Dómur Landsdóms í máli nr. 3/2011/XIII

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
XIII

Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir að hafa af stórfelldu gáleysi látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni eins og fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir að honum hlaut að vera ljós sá háski, sem vofði yfir bankakerfinu og þar með heill ríkisins, eins og nánar greinir hér að framan, með þeim afleiðingum að ekki var um þau málefni fjallað á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Við ákvörðun viðurlaga verður að líta til þess að þetta brot telst hafa verið framið af stórfelldu gáleysi. Þótt ákærði hafi með þessu ekki eingöngu brotið gegn formreglu, svo sem rakið var hér áður, verður ekki horft fram hjá því að ekki hefði komið til sakfellingar í málinu hefði ákærði gætt að því einu að taka þessi málefni upp innan ríkisstjórnarinnar, eins og honum bar samkvæmt 17. gr. stjórnarskrárinnar. Í málinu er ákærði sýknaður af alvarlegustu brotunum, sem hann var borinn sökum um. Hann er 61 árs að aldri og hefur ekki áður hlotið refsidóm. Að öllu virtu verður honum ekki gerð refsing í málinu.

Samkvæmt 1. málslið 46. gr. laga nr. 3/1963 skal allur sakarkostnaður af máli, sem rekið er fyrir Landsdómi, greiðast úr ríkissjóði nema að því leyti, sem ákærða kann að verða gert að standa straum af honum. Almennar reglur 218. gr. laga nr. 88/2008 gilda því ekki að öllu leyti um greiðslu sakarkostnaðar í máli sem þessu. Að þessu gættu og með því að ákærði er sakfelldur fyrir lítinn hluta þeirra sakargifta, sem bornar hafa verið á hann í málinu, er rétt að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Samkvæmt framlagðri tímaskýrslu verjanda hefur hann ásamt aðstoðarmönnum sínum varið samtals 1.947 klukkustundum til málsvarnar ákærða. Með hliðsjón af 1. gr. reglugerðar nr. 715/2009 um tímagjald við ákvörðun þóknunar til verjenda og réttargæslumanna, sbr. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 eins og henni var breytt með 20. gr. laga nr. 70/2009, eru málsvarnarlaun verjanda ákærða ákveðin svo sem nánar greinir í dómsorði og er þar með talinn virðisaukaskattur. Einnig verður felldur undir sakarkostnað útlagður kostnaður verjandans samkvæmt framlögðum reikningum fyrir samtals 784.580 krónum.

Dómsorð:

Ákærða, Geir Hilmari Haarde, er ekki gerð refsing í máli þessu.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 24.434.850 krónur, auk útlagðs kostnaðar hans að fjárhæð 784.580 krónur.