Dómur Landsdóms í máli nr. 3/2011/XI

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Dómur Landsdóms í máli nr. 3/2011  (2012) 
Landsdómur
XI

1[breyta]

Í lið 1.5 í ákæru, að teknu tilliti til þess sem fram kemur í inngangi hennar og lið 1.1, er ákærða gefið að sök að hafa af ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra á tímabilinu frá febrúar til október 2008 andspænis stórfelldri hættu, sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði og honum var eða mátti vera kunnugt um, með því „að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til þess að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.“ Þessi háttsemi ákærða er sem fyrr segir talin aðallega varða við b. lið 10. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga.

Að virtu því, sem áður greinir um skýringu á b. lið 10. gr. laga nr. 4/1963, og þeim sakargiftum, sem ákærði er borinn í þessum lið ákæru, verður þeim hlutlægu skilyrðum að vera fullnægt fyrir sakfellingu í þessu tilviki að í fyrsta lagi hafi á umræddum tíma verið fyrir hendi stórfelld hætta, sem steðjaði að íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði. Í öðru lagi að á ákærða hafi hvílt skylda til þeirra athafna að fylgja því eftir og fullvissa sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave reikninganna í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leita leiða til þess að stuðla að framgangi þess með virkri aðkomu ríkisins. Í þriðja lagi að þær athafnir, sem ákærða hafi verið skylt að grípa til, hefðu getað afstýrt þessari hættu eða dregið verulega úr henni.

Í kafla VIII í dóminum var komist að þeirri niðurstöðu að fullnægt sé því hlutlæga skilyrði fyrir sakfellingu, sem fyrst var getið og lýtur að því að þegar 7. febrúar 2008 hafi stórfelld hætta steðjað að íslenskum fjármálastofnunum og ríkinu, auk þess sem ákærða hafi hlotið að vera sú hætta ljós. Umfjöllunin í þessum kafla verður því bundin við önnur þau skilyrði, sem getið var að framan.

2[breyta]

Landsbanki Íslands hf. keypti sem fyrr segir enska bankann Heritable Bank Ltd. á árinu 2002 og mun hafa stofnað útibú í London snemma árs 2005. Í október 2006 hóf þetta útibú bankans að markaðssetja rafræna innlánsreikninga undir heitinu Icesave Easy Access. Bankinn hafði þá um nokkurt skeið tekið við svonefndum heildsöluinnlánum og námu þau talsverðum fjárhæðum þegar markaðssetning Icesave reikninganna hófst. Stjórnendur Landsbanka Íslands hf. ákváðu að hafa Icesave reikningana í útibúi bankans í London frekar en að stofna sérstakt dótturfélag í því skyni eða hafa þá í Heritable Bank Ltd. Þessi skipan fól í sér að mun auðveldara var að flytja fé, sem lagt var inn á reikningana innan samstæðu Landsbanka Íslands hf., þar á meðal til móðurfélagsins á Íslandi. Um leið varð þetta til þess að innstæður á reikningunum féllu undir tryggingar, sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta veitti.

Þegar íslensku viðskiptabankarnir þrír lentu í vandræðum í lok árs 2005 og byrjun árs 2006 voru þeir meðal annars gagnrýndir fyrir að vera fjármagnaðir til skamms tíma og allt of háðir svonefndri markaðsfjármögnun, en í því fólst að þeir öfluðu sér lána til starfseminnar fyrst og fremst á alþjóðlegum lánamarkaði. Landsbanki Íslands hf. brást við þessari gagnrýni með ákvörðun um að auka hlut innlána við fjármögnun bankans. Heildsöluinnlán þau, sem áður greinir, og enn frekar innlán á Icesave reikningana voru því almennt talin jákvæð og til þess fallin að styrkja stöðu bankans. Innlánssöfnunin gekk auk þess vel. Í júní 2007 voru innstæður á Icesave reikningum um 3.600.000.000 sterlingspund og í ársbyrjun 2008 um 4.800.000.000 sterlingspund.

Í vitnaskýrslu Jónasar Fr. Jónssonar fyrir dómi kom fram að það hafi fyrst verið í lok árs 2007 eða ársbyrjun 2008, sem litið hafi verið svo á að hætta stafaði af innlánssöfnun Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikningana. Þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, skipaði Jón Sigurðsson sem formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins í janúar 2008 og sagði sá fyrrnefndi í skýrslu sinni fyrir dómi að það hafi verið sérstakt markmið nýja stjórnarformannsins að koma starfsemi erlendra útibúa bankanna í dótturfélög. Jón Sigurðsson kvaðst fyrir dómi hafa talið slíka starfsemi eiga heima í dótturfélögum og litið svo á að frá því í mars 2008 hefði Landsbanki Íslands hf. unnið að því að flytja innlánin til dótturfélags síns í London.

Á áðurnefndum fundi ákærða og tveggja annarra ráðherra með bankastjórn Seðlabanka Íslands 7. febrúar 2008 upplýsti formaður bankastjórnarinnar að í samtölum hans við fulltrúa matsfyrirtækisins Moody´s Investors Service hafi komið fram að fyrirtækið hefði áhyggjur af Icesave reikningunum vegna þess að þeir gætu verið kvikir. Ef óþægilegar fréttir bærust af Íslandi gæti það haft verulega slæm áhrif á reikningana því fólk gæti rokið til og tekið út innstæður í þeim mæli að til vandræða yrði fyrir Landsbanka Íslands hf.

Skömmu fyrir fund, sem ákærði og fleiri ráðherrar áttu með fulltrúum fjármálafyrirtækja 14. febrúar 2008, fékk hann tölvubréf frá ráðuneytisstjóranum í fjármálaráðuneytinu, sem hafði leitað til Tryggva Pálssonar um hvað bankarnir gætu gert vegna þess ástands, sem upp var komið. Meðal þess, sem fram kom í tölvubréfinu, var að bankarnir ættu að bóka erlend innlán í dótturfélög í stað þess að hafa þau í útibúum eins og þau gerðu í mörgum tilvikum með tilheyrandi áhættu fyrir Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.

Á fundi, sem Davíð Oddsson og Ingimundur Friðriksson, bankastjórar Seðlabanka Íslands, áttu 3. mars 2008 með aðalbankastjóra Englandsbanka kom meðal annars fram að stjórnendur síðarnefnda bankans hefðu ugg af mögulegum afleiðingum þess að mikið yrði tekið út af reikningum í bönkum, þar á meðal í útibúi Landsbanka Íslands hf. í London. Slíkt gæti haft smitáhrif, en að auki hefðu þeir áhyggjur af fyrirkomulagi innstæðutrygginga á Íslandi og teldu óljóst hvernig háttað væri tryggingum á innstæðum í útibúi Landsbanka Íslands hf. í London. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa frétt af þessum fundi.

Bankastjórn Seðlabanka Íslands og tveir starfsmenn hans áttu fund með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 30. mars 2008, en efni þess fundar snerist fyrst og fremst um vandamál, sem steðjuðu að bankanum vegna Icesave reikninganna. Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. greindu frá því að mikið útstreymi hafi verið af reikningunum, auk þess sem heildsöluinnlán hafi lækkað verulega. Þeir gátu þess einnig að viðræður hafi farið fram milli bankans og breska fjármálaeftirlitsins, FSA, sem vildi að innlánin í útibúinu í London yrðu flutt í dótturfélag, en eignir yrðu þá að fylgja þessum skuldbindingum til dótturfélagsins. Annar bankastjóranna kvað bankann ekki geta uppfyllt skilyrði FSA, þar sem heildsöluinnlánin væru að hverfa, og gæti bankinn ekki ráðið við þetta einn. Samkvæmt minnisblaði, sem starfsmaður seðlabankans gerði um fundinn, tók bankastjórinn einnig fram að líkurnar á því að íslensku bankarnir kæmust í gegnum vandræði sín væru „mjög, mjög litlar.“ Tveimur dögum síðar áttu ákærði og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fund með bankastjórn Seðlabanka Íslands. Í minnisblaði Ingibjargar um fundinn kom fram að formaður bankastjórnarinnar hafi gert þeim grein fyrir vandamálum Landsbanka Íslands hf. vegna Icesave reikninganna. Miklar fjárhæðir hefðu runnið út af reikningunum dagana fyrir fundinn og gæti Landsbanki Íslands hf. aðeins þolað slíkar úttektir í sex daga til viðbótar. Jafnframt gerði hann ráðherrunum grein fyrir því að FSA vildi að Landsbanki Íslands hf. færði þessa reikninga yfir í breskt dótturfélag, en til þess yrði bankinn að leggja fram tryggingu að fjárhæð 1.500.000.000 sterlingspund og hefði ekki til ráðstöfunar nema þriðjung þeirrar fjárhæðar. Hafi verið spurt hvort ríkið gæti tryggt bankanum það, sem upp á vantaði, með skömmum fyrirvara.

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf. áttu fund með Davíð Oddssyni, Ingimundi Friðrikssyni og Tryggva Pálssyni 4. apríl 2008. Samkvæmt minnispunktum frá fundinum var þar einkum rætt um Icesave reikningana og vandamál Landsbanka Íslands hf. Þar kom meðal annars fram að annar bankastjóra Landsbanka Íslands hf. hafi upplýst að FSA hafi verið send tillaga um flutning Icesave reikninganna til dótturfélagsins Heritable Bank Ltd., svo og að stjórnendur Landsbanka Íslands hf. væru hræddir við FSA og þyrftu að fá þar skilning „á hærra plani“.

3[breyta]

Í kafla III í dóminum voru meðal annars rakin bréfaskipti stjórnenda Landsbanka Íslands hf. og breska fjármálaeftirlitsins, FSA, um flutning á Icesave reikningunum frá útibúi bankans í London til dótturfélags. Eins og þar kom fram lýstu stjórnendur Landsbanka Íslands hf. því yfir í bréfi 4. apríl 2008 að rétt væri að stefna á flutning Icesave reikninganna ásamt eignum útibúsins í London til Heritable Bank Ltd. Í bréfinu var fjallað um leiðir við slíkan flutning og tekið fram að þess væri vænst að hann gæti gengið greiðlega, enda brýnt að af honum yrði. FSA virðist hafa lýst sig sammála því að starfsemi útibúsins yrði flutt til dótturfélags, en talið að kanna þyrfti vel lögfræðilegan grundvöll þeirrar leiðar, sem valin yrði. Í bréfi Landsbanka Íslands hf. til FSA 24. apríl 2008 kom á hinn bóginn fram að flutningur Icesave reikninganna til dótturfélags hafi verið settur á miðlungs- eða langtímaáætlun hjá bankanum. Í svarbréfi gerði FSA ekki athugasemdir við þetta. Bréf, sem lögð hafa verið fram í málinu og fóru milli Landsbanka Íslands hf. og FSA næstu vikurnar, vörðuðu ekki flutning reikninganna sérstaklega, heldur lausafjárstýringu útibús bankans í London. Á fundi bankastjóra Landsbanka Íslands hf. með fulltrúum FSA 2. júlí 2008 var fyrst af þess hálfu gerð krafa um flutning Icesave reikninganna úr útibúi til dótturfélags. Í framhaldi af þessu kom fram í bréfum að bankinn og FSA væru sammála um að flytja ætti reikningana til dótturfélags, en ágreiningur væri um á hve löngum tíma það gæti gerst og hvort og hvernig eignir yrðu fluttar til dótturfélagsins á móti skuldbindingum, sem fólust í innlánsreikningunum. FSA setti einnig fram ýmsar aðrar kröfur tengdar reikningunum, svo sem um samanlagða hámarksinnstæðu á þeim, markaðssetningu og vexti. Herti FSA kröfur sínar þegar á leið og setti þær þannig fram í bréfi 15. ágúst 2008. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa fengið afrit af því.

Málefni Landsbanka Íslands hf. og Icesave reikninganna voru á þessu tímabili oft til umræðu á fundum samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað, bæði sérstaklega og í tengslum við málefni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Sem áður segir kvaðst ákærði í skýrslu sinni fyrir dómi hafa fengið upplýsingar frá ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu um aðalatriði þess, sem fram fór á fundum samráðshópsins. Verður því að leggja til grundvallar að ákærða hafi verið kunnugt um aðalatriði þessara umræðna. Auk þess gerðu bankastjórar Landsbanka Íslands hf. bankastjórn Seðlabanka Íslands grein fyrir framvindunni á fundum 14. og 31. júlí og líklega 5. ágúst 2008. Á fyrstnefnda fundinum kom fram að ekki hafi verið unnið síðustu mánuði að flutningi Icesave reikninganna úr útibúi bankans í London til dótturfélags. Að sögn vitnanna Davíðs Oddssonar og Ingimundar Friðrikssonar kom það bankastjórn seðlabankans í opna skjöldu miðað við fyrri upplýsingar að ekki stæðu yfir aðgerðir til að flytja reikningana. Á síðasta fundinum leituðu bankastjórar Landsbanka Íslands hf. enn eftir stuðningi seðlabankans til að framkvæma flutninginn.

Eftir bréf FSA til Landsbanka Íslands hf. 15. ágúst 2008 leituðu stjórnendur bankans eftir fundi með ráðuneytisstjórunum í fjármálaráðuneytinu og viðskiptaráðuneytinu og óskuðu aðstoðar stjórnvalda til að hafa áhrif á bresk stjórnvöld. Leiddi þetta til fundar viðskiptaráðherra, formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins og fleiri embættismanna með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008, sem áður var gerð grein fyrir.

Af samskiptum Landsbanka Íslands hf. við FSA og íslensk stjórnvöld verður að álykta að strax hafi verið ljóst 30. mars 2008, þegar stjórnendur bankans áttu fund með bankastjórn Seðlabanka Íslands, að bresk stjórnvöld myndu ekki fallast á að Icesave reikningarnir yrðu fluttir frá útibúi bankans í London til dótturfélags nema um leið yrðu fluttar þangað jafnmiklar eignir og nam skuldbindingum við innlánseigendur. Það er einnig ljóst að Landsbanka Íslands hf. var þetta ókleift, bæði í mars 2008 og síðar á árinu þegar FSA krafðist þess að flutningurinn færi fram, meðal annars sökum þess að bankinn hefði með því stofnað í hættu lánssamningum, sem gerðir höfðu verið um fjármögnun hans.

4[breyta]

Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst ákærði ekki hafa sjálfur fylgst með því að unnið væri að flutningi Icesave reikninganna úr útibúi Landsbanka Íslands hf. í London til dótturfélags bankans þar. Hann kvaðst hafa treyst því að bankinn ynni að þessu sjálfur, auk þess sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands myndu fylgja málinu eftir. Hann kvaðst hafa vitað til þess að Fjármálaeftirlitið hafi verið að vinna í málinu meira og minna allt árið 2008. Hann tók einnig fram að Landsbanki Íslands hf. og Fjármálaeftirlitið hefðu ekki getað unnið að þessum flutningi einhliða, enda hafi breska fjármálaeftirlitið haft mest um þetta að segja.

Innlánasöfnun í útibúum Landsbanka Íslands hf. í London og annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu var á áhættu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi að svo miklu leyti, sem sjóðnum var skylt og hann gat ábyrgst innstæðurnar. Á tímabilinu, sem ákæra í málinu snýr að fram til 7. október 2008, voru kröfur um innstæður á innlánsreikningum almennar kröfur við slit fjármálafyrirtækis eða gjaldþrotaskipti á búi þess, jafn settar öðrum almennum kröfum. Hefði Landsbanki Íslands hf. verið tekinn til slitameðferðar eða gjaldþrotaskipta fyrir þann dag hefði enginn kostur verið á því að innstæðueigendur fengju kröfur sínar greiddar þar að fullu. Kröfur vegna innstæðna á Icesave reikningunum skertu einnig möguleika eigenda innstæðna í bönkum hér á landi til að njóta greiðslna úr Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Það má því fallast á að ákærða hafi sem forsætisráðherra borið að láta málið til sín taka. Samkvæmt því, sem fram er komið, sá ákærði aldrei til þess að mörkuð yrði sérstök stefna stjórnvalda í málinu. Til þess hefði þó verið full ástæða í ljósi þess að hagsmunir Landsbanka Íslands hf. af flutningi Icesave reikninganna til dótturfélags voru einkahagsmunir, sem sneru einkum að því að stöðva neikvæða umfjöllun um þessa reikninga í fjölmiðlum og meðal fjárfesta, á meðan hagsmunir almennings hér á landi af þessu lutu fyrst og fremst að því að skuldbindingar tryggingarsjóðsins yrðu takmarkaðar og fjármálastöðugleiki varðveittur. Að þessu virtu mátti ákærði ekki treysta því að Landsbanki Íslands hf. flytti reikningana til erlends dótturfélags nema það samrýmdist hagsmunum bankans, óháð því hvað þjónaði hagsmunum almennings best, en sú afstaða bankans kom meðal annars berlega fram í ákvörðun hans um að setja flutninginn á áætlun til meðallangs eða langs tíma þegar dró úr örum úttektum af reikningunum í apríl 2008. Að því verður þó einnig að gæta að málefni viðskiptabanka og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta voru á málefnasviði viðskiptaráðherra. Hann hafði skipað nýjan formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins, sem hann taldi hafa að markmiði að leitast við að þrýsta á að innlánastarfsemi í erlendum útibúum bankanna yrði færð í dótturfélög. Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar fyrir dómi kom fram að hann hafi talið að Fjármálaeftirlitið ynni að þessu máli og litið sjálfur svo á að ekkert hafi kallað á afskipti hans af því fyrr en líða tók á árið 2008 og ljóst varð í hvað stefndi. Ákærði getur ekki borið refsiábyrgð á þessu athafnaleysi viðskiptaráðherra.

Sakargiftir á hendur ákærða í þessum lið ákæru snúa sem áður segir að því að hann hafi ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave reikninganna til dótturfélags Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og leitað síðan leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisins. Án tillits til þess að ekki hefur verið skýrt af hálfu ákæruvaldsins svo að viðhlítandi sé hvað felist að öllu leyti í orðalagi þessa liðar í ákæru, verður ekki horft fram hjá því að flutningur Icesave reikninganna úr útibúi bankans í London til dótturfélags hefði ekki getað náð fram að ganga nema með samþykki breska fjármálaeftirlitsins og að fullnægðum þeim skilyrðum, sem þeirri stofnun var heimilt að setja. Eins og áður greinir verður að leggja til grundvallar að ljóst hafi verið þegar í lok mars 2008 að Landsbanki Íslands hf. hafði ekki tiltækar eignir, sem bresk stjórnvöld hefðu fellt sig við, til að afhenda dótturfélagi á móti þeim skuldbindingum, sem í innstæðunum fólust. Af hálfu ákæruvaldsins hafa ekki verið færð rök fyrir því að aðgerðir, sem ríkið hefði getað framkvæmt til að stuðla að flutningi Icesave reikninganna til erlends dótturfélags Landsbanka Íslands hf., hefðu getað verið fólgnar í öðru en að verða við óskum bankans um lánveitingar eða ábyrgðir til að brúa bil á milli eigna og þessara skuldbindinga dótturfélagsins. Sú krafa verður ekki gerð til ákærða að hann hefði átt að hafa frumkvæði að því að ríkið eða Seðlabanki Íslands veitti lán eða ábyrgðir til þess að flutningur reikninganna gæti náð fram að ganga. Það er með öllu ósannað í málinu að aðrar ráðstafanir, sem ákærði hefði getað haft frumkvæði að, hefðu getað afstýrt hættu, svo sem áskilið er í b. lið 10. gr. laga nr. 4/1963. Á sama hátt og áður var lýst varðandi lið 1.4 í ákæru hefur ekki verið nægilega reifað af hálfu ákæruvaldsins hvernig sakir, sem ákærði er borinn í lið 1.5, geti varðað við 141. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði þegar af þessum ástæðum sýknaður af sakargiftum samkvæmt þessum ákærulið.