Dreifibréfið

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.)
Dreifibréfið  (1941) 
Þetta bréf er áskorun frá verkalýðsfélaginu Dagsbrún til breskra hermanna hernámsliðsins um að ganga ekki í störf Íslendinga í verkfalli. Bréfið varð til þess að þrír Dagsbrúnarmenn voru handteknir af hernaðaryfirvöldum og afhentir íslenskum dómstólum sem dæmdu þá í fangelsi. Þessi texti er þýðing sem birtist í Vísi daginn eftir handtökurnar, eða 6. janúar. Textinn hér er skrifaður upp úr Þjóðviljanum 7. janúar, 1941.
Upplýsingar um verkfallið


Brezkir hermenn.

Þrjú af aðal verkalýðsfélögum Íslands hafa gert verkfall. Félög þessi eru Iðja, félag verksmiðjufólks, múrarafélagið og Dagsbrún, stærsta verkalýðsfélag okkar, á borð við enska sambandið Transport & General Workers sem Mr. Bevin er fyrir.

Wikipedia merkið
Wikipedia merkið
Á Wikipediu er umfjöllun um Dreifibréfsmálið.

Við höfnina, í verksmiðjunum og á brezku vinnustöðvunum er verkfallið algert (100%). Við erum neyddir til að gera verkfall, því það er eina leiðin til þess, að við fáum að sporna við því, að hinir íslenzku vinnuveitendur lækki lífsskilyrði okkar í þeim tilgangi að auka gróða sinn. Þessir vinnuveitendur standa gegn réttlátum kröfum okkar af því þeir vona að brezka herstjórnin beiti hermönnum til þess að brjóta verkfallið á bak aftur. Af þessum sökum verða brezku hermennirnir að kynnast staðreyndunum um verkfall það, sem nú stendur yfir.

Um hvað er verkfallið? Eftir brezka hernámið hefur kaupgjald á Íslandi verið lögfest með bráðabirgðalögum eins og það var í apríl 1938, að viðbættum ¾ hlutum þeirrar verðhækkunar, sem verða kann. Vinnudagurinn var ákveðinn 10 stundir. Lögin gengu úr gildi 31. desember 1940. Verkalýðsfélögin og Vinnuveitendafélagið hafa ekki orðið ásátt um nýtt kaupgjald og vinnutíma. Síðan styrjöldin hófst hefur verið áætlað að verðlag hér hafi hækkað um 60%. Verð á kjöti hefur hækkað um 67%, mjólk 50%, fiski 150%. Við förum fram á að vinnudagurinn á Íslandi verði 9 stundir í stað 10, þar sem það er ranglátt að vinna þurfi 10 stundir til þess að fá eftirvinnu. Við förum fram á að kaupgjaldið sé ákveðið nákvæmlega í samræmi við verðlagið og að tímakaupið verði 1 shilling og 9 pence fyrir klukkustund í stað 1/5. Í Englandi, þar sem verðlag er ekki eins hátt og hér, fá verkamenn, sem vinna í þjónustu ríkisins, 2 shillings um tímann og þar yfir.

Íslenzku vinnuveitendurnir eru vel færir að verða við kröfum okkar, því þeir græða milljónir á styrjöldinni. Svo að eitt dæmi sé nefnt, hafa stóru íslenzku togarafélögin, sem eru harðvítugustu andstæðingar verkalýðsins grætt 1½ milljón sterlingspunda árið sem leið, að miklu leyti á brezka markaðnum. Ólafur Thors íslenzki verkamálaráðherrann, er aðalhluthafinn í stærsta togarafélaginu.

Við getum ekki lengur þolað þann ránsskap, að í hvert sinn sem verðlag hækkar, skuli kaupgjaldið aðeins fylgja að nokkrum hluta og mismuninum síðan vera fleytt niður í vasa íslenzku auðmannanna.

Við berjumst sömu baráttunni og þið. Ykkur mun verða sagt, að verkfallinu sé stefnt að hernaði Breta. Ef þið lesið þetta flugrit vandlega, munuð þið sannfærast um að þetta er ekki satt. Verkfallinu er beint að stríðsgróðamönnum Íslands, sem vilja nota styrjöldina, og ef gerlegt er, brezku hermennina, til þess að knýja niður kaup verkalýðs okkar. Það eru sömu stríðsgróðamennirnir, er svíkja (swindle) brezku hermennina og heimta óhóflegt verð fyrir vörurnar, er hermennirnir kaupa.

Nú þegar sjást merki þess að nota eigi ykkur til þess að brjóta verkfallið. Brezka herstjórnin hefur hótað, að leyfa verkfallsmönnum ekki að snúa aftur til vinnu sinnar. Hermönnunum hefur verið skipað að dreifa með byssustingjum hópi verkamanna á friðsamlegum verkfallsverði. Ef verkfallið heldur áfram verður ykkur sennilega skipað að vinna það verk sem verkfallsmennirnir unnu áður.

Maður sem tekur að sér verk starfsbróður, sem gert hefur verkfall, er einhver fyrirlitlegasta mannskepna. Hann er kláðagemsi, verkfallsbrjótur (svartleggur). Margir ykkar eru í verkalýðsfélögum. Þið komið frá landi, sem er heimkynni verkalýðsfélaganna. Vissulega verðið þið ekki til þess að gerast svartleggir gagnvart bræðrum ykkar í íslenzku verkalýðsfélögunum.

Hvað getið þið gert? Ef ykkur er skipað að framkvæma verk í herbúðunum eða við höfnina, sem þið teljið að íslenzkir verkamenn hafi áður unnið, eða ef ykkur er skipað að skerast í leikinn við verkfallsmenn á einhvern hátt, eigið þið að neita sem einn maður. Sendið undirforingja ykkar til yfirforingjanna með þau skilaboð, að þið teljið ekki slík afskipti skyldu ykkar sem hermanna. Bendið á að þið séuð í hernum til að berjast gegn fasisma, ekki til þess að berjast gegn íslenzku þjóðinni er gerir nákvæmlega það sama, sem þið munduð gera í hennar sporum.

Hermenn, ef þið standið fastir er sigur okkar vís og þið munuð öðlast vináttu og þakklæti þjóðar okkar. Talið djarflega við yfirmenn ykkar. Talið djarflega upp í opið geðið á Ólafi Thors og ágirndarpúkunum vinum hans.

„Við erum hermenn, ekki verkfallsbrjótar“.


Gert er ráð fyrir því að heimilt sé að birta þetta verk, sem er opinber yfirlýsing eða ávarp, án sérstaks leyfis höfundarétthafa.
Ef grunur leikur á að birting þessa verks sé leyfisskyld, ætti að tæma síðuna sem geymir verkið og geta mögulegs höfundaréttarbrots. Einungis skyldi nota þetta snið eftir að reynt hefur verið að leita staðfestingar á því hvort verkið er leyfisskylt eða ekki.