlutfall innstæðna umfram 5.000.000.000 sterlingspund rynni í varasjóð. Að endingu var þess getið að aðalmarkmið bankans væri að FSA héldi sig við gerða samninga, en hann teldi að í raun hafi ekkert gerst í Bretlandi, sem réttlæti auknar kröfur stofnunarinnar. Því væri afar mikilvægt að þetta yrði brýnt fyrir henni.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sendi tölvubréf 29. júlí 2008 til Más Guðmundssonar hagfræðings „vegna fundarins 7. ágúst“, en þar ætti hann ásamt tveimur öðrum nafngreindum mönnum að flytja erindi, þar sem þeir greindu stöðuna og hvað helst væri til ráða til að koma á stöðugleika til langframa. Á fundinum yrði „mjög þröngur“ hópur, tveir eða þrír menn með hvorum ráðherra, henni og ákærða. Hún tók fram að þetta yrði ekki opinber fundur, heldur yrði hann haldinn í trúnaði og mikilvægt að ekki yrði „farið með hann í fjölmiðla.“ Með tölvubréfinu fylgdi skýrslan, sem hagfræðingarnir Willem H. Buiter og Anne C. Sibert höfðu gert að beiðni Landsbanka Íslands hf. og dagsett var 4. júlí 2008. Ingibjörg framsendi þessa orðsendingu til ákærða 30. júlí 2008, en til fundarins mun hafa verið efnt í tilefni af áðurnefndri tillögu hennar til ákærða 15. sama mánaðar.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 24. fund sinn 31. júlí 2008. Í fundargerð kom fram að Ingimundur Friðriksson hafi dreift þar bréfaskiptum Landsbanka Íslands hf. og breska fjármálaeftirlitsins, FSA, í tengslum við flutning á starfsemi varðandi Icesave reikninga frá útibúi bankans í London til dótturfélags og vakið athygli á því að sett hafi verið hámark á þau innlán þar til flutningurinn yrði um garð genginn. Jónas Fr. Jónsson kvað óróa hafa komið fram í breska fjármálaráðuneytinu eftir umræður í þingnefnd um öryggi innlána breskra sparifjáreigenda, en þar hafi fulltrúar frá FSA setið fyrir svörum og Icesave reikningarnir borist sérstaklega í tal. Málið ætti langan aðdraganda, en bankinn hafi fengið þrjá mánuði til að uppfylla samkomulag við FSA um lausafjáreftirlit og Icesave reikningana. Áður en sá frestur hafi verið á enda hafi FSA gert nýjar kröfur í liðinni viku af mikilli hörku. Fjármálaeftirlitið hafi í framhaldi af því gert athugasemdir við FSA um að samráð hafi skort milli stofnananna og látið í ljós efasemdir um að „magntakmarkanir sem þessar“ fengju staðist. Það væri á hinn bóginn varasamt fyrir Landsbanka Íslands hf. „að fara í lagaþrætur við FSA.“ Tryggvi Pálsson hafi lýst þeirri skoðun í framhaldi af þessu að „FSA væri að vinna gott verk að því leyti að takmarka hugsanlegar skuldbindingar íslenska ríkisins vegna Tryggingarsjóðsins.“ Ingimundur hafi sagt frá því að á fundi starfsmanna Seðlabanka Íslands með fulltrúum FSA hafi komið fram að „unnt væri að ljúka yfirfærslunni á þremur mánuðum“, svo og að FSA gætti jafnræðis gagnvart Landsbanka Íslands hf. Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvenær tilkynnt hafi verið um hámark á heildarinnstæðum á Icesave reikningunum og Jónas svarað að það hafi gerst um 8. júlí 2008. Í tengslum við það hafi Ingimundur gert þá athugasemd að mikilvægt væri að „gæta vel að trúnaðarupplýsingum sem þessum.“ Tryggvi hafi talið íslensk stjórnvöld eiga að leggja FSA lið og jafnframt að snúa ofan af móttöku innlána í útibúum íslensku bankanna annars staðar. Baldur hafi sagt það geta orðið „banabiti fyrir bankana ef umræðan færi af stað um veikleika Tryggingarsjóðsins.“ Samkvæmt fundargerðinni spurði Bolli Þór Bollason hvernig „málið ætti eftir að þróast á næstu vikum“ og svaraði Jónas að Landsbanki Íslands hf. hafi í grundvallaratriðum fallist á kröfur FSA, en ýmsar útfærslur væru eftir. Bolli hafi spurt hvað seðlabankinn gerði í tengslum við þetta og Ingimundur svarað að hann setti „þrýsting á Landsbankann um að klára yfirfærsluna.“ Jónas hafi greint frá því að áhyggjur FSA út af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta hafi snúið að því hversu lítið væri í honum, hvernig standa ætti við skuldbindingar hans, hvaða varaáætlun hann hefði og hvernig starfsemi og ferlar væru. Af þessu tilefni kvað Áslaug Árnadóttir sjóðinn vera að undirbúa eyðublað og hvatti Ingimundur til þess að FSA fengi upplýsingar um slík atriði. Baldur hafi lagt til að FSA yrði minnt á „að verið sé að vinna að yfirfærslu innlána til dótturfélaga og þá styttist í að hugsanlegir vankantar tryggingarsjóðsins komi ekki að sök.“ Jónas kvað FSA hafa ástæðu til „að óttast tímann fram að yfirfærslu“ og væri það heppni að ekkert hafi verið fjallað um þetta í fjölmiðlum eftir umræður í bresku þingnefndinni. Í fundargerð var síðan greint frá umræðum um stöðu sparisjóða og annarra smærri fjármálafyrirtækja. Að því búnu hafi Jónas borið það upp að hann teldi óljóst hvaða verkefnum vinnuhópur, sem ákveðið var að setja á fót á fundi samráðshópsins 22. júlí 2008, ætti að sinna, en fulltrúi Fjármálaeftirlitsins í vinnuhópnum hafi komið af fyrsta fundi hans með hugmyndir um að hann ætti að gera annað en að semja drög að lagafrumvarpi. Áslaug hafi af þessu tilefni tekið fram að vinnuhópurinn ætti að „semja búta sem mætti nýta til að setja í frumvarp“, en Baldur hafi þá sagt „verkefnið vera að skýra hvaða valkostum ríkið gæti staðið frammi fyrir“ og yrðu frumvarpsdrög samin í framhaldi af því. Vegna þessara orðaskipta hafi Bolli lesið upp úr fundargerð frá 22. júlí 2008 lýsingu á viðfangsefni vinnuhópsins.

Seðlabankastjórarnir Davíð Oddsson og Ingimundur Friðriksson áttu ásamt Tryggva Pálssyni fund með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 31. júlí 2008. Samkvæmt minnispunktum um fundinn var þar rætt um samskipti bankans við fulltrúa breska fjármálaeftirlitsins, FSA, sem staddir voru hér á landi, og lét Davíð þess meðal annars getið að í samtali þeirra við sig þennan dag hafi hann bent á að íslenska ríkið væri ekki skuldbundið vegna innlánstrygginga. Áslaug Árnadóttir myndi segja það sama við þá síðar um daginn. Sigurjón Þ. Árnason hafi tekið fram að ekki væri til hjálpar að segja frá því að „Tryggingarsjóður eigi ekki pening“, en FSA gæti tekið upp hjá sér að senda upplýsingar til innstæðueigenda og þyrfti því að „tala jákvætt“ þar til umbreytingin yrði um garð gengin, því annað „gæti kallað fram áfall.“ Halldór J. Kristjánsson hafi lýst því að hann væri ekki einn þeirrar skoðunar „að € 20 þúsund sé þjóðréttarleg skuldbinding“ og Davíð svarað að engin ríkisábyrgð yrði sett nema með lögum. Halldór hafi þá sagt að afla yrði þeirrar heimildar og Davíð svarað aftur með þessum orðum: „Eruð að safna innlánum án þess að tala við þjóðina um skuldbindinguna. Þið tveir getið ekki gert þjóðina gjaldþrota.“ Sigurjón hafi sagt að Landsbanki Íslands hf. yrði að vinna með FSA og biðja um aðstoð Seðlabanka Íslands, en á meðan breytingunni yrði komið á mætti ekki segja að íslenska tryggingarkerfið væri í reynd ekki til. Davíð hafi þá gert athugasemd um að í Bretlandi hafi þurft „sérstaka ákvörðun ríkisstjórnar til að standa við innlánstrygginguna“ og Sigurjón bætt við að það yrði „að komast í gegnum þetta.“

Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri átti ásamt öðrum starfsmanni bankans símafund við tvo starfsmenn Englandsbanka 1. ágúst 2008 í tilefni af heimsókn fulltrúa breska fjármálaeftirlitsins til Íslands, sem þá var lokið. Í byrjun fundargerðar um þennan fund sagði að samtalið hafi staðið í hálfa klukkustund „og endurtóku Bretarnir í sífellu meginboðskap sinn um að íslensku bankarnir þyrftu að draga saman seglin.“ Komið hafi fram að innan Englandsbanka gætti óróleika vegna íslensku viðskiptabankanna og þá einkum Landsbanka Íslands hf. Reyndar lægju takmarkaðar upplýsingar fyrir, en áhyggjurnar hafi stafað af háu skuldatryggingarálagi, hröðum vexti bankanna, sem hafi leitt til þess að íslensk stjórnvöld gætu ekki lengur komið þeim til bjargar, og því að bankarnir væru orðnir háðir „söfnun innstæðna í Bretlandi gegnum netið“, en innstæðutryggingar að baki þeim væru takmarkaðar. Íslensku bankarnir yrðu að draga saman seglin, enda gæti ríkið ekki veitt þeim aðstoð ef erfiðleikar kæmu upp. Væri óráð að bíða lengur með sölu eigna, enda væru að minnsta kosti tvö erfið ár fram undan fyrir banka í Evrópu. Innan Englandsbanka væru uppi áhyggjur um að slæmar fréttir gætu komið af stað áhlaupi á innstæður í íslensku bönkunum. Eftir nýlegar umræður í breska þinginu gæti spurning verið borin upp við Englandsbanka um hvort þessar innstæður væru fyllilega öruggar og yrði að „svara slíkum spurningum eftir bestu samvisku.“ Þá hafi loks komið fram sú afstaða bankans að mikilvægt væri að færa „bresku innstæðurnar“ sem fyrst til dótturfélags.

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. sendu bréf 1. ágúst 2008 til breska fjármálaeftirlitsins, FSA, þar sem lýst var þeirri von að ljúka mætti viðræðum milli þeirra um flutning Icesave reikninganna frá útibúi bankans í London til dótturfélags hans, Heritable Bank Ltd., á grundvelli minnisblaðs, sem afhent hafi verið FSA. Eins og rætt hafi verið á fundum undanfarinna daga þyrfti FSA í þessu skyni að veita Landsbanka Íslands hf. undanþágu til að stýra lausafé í einu lagi fyrir alla samstæðu hans. Væri tillaga um grundvöll slíkrar undanþágu í fylgiskjali með bréfinu. Í minnisblaðinu, sem að framan var nefnt, var ráðgert að flutningur á Icesave reikningunum til dótturfélags færi fram með atbeina dómstóla og tekið fram að hæglega mætti ljúka því á árinu 2008. Þá lagði bankinn til að sett yrði hámark á samanlögðum innstæðum á Icesave reikningunum við 5.000.000.000 sterlingspund fram að því að flutningi þeirra yrði lokið til Heritable Bank Ltd., en að því leyti, sem farið yrði upp fyrir þau mörk, yrði helmingur þess fjár settur í varasjóð í vörslum Englandsbanka eða Seðlabanka Íslands.

Samkvæmt ódagsettri fundargerð áttu tveir starfsmenn Fjármálaeftirlitsins fund með bankastjórum og einum öðrum starfsmanni Landsbanka Íslands hf., sem mun hafa verið haldinn 1. ágúst 2008. Í fundargerðinni kom fram að Sigurjón Þ. Árnason hafi lagt „gríðarlega mikla áherslu“ á að Fjármálaeftirlitið kæmi á fundi með æðstu stjórnendum breska fjármálaeftirlitsins, FSA. Að sögn bankastjóranna væri lausnin á flutningi Icesave reikninganna til Heritable Bank Ltd. einföld, því eftir að reikningarnir hefðu verið færðir þangað „myndi fjármagnið allt fara aftur í útibú bankans í London“, en gegn því myndi Heritable Bank Ltd. eiga kröfu á hendur útibúinu, sem Landsbanki Íslands hf. bæri ábyrgð á. Nauðsynlegt væri að gæta að hagsmunum Landsbanka Íslands hf. sem samstæðu og myndu tillögur í minnisblaði bankans til FSA hafa minnstu röskun í för með sér. FSA yrði að „horfa á þetta á samstæðugrundvelli annars væri Landsbankinn dauður o.þ.m. Ísland.“ Þá kom fram í fundargerðinni að bankastjórarnir hafi greint frá því að starfsemi Landsbanka Íslands hf. í Hollandi yrði að líkindum á hendi dótturfélags frá ársbyrjun 2009 og væri ætlunin að stofna útibú frá því víðar í Evrópu, þar sem aflað yrði innlána. Yrði farið hægt í sakirnar í byrjun, en innlánin myndu eiga undir hollenska innstæðutryggingarkerfið.

Viðskiptaráðuneytið veitti samkvæmt beiðni breska fjármálaráðuneytisins upplýsingar um margvísleg atriði varðandi Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta með tölvubréfi 3. ágúst 2008.

Breska fjármálaeftirlitið, FSA, sendi bréf 5. ágúst 2008 til bankastjóra Landsbanka Íslands hf. Þar kom í fyrsta lagi fram að FSA fagnaði því að bankinn væri reiðubúinn til að gangast undir að hámark heildarinnstæðna á Icesave reikningum í útibúi hans í London yrði 5.000.000.000 sterlingspund, en á hinn bóginn yrði óásættanlegt að innstæðufé, sem færi fram úr þeirri fjárhæð, rynni að helmingi inn í varasjóð, enda yrði bankinn að haga boðum sínum um vexti á þann hátt að ekki yrði farið fram úr þessum mörkum. Í öðru lagi lýsti FSA ánægju með að bankinn samþykkti að hækka fé í varasjóði úr 5% í 10% af heildarinnstæðum á óbundnum Icesave reikningum og yrði samþykkt að varðveita mætti þessa viðbót á reikningi við Seðlabanka Íslands. Í þriðja lagi væri FSA sammála því að best færi á að Icesave reikningarnir yrðu færðir í dótturfélag bankans, Heritable Bank Ltd. Á hinn bóginn gæti ekki komið til greina að sá banki fengi undanþágu frá reglum FSA til að láta fé sem svaraði þessum innstæðum renna til móðurfélags síns. Vegna þessara atriða var óskað eftir að Landsbanki Íslands hf. léti í té fyrir dagslok 12. ágúst 2008 nýjar tillögur um hvernig staðið yrði að flutningi innstæðnanna ásamt skuldbindingu um að dótturfélagið myndi hlíta almennum reglum. FSA stefndi að því að þessum aðgerðum lyki fyrir 31. október 2008, en seinkun á þeim kæmi ekki til greina lengur en til loka þess árs. Ef Landsbanki Íslands hf. myndi ekki hlíta þessum tímamörkum og samþykkja jafnframt skilmála FSA fyrir flutningi innstæðnanna yrði stofnunin að taka til athugunar hvort beita yrði þvingunarúrræðum til að fylgja þessu eftir.

Í málinu liggur fyrir fundargerð á bréfsefni Seðlabanka Íslands frá fundi, sem bankastjórarnir Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason áttu ásamt Jóni Þ. Sigurgeirssyni með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. og Jóni Þorsteini Oddleifssyni. Í fundargerðinni kemur ekki fram hvenær fundurinn var haldinn, en af efni hennar, sem að nokkru er rakið hér á eftir, er ljóst að efnt hafi verið til hans í framhaldi af því að Landsbanka Íslands hf. barst framangreint bréf frá breska fjármálaeftirlitinu, FSA. Samkvæmt fundargerðinni greindu fulltrúar bankans frá afstöðu FSA, sem þeir töldu hafa „sýnt óbilgirni við væntanlega dótturfélagavæðingu Icesave“, og virðist sem þetta hafi að mati bankans einkum átt við um kröfu stofnunarinnar um að eignir yrðu færðar til Heritable Bank Ltd. á móti skuldbindingum vegna innstæðna á Icesave reikningunum, svo og hvernig haga ætti lausafjárstýringu milli móðurfélags og dótturfélags. Ef þetta gengi eftir gæti Landsbanki Íslands hf. „ekki nýtt sér fjármögnun frá Icesave í Bretlandi“, sem væri bagalegt fyrir hann, enda kæmi þetta „í kjölfar takmarkana hjá evrópska seðlabankanum og væru flest sund nú lokuð varðandi fjármögnun.“ Eftir stæði að afla mætti fjár með Icesave reikningum í öðrum Evrópulöndum, en Davíð hafi af því tilefni minnt á mikilvægi þess að starfsemi varðandi Icesave reikninga yrði rekin í dótturfélögum. Sigurjón Þ. Árnason hafi þá getið þess „að sú staða sem nú væri komin upp væri sú erfiðasta sem bankinn hefði upplifað.“ Undir lið í fundargerðinni um „erindi LÍ við Seðlabanka Íslands“ var þess getið að Halldór J. Kristjánsson teldi líklegt að FSA myndi samþykkja skuldbindingu frá seðlabankanum upp á 2.500.000.000 sterlingspund sem eign fyrir Heritable Bank Ltd. á móti Icesave reikningunum við flutning þeirra. Seðlabankinn gæti þá tekið við innstæðufénu frá Heritable Bank Ltd. og lánað það jafnharðan til Landsbanka Íslands hf., sem gæti sett seðlabankanum að veði skuldabréf sjávarútvegsfyrirtækja og bréf „sem evrópski seðlabankinn hefur nú hafnað þ.e. „krossútgáfur“ íslenskra banka og eignavarin verðbréf.“ Sigurjón hafi lýst þeirri skoðun að með þessu mætti komast hjá vandræðum við flutning innstæðnanna og um leið myndi þessi aðgerð styrkja gjaldeyrisforða seðlabankans, sem fengi greitt „fyrir viðvikið“. Eiríkur hafi af þessu tilefni bent á að innlendar skuldbindingar gætu ekki talist til gjaldeyrisforða seðlabankans og stæði ráðstöfun sem þessi nær því að teljast lán til þrautavara. Hún hefði mikil áhrif á efnahag seðlabankans og henni yrði að fylgja opinber tilkynning með „tilheyrandi orðsporsáhættu fyrir íslenska bankakerfið.“ Davíð hafi spurt „um aðrar lausnir t.d. að standa í lappirnar gagnvart FSA og fullyrða að krafa þeirra væri óframkvæmanleg.“ Sigurjón hafi sagt að slíku fylgdi mikil áhætta, enda hafi komið fram í lok bréfs FSA að stofnunin væri tilbúin að grípa til þvingunarúrræða. Eftirfarandi var einnig haft eftir Sigurjóni: „Ákvörðun um að standa í ístaðinu væri af þeirri stærðargráðu að fulltrúar LÍ treystu sér ekki til að taka hana upp á eigin spýtur, þar sem hún gæti haft veruleg áhrif á allt íslenska fjármálakerfið. Af þessum sökum hefðu þeir komið til fundar við SÍ.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 5. ágúst 2008. Samkvæmt fundargerð voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

30[breyta]

Samkvæmt minnisblaði frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var haldinn fundur „með hagfræðingum“ 7. ágúst 2008, þar sem Már Guðmundsson, Friðrik Már Baldvinsson og Gauti Eggertsson höfðu framsögu, en auk hennar hafi að öðru leyti verið viðstaddir forsætisráðherra, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra, viðskiptaráðherra ásamt aðstoðarmanni sínum og ráðuneytisstjórarnir í forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Í minnisblaðinu var meðal annars haft eftir Gauta að það væri mjög mikils virði „að standa við bakið á bönkunum“ og hættulegt að fara „í opinbera umræðu um skiptingu skuldbindinga þ.e. innlenda og erlenda.“ Haft var eftir Má að mikilvægt væri að „bankarnir geti sýnt að þeir geti lifað“ og væri ódýrara fyrir ríkið að bjarga þeim en „að láta þá hrynja.“ Friðrik hafi getið þess að það ætti „að bjarga bönkum sem eiga nægar eignir en eiga í lausafjárvanda.“

Bankastjórn Seðlabanka Íslands sendi 7. ágúst 2008 minnisblað til ráðuneytisstjórans í fjármálaráðuneytinu, þar sem greint var frá því, sem bankinn hafi gert undanfarna mánuði til að afla erlends láns fyrir íslenska ríkið í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þar var meðal annars getið um að þrír erlendir „umsjónarbankar lántökunnar“ hafi eftir ýmsar árangurslitlar viðræður við fjárfesta ráðlagt „einróma að ekki yrði farið á markað þar sem orðsporsáhættan af misheppnuðu skuldabréfaútboði væri of mikil og gæti ein og sér valdið bankaáhlaupi gagnvart Íslandi.“ Vikið var að nokkrum kostum um hugsanlega lántöku, sem huga mætti að þegar liði fram á haust, en í niðurlagi minnisblaðsins sagði eftirfarandi: „Rétt er að undirstrika að framangreind vandamál hafa ekkert með fjárhagslega stöðu ríkissjóðs sjálfs að gera, sem er í öfundsverðri stöðu miðað við flesta aðra. Vantrú ríkir á íslenska bankakerfinu. Markaðir gera ráð fyrir að yfirgnæfandi líkur séu á að vandamál þess verði fyrr eða síðar vandamál ríkissjóðs. Þessi vantrú er þrándur í götu þessa máls.“ Breska fjármálaráðuneytið beindi fyrirspurn til viðskiptaráðuneytisins 7. ágúst 2008 um fjölmörg atriði varðandi Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Ráðuneytið svaraði þessari fyrirspurn að hluta 14. sama mánaðar.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sendi með tölvubréfi til ákærða 8. ágúst 2008 minnispunkta frá fundi, sem hann átti í London ásamt tveimur starfsmönnum sínum 7. sama mánaðar við fimm fulltrúa Deutsche Bank AG. Í minnispunktunum var meðal annars greint frá því að erlendu bankamennirnir hafi talið að skuldatryggingarálag myndi „ganga frá bönkunum“, enda kæmi það í veg fyrir að þeir gætu útvegað sér fé án ábyrgðar annarra. Álagið væri allt of hátt á íslensku bankana, en markaðurinn væri óraunsær og gæti verið það áfram „nógu lengi til að taka bankana af lífi.“ Aðeins væri rými fyrir einn stóran banka með aðalstöðvar á Íslandi og yrðu tveir þeirra að sameinast og flytja í framhaldi af því, en í því sambandi hafi verið nefndir Glitnir banki hf. og Kaupþing banki hf. Allir bankarnir þörfnuðust nýs eigin fjár, svo sem með hlutafé frá lífeyrissjóðum, en einnig myndi „eignarhald ríkissjóðs í bönkunum ... hjálpa.“ Þá væri mikilvægt að fá nýtt hlutafé frá útlöndum. Gjaldeyrisvarasjóður þyrfti að nema um 10.000.000.000 evrum og væri mikilvægt að ríkið sýndi að aðgerðir stæðu yfir til að stækka hann.

Fjármálaeftirlitið ritaði bréf 11. ágúst 2008 til breska fjármálaeftirlitsins, FSA. Þar kom fram að Fjármálaeftirlitið styddi í meginatriðum þá aðgerð að Icesave reikningar yrðu fluttir frá útibúi Landsbanka Íslands hf. í London til Heritable Bank Ltd., en þetta mætti á hinn bóginn ekki veikja stöðu Landsbanka Íslands hf. sem samstæðu og getu hans til að starfa í Evrópu. Skipti þar máli að lausafjárstýring milli hans og breska dótturfélagsins tæki mið af því að um samstæðu væri að ræða. Af þeim sökum vildi Fjármálaeftirlitið ræða við FSA um undanþágur fyrir þessa starfsemi. Frestur, sem FSA hafi veitt Landsbanka Íslands hf. til 12. ágúst 2008 til að setja fram nýjar tillögur, væri í þessu ljósi of skammur og væri óskað eftir framlengingu hans. Jafnframt var því lýst að Fjármálaeftirlitið teldi FSA taka of stranga afstöðu til hámarksfjárhæðar innstæðna á Icesave reikningunum og yrði að veita eitthvert svigrúm, en minnt var á tillögu Landsbanka Íslands hf. um hvernig fara mætti með fé, sem bærist inn á reikningana umfram þetta hámark. Loks var vísað til þess að samkomulag hafi tekist um að bankinn myndi stækka varasjóð vegna óbundinna Icesave reikninga úr 5% í 10% og yrði helmingur hans varðveittur í Seðlabanka Íslands. Þess var að endingu getið að vonast væri til að þoka mætti þessum málum áfram á fundi, sem ráðgerður væri milli Fjármálaeftirlitsins og FSA 18. ágúst 2008.

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. sendu bréf 12. ágúst 2008 til breska fjármálaeftirlitsins, FSA. Þar var í byrjun vikið að því að bankanum væri ófært að setja fram nýjar heildartillögur um flutning Icesave reikninga frá útibúi sínu í London til Heritable Bank Ltd. á svo skömmum tíma, sem FSA hafi áskilið, en fyrir því voru færðar nánar tilgreindar ástæður, þar á meðal að Landsbanki Íslands hf. gæti ekki tekið ákvarðanir um þessi atriði, sem hefðu áhrif á heildarstarfsemi hans, nema Fjármálaeftirlitið samþykkti þær. Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu stæði fyrir dyrum fundur háttsettra starfsmanna þess og FSA 18. ágúst 2008 og væri óskað eftir að frestur til að gera nýjar tillögur yrði veittur þar til sá fundur væri að baki. Í bréfinu voru þó reifaðar hugmyndir bankastjóranna um lausn á nokkrum atriðum, þar á meðal að Landsbanki Íslands hf. myndi auka eigið fé Heritable Bank Ltd. um 500.000.000 sterlingspund samhliða því að Icesave reikningarnir yrðu fluttir þangað, lánastarfsemi útibús Landsbanka Íslands hf. í London yrði flutt þangað á fyrri helmingi ársins 2009 og stefnt yrði að því að Heritable Bank Ltd. réði yfir nægum eignum í öðru formi en kröfum á hendur Landsbanka Íslands hf. á móti skuldbindingum við innstæðueigendur fyrir árslok 2010. Fram til þess tíma myndi FSA veita undanþágu til þess að starfsemi Landsbanka Íslands hf. og dótturfélaga hans yrði metin á þeim grundvelli að um samstæðu væri að ræða. Ítrekaðar voru fyrri óskir um hvernig færi um hámarksfjárhæð, sem innstæður á Icesave reikningunum mættu nema, en lýst var ánægju með að samkomulag væri um tilhögun á varasjóði vegna óbundinna reikninga. Í bréfinu var að öðru leyti sérstaklega bent á réttindi Landsbanka Íslands hf. samkvæmt reglum um bankastarfsemi á evrópska efnahagssvæðinu, sem hann teldi sig hafa farið í hvívetna eftir í starfsemi sinni í Bretlandi, en þessi réttindi mætti ekki skerða án málefnalegra ástæðna.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman til 25. fundar síns 12. ágúst 2008 og tók Jónína S. Lárusdóttir þar aftur sæti í stað Áslaugar Árnadóttur. Samkvæmt fundargerð hafði Baldur Guðlaugsson átt símafund við breska fjármálaráðuneytið í framhaldi af heimsókn starfsmanna breska fjármálaeftirlitsins, FSA, til Íslands um síðustu mánaðamót og hefði sá fundur verið „formlegur og jákvæður.“ Ingimundur Friðriksson veitti upplýsingar um símafund sinn við starfsmenn Englandsbanka 1. ágúst 2008 og gat þess jafnframt að fulltrúar FSA hefðu lýst ánægju með samskipti sín við Áslaugu Árnadóttur sem formanns stjórnar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Baldur hafi í framhaldi af þessu spurt „hvort komið væri samkomulag í grundvallaratriðum þó enn væru lausir endar“ og Jónas Fr. Jónsson þá sagt að „ýmsar vendingar“ hafi verið í málinu og „FSA komið fram með nýjar kröfur“, sem hann lýsti nánar. Hann tók fram að Fjármálaeftirlitið vildi fá lengri frest og væru uppi efasemdir um „lögmæti innlánaþaksins og aðgerðanna“, en það teldi „tillögur Landsbankans mæta sjónarmiðum FSA.“ Hann færi ásamt Jóni Sigurðssyni, formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins, til „fundar við æðstu menn FSA næsta mánudag.“ Hann teldi að „FSA geti með kröfum sínum nánast neytt Landsbankann til að flytja meginstarfsemi sína“ og væri komið „að þolmörkum Landsbankans fyrir hversu langt þeir geti teygt sig.“ Bolli Þór Bollason hafi spurt hvort „Landsbankinn hefði í dag ótakmarkaðan aðgang að þessum innlánum sem lausafé“ og Jónas svarað að bankinn hafi geymt hluta þeirra í Bretlandi, en teldi sig þurfa að geta fært til lausafjárstýringar um 3.800.000.000 sterlingspund af heildarfjárhæð innstæðnanna, sem næmi um 4.800.000.000 sterlingspundum. Baldur hafi bent á að „Landsbankinn gæti lent í þeirri stöðu að ganga að óásættanlegum kröfum við yfirfærslu innlána í dótturfélag eða halda þeim áfram í útibúi sem væri erfitt fyrir íslensk stjórnvöld.“ Jónas hafi þá sagt „FSA fullyrða að þeir gæti jafnræðis en íslenskir bankar séu hættulegri en aðrir“ og teldi hann stofnunina „á gráu svæði lögfræðilega séð.“ Óróinn virtist vera af „pólitískum toga“ og hafi komið upp eftir umfjöllun í breskri þingnefnd. Hann gat þess og að „Landsbankinn hefði verið að kanna aðrar leiðir svo sem með ábyrgðir.“ Baldur hafi síðan spurt „hvaða úrræði íslensk stjórnvöld hafi til að ýta innlánum yfir í dótturfélög erlendis“, en þetta væri „stórt áhyggjuefni og ástæða væri til að skoða möguleikana í heild, ekki bara vegna Landsbankans.“ Í framhaldi af umræðum um þetta, svo og hvort unnt væri að ákveða að hærra framlag yrði greitt í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta en lögbundið lágmark, tók Tryggvi Pálsson fram að „ganga þyrfti frá drögum að yfirlýsingu um innstæðutryggingu“, sem Ingimundur og Jónas hafi tekið undir. Bolli hafi minnt á að „fyrir liggja yfirlýsingar forsætis- og fjármálaráðherra í þá veru að stjórnvöld standi við bakið á stóru bönkunum“, en Tryggvi þá spurt „hvort ríkissjóður gæti staðið við slíkar yfirlýsingar án hættu á eigin greiðsluþroti.“ Jónína hafi þá nefnt að „orðalag og framsetning yfirlýsingar getur skipt miklu máli“. Jónas hafi vísað til þess að „sviðsmyndir fjármálaáfalls liggja fyrir og setja þurfi fram megin valkosti“ og Ingimundur þá lagt til „að ráðuneytin vinni að þessu.“ Baldur hafi bent á að enn væri „óljóst hver viðmið fjárhæða innlánsverndar væru“ og Jónas tekið fram að Fjármálaeftirlitið yrði „með tölur fljótlega“, svo og að fært væri að „binda útgreiðslur við íslenskar krónur.“ Vernd innlána að fjárhæð allt að 5.000.000 krónur næði til um 95% innstæðueigenda og myndi það nægja til „að skapa ró“, en velja yrði milli þeirrar fjárhæðar og lágmarksverndar. Jónína hafi þá minnt á að „fyrir lægju drög að yfirlýsingu um innstæðuvernd“, sem hafi fylgt gögnum til samráðshópsins frá viðskiptaráðuneytinu 10. apríl 2008. Að öðru leyti er þess að geta að Jónína greindi frá því á fundinum að „viðskiptaráðherra hafi í hyggju að skipa nefnd sem dragi saman það sem hægt væri að læra af atburðum að undanförnu“ og hafi gert í því skyni minnisblað, sem leggja ætti fyrir ríkisstjórnarfund sama dag.

Í minnisblaði viðskiptaráðherra til ríkisstjórnarinnar, sem var getið hér að framan og dagsett er 12. ágúst 2008, sagði meðal annars: „Órói sá sem ríkt hefur á fjármálamörkuðum heimsins á undanförnum mánuðum hefur haft veruleg áhrif á fjármálafyrirtæki. Nauðsynlegt er að bregðast við og nýta sér þá þekkingu og reynslu sem eftirlitsaðilar og aðrir hafa fengið síðasta árið.“ Af þessum sökum væri lagt til að skipuð yrði nefnd og henni falið að skila tillögum, sem ætlað væri að auka stöðugleika fjármálakerfisins, draga úr líkum þess að fjármálafyrirtæki lendi í erfiðleikum og draga úr áhrifum þess að slíkt gerðist. Viðskiptaráðherra myndi skipa formann nefndarinnar, en að öðru leyti ættu þar sæti fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 12. ágúst 2008. Samkvæmt fundargerð lagði viðskiptaráðherra þar fram og kynnti áðurgreint minnisblað og var bókað að málið hafi verið rætt, en afgreiðslu þess frestað. Að öðru leyti er þess ekki getið í fundargerðinni að rætt hafi verið um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

31[breyta]

Fjármálaeftirlitið sendi tölvubréf til hollenska fjármálaeftirlitsins 15. ágúst 2008 og var þar vísað til fundar degi áður, þar sem komið hafi fram að hollenska eftirlitið væri að íhuga að setja hömlur á að útibú Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam tæki við innlánum. Þetta vekti undrun, þar sem aldrei hafi verið rætt við Fjármálaeftirlitið um þetta eða lýst áhyggjum af þessari starfsemi bankans, auk þess sem ekki hafi verið getið um lagalegar heimildir til slíkrar ráðstöfunar. Ekki þyrfti mörg orð um að hvers kyns hindranir við starfsemi fjármálafyrirtækis, sem fengið hefði starfsleyfi í ríki á evrópska efnahagssvæðinu, væru andstæðar reglum um fjármálastarfsemi á svæðinu, en að auki væri Fjármálaeftirlitinu ekki kunnugt um nokkurt tilefni til slíkra aðgerða. Væri því óskað eftir fundi æðstu stjórnenda þessara eftirlitsstofnana til að ræða þetta frekar. Breska fjármálaeftirlitið, FSA, sendi bréf 15. ágúst 2008 til bankastjóra Landsbanka Íslands hf. Þar var því lýst að FSA hefði áhyggjur af vaxandi áhættu breskra innstæðueigenda vegna hagkerfisins á Íslandi og víðar í heiminum, mikilli óvissu um íslenska innstæðutryggingarkerfið og umræðu almennings, sem gæti leitt til lausafjárþurrðar hjá bankanum. Nánar tiltekið beindust þessar áhyggjur að versnandi ástandi í efnahagsmálum á Íslandi vegna aukinnar verðbólgu, lækkandi þjóðarframleiðslu, gengislækkun íslensku krónunnar og gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands, sem væri lítill í samanburði við erlendar skuldir. Aðgangur íslensku bankanna að lánsfé væri erfiður, skuldatryggingarálag þeirra væri hátt þótt það hafi lækkað nokkuð undanfarið og útlánahætta þeirra færi vaxandi. FSA hefði áhyggjur af getu seðlabankans til að styðja við bankakerfið vegna stærðar þess í samanburði við hagkerfið og lítils gjaldeyrisforða, sem erfitt væri að auka við, enda hafi íslenski fjármálaráðherrann sagt í sömu viku að lántökukostnaður væri óviðunandi. Miklar áhyggjur væru af getu íslenska tryggingarsjóðsins til að standa undir bótum þótt hann kynni að njóta stuðnings ríkisins, enda væru skuldbindingar hans vegna Icesave reikninga í Bretlandi um 2.100.000.000 sterlingspund. Staða íslenska sjóðsins væri orðin opinber og væri raunveruleg hætta á að umfjöllun fjölmiðla gæti dregið úr trausti breskra innstæðueigenda. Neikvæð umfjöllun á þeim vettvangi, sem einnig væri hafin í Hollandi vegna Icesave reikninga þar, gæti aukist og leitt til alvarlegrar lausafjárþurrðar hjá bankanum. Sú hætta væri enn meiri en ella í ljósi þess að netreikningar eins og Icesave væru mjög kvikir og auðvelt væri að taka út allt óbundið fé á skömmum tíma, en það næmi um 2.250.000.000 sterlingspundum. Af þessum ástæðum væri að mati FSA talsverð hætta á að Landsbanki Íslands hf. gæti ekki staðið við gjaldfallnar skuldbindingar sínar og að auki mætti efast um að bankinn stæðist lausafjárkröfur, sem stofnunin geri. Ef ekki yrði framkvæmanlegt að flytja Icesave reikningana frá útibúi Landsbanka Íslands hf. í London til dótturfélags fyrir árslok 2008 gæti komið til þess að FSA teldi nauðsynlegt að bankinn legði í fyrsta lagi fram áætlun innan tveggja vikna um hvernig fjár yrði aflað til að mæta lækkun á óbundnum innstæðum á reikningum fram til ársloka 2008 og væri hæfilegt að ætla að sú lækkun gæti numið helmingi, en þar yrði að taka tillit til þess að bankanum væri upp frá þessu meinað að bjóða vexti, sem kæmust á skrá um bestu kjör. Í öðru lagi að bankanum yrði gert að hætta allri markaðssetningu á óbundnum Icesave reikningum með fyrirvara um samninga, sem kynnu þegar að hafa verið gerðir. Í þriðja lagi að bankinn yrði að skuldbinda sig til að breyta ekki vöxtum af Icesave reikningum í Bretlandi án þess að tilkynna það FSA með að minnsta kosti tveggja daga fyrirvara og mættu slíkar breytingar þá ekki verða til annars en að halda óbreyttri stöðu bankans á skrám um bestu vaxtakjör. Í fjórða lagi að bankanum yrði gert að hækka fjárhæð varasjóðs í sem svaraði 20% af óbundnum innstæðum í sterlingspundum, en loks í fimmta lagi að bankanum yrði gert að leggja fram innan þriggja vikna áætlun um myndun varasjóðs, sem staðið gæti undir öllum bundnum innstæðum á Icesave reikningum, sem myndu losna fram til miðs árs 2009. Því var lýst yfir að FSA væri sammála Landsbanka Íslands hf. um að æskilegt væri að flytja Icesave reikningana til Heritable Bank Ltd., en það væri háð því skilyrði að eignir myndu fylgja til síðarnefnda bankans, sem væru nægar til að tryggja stöðu hans sem sjálfstæðs banka, og væri afar brýnt að ræða það frekar á fyrirhuguðum fundi 19. ágúst 2008 með það fyrir augum að komast að niðurstöðu fyrir lok mánaðarins. FSA óskaði af þessum sökum eftir að fá innan þess frests skriflega skuldbindingu frá Landsbanka Íslands hf. um að Icesave reikningarnir yrðu fluttir til Heritable Bank Ltd. á þeim grundvelli, sem getið væri í bréfinu, en að gerðu samkomulagi um þetta mætti taka til skoðunar hvort nauðsynlegt væri að hafa uppi þær takmarkanir, sem áður var getið.

Tryggvi Pálsson sendi 15. ágúst 2008 minnisblað til samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Minnisblaðið hafði að geyma upptalningu á atriðum um stefnu stjórnvalda og viðlagaundirbúning og virðist hafa verið ætlað að vera listi um umræðuefni innan hópsins. Þar sagði í byrjun að grunnforsendan væri sú að „stefna stjórnvalda sé í samræmi við yfirlýsingar ráðherra og umræðu í samráðshópi“. Þetta fælist í fyrsta lagi í því að kerfislega mikilvægir bankar fengju stuðning eða yrðu yfirteknir ef greiðsluhæfi þeirra brysti, í öðru lagi að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta yrði gert kleift að standa við tryggingarvernd á innstæðum, annaðhvort að tilteknu marki eða fullu, og í þriðja lagi að greiðsluhæfi ríkisins yrði ekki stefnt í hættu. Ef þetta væri stefna stjórnvalda yrði í viðlagaundirbúningi „að leggja raunhæft mat á hámarksþol ríkissjóðs við lausn og afleiðingar fjármálaáfalls og draga eins og kostur er úr mögulegum skuldbindingum vegna innstæðuverndar og annars opinbers stuðnings.“ Um takmörkun skuldbindinga mætti einnig huga að því að höfuðstöðvar eins eða tveggja af stóru viðskiptabönkunum yrðu fluttar úr landi og að bankarnir selji eignir og dragi úr starfsemi til að minnka umfang sitt. Einnig mætti draga úr skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta með því að færa innstæður úr erlendum útibúum íslensku bankanna yfir í dótturfélög og auka eignir sjóðsins með hækkun iðgjalda eða fyrirframgreiðslum. Þá þyrfti að ljúka öllum undirbúningi sjóðsins í sambandi við vinnslu upplýsinga um innstæðueigendur, valkosti um útborganir og ferli við þær, lántökur og kynningarefni.

Í Seðlabanka Íslands var tekið saman minnisblað 16. ágúst 2008 vegna bréfs breska fjármálaeftirlitsins til Landsbanka Íslands hf. 15. sama mánaðar, en þar voru sett fram andsvör við mörgum atriðum í bréfinu. Af gögnum málsins verður ekki ráðið í hvaða skyni þetta minnisblað hafi verið gert eða á hvaða hátt þessi andsvör kunni að hafa verið nýtt. Með tölvubréfi 17. ágúst 2008 sendi Halldór J. Kristjánsson bankastjóri í Landsbanka Íslands hf. forstjóra Fjármálaeftirlitsins athugasemdir, sem starfsmaður bankans, Jón Þorsteinn Oddleifsson, hafði tekið saman um bréf breska fjármálaeftirlitsins, FSA, frá 15. sama mánaðar. Í upphafi athugasemdanna voru taldar upp þær kröfur, sem FSA hafði gert til bankans með bréfinu, en þeim síðan svarað í einstökum atriðum. Þar kom meðal annars fram að kröfur FSA um lækkun á óbundnum innstæðum á Icesave reikningum í Bretlandi um helming fyrir lok ársins 2008 og að 20% af því, sem þá stæði eftir, yrði lagt í varasjóð, fælu í raun í sér að 60% af innstæðunum yrðu greiddar út án þess að annað fengi að koma í staðinn, en þessu mætti jafna við áhlaup á bankann. Það hlyti að vekja athygli ef bankinn færi að stuðla að lækkun innlána, sem væri andstætt stefnu hans, en útstreymi fjár í þessum mæli hlyti að valda lækkun á lánshæfiseinkunnum og um leið erfiðleikum við öflun lánsfjár, sem myndi rýra stöðu þeirra innstæðueigenda sem eftir stæðu. Bent var á að erlendis væri Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta talinn ótrúverðugur vegna skorts á eignum og yrði því mjög til bóta „ef tekinn væri af allur vafi um ábyrgð ríkisins á skuldbindingum sjóðsins“, en ábending um þetta frá Fjármálaeftirlitinu til stjórnvalda gæti átt rétt á sér. Fjármálaeftirlitið og FSA þyrftu ekkert að efast um vilja Landsbanka Íslands hf. til að færa starfsemi úr útibúi sínu í London til dótturfélags og myndi hann „setja allan sinn styrk í framkvæmd slíks verkefnis komi til þess að bankinn ráðist í slíka formbreytingu.“ Til að vernda hagsmuni bankans og stöðugleika á íslenskum fjármálamarkaði væri á hinn bóginn nauðsynlegt „að bankinn fái tækifæri til að gera slíka formbreytingu með hæfilegri aðlögun á reglum um stórar áhættuskuldbindingar milli móður- og dótturfélags“. Því væri mikilvægt að bankinn fengi stuðning Fjármálaeftirlitsins, þar sem „kröfugerð FSA er fullkomlega óraunhæf í þessum skilningi.“

Seðlabankinn í Hollandi beindi með tölvubréfi 18. ágúst 2008 fyrirspurn til viðskiptaráðuneytisins um ýmis atriði varðandi fjárhag Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og reglur um hann. Framkvæmdastjóri sjóðsins svaraði þessu erindi með tölvubréfi 19. sama mánaðar og bárust honum í framhaldi af því frekari spurningar um málefni sjóðsins. Ekki liggur fyrir hvort þetta hafi gefið tilefni til frekari bréfaskipta.

Samantekt var gerð í viðskiptaráðuneytinu 19. ágúst 2008 um greiðslur í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, en í upphafi hennar var þess getið að á fundi samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað 12. sama mánaðar hafi verið rætt um hvort stjórn sjóðsins „gæti ákveðið að greiða meira en lögbundið lágmark í sjóðinn“, svo og hvort áskilja mætti hærri greiðslur úr hendi fjármálafyrirtækja, sem starfræktu útibú erlendis. Í samantektinni var báðum þessum spurningum með nánari skýringum svarað neitandi.

Ríkisstjórn Íslands hélt fundi 15. og 19. ágúst 2008. Samkvæmt fundargerðum voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

32[breyta]

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 26. fund sinn 20. ágúst 2008. Í upphafi fundargerðar var því lýst að Jónas Fr. Jónsson hafi gert grein fyrir fundi sínum og formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins með breska fjármálaeftirlitinu, FSA, 18. sama mánaðar, en þar hafi komið fram sú skoðun starfsmanna FSA að mikil hætta væri á „innlánsáhlaupi gagnvart Landsbankanum“, svo og að bankinn hafi ekki reynst samvinnuþýður. FSA hafi haldið fast við það álit að aðgerðir stofnunarinnar væru heimilar eftir reglum á evrópska efnahagssvæðinu. Á hinn bóginn hafi verið jákvætt að mætt hafi verið með skilningi sjónarmiði Fjármálaeftirlitsins um að „Landsbankasamstæðan verði ekki veikari eftir yfirfærslu innlána frá útibúi í dótturfélag.“ Þá var þess getið að bankastjórar Landsbanka Íslands hf. hafi 19. sama mánaðar fundað með fulltrúum FSA, sem hafi gert skýra kröfu um að innlán yrðu færð úr útibúi bankans í London til Heritable Bank Ltd. Jónas hafi lýst þeirri skoðun að þetta „væri ýmsum erfiðleikum háð“, en FSA hefði meðal annars spurt um ákvæði í lánssamningum Landsbanka Íslands hf., sem „gætu valdið því að lánin rakni upp eða lánskjörin breytist.“ Tæknilega mætti „hugsa sér að Heritable Bank kaupi Landsbankann.“ Í framhaldi af þessu bar Baldur Guðlaugsson fram spurningu um hvort ekki væri rétt munað að Landsbanki Íslands hf. hafi áður verið búinn að lýsa yfir samþykki við yfirfærslu innlána og kvað Jónas hana ekki vera einfalda, tímarammi skipti miklu og „kröfur FSA hefðu farið stigmagnandi“, þannig að nú væri krafist að bankinn samþykkti yfirfærslu án skilyrða. Baldur hafi þá spurt „hver vandkvæðin væru hjá Landsbankanum í þessari stöðu“ og Jónína S. Lárusdóttir svarað því til að „óljóst væri hvernig FSA ætti eftir að meta þau útlán og aðrar eignir sem ætlunin væri að yfirfæra til Bretlands.“ Ingimundur Friðriksson hafi nefnt hvort „Landsbankinn væri ekki að mikla fyrir sér vandann við mat útlána“ og Tryggvi Pálsson þá bent á að FSA ætlaðist til að Heritable Bank Ltd. yrði með sterka lausafjárstöðu og léti ekki meira en sem svaraði 75% af eigin fé ganga til móðurfélagsins, en komið hafi fram á síðasta fundi samráðshópsins að Landsbanki Íslands hf. þyrfti að fá um 3.800.000.000 sterlingspund frá starfseminni í Bretlandi fyrir lausafjárstýringu samstæðunnar. Jónas hafi vakið athygli á að eigið fé Heritable Bank Ltd. væri innan við 300.000.000 sterlingspund og væru takmörk á „svigrúmi eigenda“ til að hækka það. Jónína hafi spurt hvort stjórnendur Landsbanka Íslands hf. „hefðu ekki verið byrjaðir að vinna í þessum málum“ og hafi Jónas staðfest það og tekið fram að „hörðu kröfurnar í síðasta bréfi FSA til Landsbankans ættu við ef yfirfærslan er ekki samþykkt.“ Baldur hafi þessu næst spurt um tímafrest og Jónas þá sagt að FSA krefðist svara fyrir lok ágúst 2008. Ingimundur hafi getið þess að bankstjórn Seðlabanka Íslands hafi velt fyrir sér hvort senda ætti bréf af þessu tilefni til bankastjóra Englandsbanka og lægju þegar fyrir drög að slíku bréfi. Jónas hafi talið jákvætt að senda slíkt bréf. Bolli Þór Bollason hafi sagt það vera „sitt mat að Landsbankamenn séu ekki algerlega að átta sig á stöðu málsins en þeir hafi verið að fara fram á yfirlýsingar frá íslenskum stjórnvöldum.“ Jónas kvaðst telja þá gera sér grein fyrir stöðunni, en „kostir þeirra væru ekki góðir.“ Bolli sagðist telja „auðvelt að setja sig í spor breskra yfirvalda og hann sjái ekki að Landsbankinn sé í nokkurri stöðu til andmæla.“ Tryggvi lýsti þeirri skoðun að bresk stjórnvöld kynnu að vera að þrýsta á lausn fyrir breska sparifjáreigendur svo að „takmarkaðir möguleikar íslenskra stjórnvalda til aðstoðar“ yrðu nýttir til hagsbóta þeim áður en kæmi að öðrum, en spurning væri þá „um forgangsröðun íslenskra stjórnvalda vegna þess margþætta vanda sem framundan væri.“ Af þessu tilefni ítrekaði Bolli „að búið væri að hugsa þá hugsun og niðurstaðan væri að stóru bankarnir þrír yrðu studdir ef á þyrfti að halda.“ Jónas hafi síðan nefnt að „viss „draugagangur“ væri varðandi innlánstryggingarnar í Hollandi og allar líkur á samskiptum þeirra við bresk yfirvöld.“ Jónína hafi þá sagt að bréf hafi borist frá hollenska tryggingarsjóðnum, þar sem óskað væri svara við fjölmörgum spurningum, og væri gengið nærri því að „spyrja beint um opinberan stuðning.“ Þá lét hún þess getið að í viðskiptaráðuneytinu lægju fyrir drög að yfirlýsingu um afstöðu stjórnvalda til hugsanlegs stuðnings við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Sýndi hún drögin á fundinum og óskaði eftir athugasemdum við þau.

Viðskiptaráðuneytið sendi bréf 20. ágúst 2008 til breska fjármálaráðuneytisins, þar sem frekari svör voru veitt við spurningum, sem það hafði sett fram í áðurnefndu bréfi 7. sama mánaðar. Í bréfi viðskiptaráðuneytisins sagði meðal annars að færi svo ólíklega að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti ekki aflað sér fjár á lánamörkuðum mætti fullvissa breska fjármálaráðuneytið um að ríkisstjórn Íslands myndi gera allt það, sem ábyrg ríkisstjórn í þeirri stöðu myndi gera, þar á meðal að aðstoða sjóðinn við fjáröflun til að gera honum kleift að standa undir lágmarksvernd innstæðna. Jafnframt var bent á að ef fjármálafyrirtæki, sem hefði trausta eiginfjárstöðu, lenti í lausafjárvanda vegna skyndilegra og stórfelldra úttekta innstæðueigenda gæti Seðlabanki Íslands komið því til aðstoðar sem lánveitandi til þrautavara og myndi ríkisstjórn Íslands veita honum aðstoð í því skyni. Undir slíkum kringumstæðum kæmi ekki til kasta tryggingarsjóðsins. Ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu hafði fyrr sama dag sent drög að þessu svari viðskiptaráðuneytisins með tölvubréfi til ákærða og fjármálaráðherra og fylgdu þeim nokkrar skýringar, en í niðurlagi tölvubréfsins sagði: „Getið þið samþykkt að bréfið verði sent í dag?“

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins ritaði bréf 20. ágúst 2008 til starfsmanns breska fjármálaeftirlitsins í tilefni af fundi þeirra 18. sama mánaðar. Í bréfinu kom meðal annars fram að Fjármálaeftirlitið myndi óska eftir því við Landsbanka Íslands hf. að hann setti aftur upp tillögur um hvernig starfsemi útibús hans í London yrði færð til dótturfélags og yrði þar greint frá eignum, sem unnt yrði að færa til dótturfélagsins án þess að raska fjárhag samstæðu bankans og að teknu tilliti til fyrirvara í samningum um lántökur hans. Nauðsynlegt yrði þó að veita bankanum tímabundna undanþágu frá reglum um skuldbindingar milli tengdra aðila. Lýst var trausti á því að lausn fengist á þessu máli og óskað eftir að framvegis yrði haft samráð við Fjármálaeftirlitið um aðgerðir eða tillögur áður en þær yrði bornar upp við Landsbanka Íslands hf.

Framkvæmdastjóri og formaður stjórnar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta áttu fund með framkvæmdastjóra og starfsmönnum hliðstæðs sjóðs í Bretlandi 21. ágúst 2008. Í minnispunktum um þann fund kom meðal annars fram að þar hafi verið rætt um hvernig staðið yrði að útborgun til innstæðueigenda ef til slíks þyrfti að koma.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 26. ágúst 2008. Samkvæmt fundargerð var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

33[breyta]

Í bréfi breska fjármálaeftirlitsins, FSA, til Fjármálaeftirlitsins 27. ágúst 2008 var vísað til þess að stofnanirnar væru einhuga um að flutningur á starfsemi útibús Landsbanka Íslands hf. í London til dótturfélags væri æskilegt markmið. Þakkað var fyrir aðstoð við að fá bankann til að setja fram tillögur, sem gætu þjónað þessu markmiði og tekið um leið tillit til fjárhags allrar samstæðu hans. Afstaða FSA til þessa tæki mið af lausafjáráhættu bankans, enda sýndi reynslan að bankar yrðu fyrir auknum úttektum af innstæðum þegar neytendur brygðust við atburðum og umfjöllun fjölmiðla. FSA væri ljós hættan, sem leitt gæti af breyttri stefnu fjármálafyrirtækis í lausafjárstýringu, og myndi líta til afstöðu Fjármálaeftirlitsins, en eftir því, sem tök yrðu á, yrði því greint frá ráðagerðum FSA í málinu.

Hollenska fjármálaeftirlitið sendi tölvubréf til Fjármálaeftirlitsins 28. ágúst 2008, þar sem vísað var til þess að á fundi, sem starfsmenn fyrrnefndu stofnunarinnar hafi átt með starfsmönnum Landsbanka Íslands hf. daginn áður, hafi verið greint frá áhyggjum hennar af stöðu efnahagsmála á Íslandi, svo og hlutverki íslenska ríkisins á sviði innstæðutrygginga og óvissu um hvernig það gæti ábyrgst skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Af þeim sökum hefði stofnunin tekið þá afstöðu að bankinn mætti ekki auka starfsemi sína í Hollandi fyrr en lausn hefði verið fengin á þessu.

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. sendu bréf til breska fjármálaeftirlitsins, FSA, 29. og 31. ágúst 2008. Í fyrra bréfinu var greint frá því að í tengslum við vinnu bankans að tillögum um hvernig standa mætti að því að flytja starfsemi útibús hans í London til dótturfélags hafi verið ákveðið að leita lögfræðilegrar álitsgerðar um hvort flutningur eigna frá móðurfélaginu, sem þessu myndi tengjast, gæti talist vanefnd gagnvart lánveitendum bankans samkvæmt ákvæðum í lánssamningum. Að auki var það ítrekað, sem áður hafði komið fram um áhrif, sem þessi breyting gæti haft á lausafjárstýringu innan samstæðu Landsbanka Íslands hf. Bankinn þyrfti að auki að ráðfæra sig við Fjármálaeftirlitið og væri því óskað eftir fresti til að skila tillögum til 8. september 2008. Í bréfinu var þess einnig getið að kunnugt væri um að íslenska ríkið hafi með bréfi til breska fjármálaráðuneytisins skýrt út hlutverk sitt við fjármögnun Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og áréttað skyldur sínar eftir reglum, sem gildi á evrópska efnahagssvæðinu. Með síðara bréfinu fylgdi álitsgerð frá lögmannsstofunni Allen & Overy LLP og sagði í bréfinu að þar væri varað eindregið við því að sú verulega breyting á skipulagi Landsbanka Íslands hf., sem leiða myndi af flutningi eigna til dótturfélags, yrði talin vanefnd af hans hendi eftir ákvæðum í samningum um lántökur hans. Að auki var þar fjallað um verkaskiptingu milli eftirlitsstofnana í heimaríki fjármálafyrirtækis og öðru ríki, þar sem það hefði starfsemi á hendi, eftir reglum, sem gildi á evrópska efnahagssvæðinu. Umfjöllun um síðarnefnda atriðið hafi leitt til þess að bankinn hafi leitað eftir álitsgerð tveggja breskra lögmanna, sem einnig fylgdi með bréfinu, um heimildir FSA til að loka útibúi erlends banka af evrópska efnahagssvæðinu í Bretlandi og knýja slíkt útibú til að takmarka viðtöku innstæðna.

Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri sendi tölvubréf til ákærða 1. september 2008 og fylgdi því skjal með fyrirsögninni: „Drög að bút í ræðu forsætisráðherra“. Í fylgiskjalinu var vísað til þess að fyrr á árinu 2008 hafi ríkisstjórnin ákveðið að stækka gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og hafi verið sett í því skyni sérstök lög um heimild til lántöku fyrir ríkissjóð, sem hafi náð bæði til lántöku erlendis og innanlands. Seðlabankinn hafi þessu til samræmis unnið að stækkun gjaldeyrisforðans og hafi það tekist þrátt fyrir erfiðar aðstæður á lánsfjármörkuðum, þannig að hann væri orðinn sem svaraði 300.000.000.000 krónum. Við þetta bættust gjaldmiðlaskiptasamningar bankans og ónýttar lánalínur fyrir jafnvirði um 200.000.000.000 krónur. Lán, sem tekin hafi verið eða samið um, væru á miklu hagstæðari kjörum en skuldatryggingarálag ríkisins gæfi til kynna og yrði þess gætt að það tæki ekki lán með afarkostum. Þá hafi lántökuheimildir einnig verið nýttar með útgáfu ríkisbréfa á innlendum markaði.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 2. september 2008. Samkvæmt fundargerð voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

34[breyta]

Ákærði flutti á Alþingi 2. september 2008 skýrslu forsætisráðherra um efnahagsmál. Í upphafi ræðunnar kvað ákærði efnahagsvanda þjóðarinnar tvíþættan og væri þar annars vegar við að glíma „hefðbundinn samdrátt í kjölfar mikilla uppgangstíma“, en hins vegar „afleiðingar alþjóðlegrar fjármálakreppu í kjölfar erfiðleika á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum.“ Síðarnefnda atriðið hafi haft alvarlegar afleiðingar í nálægum löndum, sem hafi komið fram „í miklum erfiðleikum og jafnvel gjaldþrotum virtra lánastofnana og mikilli áhættufælni fjárfesta sem gert hefur öllum erfitt fyrir um lánsfjáröflun.“ Augljóst væri að þetta ástand hefði áhrif hér á landi meðal annars vegna þess „hversu stórir íslensku bankarnir eru orðnir miðað við hagkerfið í heild.“ Ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafi „sannarlega tekið á þrengingum í efnahagslífinu af festu og gert það sem í þeirra valdi stendur til að vinna að lausn vanda síðustu mánaða.“ Þannig hafi seðlabankinn „rýmkað reglur um veð í reglulegum viðskiptum hans við fjármálastofnanir“ og næmu orðið slík veðlán yfir 400.000.000.000 krónum. Hann hafi gert gjaldmiðlaskiptasamninga við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs í maí 2008 og fengið þannig „bakstuðning“ og styrkt gjaldeyrisforða sinn um 180.000.000.000 krónur. Síðar í sama mánuði hafi Alþingi heimilað ríkissjóði að taka til viðbótar lán að fjárhæð allt að 500.000.000.000 krónur til að styrkja gjaldeyrisforðann og væri verið að nýta þá heimild „í áföngum.“ Samið hafi verið um aðild Íslands að samkomulagi Evrópusambandsríkja um viðbrögð við fjármálakreppu og verið væri að ganga frá gjaldeyrisláni handa ríkinu að minnsta kosti að fjárhæð 250.000.000 evrur. Þá gerði ákærði grein fyrir stækkun gjaldeyrisforðans á sama hátt og lýst var í áðurgreindu skjali frá Ingimundi Friðrikssyni seðlabankastjóra.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra átti 2. september 2008 fund með Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands og voru í för með þeim fyrrnefnda Jón Sigurðsson formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, Jónína S. Lárusdóttir ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu, Áslaug Árnadóttir formaður stjórnar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Jón Þór Sturluson aðstoðarmaður ráðherrans og Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra í London. Meðal gagna málsins eru svonefndir talpunktar, sem gerðir höfðu verið til að undirbúa þennan fund. Þar var ráðgert að viðskiptaráðherra tæki fyrstur til máls til að lýsa meðal annars vexti íslenska bankakerfisins og reglum á evrópska efnahagssvæðinu um fjármálafyrirtæki, svo og að Landsbanki Íslands hf. hafi í starfsemi sinni á Bretlandi tekið við innstæðum á Icesave reikninga og væri hann eins og sakir stæðu undir miklum þrýstingi frá breska fjármálaeftirlitinu um að endurskipuleggja starfsemina þar í landi og draga úr henni. Því næst átti Jón Sigurðsson að fá orðið til að fjalla nánar um starfsemi Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og kröfur, sem breska fjármálaeftirlitið, FSA, hafi gert um hana, en síðan Áslaug Árnadóttir til að lýsa íslenska innlánstryggingarkerfinu að undangenginni kynningu viðskiptaráðherra. Í þeirri kynningu yrði meðal annars vísað til nýlegs bréfs til breskra fjármálaráðuneytisins um skuldbindingar íslenska ríkisins á því sviði, en það væri staðráðið að tryggja áreiðanlegt kerfi innlánstrygginga fyrir fjármálastofnanir, sem tækju við innstæðum. Að endingu var gert ráð fyrir lokaorðum viðskiptaráðherra, þar sem kæmi fram að Landsbanki Íslands hf. hafi samþykkt að flytja starfsemi vegna Icesave reikninga frá útibúi í London til dótturfélags og væri einhugur um það milli FSA og Fjármálaeftirlitsins. Mikilvægt væri að vinna að þessu af raunsæi og með sveigjanleika og væri kjarni alls þessa full samvinna milli eftirlitsstofnana í ríkjunum tveimur. Slíkir erfiðleikar væru á alþjóðamörkuðum að ekki mætti misstíga sig í þessu efni og ekkert mætti gera, sem gæti hleypt því af stað, sem allir vildu forðast. Íslensk yfirvöld væru fyrir sitt leyti reiðubúin til að leggja sitt af mörkum til að fá niðurstöðu, sem allir gætu unað við. Samkvæmt minnisblaði, sem Sverrir Haukur Gunnlaugsson gerði um þennan fund, stóð hann í um eina klukkustund og hafi mestum hluta þess tíma verið varið til að skýra breska fjármálaráðherranum „frá sjónarmiðum og samskiptum íslenska fjármálaeftirlitsins og þess breska undanfarna mánuði vegna Icesave innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi og að útibúi Landsbankans í London yrði breytt í dótturfélag.“ Breski fjármálaráðherrann hafi sagst þekkja til málsins og hafa fengið upplýsingar um samskipti fjármálaeftirlitanna. Hann hafi lagt áherslu á að flýtt yrði að fá niðurstöðu með viðræðum eftirlitsstofnananna og vakið máls á að þetta hafi komið til umræðu í breska þinginu, sem hefði áhuga á framvindu málsins. Hafi ráðherrarnir orðið ásáttir um að „fjármálaeftirlitin ynnu áfram að lausn málsins.“ Breska fjármálaeftirlitið, FSA, ritaði tvö bréf til bankastjóra Landsbanka Íslands hf. 3. september 2008. Í öðru þeirra voru gerðar athugasemdir við lögfræðilegu álitsgerðirnar tvær, sem fylgdu áðurnefndi bréfi bankans 31. ágúst 2008. Í hinu, sem stafaði frá forstjóra FSA, var staðfest að bankanum væri veittur frestur til að setja fram skriflegar tillögur sínar til 8. september sama ár og var lagt til að fundur yrði haldinn um þær tveimur dögum síðar. Þess væri vænst að bankinn skuldbyndi sig til að grípa til aðgerða til að draga úr umfangi Icesave reikninga, þar á meðal að láta alveg af markaðsstarfi, svo sem lýst hafi verið í bréfi FSA 15. ágúst 2008. Þetta yrði að gera samhliða því að starfsemi í útibúi bankans í London yrði færð til dótturfélags og þyrftu tillögur hans að taka til beggja atriða. Í lok bréfsins var tekið fram að hafi FSA ekki borist skriflegar tillögur 8. september 2008 eða þær tækju ekki nægilega og þegar í stað á lausafjárvanda vegna Icesave reikninganna yrði FSA að taka til athugunar að neyta þvingunarúrræða.

Í tölvubréfi 4. september 2008 til viðskiptaráðherra, aðstoðarmanns hans og ráðuneytisstjóranna í viðskiptaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu greindi Sverrir Haukur Gunnlaugsson frá því að sér hafi borist fyrirspurn frá breska fjármálaráðuneytinu um hvort hann gæti sem sendiherra komið til fundar 8. sama mánaðar. Af þessu tilefni óskaði hann eftir fyrirmælum og leiðbeiningum um hvernig svara ætti þessari fyrirspurn, en ef verða ætti af slíkum fundi teldi hann eðlilegt að þangað kæmi einn eða fleiri fulltrúar frá Íslandi.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman til 27. fundar síns 4. september 2008. Í fundargerð kom fram að Bolli Þór Bollason hafi spurt um „aðgerðir bankanna“, Tryggvi Pálsson hafi sagt „of lítið vera að gerast og klukkan tifar“ og Jónas Fr. Jónsson getið þess að Kaupþing banki hf. hefði enn „áform um innlánasókn í útibúum erlendis.“ Baldur Guðlaugsson hafi sagt að ekki væri unnt að „banna bönkunum að stofna útibú erlendis en það yrði að finna leið til að gera óhagstætt fyrir þá að taka þar á móti innlánum og þar með auka skuldbindingar ríkissjóðs.“ Bolli hafi kveðið „Landsbankann enn einblína á framhald í innlánasókn sem fjármögnun fyrir bankann“, sem Jónas hafi staðfest. Sá síðastnefndi hafi lýst því að Kaupþing banki hf. myndi eiga „í erfiðleikum með að fara inn í Holland með þessum hætti vegna afstöðu þarlendra yfirvalda“, sem hann greindi frá á grundvelli fundar, sem hann hafi átt með bankaeftirliti þar í landi. Áhyggjur þess beindust að efnahagshorfum hér á landi og stærð íslensku bankanna miðað við stærð þjóðarbúsins, en þeir hafi „farið inn á aðra markaði með kappsfullum ... hætti“. Einnig væru innlánstryggingarkerfi á evrópska efnahagssvæðinu „klúður“, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta væri veikur og óskiljanlegt að ekki væri krafist hærra iðgjalds vegna erlendra innstæðna, en loks að „íslensku bankarnir geri út á hollenska kerfið og það sé ólíðandi.“ Jónas hafi lýst stöðu íslensku bankanna og þeirri skoðun að þeir hafi ekki brotið gegn reglum á evrópska efnahagssvæðinu með „innlánasókn sinni“, en starfsmenn hollensku stofnunarinnar hafi svarað því til að þeir teldu sig heldur ekki brjóta gegn þeim reglum með því að stöðva þessa starfsemi bankanna. Þeir hafi einnig sagt það vera algengan misskilning að hollenski tryggingarsjóðurinn myndi greiða öllum út og leita síðan endurgreiðslu hjá sjóði í heimaríki banka, en ef þetta yrði leiðrétt opinberlega kynni það að valda útstreymi af reikningum við íslensku bankana. Þeir vildu ekki heimila Kaupþingi banka hf. að taka við innlánum í útibúi og ætli að „stöðva Landsbankann í að auka við innlánin“, en þeim liði „betur með starfsemi í dótturfélagi“ og væri ekki aðalatriði að fram kæmi yfirlýsing um opinberan stuðning við íslenska tryggingarsjóðinn. Jónína S. Lárusdóttir hafi greint frá heimsókn viðskiptaráðherra til starfstöðva Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf. í London og lýsti hún ásamt Baldri þeirri skoðun að þau teldu „Landsbankamenn sem rætt var við í London ekki átta sig fyllilega á stöðunni.“ Jónína hafi jafnframt sagt „óviðkunnanlegt að í ... bréfi bankans kæmi fram að Landsbankanum sé kunnugt um stuðningsyfirlýsingu stjórnvalda um Tryggingarsjóðinn.“ Hún hefði síðan lýst fundi viðskiptaráðherra með breska fjármálaráðherranum, en þar hafi Jón Sigurðsson „reifað málin mjög ítarlega.“ Ljóst hafi verið að breski fjármálaráðherrann væri „með allar upplýsingar um málið.“ Hann hafi ráðgert að „bresk yfirvöld myndu ábyrgjast innstæður að fullu og spurði svo hvert ætti að senda reikninginn“, en í því efni hafi hann ekki tekið mið af hámarki innstæðutryggingar í Bretlandi, heldur heildarfjárhæð innstæðna. Á fundinum hafi verið rætt um „tímarammann í dótturfélagsvæðingunni“ og að ekki mætti „ganga svo hart fram að áfall yrði afleiðingin“, en á því hafi breski ráðherrann haft skilning. Baldur hafi þá sagt að „nú væri kominn frestur fyrir Landsbankann“ og Jónína greint af því tilefni frá tveimur bréfum breska fjármálaeftirlitsins til Landsbanka Íslands hf. frá 3. september 2008. Jónas hafi nefnt að breska eftirlitið „virðist tilbúið til að skoða tillögur vegna stöðu samstæðu bankans og ákvæða í samningum“, gefið væri svigrúm í frestum en „krafist þeim mun meiri aðgerða sem fresturinn er lengri.“ Bolli hafi sagt „Landsbankamenn enn þráast við að skilja alvöruþunga breskra og hollenskra stjórnvalda.“ Jónas hafi svo lagt fram yfirlit frá Fjármálaeftirlitinu um innstæður banka og sparisjóða 30. júní 2008, en samkvæmt því væru innstæður að fjárhæð 542.000.000.000 krónur „innan 2 m.kr. marksins“. Jónína hafi í framhaldi af þessu óskað eftir að Fjármálaeftirlitið tæki „saman yfirlit miðað við þá lágmarkstryggingarvernd sem sjóðnum er áskilið að veita, þ.e. 2,5 m.kr.“ Í tilefni af ósk Jónínu á síðasta fundi samráðshópsins um að fá athugasemdir við drög að yfirlýsingu um innstæðuvernd lagði Tryggvi fram tillögu að fyrirsögn og inngangsorðum yfirlýsingarinnar með þremur valkostum.

Jón Sigurðsson sendi tölvubréf til ákærða 4. september 2008 og fylgdi því „bakgrunnsefni“, sem Jón kvaðst hafa samið til undirbúnings fyrir fund með breska fjármálaráðherranum. Að öðru leyti sagði eftirfarandi í tölvubréfinu: „Ég held að óhætt sé að segja að öll efnisatriði sem hér koma fram hafi komist til skila á fundinum, sem fór fram í mjög vinsamlegum anda. En með öllu er ljóst að bresk stjórnvöld munu leggja hart að Landsbankanum að færa alla netbankareikninga sína í Bretlandi úr útibúi bankans í London yfir í breskt dótturfélag. Slíkri breytingu geta fylgt lausafjárerfiðleikar fyrir Landsbankann, þar sem netreikningarnir í Bretlandi eru orðnir afar mikilvæg uppspretta lausafjár fyrir Landsbankann á Íslandi og í öðrum löndum. Það sem máli skiptir er að fá nægilega langan aðlögunartíma fyrir Landsbankann til þess að koma þessari breytingu í framkvæmd án þess að vekja upp alvarleg vandamál á markaði. Frá sjónarmiði íslenska ríkisins er „dótturfélagsvæðing“ Icesave-reikninganna í Bretlandi ekki óhagstæð, því þar með flyst innstæðutryggingarábyrgðin algjörlega til Bretlands.“ Þessu svaraði ákærði með tölvubréfi samdægurs, þar sem hann þakkaði fyrir sendinguna og tók fram að hann vonaðist til „að afrakstur fundarins verði sá sem að var stefnt.“

Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendi aftur tölvubréf 5. september 2008 til viðskiptaráðherra, aðstoðarmanns hans og ráðuneytisstjóranna í viðskiptaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Þar kom fram að Sverri hafi sama dag borist símtal frá breska fjármálaráðuneytinu, þar sem fyrirhuguðum fundi þremur dögum síðar hafi verið aflýst, en óskað hafi verið eftir að komið yrði á framfæri við „viðeigandi íslensk stjórnvöld“ að breski fjármálaráðherrann hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með fund sinn með íslenska viðskiptaráðherranum og fleirum 2. september 2008, þar sem hann teldi viðmælendur sína ekki skilja hversu alvarlegt málið væri. Sverrir kvaðst hafa svarað því til að „þvert á móti tækju íslensk stjórnvöld málið mjög alvarlega enda hefði það komið skýrt fram með þeirri mætingu sem var á fundinum“. Starfsmaður breska fjármálaráðuneytisins hafi sagt mjög nauðsynlegt að skýr viðbrögð Landsbanka Íslands hf. lægju fyrir 8. september 2008 og vonaðist ráðuneytið til að íslensk stjórnvöld ynnu að því að hvetja bankann til að ná niðurstöðu sem fyrst. Því hafi einnig verið komið á framfæri að breski fjármálaráðherrann legði „áherslu á hve pólitískt málið væri orðið þar sem stöðugt væri verið að spyrja um viðbrögð úr þinginu“ og væri mjög æskilegt að íslensk stjórnvöld gætu haft samráð við breska ráðuneytið um hvernig „þessum fyrirspurnum yrði svarað.“ Ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu framsendi þetta tölvubréf samdægurs til ákærða og ráðuneytisstjórans í forsætisráðuneytinu.

Á fundi í bankaráði Landsbanka Íslands hf. 5. september 2008 gerði Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri meðal annars grein fyrir samskiptum við breska fjármálaeftirlitið, FSA, og það hollenska. Samkvæmt fundargerð sagði hann að FSA hafi „sýnt ósveigjanleika í samskiptum sínum við bankann varðandi aðlögunartíma.“ Ef eignir yrðu fluttar til Bretlands í einu lagi væri veruleg hætta „á broti á útistandandi lánasamningum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir bankann“ og væri þetta „viðkvæmt mál.“ Svipaðar viðræður hafi verið uppi við hollenska fjármálaeftirlitið og hafi það íslenska verið bankanum mjög til hjálpar. Auglýsingar um innlánsreikninga í Hollandi væru „í bið á meðan rætt verður nánar við yfirvöld þar jafnframt því sem unnið er áfram að dótturfélagsundirbúningi“, en hörð viðbrögð hafi orðið erlendis „vegna góðs árangurs Icesave.“ Að endingu var bókað að bankaráðið hafi heimilað „að undirbúnir verði innlánsreikningar í öðrum þeim löndum sem bankastjórn telur skynsamlegt en bankaráð fái upplýsingar um málin áður en farið er í gang á hverjum stað.“

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. sendu bréf 8. september 2008 til forstjóra breska fjármálaeftirlitsins, FSA. Í bréfinu var fjallað í löngu máli um lagaleg atriði í tengslum við starfsemi Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og afskipti FSA af henni, fjárhagsstöðu bankans og stöðu efnahagsmála á Íslandi. Þá var vísað til þess að ríkisstjórn Íslands hafi í bréfi til breska fjármálaráðuneytisins eytt vafa um hlutverk ríkisins gagnvart Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og ítrekað að hún stæði við skuldbindingar sínar samkvæmt reglum á evrópska efnahagssvæðinu, en ekki gæti átt undir FSA að leggja mat á áhrif þessa og haga svo gerðum sínum gagnvart fjármálafyrirtæki á þeim grunni. Þá var og bent á að ríkið hefði getu til að styðja við bankakerfið og hefði í því skyni aukið gjaldeyrisforða svo um muni. Bankinn legði áherslu á að forðast yrði aðgerðir, sem vakið gætu neikvæða umræðu, og að óbundnir Icesave reikningar gætu reynst kvikir, svo og að taka yrði tillit til heildarhagsmuna samstæðu Landsbanka Íslands hf., en í heild væru ekki efni til frekari ráðstafana en þeirra, sem samkomulag hafi tekist um varðandi lausafjárstýringu bankans í maí 2008. Um einstakar ráðstafanir, sem FSA hafi talið nauðsynlegar, liti bankinn svo á að nægilega yrði að gert til að lækka heildarinnstæður á óbundnum reikningum ef hann legði áherslu á að viðskiptavinir breyttu þeim í bundna reikninga. Þegar hafi dregið mjög úr auglýsingum um Icesave reikninga og hafi bankinn skuldbundið sig til að tilkynna FSA um væntanlegar breytingar á vaxtakjörum af reikningunum. Ekki gæti bankinn séð ástæðu til að hækka fjárhæð í varasjóði þannig að hann svaraði til 20% af innstæðum á óbundnum Icesave reikningum eða safna í aðra sjóði til að mæta hugsanlegum úttektum af reikningunum. Á hinn bóginn myndi bankinn ljúka því að færa starfsemi útibús síns í London til dótturfélags fyrir árslok 2008 og myndi dótturfélagið fullnægja kröfum, sem gerðar væru til sjálfstæðs banka, svo fljótt sem verða mætti á árinu 2009. Í þessu skyni myndi dótturfélagið meðal annars taka strax við öllum útlánum útibúsins og móðurfélagið jafnframt færa um 10% eigna sinna til dótturfélagsins á árinu 2009. Takmarkanir á hámarksfjárhæð heildarinnstæðna á Icesave reikningum myndu falla niður þegar í stað og varasjóðs yrði ekki lengur þörf eftir að flutningi eigna lyki frá móðurfélaginu til dótturfélagsins. Þá yrði ekkert hámark sett á útlán dótturfélagsins gegn tryggingum í íslenskum eignum og jafnframt yrði heimilt að ráðstafa fé dótturfélagsins til samstæðunnar upp að tilteknu marki. Til vara var gerð sú tillaga að bankinn ræki áfram starfsemi sína í útibúi í London og myndi hlíta því að heildarinnstæður á Icesave reikningunum færu ekki fram úr 5.000.000.000 sterlingpundum, en ef fé bærist á reikningana umfram það hámark færi helmingur þess í varasjóð á reikningi við Englandsbanka. Landsbanki Íslands hf. myndi jafnframt leggja áherslu á að innstæður á reikningunum yrðu í auknum mæli bundnar og skuldbinda sig til að bjóða aðeins samkeppnishæfa vexti, sem kæmust þó ekki á skrár um bestu kjör.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 28. fund sinn 9. september 2008. Í fundargerð var þess meðal annars getið að Jónas Fr. Jónsson hafi greint frá því að hann hafi skömmu fyrir fundinn rætt við Sigurjón Þ. Árnason bankastjóra Landsbanka Íslands hf., en bankinn hafi daginn áður sent tillögur sínar til breska fjármálaeftirlitsins, FSA, og ætti Fjármálaeftirlitið eftir að fara yfir þær. Þar hafi bankinn sett „ýmis skilyrði“ og myndu bankastjórar eiga fund með FSA daginn eftir. Baldur Guðlaugsson hafi nefnt í tengslum við þetta að bankinn þyrfti að færa „miklar eignir til að geta haldið því „uppstreymi“ fjármagns sem eftir yrði.“ Jónína S. Lárusdóttir hafi greint frá skilaboðum frá breska fjármálaráðherranum, sem Sverrir Haukur Gunnlaugsson hafi komið á framfæri 5. september 2008, en viðskiptaráðuneytið hafi ákveðið að bíða með viðbrögð þar til tillögur Landsbanka Íslands hf. lægju fyrir. Þá hafi Kaupþing banki hf. látið þess getið 8. sama mánaðar að forstjóri sænska fjármálaeftirlitsins hafi „lýst yfir áhyggjum af íslenska tryggingarsjóðnum“ og hafi Jónas sagst telja „augljóst að yfirvöld í Evrópu ræða saman um þessi mál.“ Jónína hafi getið þess að síðastnefndi bankinn hafi í útibúi í Svíþjóð tekið við innlánum, sem svöruðu til 2.600.000.000 króna, og væri spurning hvernig brugðist yrði við því og jafnræðis gætt milli fjármálafyrirtækja. Baldur hafi þá tekið fram að „yfirlýsingin sem viðskiptaráðuneytið gaf varðandi Tryggingarsjóðinn væri ekki almenn yfirlýsing.“ Bolli Þór Bollason hafi því næst spurt „hvernig menn mætu stöðuna ef Landsbankinn nær að leysa sín mál gagnvart FSA“ og Jónas svarað að það væri langstærsti höfuðverkurinn, en spurning væri „hvort lánadrottnar Landsbankans geri kröfur vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu.“ Jónína hafi talið furðulegt að sænska fjármálaeftirlitið hafi ekki haft samband við það íslenska ef það hefði áhyggjur af íslenska tryggingarsjóðnum, en kveðið væri á um „ríkisábyrgð innstæðutrygginga í sænskum lögum.“ Tryggvi Pálsson hafi velt því upp „hver staðan yrði ef bresk stjórnvöld myndu greiða út að fullu innstæður í útibúum íslenskra banka og gera endurkröfu á ríkissjóð“, svo sem breski fjármálaráðherrann hafi rætt um á fundinum 2. september 2008, en slíkt gæti „sett íslensk stjórnvöld í erfiða stöðu gagnvart innlendum innstæðueigendum.“ Samkvæmt fundargerðinni ræddi Bolli um að seðlabanki Evrópu hafi tilkynnt um „hertar reglur um endurkaup frá og með 1. febrúar nk.“, sem væru harðari en reiknað hafi verið með, og tók Tryggvi fram að það væri „heppilegt að búið var að leysa mál íslensku bankanna í Luxemborg.“ Ingimundur Friðriksson hafi getið þess að Seðlabanki Íslands hafi gert áþekkar ráðstafanir og reglur um þær tekið gildi um síðustu mánaðamót, en Baldur tekið fram að seðlabankar hafi almennt „verið að fjármagna fjármálafyrirtækin og þar með taka á sig vissa tapshættu.“

Ríkisstjórn Íslands hélt fundi 9. og 12. september 2008. Samkvæmt fundargerðum voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

35[breyta]

Tryggvi Þór Herbertsson hagfræðingur, sem mun 1. ágúst 2008 hafa tekið til starfa sem ráðgjafi forsætisráðherra í efnahagsmálum, gerði minnisblað til ákærða 14. september 2008, sem hafði að geyma „drög að efnahagstillögum“. Í upphafi þess var þeirri skoðun lýst að trúverðugleiki nauðsynlegra aðgerða yrði „best tryggður með því að setja fram heildstæða áætlun í nokkrum skýrt afmörkuðum liðum“ og skipta þar aðgerðum í þrennt eftir tíma og tegund. Til skamms tíma ætti meðal annars að setja upp „sérstakt tímabundið lausafjárplan þar sem fjármálastofnunum væri gefið færi á að skipta tímabundið á eignum á efnahagsreikningi sínum við hið opinbera og láta þau í skiptum hafa ríkisskuldabréf sem gefin væru út í erlendri mynt sem þær síðan gætu notað í endurhverfum viðskiptum.“ Einnig yrðu eignir Íbúðalánasjóðs „verðbréfaðar með það fyrir huga að hægt verði að selja þær og/eða nýta í endurhverfum viðskiptum erlendis“ og haldið yrði áfram að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabanka Íslands. Til meðallangs tíma yrði meðal annars „sjóðstreymi orkuvera Landsvirkjunar ... verðbréfað og það selt á alþjóðlegum markaði“ og Íbúðalánasjóði breytt í heildsölubanka. Til lengri tíma yrði meðal annars gerð „á næstu tveim mánuðum orkunýtingarstefna fyrir Ísland sem miði að því að kortleggja hvernig nýta megi sem best orkuauðlindir Íslands, með (hógvær) náttúruverndarsjónarmið að leiðarljósi“, áætlun yrði gerð til tveggja ára um hvernig mætti „bjóða fjárfestum aðgang að orku og í tengslum við það verði sett fram víðtæk virkjunaráætlun“ og hugað yrði að „einkavæðingu stofnana eða hluta þeirra.“

Bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers mun hafa verið tekinn til gjaldþrotaskipta 15. september 2008. Að afleiðingum þess var vikið á 29. fundi samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað 16. september 2008, en þar lét Jónas Fr. Jónsson þess getið að áætlað endurheimtuhlutfall væri 50-60% „af því sem er í hættu“. Áhættan hafi virst vera milli 0,5% og 1,3% „af eiginfjárgrunni stóru viðskiptabankanna“, en meiri hjá Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. og Icebank. Samkvæmt fundargerð kom til tals að nokkurt „útflæði“ hafi verið af Icesave reikningum Landsbanka Íslands hf. um liðna helgi, en ekki verulegt og hafi það stöðvast. Jafnframt að stjórnendur breska fjármálaeftirlitsins væru á fundi þennan sama dag um málefni bankans, en umræða um innlánstryggingar í Bretlandi undanfarið hafi ekki sérstaklega snúið að Icesave reikningum. Þá sagði að Bolli Þór Bollason hafi „að beiðni forsætisráðherra“ farið yfir „stöðuna með honum og utanríkisráðherra“, þar sem meðal annars hafi verið rætt um viðbragðsáætlanir. Þar hafi fyrsta spurningin snúist um „hugsanlegar yfirlýsingar um vernd innstæðueigenda“ og lægju fyrir þrjár útgáfur, sem gengju mislangt. Ef miðað yrði við að innstæður allt að 5.000.000 krónum nytu tryggingarverndar tæki hún til um 90% innstæðna, en „ráðherrarnir væru helst að horfa á síðari kostina tvo, þ.e. meira en lágmarksvernd.“ Farið hafi verið yfir hvernig brugðist yrði við ef stór banki kæmist í greiðsluþrot og ráðherrarnir verið þeirrar skoðunar að „stjórnvöld kæmu helst að stuðningi við stærstu bankana þrjá“, en líklegt væri „að þeir kæmust allir í vanda ef það hendir einn þeirra.“ Þá þyrfti að draga „upp útfærslur“ sem svör við „ólystuga matseðlinum“ og yrði að gera það hratt „því hættan hefur aukist í kjölfar atburða síðustu helgar.“ Bolli hafi spurt Baldur Guðlaugsson hversu langt væri komið starf í vinnuhópi undir stjórn fjármálaráðuneytisins og Baldur sagst þurfa „að fara að fylgjast betur með hópnum.“ Jónas hafi sagt mikilvægt að fá ákvörðun um „hvaða mörk ætti að miða við í innstæðuvernd, þ.e. 5 m.kr. frekar en allt.“ Ekki væri kostur á öðru en að „bjarga stóru bönkunum þremur“, en ef ríkið þyrfti að taka yfir banka „gæti þurft að taka þá afstöðu að takmarka og fresta greiðslum.“ Þá hafi Bolli greint frá því að „ráðherrarnir hefðu einnig rætt um hverjum ætti að bjarga“, en ekki væri ætlunin að hluthöfum yrði bjargað eða að sjálfgefið væri að taka ætti „tillit til allra skuldbindinga.“ Fyrst yrðu að liggja fyrir drög að yfirlýsingum um innstæðuvernd og á „sama sólarhring gæti þurft drög að lagafrumvörpum um m.a. yfirtöku og aðkomu nýrra fjárfesta“, en hugsanlega „gæfist lengri tími fyrir önnur atriði.“ Baldur hafi nefnt að „ef eignir og skuldir yrðu færðar yfir á annan lögaðila væri auðveldara að skilja eftir ákveðnar skuldbindingar“ og Tryggvi Pálsson spurt hvort vinnuhópurinn gæti útfært þetta. Jónas hafi farið yfir atriði í skjalinu með heitinu „ólystugi matseðillinn“, en síðan minnt á að „ef Icesave innlánin verða færð yfir í dótturfélag þá yrði innstæðutryggingin viðráðanlegri fyrir stjórnvöld.“ Hann hafi tekið fram aðspurður að Fjármálaeftirlitið myndi ráðast aftur í útreikninga á fjárhæðum innstæðutrygginga „í næsta mánuði.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 16. september 2008. Samkvæmt fundargerð var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

36[breyta]

Í frétt, sem birtist í Morgunblaðinu 17. september 2008, sagði að stóru viðskiptabankarnir þrír hafi „flestir lokið endurfjármögnun sinni fyrir þetta ár og eru langt komnir með það næsta.“ Haft var eftir bankastjórum Landsbanka Íslands hf. að hann ætti laust fé til að mæta öllum skuldbindingum að minnsta kosti næstu tólf mánuði. Fyrr á árinu 2008 hafi hann tekið erlend lán fyrir jafnvirði um 195.000.000.000 króna, en aðstæður á erlendum mörkuðum yrðu erfiðar næstu tólf til átján mánuði og myndi hann því „leggja höfuðáherslu á innlánagrunn sinn erlendis.“ Þá sagði að Kaupþing banki hf. hafi fyrir nokkru lokið endurfjármögnun fyrir árið 2008 og væri langt komin fjármögnun næsta árs þegar erlend langtímalán að fjárhæð 3.700.000.000 evrur féllu í gjalddaga. Loks var haft eftir upplýsingafulltrúa Glitnis banka hf. að bankinn hafi lokið „fjármögnun þessa árs“ og lausafjárstaða hafi „haldist traust“.

Breska fjármálaeftirlitið, FSA, sendi bréf 17. september 2008 til bankastjóra Landsbanka Íslands hf., þar sem fram kom að stofnunin vildi í framhaldi af fyrri bréfaskiptum og fundi 10. sama mánaðar taka af tvímæli um þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi teldi FSA sig hafa vissu fyrir því hverjar valdheimildir sínar væru að lögum og væri meðfylgjandi bréfinu yfirlit um nokkur mikilvæg atriði, þar sem einnig væri fjallað um álitaefni um vanefndir samkvæmt ákvæðum lánssamninga bankans. Í öðru lagi hafi tekist samkomulag annars vegar um að bankinn myndi lækka heildarfjárhæð innstæðna á óbundnum Icesave reikningum úr 2.200.000.000 sterlingspundum í 1.000.000.000 sterlingspund fyrir árslok 2008, sem hann myndi leggja til áætlun um, og hins vegar um að hámark allra innstæðna yrði 5.000.000.000 sterlingspund. Það fyrrnefnda yrði gert eftir þeim leiðum, sem bankinn hafi rætt um í bréfi sínu til FSA 8. september 2008. Að auki áskildi stofnunin að bankinn hefði reiðufé í varasjóði, sem yrði varðveittur hjá Englandsbanka og svaraði til 20% af samanlögðum innstæðum á óbundnum Icesave reikningum, og jafnframt að laust fé nægði til að greiða út allar innstæður á bundnum reikningum, sem losna myndu fram á árið 2009. Um þessi atriði yrði bankinn að leggja fram skriflega staðfestingu ekki síðar en 19. september 2008. Í þriðja lagi væru FSA og Landsbanki Íslands hf. sammála um að flutningur á starfsemi útibús bankans í London til dótturfélags væri besta leiðin til að leysa lausafjárvanda og miðuðu tillögur bankans að því. Stofnunin teldi á hinn bóginn verulegum vandkvæðum háð að dótturfélagið fengi stöðu sjálfstæðs banka í tveimur áföngum, sem lyki á fyrri hluta árs 2009 eins og bankinn legði til, enda stæði dótturfélagið þá uppi með ótryggðar skuldbindingar að fjárhæð 2.400.000.000 sterlingpund þar til síðari áfanginn yrði um garð genginn. Það væri bankans að setja fram tillögur um hvernig eyða mætti þessari áhættu eða draga verulega úr henni, en FSA teldi ýmsa kosti koma til álita í þeim efnum. Meðal annars gæti íslenska ríkið lagt bankanum til þessa fjárhæð, flutningur eigna frá móðurfélagi til dótturfélags gæti orðið meiri en sem svaraði þeim 10% árlega, sem bankinn hafi lagt til grundvallar, eftir atvikum í formi eigna, sem annars þættu ekki tækar í þessu skyni, tryggja mætti þennan mismun með því að láta kröfu um hann fá forgangsstöðu gagnvart samstæðu Landsbanka Íslands hf. eða gera mætti dótturfélaginu eða íslenska ríkinu að afla skuldatryggingar fyrir kröfu um mismuninn á hendur samstæðunni.

Í svari bankastjóra Landsbanka Íslands hf. 19. september 2008 til breska fjármálaeftirlitsins, FSA, kom meðal annars fram að bankinn myndi stækka varasjóð í þau 20%, sem stofnunin hafi krafist, en af honum yrði helmingur varðveittur á reikningi hjá Seðlabanka Íslands. Landsbanki Íslands hf. myndi jafnframt leitast við að halda heildarfjárhæð innstæðna á Icesave reikningum í Bretlandi innan við 5.000.000.000 sterlingspund, en gæti þó ekki ábyrgst að óviðráðanleg atvik kynnu að valda því að þessu markmiði yrði ekki náð. Bankinn teldi sig ráða yfir nægu lausafé til að tryggja úttektir af bundnum Icesave reikningum fram á árið 2009 og fullnægði hann því þegar kröfum FSA um þetta. Þá var ítrekað að bankinn hafi áður gengist undir skuldbindingu um að stöðva markaðssetningu óbundinna Icesave reikninga, vextir af þeim væru stöðugir og innan þeirra marka að þeir birtust ekki á skrám um bestu boð og aðgerðir stæðu til, sem stuðla ættu að flutningi fjár af óbundnum reikningum inn á bundna. Bankinn teldi sig því hafa orðið við tilmælum, sem FSA hafi beint til hans um þessi atriði. Um flutning á starfsemi útibús bankans í London til dótturfélags væri ítrekað að hann teldi sig ekki geta gengið lengra en að færa sem svaraði 10% af eignum sínum til dótturfélagsins á einu ári og gætu þær aðferðir, sem FSA hafi bent á í bréfi sínu 17. september 2008 til að hraða þessu, valdið erfiðleikum í samskiptum bankans við lánardrottna sína. Sérstaklega var tekið fram að aðstoð frá íslenska ríkinu, sem FSA hafi nefnt, myndi þarfnast sérstakrar lagaheimildar og væri slíkt alls óviðeigandi. Bankinn teldi þann tveggja sólarhringa frest, sem FSA hafi veitt með bréfi sínu, of skamman til að hann gæti komið fram með frekari tillögur af sinni hendi, enda yrði hann að hafa samráð um þær við Fjármálaeftirlitið. Var því óskað eftir lengri fresti í þessu skyni.

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. kynntu Fjármálaeftirlitinu framangreind bréfaskipti við breska fjármálaeftirlitið, FSA, með bréfi 19. september 2008, þar sem rakin voru helstu efnisatriði í svörum bankans. Þá var í bréfinu tekið fram að kröfur FSA væru að mati hans „komnar út fyrir þolmörk bankans og ef Landsbankinn fer að þeim kröfum í einu og öllu mun það veikja fjárhagslega stöðu móðurbankans verulega frá því sem nú er.“ Bréfinu lauk síðan með eftirfarandi orðum: „Að mati Landsbankans er eðlilegt að samskipti við FSA um lausafjárstýringu fari héðan í frá fram fyrir milligöngu FME. Svo virðist sem beiðnir og útskýringar Landsbankans séu að engu hafðar af hálfu FSA og stofnunin virðist reiðubúin að grípa til aðgerða sem munu setja Landsbankann í afar mikla hættu á mjög víðsjárverðum tímum. Þess er óskað að FME veiti Landsbankanum aðstoð við samskipti við FSA í því skyni að Landsbankinn fái eðlilegt starfsumhverfi í samræmi við evrópskar og breskar lagareglur.“

Í Seðlabanka Íslands var gert minnisblað 19. september 2008, sem var á ensku, en samkvæmt framlagðri þýðingu sagði í upphafi þess að það hefði að geyma „viðbótarupplýsingar við minnisblað til seðlabankastjóra sænska, danska og norska seðlabankans, dags. 16. apríl 2008, sem var afhent í algerum trúnaði“. Í minnisblaðinu var greint frá því að Seðlabanki Íslands hafi frá vori 2008 unnið með „leiðandi alþjóðlegum bönkum“ að því að auka gjaldeyrisforða sinn, en lánsfé hafi almennt ekki verið fáanlegt nema með kjörum, sem bankinn hafi talið óviðunandi. Í stað þess að taka stórt lán hafi hann því sett sér það markmið að bæta gjaldeyrisforðann „í litlum skrefum“, en að auki hafi íslenska ríkið gert lánssamninga til langs tíma við alþjóðlega banka. Með þessu hafi tekist að stækka gjaldeyrisforðann um það bil um 1.000.000.000 evrur og yrði áfram unnið að þessu. Þá var þess getið að stóru viðskiptabankarnir þrír hafi skilað viðunandi hagnaði á öðrum fjórðungi ársins 2008 og hafi allir nokkuð auðveldlega staðist álagspróf, sem Fjármálaeftirlitið hafi gert á miðju ári. Þeir hafi haldið áfram aðgerðum til hagræðingar og selt eða lagt niður þætti í rekstri sínum, sem ekki hafi verið taldir skipta máli fyrir kjarnastarfsemi þeirra. Á árinu 2008 hafi þeir „allir minnkað efnahagsreikning sinn í evrum talið“ og að mestu hætt að veita ný lán. Þeir hafi aflað lánsfjár á alþjóðlegum mörkuðum í einhverjum en þó takmörkuðum mæli og treyst á innlán hvað fjármögnun varðar. Bankastjórn seðlabankans ætti reglulega fundi með forstjórum bankanna og hefði náið eftirlit með starfsemi þeirra eins og Fjármálaeftirlitið. Lausafjárstaða þeirra væri í jafnvægi og „nægilega öflug til að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar vel fram á næsta ár.“ Þá var fjallað um atriði, sem sneru að Íbúðalánasjóði, frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 og skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, auk þess sem tekið var fram að þjóðhagsreikningar, sem birtir hafi verið 11. september 2008, hafi sýnt „þá leiðréttingu sem nú á sér stað í hagkerfinu“, en einnig talsverðan hagvöxt á fyrri helmingi ársins.

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. rituðu enn bréf til Fjármálaeftirlitsins 23. september 2008, en það sneri að samskiptum bankans við bankaeftirlit í Hollandi. Þar kom meðal annars fram að bankinn teldi erlendu stofnunina bresta heimild til að krefjast þess að hann hætti að taka við greiðslum inn á Icesave reikninga gegnum útibú sitt í Amsterdam, en bankinn væri á hinn bóginn reiðubúinn til að stýra innlánum í auknum mæli inn á bundna reikninga, svo og til að afhenda hollenska seðlabankanum verðbréf fyrir sem svaraði heildarinnstæðu á óbundnum reikningum, sem færi fram úr 1.150.000.000 evrum. Að auki stæði til boða að setja í varasjóð sem næmi 5% af innstæðum á óbundnum Icesave reikningum í Hollandi og væri bankinn fús til að láta af markaðssetningu slíkra reikninga. Með tölvubréfi 24. september 2008 framsendi Fjármálaeftirlitið þetta bréf til fjármálaeftirlitsins í Hollandi.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 23. september 2008. Samkvæmt fundargerð voru þar ekki rædd atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

37[breyta]

Breska fjármálaeftirlitið sendi bréf 25. september 2008 til bankastjóra Landsbanka Íslands hf. Í bréfinu voru ítrekuð sjónarmið, sem greindi í bréfi stofnunarinnar 17. september 2008, og bent á að bankanum hafi ekki verið ætlað að setja fram tillögur á aðeins tveimur sólarhringum, svo sem um ræddi í fyrrgreindu bréfi bankastjóranna 19. sama mánaðar, enda hafi þeim verið ljóst allt frá 15. ágúst 2008 hvers hún mæltist til.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri og Þorsteinn Már Baldvinsson formaður stjórnar Glitnis banka hf. munu hafa átt fund 25. september 2008, en hinir bankastjórar Seðlabanka Íslands, Ingimundur Friðriksson og Eiríkur Guðnason, munu hafa setið fundinn að hluta. Mun Þorsteinn hafa gert grein fyrir erfiðri lausafjárstöðu Glitnis banka hf. og lýst áhyggjum af láni, sem væri á gjalddaga 15. október sama ár. Síðar sama dag fóru tveir framkvæmdastjórar Glitnis banka hf., Jóhannes Baldursson og Vilhelm Már Þorsteinsson, til fundar við starfsmenn seðlabankans, þá Sigurð Sturlu Pálsson og Jón Þ. Sigurgeirsson. Á þessum fundum mun Glitnir banki hf. hafa óskað eftir að seðlabankinn veitti sér lán að fjárhæð 500.000.000 eða 600.000.000 evrur, en fram hafi komið að sú fyrirgreiðsla myndi ekki nægja til endanlegrar lausnar á erfiðleikum bankans. Glitnir banki hf. mun hafa boðið veð fyrir láninu í tilteknu safni útlána, sem síðar kom í ljós að ekki væri unnt að veðsetja. Davíð mun síðan hafa átt fund 26. september 2008 með Lárusi Welding forstjóra Glitnis banka hf. Á meðan sá fundur stóð yfir mun Davíð hafa símleiðis greint ákærða frá beiðni bankans, en ákærði var þá staddur erlendis. Í framhaldi af því mun Davíð hafa fundað með Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra um beiðnina.

Ákærði mun hafa haldið fund 27. september 2008 með Þorsteini Má Baldvinssyni og Lárusi Welding. Síðar sama dag fundaði ákærði með fjármálaráðherra og bankastjórn Seðlabanka Íslands, þar sem bankanum var falið að gera minnisblað um kosti í stöðunni.

Ákærði mun ásamt efnahagsráðgjafa sínum, fjármálaráðherra og ráðuneytisstjórunum í fjármálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu hafa átt fund með bankastjórn Seðlabanka Íslands 28. september 2008. Þar mun hafa verið dreift minnisblaði frá seðlabankanum, þar sem meðal annars kom fram að Glitnir banki hf. teldi lánið, sem leitað hafi verið eftir, mundu fleyta honum áfram um tvo til þrjá mánuði. Í minnisblaðinu þótti þetta benda til að bankinn hefði enga áætlun um hvernig ræst gæti úr vanda hans. Á hinn bóginn yrði að leitast við að takmarka tjón íslensks samfélags af miklu róti á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, tryggja yrði að áfram yrði til skilvirkt bankakerfi ásamt öruggum greiðslu- og uppgjörskerfum, sem gætu sinnt alþjóðlegum viðskiptum, lýsa yrði yfir með afgerandi hætti að eigendur innstæðna á íslenskum innlánsreikningum væru tryggðir og aðgerðir, sem gripið yrði til, yrðu til lengdar að stuðla að því að álitshnekkir íslenska fjármálakerfisins yrði sem minnstur. Í minnisblaðinu var getið um þann kost að ríkið kæmi með milligöngu seðlabankans til hjálpar Glitni banka hf., annars vegar með hlutafjárframlagi í erlendum gjaldmiðli, sem duga myndi til að leysa úr skammtímavanda bankans, og hins vegar með yfirlýsingu um að ríkið myndi stuðla að því að bankinn yrði áfram til, en þó án þess að veitt yrði bein ábyrgð. Tekið var fram í minnisblaðinu að yrði ekki brugðist við þegar fyrsti stóri íslenski bankinn rataði í vanda yrði því ótvírætt tekið sem yfirlýsingu um að ólíklegt væri að reynt yrði að bjarga öðrum. Lánshæfismat annarra banka myndi þá fyrirsjáanlega lækka eða jafnvel hrynja. Seðlabankinn ætti þegar háar kröfur á hendur Glitni banka hf., sem myndu tapast að hluta eða öllu leyti, en seðlabankinn gæti tryggt með gjaldeyrisforða sínum að bankinn gæti staðið við skuldbindingar sínar. Skuldatryggingarálag Glitnis banka hf. myndi trúlega lækka og tækifæri til lántöku opnast fyrr en ella. Á hinn bóginn væri hætta á að staða annarra viðskiptabanka myndi versna og umræður um þetta gætu valdið áhlaupi á innlánsreikninga í íslenskum bönkum erlendis. Þær hættur væru þó meiri ef Glitnir banki hf. yrði tekinn til gjaldþrotaskipta.

Að kvöldi 28. september 2008 munu sömu menn hafa komið til fundar ásamt tveimur starfsmönnum Seðlabanka Íslands, þeim Jóni Þ. Sigurgeirssyni og Sigurði Sturlu Pálssyni, Jóni Þór Sturlusyni aðstoðarmanni viðskiptaráðherra, æðstu starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins, þeim Jónasi Fr. Jónssyni og Ragnari Hafliðasyni, og Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mun hafa boðað til fundarins í sinn stað. Að þeim fundi loknum munu fulltrúar Glitnis banka hf. hafa mætt til fundar við ákærða, iðnaðarráðherra, ráðuneytisstjórana í forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu og Davíð Oddsson seðlabankastjóra. Á fundinum mun Davíð hafa tilkynnt að Glitni banka hf. stæði til boða hlutafjárframlag að fjárhæð 600.000.000 evrur gegn 75% eignarhluta í bankanum og óskað eftir að afstaða stjórnar og stærstu hluthafa til þessa boðs lægi fyrir áður en markaðir yrðu opnaðir daginn eftir. Fulltrúum stjórnmálaflokka á Alþingi, sem voru í stjórnarandstöðu, mun síðan hafa verið greint frá málinu á sérstökum fundi, en viðskiptaráðherra mun nokkru áður hafa frétt af því í símtali við aðstoðarmann sinn. Að morgni 29. september 2008 mun stjórn Glitnis banka hf. hafa tilkynnt Seðlabanka Íslands að hún hafi ásamt stærstu hluthöfum í félaginu ákveðið fyrir sitt leyti að samþykkja þetta boð, en efnt yrði til hluthafafundar til að taka endanlega afstöðu til þess.

Matsfyrirtækið Standard & Poor’s Financial Services greindi frá því 29. september 2008 að það hafi lækkað lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins. Samkvæmt tilkynningu Seðlabanka Íslands um þetta 30. sama mánaðar hafði matsfyrirtækið tekið þessa ákvörðun í framhaldi af því að ríkið lýsti yfir að það hygðist leggja Glitni banka hf. til hlutafé fyrir sem svaraði 84.000.000.000 krónum eða 5,9% af vergri landsframleiðslu. Matsfyrirtækið hafi ítrekað lýst áhyggjum af háum erlendum skuldbindingum íslenska fjármálakerfisins og þeim „óbeinu ábyrgðum sem í þeim felast fyrir ríkissjóð.“ Íslensku viðskiptabankarnir hafi staðið undir vexti sínum „og nokkurra innlendra athafnamanna“ með erlendu lánsfé og afleiðingarnar orðið þær að erlendar skuldir hafi numið 362% af útflutningstekjum á árinu 2007 og innlendar skuldir 384% af vergri landsframleiðslu, en þetta væri með því hæsta, sem fyndist „meðal ríkja sem hafa lánshæfiseinkunn.“ Vegna góðrar stöðu ríkissjóðs hafi stjórnvöld bolmagn til að aðstoða Glitni banka hf. á þann hátt, sem ákveðinn hafi verið, og gætu þau einnig veitt öðrum fjármálafyrirtækjum „skammtíma lausafjárstuðning“, en sökum „stærðar og uppbyggingar íslenska fjármálakerfisins“ yrði þetta „áfram stór óbein ábyrgðarskuldbinding fyrir ríkissjóð“. Samhliða þessu lækkaði matsfyrirtækið lánshæfiseinkunn Glitnis banka hf.

Seðlabanki Íslands tilkynnti 30. september 2008 að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hafi lækkað lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins. Um leið lækkaði fyrirtækið lánshæfiseinkunnir Glitnis banka hf. og setti jafnframt Kaupþing banka hf. og Landsbanka Íslands hf. á athugunarlista vegna hugsanlegrar lækkunar á einkunnum þeirra. Seðlabankinn tilkynnti einnig sama dag að matsfyrirtækið Fitch Ratings hafi lækkað lánshæfiseinkunnir ríkisins. Það fyrirtæki lækkaði sama dag einkunnir allra viðskiptabankanna þriggja.

Starfshópur Seðlabanka Íslands um lausafjárvanda hélt fund 30. september 2008. Samkvæmt fundargerð var þar rætt um lækkun matsfyrirtækja á lánshæfiseinkunnum íslenska ríkisins og viðskiptabankanna, þar á meðal að með lækkun á einkunnum Landsbanka Íslands hf. væri viðbúið að það „færi allt af stað.“ Einnig væri hætta á því „að Fitch fari á fullt með þetta í fjölmiðla.“ Á fundinum var þess og getið að „stór hluti innlána hafi farið út í nótt hjá Icesave.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 30. september 2008. Í fundargerð sagði meðal annars eftirfarandi: „Forsætisráðherra tók til umræðu kaup ríkissjóðs á hlut í Glitni og stöðuna á fjármálamörkuðum hérlendis og erlendis. Davíð Oddsson seðlabankastjóri kom á fundinn og gerði grein fyrir stöðunni. Ákveðið að ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins verði í neyðarteymi SÍ. Seðlabankastjóri vék af fundi.“

38[breyta]

Formaður stjórnar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ritaði bréf til ákærða 1. október 2008. Þar sagði að stjórnin hafi á fundi sama dag samþykkt að beina því til forsætisráðherra að skýrt yrði með hvaða hætti sjóðnum yrði gert kleift að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum nr. 98/1999 ef eignir hans hrykkju ekki til að inna af hendi greiðslur, sem lög kvæðu á um.

Lögmannsstofan Allen & Overy LPP sendi tölvubréf til Landsbanka Íslands hf. 1. október 2008 í tilefni af því að bankinn hafi óskað eftir áliti um þá kosti, sem kynni að mega velja úr varðandi flutning á Icesave reikningum frá útibúi bankans í London til dótturfélags. Í upphafi tölvubréfsins var vísað til þess að í ljósi viðræðna Halldórs J. Kristjánssonar bankastjóra við breska fjármálaeftirlitið fyrr þennan dag mætti ætla að allir væru einhuga um að hraða yrði málinu. Kostirnir væru þrír, í fyrsta lagi að leita atbeina dómstóla til að flytja innstæðurnar, í öðru lagi að tilkynna innstæðueigendum um flutninginn og byggja á ætluðu samþykki þeirra, sem ekki lýstu sig andvíga honum, og í þriðja lagi að leita eftir því við breska fjármálaeftirlitið að það beitti sér gagnvart breska fjármálaráðuneytinu til að fá það til að neyta neyðarheimilda sinna til að flytja innstæður milli fjármálafyrirtækja. Fyrsti kosturinn væri ekki raunhæfur og ólíklegt væri að fallist yrði á annan kostinn í ljósi fyrri viðræðna um lögfræðilega óvissu um hvort sú leið, sem þar um ræddi, væri tæk.

Samkvæmt minnisblaði frá Seðlabanka Íslands áttu Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri ásamt þremur öðrum starfsmönnum bankans og ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu símafund 2. október 2008 með fimm starfsmönnum matsfyrirtækisins Moody´s Investors Service. Samkvæmt minnisblaðinu sagði Ingimundur þar frá þróun undanfarinna daga, en starfsmenn fyrirtækisins hafi greint frá því að lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins væru enn til skoðunar og vildu vita hvort forsendur, sem gildandi einkunnir væru reistar á, væru réttar. Þar skipti mestu „að ríkissjóður myndi ekki stefna lánstrausti sínu í hættu“ og yrðu stjórnvöld að gera sér grein fyrir hversu mikla skuldsetningu ríkissjóður þyldi. Ráðuneytisstjórinn hafi lýst því að „stjórnvöld væru ábyrg“ og myndi ríkið „ekki taka á sig umtalsverðar skuldbindingar vegna bankakerfisins.“ Ingimundur hafi tekið undir það að „nálgun stjórnvalda væri sú að varðveita lánstraust ríkissjóðs.“ Starfsmenn fyrirtækisins hafi spurt hvernig ríkið myndi bregðast við ef annar af hinum stóru viðskiptabönkunum tveimur þyrfti aðstoð og því verið svarað á þann veg „að Glitnir hafi verið í miklu verri stöðu en hinir bankarnir“, auk þess sem „stjórnvöld hefðu unnið umtalsvert í viðlagamálum undanfarin misseri.“

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 30. fund sinn 2. október 2008. Samkvæmt fundargerð gerði Tryggvi Pálsson grein fyrir því í upphafi fundar að Kaupþing banki hf. hafi óskað eftir veðláni frá Seðlabanka Íslands, sem bankastjórnin hafi í meginatriðum hafnað, en meðal annars hafi komið fram af hendi Kaupþings banka hf. í tengslum við þetta að hann kynni að þurfa að hætta að framlengja gjaldeyrisskiptasamninga við lífeyrissjóði, sem kynni að valda því að þeir yrðu að kaupa gjaldeyri eða selja erlendar eignir. Hafi af þessu tilefni komið upp hugmynd um að ríkið eða seðlabankinn keypti erlendar eignir af lífeyrissjóðum gegn verðtryggðum skuldabréfum, sem myndi styrkja gjaldeyrisvarasjóð. Á fundinum hafi komið fram að útstreymi af „erlendum innlánum“ hafi róast frá deginum áður en gæti þó aukist aftur á næstunni, svo og að seðlabankinn hafi orðið var við útstreymi á peningaseðlum vegna úttekta á innlendum innstæðum, en af tilteknum peningamarkaðssjóði hjá Glitni banka hf. hafi daginn áður verið teknar út 25.000.000.000 krónur. Jónína S. Lárusdóttir hafi gert athugasemd við að „viðskiptaráðuneytið hafi ekki verið kallað til og átt hlut að ákvörðunum um sl. helgi varðandi mál Glitnis.“ Bolli Þór Bollason hafi þá tekið fram að samráðshópurinn hafi ekki komið að þessum atburðum og ráðuneytisstjórar, sem sótt hafi fundi vegna þeirra, hafi ekki gert það vegna setu sinnar í hópnum. Baldur Guðlaugsson hafi kastað þeirri hugmynd fram hvort lífeyrissjóðir kynnu að gerast ásamt ríkinu hluthafar í Glitni banka hf. og greiða fyrir sinn hlut með erlendum gjaldeyri, en erlend matsfyrirtæki hafi talið „að ríkið hafi færst of mikið í fang“ með kaupum á hlut í bankanum. Í umræðum um þetta hafi Jónína meðal annars látið þau orð falla að „ef ríkið hætti við Glitni þá rúlli allt“ og Tryggvi svarað með því að „það sé hvort sem er allt að rúlla.“ Bolli hafi einnig getið þess að forseti Alþýðusambands Íslands hafi daginn áður átt fund með ákærða og iðnaðarráðherra, þar sem rætt hafi verið um hugsanlegan hlut lífeyrissjóða að aðgerðum. Ingimundur Friðriksson hafi þá tekið fram að í raun væru þetta „akademískar spurningar þar sem ekki sé einu sinni víst hvort við lifum til helgar“ og Tryggvi bætt því við að skuldatryggingarálag bankanna þriggja hafi hækkað mikið, ekki væri „lengur kvót á bankana“, lánalínur þeirra væru að lokast og ekki líkur á öðru en að lánshæfismat þeirra myndi lækka enn frekar. Ingimundur hafi þessu næst sagt frá fyrrnefndum símafundi við starfsmenn matsfyrirtækisins Moody´s Investors Service, sem hafi lýst því að lánshæfiseinkunnir ríkisins væru reistar á því að það myndi ekki taka á sig „of miklar skuldbindingar.“ Bolli hafi spurt hvernig „samtöl við erlenda lánardrottna Glitnis hafi gengið“ og Tryggvi svarað því til að þau gæfu litla von, þar sem „lánardrottnar vilji fá greiðslu strax.“ Hann hafi líka tekið fram að í raun „hafi aðkoma ríkisins að Glitni virkað þveröfugt við það sem ætlað var“, því hafi verið trúað fyrir viku að bankarnir ættu laust fé, en um leið og „keðjuverkunin hefst þá hverfur lánstraust og lánshæfi.“ Því næst hafi Tryggvi ásamt Jónasi Fr. Jónssyni gert grein fyrir því, sem unnið væri við í tengslum við þetta í seðlabankanum og hjá Fjármálaeftirlitinu. Bolli hafi þá spurt um hugsanlega lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Ingimundur svarað með því að þar kynnu að fást „á annan ma. USD en þá verði slík aðstoð í lánaprógrammi með þeim skilyrðum sem því fylgja.“ Annar ónafngreindur seðlabankastjóri hafi kallað þá leið koss dauðans, en „við erum kannski komin í þá stöðu hvort sem er.“ Þetta kynni þó í raun að auka trúverðugleika út á við. Samkvæmt fundargerðinni voru málefni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta þessu næst tekin til umræðu og greindi Jónína meðal annars frá því að mikið hafi borist af fyrirspurnum um hann, en kvartað væri undan því að „ekki liggi fyrir nægilega skýrar og jafnvel misvísandi upplýsingar.“ Hún hefði áhyggjur af því að „innlánaflótti bresti á“ og væru Íslendingar „mikið farnir í hringja í Tryggingarsjóð.“ Hún hafi greint frá fundi í stjórn sjóðsins daginn áður og bréfi, sem stjórnin hafi sent til ríkisstjórnar með ósk um að hún greindi frá því hver ábyrgð ríkisins væri á skuldbindingum sjóðsins. Væri gríðarlega mikilvægt að „einhver afstaða komi frá stjórnvöldum“, sem sjóðurinn „geti byggt svör sín á.“ Jónas hafi getið þess að útreikningar „frá í sumar“ hafi sýnt að fjárhæðin „sem væri ábyrgst“ væri um 722.000.000.000 krónur miðað við lágmarksvernd innstæðna. Á fundinum var síðan rætt um hluthafafund í Glitni banka hf., þar sem kosin yrði stjórn eftir að ríkið hefði gerst hluthafi, en Baldur hafi getið þess í tengslum við þetta að bankinn hafi „óskað eftir skriflegri yfirlýsingu frá ríkinu um að það telji sig bundið af tilboði sínu um hlutafjárframlag“. Tryggvi hafi þá bent á að „stjórnvöld hafi enn ekki mótað stefnu sína og séu e.t.v. ekki bundin vegna breyttra forsendna.“ Í lok fundarins hafi síðan Ingimundur varað „við því að það þurfi að vera viðbúið nú á hverri stundu að komið sé að ögurstundu.“

Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði, sendi tölvubréf til ákærða 2. október 2008, þar sem hann kvaðst ekki geta orða bundist og vildi hann því bera nokkur atriði fram til umhugsunar. Að mati hans væri það orðið „spurning um líf eða dauða íslensks efnahagslífs að skilja á milli alþjóðlegrar og innlendrar starfsemi bankanna og koma höfuðstöðvum þeirra úr landi.“ Flutningur höfuðstöðva Kaupþings banka hf. myndi „snarlækka skuldastöðu Íslands“, draga úr áhættu fyrir ríkið og „snúa við nauðsynlegum gjaldeyrisjöfnuði Kaupþings“, en ástæðan fyrir því að bankinn hefði ekki þegar gert þetta kynni að vera „ótti við að þeir verði neyddir til að afskrifa eignir“. Æskilegast væri að Landsbanki Íslands hf. flytti líka, en að lágmarki yrði hann að skilja á milli alþjóðlegrar og innlendrar starfsemi og „flytja Icesave reikningana, sem skapa óþolandi áhættu fyrir landið, til dótturfélaga í Bretlandi.“ Í báðum tilvikum kynni að koma til þess að ríkið yrði að setja á laggirnar sérstakan sjóð, sem myndi kaupa eignir af bönkunum, en þær gætu orðið „mun burðugri en ella ef tækist að snúa þeirri óheillastöðu við sem við erum komin í.“ Ákærði svaraði þessu með tölvubréfi og kvaðst þakka fyrir góðar ábendingar. Friðrik sendi ákærða aftur tölvubréf síðar sama dag, þar sem skýrt var nánar í fjórum liðum hvernig standa mætti að flutningi á höfuðstöðvum banka, en tekið var fram í niðurlagi orðsendingarinnar að þetta væri „auðvitað vandasamt og flókið ferli.“ Daginn eftir sendi Friðrik síðan enn tölvubréf til ákærða og fylgdi því minnisblað „þar sem hugmyndir um flutning banka eru settar fram á skipulagðari hátt en í tölvupóstum frá því í gær“, eins og komist var að orði í bréfinu.

Breska fjármálaeftirlitið, FSA, sendi bréf 3. október 2008 til forstöðumanns útibús Landsbanka Íslands hf. í London, þar sem lagt var fyrir bankann að grípa til nánar tiltekinna aðgerða. Í fylgiskjali með bréfinu var greint ítarlega frá forsendum ákvörðunar FSA, meðal annars með reifun á fyrri samskiptum stofnunarinnar við bankann, en einnig var þar vísað til þess að íslenska ríkið hafi 29. september sama ár tekið yfir Glitni banka hf. vegna lausafjárvanda hans. Formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands hafi í tengslum við það látið orð falla um að Glitnir banki hf. hefði að öðrum kosti liðið undir lok innan fárra vikna, lánshæfiseinkunnir bankans hafi verið lækkaðar 30. sama mánaðar, þann dag hafi gengi íslensku krónunnar fallið verulega og skuldatryggingarálag Landsbanka Íslands hf. og íslenska ríkisins hafi náð hærra stigi en áður hafi sést. Aðgerðirnar, sem bankinn yrði að grípa til, væru í fyrsta lagi að leggja á reikning við banka í Bretlandi varasjóð, sem næmi að minnsta kosti 10% af samanlögðum innstæðum í sterlingspundum á óbundnum reikningum, en frá 6. október 2008 skyldi þessi varasjóður svara til 20% af innstæðunum. Í öðru lagi að leggja á reikning við banka í Bretlandi fjárhæð, sem svaraði til innstæðna, sem útibú Landsbanka Íslands hf. í London tæki við frá og með 2. sama mánaðar. Í þriðja lagi væri óheimilt að breyta vöxtum af innstæðum á Icesave reikningum nema það væri tilkynnt FSA með tveggja daga fyrirvara og mætti ekki bjóða vexti, sem kæmust á skrá yfir bestu boð. Í fjórða lagi væri óheimilt að auglýsa óbundna Icesave reikninga eftir 10. október 2008. Í fimmta lagi mættu innstæður á slíkum reikningum ekki vera hærri en samtals 1.000.000.000 sterlingspund í árslok 2008 og í sjötta lagi mættu samanlagðar innstæður á öllum gerðum Icesave reikninga aldrei verða hærri en 5.000.000.000 sterlingspund. Loks yrði bankinn í sjöunda lagi að leggja fram fyrir 17. október 2008 áætlun um varasjóð, sem hrykki til að greiða út allar innstæður á bundnum Icesave reikningum, sem komið gætu til útborgunar fram á mitt ár 2009.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman til 31. fundar síns 3. október 2008. Í fundargerð var greint frá því að Bolli Þór Bollason hafi sagt að í byrjun sömu viku hafi verið „von um að við gætum haldið þremur bönkum, nú er spurning hvort við getum haldið einum“ og hafi Ingimundur Friðriksson tekið undir það. Þennan dag hafi yfir 5.000.000.000 krónur verið teknar í reiðufé út af innlendum bankareikningum og væri hafið bankaáhlaup. Tryggvi Pálsson hafi upplýst að vitað væri um lokun á erlendum lánalínum og væri enginn „tilbúinn til að taka áhættu gagnvart íslensku bönkunum í greiðslukerfum.“ Augljóst væri af skuldartryggingarálagi bankanna að reiknað væri með að skuldabréfaeigendur fengju ekki greidd nema um 40% af kröfum sínum. Þá hafi Bolli upplýst að breska fjármálaeftirlitið, FSA, hafi gert kröfu um að Kaupþing banki hf. greiddi til dótturfélags síns Singer & Friedlander 80.000.000 sterlingspund, en fjármálaráðherra Bretlands hafi svo haft samband við ákærða og sagt bankann þurfa að greiða til dótturfélagsins 600.000.000 sterlingspund í síðasta lagi 6. október 2008. Jónas Fr. Jónsson kvaðst hafa rætt við forstjóra bankans, sem hafi sagt að lausafjárstaða hans væri „í ágætum málum“, en starfsmenn FSA hafi síðan greint Fjármálaeftirlitinu frá því að bankinn hefði ekki fylgt settum reglum og væri um að ræða „1,6 ma. GBP“, sem bankinn yrði að greiða fyrir dagslok 6. október 2008. Þetta hafi verið borið undir forstjóra og formann stjórnar Kaupþings banka hf., sem hefðu komið „af fjöllum“ og talið að um misskilning væri að ræða. Jónas hafi einnig greint frá því að Fjármálaeftirlitinu hafi borist fyrirspurn frá FSA um hvort hafið væri bankaáhlaup hér á landi. Tryggvi hafi sagt frá samtali við starfsmann FSA og talið sýnt af því að hafinn væri „slagur milli þjóða um hvar peningurinn verði ef til gjaldþrots kemur“, en við því væri búist á næstu dögum. Bolli, Ingimundur og Jónas hafi allir lýst því að tilfinning manna væri sú að „við höfum þessa helgi“ og væri viðbúið að markaðir brygðust illa við á komandi mánudegi. Bolli hafi greint frá „fundi með lífeyrissjóðum“, sem hafi brugðist jákvætt við, og væru frekari fundir fram undan, auk þess sem ákærði og iðnaðarráðherra hafi átt „fund með ASÍ og SA.“ Væri þess vænst að yfirlýsing yrði gefin út fyrir opnun markaða á mánudeginum. Samkvæmt fundargerðinni bar Tryggvi þessu næst fram spurningu um „hvort fundinn verði forsendubrestur í samningi við Glitni“ og láta svo „alla bankana vera á sömu forsendum, tryggja innstæður.“ Jónas hafi lagt „áherslu á afleiðingarnar ef ríkið hættir við“ og Baldur Guðlaugsson bent á að búið væri „að stíga skref og ef það yrði stigið til baka þyrfti að undirbyggja það“, enda myndu hluthafar „telja að ríkið hafi sett bankann í þrot“, sem gæti þýtt „hundruð milljóna í skaðabótamál.“ Tryggvi hafi tekið fram að „ef Glitnir fari í greiðsluþrot á mánudag“ yrði væntanlega enginn hluthafafundur eða hlutafjáraukning. Í framhaldi af þessu urðu skoðanaskipti um hvort forsendur hafi brostið fyrir hlutafjárframlagi ríkisins til Glitnis banka hf. Að þeim loknum hafi Ingimundur spurt hver staðan yrði á komandi mánudegi ef „Kaupþing verði gjaldþrota“. Baldur hafi þá bent á að ef til vill þyrfti „að láta bankana fara alla leið í þrot áður en gripið er inn.“ Að því er Landsbanka Íslands hf. varðar hafi Jónas lýst því að þar væru menn rólegir og myndu svara FSA um komandi helgi, en verið væri að skoða hvernig flytja mætti starfsemi hans í Bretlandi til dótturfélags. Ingimundur hafi sagt frá því að skuld íslensku bankanna við seðlabankann í Luxemborg væri komin í 4.200.000.000 evrur og þar með yfir leyfilegt hámark. Hann hafi svo bætt því við að viðbúið væri að á komandi mánudegi yrði hrun. Samkvæmt fundargerðinni bárust þegar svo var komið upplýsingar inn á fund starfshópsins um að fjármálaeftirlitið í Luxemborg hafi tilkynnt „að veðköll séu á Landsbankann og Glitni á mánudag“. Krafist yrði aukinna veða frá þeim fyrrnefnda að andvirði 800.000.000 evrur og þeim síðarnefnda fyrir 600.000.000 evrum, en Kaupþings banka hf. hafi ekki verið getið. Þessu næst hafi Jónína S. Lárusdóttir spurt hvort vænta mætti svars frá forsætisráðuneytinu um yfirlýsingu vegna innstæðutrygginga og hafi Bolli svarað með því að þar „hafi verið farið yfir málið“, en fregnir hafi borist af því að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service myndi lækka lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins verulega ef það lýsti yfir ábyrgð gagnvart erlendum innstæðueigendum. Ingimundur hafi bætt því við að í því efni skipti líklega engu hvort rætt yrði um ábyrgð á lágmarksfjárhæð eða öllum innstæðum. Baldur hafi bent á að „fá verður á hreint hvort ríkið sé á einhvern hátt ábyrgt fyrir Tryggingarsjóðnum“ og væri ekki fært að lýsa slíku yfir fyrir fram. Að öðru leyti voru á fundinum ræddir kostir um aðgerðir næstu daga, en í tengslum við það hafi Tryggvi sagt að nú þyrfti stefnu frá stjórnvöldum.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar 3. október 2008. Í fundargerð frá honum sagði eftirfarandi: „Forsætisráðherra tók til umræðu atburðarás síðustu daga og stöðu bankanna. Iðnaðarráðherra sagði ummæli seðlabankastjóra um þjóðstjórn á síðasta ríkisstjórnarfundi óviðeigandi gagnvart núverandi ríkisstjórn og taldi rétt að hann viki úr embætti. Viðskiptaráðherra gagnrýndi að ráðherra bankamála skuli ekki hafa verið hafður með í ráðum í Glitnismálinu fyrr en á sunnudagskvöldi. Málið rætt. Fleira gerðist ekki.“

39[breyta]

Starfsmaður í breska fjármálaráðuneytinu sendi tölvubréf 5. október 2008 til formanns stjórnar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þar var rætt um atriði, sem sýnilega tengdust fyrri viðræðum um samvinnu milli tryggingarsjóðsins og breskra stjórnvalda við hugsanlega útborgun til innstæðueigenda. Einnig var tekið fram að æskilegt yrði að fá staðfestingu á því hvernig aflað yrði fjár til að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt evrópskum reglum um innstæðutryggingar ef til þess kæmi að Landsbanki Íslands hf. og útibú hans í London gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins sendi tölvubréf til bankastjóra Landsbanka Íslands hf. 5. október 2008 og kvaðst vilja staðfesta það, sem komið hafi fram í samtali við Sigurjón Þ. Árnason um símtal forstjórans við starfsbróður sinn hjá breska fjármálaeftirlitinu, FSA. Sá hafi sagt að Landsbanki Íslands hf. yrði „að koma með“ 200.000.000 sterlingspund til viðbótar varasjóði til að mæta 10% af innstæðum á óbundnum Icesave reikningum, en yrði það ekki gert „verður líklegast lokað hjá ykkur á morgun.“ Þessari orðsendingu svaraði Halldór J. Kristjánsson með fyrirspurn um hvort FSA hafi ekki boðið hraða meðferð til að flytja reikningana í dótturfélag. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins sendi þá aftur tölvubréf, þar sem hann sagðist hafa spurt um þetta „að því gefnu að þið kæmuð með 200 m. GBP á morgun og vilduð reyna að breyta ykkur hratt í dótturfélag hvort það væri möguleiki og þá hversu hratt.“ Forstjóri FSA hafi tekið „vel í það og nefndi 1-2 vikur með öllum fyrirvörum.“

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. áttu 5. október 2008 símafund með forstjóra breska fjármálaeftirlitsins, FSA, og tveimur starfsmönnum þess. Samkvæmt endurriti af orðaskiptum á þeim fundi greindi Halldór J. Kristjánsson frá ýmsum ráðstöfunum í efnahagsmálum og málefnum fjármálafyrirtækja, sem ríkisstjórnin hafi haft til athugunar þennan dag, þar á meðal að rætt hafi verið um að Landsbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. tækju yfir eignir Glitnis banka hf. og innstæður hjá honum. Með þessu myndi fjárhagsstaða Landsbanka Íslands hf. batna mjög og hefði hann þá tök á að flytja starfsemi útibús síns í London til dótturfélags á mun skjótari hátt en áður hafi verið rætt um. Hann lýsti því einnig að ríkisstjórn Íslands hafi lagt áherslu á að þessi flutningur næði fram að ganga og óskaði hann upplýsinga um hversu hratt það gæti gengið fyrir sig. Starfsmenn FSA hafi svarað að það myndi að lágmarki taka þrjá til fjóra mánuði, en þeir væru reiðubúnir til að athuga aðra kosti. Það væri þó háð því meginskilyrði að bankinn yrði að senda til útibúsins 200.000.000 sterlingspund áður en viðskipti hæfust morguninn eftir, enda ætti það ekki lengur til laust fé eftir úttektir af Icesave reikningum. Ef þetta yrði ekki gert myndi FSA verða knúið til að stöðva starfsemi útibúsins þegar í stað. Að auki þyrfti bankinn fyrir lok næsta dags að leggja Heritable Bank Ltd. til um 50.000.000 sterlingspund, þar sem lausafjárstaða þess síðarnefnda væri komin á hættulegt stig. Óskuðu starfsmenn FSA eftir að fá skriflega staðfestingu frá Landsbanka Íslands hf. um að þetta tvennt yrði gert.

Bankastjórn Seðlabanka Íslands átti ásamt Sigurði Sturlu Pálssyni og Tryggva Pálssyni fund 5. október 2008 með Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjórum Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt minnispunktum frá fundinum lét Sigurjón þess í byrjun getið að unnt yrði að verja Heritable Bank Ltd. með 40.000.000 sterlingspundum til viðbótar 10.000.000 sterlingspundum, sem Landsbanki Íslands hf. ætti, en 200.000.000 sterlingspund þyrfti til að halda áfram starfsemi með Icesave reikninga og yrði henni því „lokað kl. 16.00.“ Áhlaup stæði yfir í Bretlandi, en rólegt væri í Hollandi. Halldór hafi greint frá því að ekki hafi tekist að ná því sem nefnt hafi verið í „bréfinu“ og kynni hann því „ekki önnur ráð en að fara með bankann í greiðslustöðvun.“ Davíð Oddsson hafi lýst því að Seðlabanki Íslands gæti ekki lánað Landsbanka Íslands hf., því að sá fyrrnefndi hafi lánað öðrum „banka stóra upphæð.“ Sigurjón hafi spurt hvort hluti af starfsemi Landsbanka Íslands hf. yrði færður undir Kaupþing banka hf. og bætt svo við að lokað væri „svo hratt á línur að enginn lifir lengur en 3 daga.“ Þessu virðist ekki hafa verið svarað, en samkvæmt minnispunktunum bætti Sigurjón síðar við að tjónið, sem myndast hafi á þessum degi, væri „þrefalt eigið fé“, svo og að hann óttaðist að eignir yrðu seldar á brunaútsölu og dygðu „ekki til að bæta innlánin.“ Halldór hafi svo undir lok fundarins getið þess að þeir hafi látið ákærða „vita í gær að við kæmumst ekki gegnum daginn án fyrirgreiðslu.“

Viðskiptaráðuneytið sendi bréf 5. október 2008 til breska fjármálaráðuneytisins, þar sem því var lýst yfir að ríkisstjórn Íslands myndi ef þörf krefði aðstoða Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta til að afla fjár þannig að honum yrði fært að greiða lágmarksfjárhæð innstæðutrygginga ef Landsbanka Íslands hf. og útibúi hans í Bretlandi yrði ekki fært að standa við skuldbindingar sínar.

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar síðla kvölds 5. október 2008. Samkvæmt fundargerð komu á fundinn Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri. Forsætisráðherra hafi lagt fram og kynnt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um innstæðutryggingar og lagt til að hún yrði send fjölmiðlum. Þetta hafi verið rætt og samþykkt. Þá hafi forsætisráðherra tekið til umræðu „hugsanlega lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.“ Ingimundur hafi gert grein fyrir „ferli slíkrar lántöku“ og þetta verið rætt. Að endingu hafi forsætisráðherra gert grein fyrir „fundum og öðrum atburðum helgarinnar“ og hafi það mál einnig verið rætt.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar, sem getið var í framangreindri bókun, mun hafa verið svohljóðandi: „Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.“

40[breyta]

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar að morgni 6. október 2008. Samkvæmt fundargerð komu á fundinn Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Jónína S. Lárusdóttir ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu, Áslaug Árnadóttir skrifstofustjóri í sama ráðuneyti og Jónas Fr. Jónsson forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Viðskiptaráðherra hafi lagt fram og kynnt frumvarp til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og lagt til að málið yrði sent „þingflokkunum til meðferðar.“ Málið hafi verið ítarlega rætt og samþykkt, en fundi slitið að því búnu.

Breska fjármálaráðuneytið sendi bréf 6. október 2008 til viðskiptaráðuneytisins, þar sem vísað var til þess að borist hafi bréf 5. sama mánaðar um formlega staðfestingu ríkisstjórnar Íslands á því að hún myndi ábyrgjast að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta yrði kleift að greiða lágmarksfjárhæð innstæðutrygginga ef Landsbanki Íslands hf. og útibú hans í Bretlandi kæmust í greiðsluþrot. Var óskað eftir að viðskiptaráðuneytið veitti skjót svör við nánar tilgreindum spurningum, sem vörðuðu útborgun innstæðutrygginga.

Breska fjármálaeftirlitið beindi ákvörðun til Landsbanka Íslands hf. 6. október 2008 um að honum væri óheimilt án undangengins samþykkis stofnunarinnar að neyta samningsbundinna heimilda til að fresta eða takmarka útborgun af innstæðum á reikningum við útibú sitt í London. Í ákvörðuninni kom fram að hún hafi verið tekin meðal annars sökum þess að útibúið fullnægði ekki kröfum um lausafjárstöðu samkvæmt nánar tilgreindum breskum reglum.

Ákærði flutti ávarp til íslensku þjóðarinnar í hljóðvarpi og sjónvarpi síðdegis 6. október 2008, þar sem hann greindi að nokkru frá því hvernig högum hennar væri komið. Í framhaldi af því mælti hann á Alþingi fyrir frumvarpi því, sem getið var hér í byrjun og varð að kvöldi sama dags að lögum nr. 125/2008.