Dómur Landsdóms í máli nr. 3/2011/IX

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Dómur Landsdóms í máli nr. 3/2011  (2012) 
Landsdómur
IX

1[breyta]

Með lið 1.3 í ákæru, að teknu tilliti til þess sem fram kemur í inngangi hennar og lið 1.1, er ákærða gefið að sök að hafa af ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra á tímabilinu frá febrúar fram í byrjun október 2008 andspænis stórfelldri hættu, sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði og honum mátti vera kunnugt um, með því „að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.“ Þessi háttsemi ákærða er sem fyrr segir talin aðallega varða við b. lið 10. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga.

2[breyta]

Eins og áður greinir gerðu forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið ásamt Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands samkomulag 21. febrúar 2006 um samráð varðandi fjármálastöðugleika og viðbúnað í þeim tilgangi að formbinda samráð aðila á þessu sviði, skerpa hlutverkaskiptingu, hindra tvíverknað og auka gegnsæi. Þar var tekið fram að samkomulagið takmarkaði ekki svigrúm hverrar stofnunar um sig til sjálfstæðra ákvarðana um aðgerðir út frá hlutverki og ábyrgð sinni. Vettvangur samráðsins væri samráðshópur, skipaður fulltrúum þessara fimm stofnana og undir stjórn fulltrúa forsætisráðuneytisins. Hópurinn skyldi vera vettvangur upplýsinga- og skoðanaskipta og ráðgefandi, en honum væri ekki ætlað að taka ákvarðanir um aðgerðir. Í samkomulaginu var tekið fram að yrði fjármálakerfinu talin hætta búin vegna áfalls í fjármálafyrirtæki eða á markaði skyldi efnt til fundar í samráðshópnum án tafar. Viðbrögð við slíku áfalli yrðu „háð aðstæðum hverju sinni en grundvallaratriði er að eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækja sem og markaðsaðilar leysi vanda sinn sjálfir“, svo sem komist var að orði í samkomulaginu.

Auk þessa samkomulags um samráð ráðuneytanna þriggja, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands höfðu tvær síðastnefndu stofnanirnar gert samstarfssamning 3. október 2006 í samræmi við 4. mgr. 15. gr. laga nr. 87/1998 og 4. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001. Í 15. gr. fyrrnefndu laganna var mælt fyrir um samskipti Fjármálaeftirlitsins við Seðlabanka Íslands. Samkvæmt 1. mgr. hennar skyldi forstjóri þess eiga reglulega samráðsfundi með fulltrúum seðlabankans og veita þeim upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar, sem nauðsynlegar væru starfsemi hans. Í 2. mgr. sagði að Fjármálaeftirlitið skyldi veita seðlabankanum allar upplýsingar, sem stofnunin byggi yfir og nýttust í starfsemi hans. Eftir 3. mgr. áttu upplýsingar, sem veittar væru samkvæmt lagagreininni, að vera háðar þagnarskyldu samkvæmt lögum nr. 87/1998 og 36/2001. Kveðið var á um hliðstæða upplýsinga- og þagnarskyldu í 4. mgr. 35. gr. síðargreindu laganna. Í samstarfssamningnum var lögformlegt samstarf stofnananna tveggja nánar útfært og meðal annars kveðið á um að upplýsingaskipti milli þeirra skyldu vera greið og fljótvirk, hvor þeirra ætti að upplýsa hina eins fljótt og kostur væri þegar fram kæmu vísbendingar um erfiðleika á fjármálamarkaði og tryggð skyldu samræmd vinnubrögð þeirra við hugsanlegri kerfisáhættu á þeim markaði. Í samræmi við framangreind lagaákvæði um gagnkvæma upplýsingaskyldu var hnykkt á því í samstarfssamningnum að stofnanirnar skyldu veita hvorri annarri fullan aðgang að gögnum, sem þær „varðveita og nýtast í starfsemi hlutaðeigandi“.

3[breyta]

Í samkomulaginu 21. febrúar 2006 um samráð varðandi fjármálastöðugleika og viðbúnað var ráðgert að samráðshópurinn myndi hittast ekki sjaldnar en tvisvar ári, en þó gætu atvik, sem vörðuðu stöðu fjármálafyrirtækja eða markaða, gefið tilefni til fleiri funda, þar á meðal ef fjármálakerfinu væri talin hætta búin vegna áfalls á þeim vettvangi. Haldinn var 31 fundur í samráðshópnum frá því að samkomulagið var gert og fram í byrjun október 2008, þar af 25 fundir á tímabilinu, sem ákæra í málinu tekur til. Fundirnir voru tíðir frá 10. janúar til 3. október 2008, þótt engir hafi verið haldnir eftir 5. febrúar fram til 18. mars og eftir 29. maí fram til 7. júlí. Fundina sóttu allir eða flestir þeir, sem áttu sæti í hópnum hverju sinni, og ritaði Tryggvi Pálsson, sem starfaði með hópnum, í flestum tilvikum fundargerðir. Fyrir dómi bar Tryggvi að fundargerðirnar hafi yfirleitt verið gerðar fljótlega eftir hvern fund og síðan sendar rafrænt til annarra fundarmanna. Ábendingar hafi borist og hafi þær stundum leitt til breytinga á efni fundargerðanna, sem hafi svo aftur verið sendar til þeirra, sem áttu sæti í hópnum. Ástæðan fyrir því að fundargerðirnar hafi verið merktar sem drög hafi verið sú að þær hafi ekki verið afgreiddar og samþykktar formlega í upphafi hvers fundar. Að þessu virtu verður að líta svo á að fyrirliggjandi fundargerðir af fundum samráðshópsins gefi góða mynd af því, sem þar var rætt, auk þess sem gögn, sem lögð voru fram á fundum, fylgdu oftast viðeigandi fundargerð.

Samkvæmt fundargerðunum var á fundum samráðshópsins rætt almennt um stöðu og horfur á fjármálamörkuðum hverju sinni. Meðal þess, sem bar á góma, voru álit alþjóðlegra matsfyrirtækja á lánshæfi íslenska ríkisins og banka, svo og umfjöllun um þá í erlendum fjölmiðlum. Einnig var fjallað um möguleika á að auka lausafé, meðal annars með frekari útgáfu ríkisskuldabréfa, heimild Íbúðalánasjóðs til kaupa á fasteignaveðbréfum og lífeyrissjóða til að veita lán gegn veði í verðbréfum. Eitt af því, sem oft var fjallað um, var viðlagasamningur ríkja Evrópusambandsins, en þeir sem hópinn skipuðu virtust sammála um að æskilegt væri fyrir Ísland að gerast aðili að samningnum til að styrkja stöðu landsins út á við.

Eðli máls samkvæmt kom ýmis vandi, sem ógnaði fjármálastöðugleika hér á landi, til umræðu í samráðshópnum. Í fundargerð frá fundi 15. nóvember 2007 kom fram að íslensku fjármálakerfi væri meiri hætta búin þá en á árinu 2006, en nokkrir þeirra, sem gáfu skýrslu fyrir dómi, báru að Glitnir banki hf., Kaupþing banki hf. og Landsbanki Íslands hf. hafi verið hætt komnir á fyrri hluta þess árs. Á fundi hópsins 10. janúar 2008 var lýst áhyggjum af veikri stöðu stórra hluthafa í bönkunum, sem gæti haft neikvæð áhrif á lánstraust og erlend innlán þeirra. Meðal þess, sem sagt var á fundi 18. mars 2008, var að lausafjárvandi bankanna væri meira knýjandi en áður og hættan því „orðin veruleg og bráð.“ Á fundi 28. apríl 2008 var greint frá kvörtun, sem Seðlabanka Íslands hafði borist frá seðlabanka Evrópu vegna mikils umfangs á endursölu verðbréfa íslensku bankanna til evrópska bankans, sem sögð voru að hluta til málamyndagerningar milli þeirra. Á fundum hópsins var af og til rætt um bágborna stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna þess hve eignir sjóðsins námu lágum fjárhæðum í samanburði við þær innstæður, sem nutu tryggingar samkvæmt lögum um sjóðinn. Á fundi 9. maí 2008 var upplýst að sú fjárhæð hafi numið alls 2.318.000.000.000 krónum í árslok 2007, en eignir sjóðsins hafi verið um 10.000.000.000 krónur á sama tíma. Þegar kom fram á sumar 2008 varð umfjöllun um innstæður í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikningum í Bretlandi og Hollandi æ umfangsmeiri á fundum hópsins. Samráðshópurinn virðist hafa verið á einu máli um að brýnt væri að flytja starfsemi vegna þessara reikninga sem fyrst til dótturfélaga til að draga úr áhættu tryggingarsjóðsins, þótt þá virtist greina á um það hvort íslenska ríkið bæri ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins gagnvart innstæðueigendum. Einnig var rætt um vanda einstakra fjármálafyrirtækja og náði sú umræða hámarki í september og byrjun október 2008.

Í umfjöllun um þann margþætta vanda, sem við var að glíma, var rætt um það innan samráðshópsins hvernig við honum ætti að bregðast. Í framhaldi af norrænni viðlagaæfingu lagði forstjóri Fjármálaeftirlitsins fram á fundi hópsins 15. nóvember 2007 skjal með ábendingum um úrbætur, sem lutu að auknum viðbúnaði fyrir fjármálaáfall. Í skjalinu var meðal annars spurt hvort setja þyrfti „fram tölu um hámark hugsanlegs eiginfjárframlags, lausafjáraðstoðar eða ábyrgðar á innistæðum“, auk þess sem bent var á að huga þyrfti að lagalegum heimildum til inngrips og skipulagsmálum, þar með talinni viðbragðsáætlun. Á fundum samráðshópsins 2008 var margsinnis greint frá því að unnið væri að gerð lagafrumvarpa í þessu skyni, fyrst á vegum viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins og síðar einnig með þátttöku fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands.

Samkvæmt fundargerð frá fundi samráðshópsins 15. janúar 2008 varpaði Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri fram spurningu um hvernig stjórnvöld myndu bregðast við fjármálaáfalli, sem hann teldi ekki lengur fjarstæðukenndan möguleika. Á fundi 1. apríl sama ár var lagt fram vinnuskjal með yfirskriftinni „Úrræði stjórnvalda gegn óróleika á fjármálamörkuðum“, sem tekið hafði verið saman í Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu í samræmi við tillögur ráðgjafans Andrew Gracie. Eins og áður var gerð grein fyrir var farið yfir vinnuskjalið á fundinum, en þar var vakin athygli á því að íslensk stjórnvöld gætu þurft að grípa til margvíslegra aðgerða vegna lausafjár- eða eiginfjárvanda fjármálafyrirtækja. Þannig kynni Fjármálaeftirlitið að þurfa að grípa til vettvangsathugana og sérstakrar endurskoðunar, beita sér fyrir markaðslausnum, skipa sérfræðinga til að kanna þætti í rekstri fjármálafyrirtækja og huga að breytingum á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit, þar á meðal til að geta boðað til hluthafafunda, tekið yfir vald þeirra, takmarkað vald félagsstjórnar eða vikið henni frá og takmarkað starfsheimildir fjármálafyrirtækja. Stjórnvöld yrðu að vera því viðbúin að hvetja til markaðslausna, loka bönkum, sem ekki væru kerfislega mikilvægir, veita eiginfjárframlög, breyta lögum til að geta fært bankaviðskipti til þriðja aðila, mynda bráðabirgðabanka til að taka yfir starfsemi meðan á endurskipulagningu stæði og þjóðnýta banka. Á fundi 2. apríl 2008 kvað ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu og formaður samráðshópsins tíma kominn til að „taka saman aðgerðaráætlun og draga mörkin“, en hann hafi skilið „málið ráðherramegin“ þannig að „taka ætti á“ stóru bönkunum þremur og innlánstryggingum. Á sama fundi var rætt um að bankarnir yrðu sjálfir að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða og nefndi forstjóri Fjármálaeftirlitsins að kalla mætti fulltrúa þeirra í forsætisráðuneytið þegar stefnan lægi fyrir til að gera þeim þetta ljóst og hvaða takmarkanir yrðu á opinberri aðstoð. Á fundi 4. apríl 2008 kom fram að vinnuhópur, sem settur hafði verið á fót og ætlað var að bregða upp sviðsmynd um áfall, væri tekinn til starfa. Jafnframt minnti Tryggvi Pálsson á aðgerðaáætlun Andrew Gracie, sem gerði ráð fyrir því að „bönkunum yrði stillt upp við vegg þegar hið opinbera er búið að marka stefnuna“. Í fundargerð frá fundi 10. sama mánaðar var greint frá því að farið hafi verið yfir vinnuskjal um sviðsmyndir fjármálaáfalls og komið hafi fram að það yrði að þrýsta á bankana að bregðast við. Á fundinum voru kynnt drög að tveimur kostum um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna innlánstrygginga, annars vegar um lánveitingu ríkissjóðs til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til að gera sjóðnum fært að greiða kröfuhöfum nánar tilgreinda fjárhæð og hins vegar um ábyrgð ríkisins á öllum innstæðum eða hluta innstæðna á meðan óróleiki væri á fjármálamörkuðum. Á fundi 21. apríl 2008 voru sviðsmyndir fjármálaáfalls enn til umræðu og sagði ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu að næstu skref í viðbúnaðarstarfinu yrðu meðal annars að móta sameiginlega stefnu stjórnvalda og setja þrýsting á bankana, sem „ráðherrar og stjórnendur FME og SÍ“ myndu gera, undirbúa lagafrumvörp og útfæra aðgerðaáætlun.

Slík aðgerðaáætlun var á dagskrá fundar samráðshópsins 28. apríl 2008. Undir þeim dagskrárlið lagði forstjóri Fjármálaeftirlitsins fram lista, þar sem dregnar voru saman helstu stefnumarkandi ákvarðanir, sem stjórnvöld þyrftu að taka í aðdraganda fjármálaáfalls. Á þessum lista, sem nefndur var „ólystugi matseðillinn“, voru meðal annars greind álitaefni, sem lutu að því hvort og þá að hve miklu leyti ríkið hygðist styðja við bakið á fjármálafyrirtækjum og innstæðueigendum við þessar aðstæður, svo sem nánar var rakið hér áður. Þessi listi og atriðin, sem þar voru nefnd, voru síðan tekin til umfjöllunar á fundum hópsins, fyrst 29. maí 2008, en síðan í júlí og fram í byrjun október, eins og vikið verður frekar að hér á eftir.

Á fundi samráðshópsins 7. júlí 2008 lagði Tryggvi Pálsson fram drög að vinnuskjali með yfirskriftinni „Aðkallandi ákvarðanataka stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli“, sem lýst var ítarlega hér áður. Þar sagði meðal annars að hætta á fjármálaáfalli hér á landi færi stöðugt vaxandi og væri orðið aðkallandi að stjórnvöld tækju ákvarðanir „um hvort og þá með hvaða hætti þau ætla að takast á hendur frumkvæði og aukna ábyrgð“. Einnig var þar lagt til að á vegum stjórnvalda eða samráðshópsins yrði án tafar kallaður til aðgerðahópur og honum valinn stjórnandi. Samkvæmt fundargerð fórust Tryggva svo orð á fundinum að stjórnendur bankanna gerðu sér grein fyrir stöðunni, en þeim hafi ekki verið stillt upp við vegg af stjórnvöldum, sem hafi „ekki gert upp við sig hversu langt þau vilja ganga.“ Síðar á fundinum lét ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu þau orð falla að hann teldi eðlilegt að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið „fylgdu málum eftir við bankana í þessari viku en ráðherrar kæmu að málinu í næstu viku.“ Ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu velti því upp „hvort bíða mætti með seinna skrefið ef hið fyrra skilaði nægum árangri“ og bætti ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu þá við að nauðsynlegt væri „að stjórnvöld segi hvað þau hyggjast ekki gera, m.a. það að hjálpa ekki eigendum.“

Tryggvi Pálsson gerði minnisblað um stefnu stjórnvalda og viðlagaundirbúning 15. ágúst 2008, sem lagt var fram á fundi samráðshópsins 20. þess mánaðar. Í minnisblaðinu var grunnforsendan sögð vera sú að stefna stjórnvalda væri í samræmi við yfirlýsingar ráðherra og umræðu í samráðshópnum. Þetta fælist í fyrsta lagi í því að kerfislega mikilvægir bankar fengju stuðning eða yrðu yfirteknir ef greiðsluhæfi þeirra brysti, í öðru lagi að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta yrði gert kleift að standa við tryggingarvernd á innstæðum, annaðhvort að tilteknu marki eða fullu, og í þriðja lagi að greiðsluhæfi ríkisins yrði ekki stefnt í hættu. Ef þetta væri stefna stjórnvalda yrði í viðlagaundirbúningi að leggja raunhæft mat á hámarksþol ríkissjóðs við lausn og afleiðingar fjármálaáfalls og draga eins og kostur væri úr mögulegum skuldbindingum vegna innstæðuverndar og annars opinbers stuðnings. Á fundinum óskaði ráðuneytisstjórinn í viðskiptaráðuneytinu eftir athugasemdum við drög að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um innstæðuvernd, sem lögð höfðu verið fram á fundi hópsins 10. apríl 2008 eins og að framan greinir. Samkvæmt fundargerðinni frá fundinum 20. ágúst voru einu viðbrögð fundarmanna þau að Tryggvi kvaðst telja miklu máli skipta að orðalag slíkrar yfirlýsingar yrði auðskiljanlegt fyrir almenning. Á fundi 4. september 2008 spurði ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu um aðgerðir bankanna og svaraði Tryggvi því til að of lítið væri að gerast meðan klukkan tifaði. Í tilefni af ósk ráðuneytisstjórans í viðskiptaráðuneytinu á fundinum 20. ágúst um að fá athugasemdir við orðalag á drögum að yfirlýsingu um innstæðuvernd lagði Tryggvi fram tillögu að fyrirsögn og inngangsorðum hennar með þremur valkostum.

Þegar fjallað var um samskipti Landsbanka Íslands hf. og breska fjármálaeftirlitsins vegna Icesave reikninganna í Bretlandi á fundi samráðshópsins 9. september 2008 velti Tryggvi Pálsson því upp að það gæti sett íslensk stjórnvöld í erfiða stöðu gagnvart innlendum innstæðueigendum ef bresk stjórnvöld myndu greiða út að fullu innstæður í útibúum íslenskra banka þar í landi og gera síðan endurkröfu á ríkið. Á fundi 16. sama mánaðar var ólystugi matseðillinn enn sem oftar á dagskrá. Undir þeim dagskrárlið sagðist ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu hafa að beiðni ákærða farið yfir stöðuna með honum og utanríkisráðherra, þar sem meðal annars hafi verið rætt um viðbragðsáætlanir. Þar hafi fyrsta spurningin snúist um hugsanlegar yfirlýsingar um vernd innstæðueigenda og lægju fyrir þrjár útgáfur, sem gengju mislangt. Í því efni vildu ráðherrarnir tveir helst horfa til tveggja kosta, sem fælu í sér meira en lágmarksvernd. Þá hafi verið farið yfir hvernig brugðist yrði við ef stór banki kæmist í greiðsluþrot og ráðherrarnir verið þeirrar skoðunar að stjórnvöld kæmu helst að stuðningi við stærstu bankana þrjá, en líklegt væri að þeir kæmust allir í vanda ef það henti einn þeirra. Þá taldi ráðuneytisstjórinn að draga þyrfti upp útfærslur sem svör við ólystuga matseðlinum og yrði að gera það hratt því að hættan hafi aukist í kjölfar undangenginna atburða, en bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers hafði verið tekinn til gjaldþrotaskipta daginn áður.

4[breyta]

Hér að framan hefur verið gerð í stuttu máli grein fyrir störfum samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað frá því í nóvember 2007 fram í miðjan september 2008 og þá sérstaklega hugmyndum og umræðum innan hópsins um þörf á pólitískri stefnumótun vegna hættu á fjármálaáfalli, sem seðlabankastjóri sem þar átti sæti taldi eins og fyrr segir ekki lengur fjarlægan möguleika þegar um miðjan janúar 2008. Fundargerðir frá síðustu fundum samráðshópsins 2. og 3. október 2008, sem áður voru raktar, bera með sér að hópurinn var enn að kalla eftir afstöðu stjórnvalda, þótt þá hafi verið komið að ögurstundu eins og einn fundarmanna komst að orði.

Af fundargerðum samráðshópsins er ljóst að þar voru skiptar skoðanir um hvort og þá hvernig ætti að bregðast við þeirri hættu, sem steðjaði að, og var það staðfest fyrir dómi af þeim, sem í hópnum sátu. Í skýrslu ákærða fyrir dómi kom fram að ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu, sem var formaður samráðshópsins, hafi gert honum sem forsætisráðherra grein fyrir starfi hópsins í upphafi og síðan þegar tilefni var til, enda hafi samstarf þeirra verið mjög náið. Ákærði kvaðst á hinn bóginn ekki hafa lesið fundargerðir hópsins eða borið sig sérstaklega eftir þeim skjölum, sem þar voru lögð fram. Ráðuneytisstjórinn lýsti því fyrir dómi að verklagið hafi verið þannig að ákærði og hann hafi rætt mikið saman og hafi hann skýrt ákærða frá því, sem fór fram í starfshópnum. Hafi ákærða verið fullkunnugt um þá umræðu og vinnu, sem þar hafi átt sér stað. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að ákærði hafi á hverjum tíma haft vitneskju um starfið í samráðshópnum, þar á meðal um þær hugmyndir og umræður um nauðsyn pólitískrar stefnumótunar, sem þar komu fram og raktar hafa verið. Vegna stöðu ákærða sem forsætisráðherra og sökum þess að undir hann heyrðu meðal annars hagstjórn almennt og málefni Seðlabanka Íslands gaf þessi vitneskja honum tilefni til að eiga frumkvæði að því að hættan, sem steðjaði að, yrði rannsökuð frekar með það fyrir augum að tekin yrði pólitísk ákvörðun um hvort og þá hvernig brugðist skyldi við henni með hagsmuni ríkisins að leiðarljósi.

5[breyta]

Eins og áður segir er ákærða gefið að sök í ákærulið 1.3 „að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað ... væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.“ Þau Áslaug Árnadóttir, Baldur Guðlaugsson, Bolli Þór Bollason, Ingimundur Friðriksson, Jónas Fr. Jónsson, Jónína S. Lárusdóttir og Tryggvi Pálsson, sem sátu fundi í samráðshópnum á árinu 2008, báru öll vitni fyrir dómi. Aðspurð svöruðu þau því á mismunandi hátt hvort störf og áherslur hópsins hefðu getað verið markvissari og skilað betri árangri en raun varð á. Á hinn bóginn hélt ekkert þeirra því fram að vanrækslu ákærða hafi verið um að kenna að störf og áherslur samráðshópsins hafi ekki verið með þeim hætti. Að auki bentu þau flest á að þegar á hólminn var komið hafi gengið vel að takast á við fall bankanna og afleiðingar þess, þótt störf samráðshópsins hefðu að áliti sumra þeirra getað verið skilvirkari og betur hefði mátt standa að undirbúningi fyrir áfallið.

Samkvæmt samkomulaginu, sem samráðshópurinn starfaði eftir, var hann vettvangur upplýsinga- og skoðanaskipta, en hafði ekki vald til að taka ákvarðanir eða grípa til aðgerða upp á eigin spýtur. Valdið til pólitískra ákvarðana hélst óskorað hjá ráðherrum og eftir atvikum ríkisstjórninni í heild samhliða því sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands höfðu lögbundið eftirlit með fjármálafyrirtækjum og lögmæltar heimildir til að grípa til aðgerða gagnvart þeim ef þörf væri á. Ekki verður annað ráðið af því, sem fram hefur komið í málinu, en að samráðshópurinn hafi í meginatriðum starfað í samræmi við fyrrgreint hlutverk sitt. Eins og áður var lýst skorti á hinn bóginn á það að á grundvelli þeirra hugmynda og upplýsinga, sem þar komu fram, væri mótuð pólitísk stefna til að takast á við hættuna, sem steðjaði að íslenskum fjármálafyrirtækjum og ríkinu frá því í febrúar og fram í október 2008.

Eftir b. lið 10. gr. laga nr. 4/1963 verður ráðherra sekur eftir lögunum ef hann stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu með því meðal annars að láta farast fyrir að framkvæma nokkuð það, sem afstýrt gat slíkri hættu. Samkvæmt því, sem að framan greinir, verður ekki litið svo á að þær athafnir, sem ákærða er gefið að sök að hafa vanrækt í lið 1.3 í ákæru, hefðu einar og sér getað bægt frá þeirri hættu, sem vofði yfir, eða megnað að draga verulega úr henni. Þegar af þeirri ástæðu verður að sýkna ákærða af sökum um að hafa brotið gegn b. lið 10. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 4/1963 með þeirri vanrækslu, sem á hann er borin í þessum lið ákærunnar.

Í 141. gr. almennra hegningarlaga er lögð refsing við því ef opinber starfsmaður gerist sekur um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi. Þegar litið er til þess, sem áður segir um hlutverk og störf samráðshópsins, hefur ekki verið sýnt fram á að ákærði hafi bakað sér refsiábyrgð samkvæmt þessu lagaákvæði miðað við verknaðarlýsinguna í lið 1.3 í ákæru. Samkvæmt því verður hann einnig sýknaður af þeim sakargiftum.