Ef Guð lofar
Höfundur: Þorgils gjallandi
Bræðurnir frá Brúnastöðum voru góðvinir og leikbræður unga verslunarstjórans á Ósi.
Það voru ekki nema þrjár bæjarleiðir milli Óss og Brúnastaða og þeir voru allir ungir og hraustir og gleðigjarnir. Svo þeim óx ekki í augum vegalengdin né tímatöfin og höfðu gaman af að leggja saman hestana sína, vita hver best dygði og reyna hver snjallastur væri.
Engum datt aðflutningsbannið í hug á þeim dögum. Hófdrykkjan var sjálfsögð til þess að efla allan fögnuð og umburðarlyndið þoldi svo vel þótt lengra væri stigið, að yngra fókið getur naumast trúað því né skilið það.
Faðir verslunarstjórans var danskur, en móðirin íslensk. Gamli Svendsen hafði allan seinni hluta ævinnar staðið fyrir einu versluninni sem þá var á Ósi, auðgast og unað vel hag sínum. Harður í horn að taka og ráðríkur nokkuð, en orðheldinn, fastlyndur og áreiðanlegur í öllu sem hann hét.
Sonur hans, yngri Svendsen, sem hann almennt var nefndur, var mjúklyndari, prúðari í háttum, og miklu hneigðari til draumalífs og skáldlegra sjóna. Veikari fyrir freistingum munaðar og nautna, en góðmenni og næmur fyrir öllum misgerðum. Bæði sínum og annarra.
Andrés Pétur Svendsen hafði fyrir tveim árum tekið við verslunarstörfum að föður sínum látnum og móðir hans hafði hússtjórnina. Hún hafði leitt huga sonar síns að því að biðja efnuðustu stúlkunnar í sýslunni, Signýjar frá Gilhaga, og svarið gekk að óskum gömlu konunnar.
Signý fluttist að Ósi til unnustans og svo leið sumarið og fram á veturinn að ekki varð af giftingunni en Svendsen varð á því ári miklu alvarlegri og þyngri á svipinn og nokkuð meira hneigður til vínsins.
Aldrei hafði hann eins oft fylgt kunningjum sínum á veg og síðari hluta þessa sumars og öndverðan veturinn. Veitull og ræðinn og seinn til að hverfa heim.
Brúnastaðarbræðrum fylgdi hann þó oftast og um veturinn kom hann ekki svo sjaldan fram eftir og tafði með lengra móti. Oftast ölhreifur en aldrei drukkinn svo á bæri. Á Brúnastöðum var þrifnaður og snotur bygging eftir því, sem á þeim dögum var títt, en ekki var þar um auð að ræða og skuldin við Óss-verslunina mundi hafa höggvið drjúgt skarð í búfénaðinn ef eftir henni hefði verið gengið.
En það var þvert á móti. Svendsen ungi minntist ekkert á greiðsluna og vináttan við bræðurna hafði aldrei verið jafn innileg og þennan vetur.
Á einmánuði fékk fólkið í Óssþorpinu umræðuefni, til þess að reyna á orðgnóttina.
Signý fluttist þá alfarin frá Ósi og heim að Gilhaga. Trúlofuninni var sagt sundur.
Almannarómurinn kastaði allri sökinni á Svendsen. Signý hafði farið döpur og þrútin af gráti burtu. Og sama daginn reið hann með kunningjum sínum langt fram í sveit og veitti vínið óspart, bæði öðrum og sjálfum sér.
„Hann var glaður, ekki tók þetta mikið á hann flagarann.“
Sagan flaug upp eftir héraðinu og hún komst inn á hvern bæ þótt Kirkjublaðinu auðnaðist á fám stöðum að fá samastað.
Skuldinni og sökinni var skellt á Svendsen. Menn kenndu í brjósti um Signýju, sem hann hafði tælt og svikið í tryggðum. Aldrei mundi hún bíða þess bætur, svo sem hún hafði unnað honum heitt og falslaust.
Honum, svikaranum með mjúka tungutakið, sléttmælin og snyrtimannlega yfirskinið.
Dylgjur og sögur um lausung Svendsen spruttu upp eins og gorkúlur í afraksturshaug, föður- og móðurlausar sögur sem uxu og stækkuðu eftir því sem þær fóru víðar yfir; fengu því meiri rök og fullvissu, sem fleiri fóru með þær.
Þeir sem móti mæltu, líkt og Brúnastaðafólkið gerði, æstu aðeins ákafann í hinum með fullyrðingar og tilbúin rök og dæmi, stóryrðin, vandlætingin og trúin styrktust við andmælin og mótbárurnar.
Signý sagði ekkert; bestu vinkonurnar fengu enga úrlausn málsins hjá henni. Hún varð nokkru alvarlegri en áður og roskins yfirbragðið færðist fastar yfir. Signý var tuttugu og níu ára gömul og allt barnavipur og mælgi móti skapi hennar.
Svendsen breyttist ekkert, sögðu menn, jafn kurteis og glaðlegur og hýreygur til stúlknanna sem í búðina komu.
Brúnastaðabræður fundu nú samt hitt, að honum bjó eitthvað þungt í skapi, að þessi úrslit málsins höfðu orðið honum þyngri á metunum en á yfirborðinu sást.
Milli móður og sonar hafði fáleikinn sest í sæti.
Grasviðri og gróandi jörð; fuglasöngur og sumarsól, vorblíða og blómilmur vekur vonir og hug manna, starfsvilja og langanir til lífsins.
Einn slíkan sældardag riðu þau systkinin frá Brúnastöðum út að Ósi; bræðurnir tveir og Svava systir þeirra, nítján vetra gömul. Gullbjarta, mikla hárið hennar var sérlega litfagurt og glitroðið þar sem sólin skein á flétturnar, bragðmjúkar, langar og digrar á þéttvöxnu herðununum; féllu niður bakið beint og liðlegt. Vöxturinn var sléttur og mjúkur, áburðarlausu fötin hennar fóru nett og vel; liðlegu hreyfingarnar voru frjálsar og léttar án þess hún hefði lært þær eftir nokkrum reglum öðrum en þeim sem æska og heilbrigði gefa ósjálfrátt að uppvaxtargjöf. Yfirliturinn var bjartur, roðinn sællegur, vanginn sléttur, rauðar varir, hvítar tennur, blá augu, stór og hrein, heiður svipur, slétt enni.
Yfir Svövu hvíldi látæðislaus þokki og hreinleiki ósnortinnar, gjafvaxta meyjar, þar sem vonir og þrár liggja dreymandi í dái og bíða þess að vakna til lífsins, til vitundar og skilgreiningar.
Það var dagsatt að hann var hýreygur og glaður í bragði verslunarstjórinn þegar hann tók á móti þessum gestum. Svava gerði nokkra álnavöruúttekt; hún fékk bæði góðar leiðbeiningar og greiða afgreiðslu.
Síðan bauð Svendsen þeim systkinum til gestastofu; þar sátu þrír gestir fyrir.
Þegar lítil stund var liðin, vék Svendsen sér að Svövu og sagði:
„Þú hefur ekki séð þær myndir, sem ég hef eignast í vetur en bræður þínir sáu þær um daginn, þær eru hérna inni í Grænustofunni. Úr því þú ætlar í langferð verður aldrei tækifæri til þess ef ekki nú. Bræður þínir halda uppi samræðunum, ég fel þeim heimilisskylduna til þess.“
Hún stokkroðnaði en þakkaði þó fyrir boðið.
Einn gesturinn sté á tá félaga sínum, það urðu ekki aðrir varir við bragðið.
„Þarna á borðinu er nýja albúmið,“ sagði Svendsen og læsti hurðinni. „Þetta eru nýjar myndir. Magdalena systir sendi þessa í vetur frá Höfn. Hún bað mig fyrir kveðju til þín um leið.“
Svava stóð kafrjóð og skjálfandi við að fletta blaðinu. Eins og elding laust því niður í huga hans, að hún væri hrædd við hann.
„Vertu óhrædd, Svava. Beggja megin þiljanna eru menn, og ég er enginn dóni. Ég þurfti að tala við þig, en guð veit að mér býr ekki annað í hug en alvörumál og falslaus vinátta.“
Svava þagði.
„Ertu að búa þig austur -- alfari til frænku þinnar. Er það svo?“
„Já... ég fer með pósti núna um helgina,“ sagði hún með titrandi röddu.
„Því ferðu burtu... er hér ekkert sem bindur huginn fastan?“
„Jú, foreldrar og systkin og sveitin bindur mig... en ég vonast eftir að geta menntast hjá frænku minni betur en heima og hún var mér svo góð og ástrík.“
Svava starði á sömu myndina og Svendsen stóð við hlið hennar, lítið eitt aftar. Hann var fölur og röddin skalf þegar hann tók til máls.
„Það er satt, myndirnar voru yfirskin.. ég þurfti að tala við þig... Svava.... Ég bið þig að fara ekki....; ég.... bið þig að hjálpa mér til þess að bera byrði lífsins.. bið þig að verða eiginkona mín.“
„Þér getur ekki verið alvara, ég er vankunnandi barn.. ég hef aldrei hugað í þessa áttina.“
„En hvert þá?“ sagði hann ákafur. „Hefur hugur þinn bundið sig annars staðar?“
„Nei... mér hefur ekki dottið þess konar í hug, hvorki í einum stað né öðrum.“
„Svava... góða Svava, þú ættir ekki að gruna mig um flagarahátt eins og flestir gera. Þið systkin ættuð að þekkja mig betur... Mér er hjartans alvara...`
„En...“
„En Signý og svikin þau, hefurðu hugsað að segja. Það voru ráð móður minnar, ég elskaði hana aldrei, þegar ég fann að ást mín var bundin þér bað ég Signýju að leysa mig frá heitinu og hún gerði það... Ég var klaufi og talhlýðinn vesalingur og enginn finnur það betur en ég hvað ég misbauð tilfinningum hennar. Það misstig angrar mig. Missi ég þig, Svava, er mér lífið auðn og einskis virði.“
„Ég er barn. Fákunnandi, fátæk og ófróð stúlka, sem ættfólkið þitt liti á með lítilsvirðing og þér mundi leiðast ég til lengdar.“
„Nei, aldrei - ég elska þig, ég sver að það er satt.... Mér er ljóst að von mín hefur brugðist, sú að þú mundir treysta mér og trúa. Að ég mundi vinna hug þinn og hjarta... Ég verð að þola það, en ég er þá meiri einstæðingur en þú og aðrir halda, fyrst svo fer.“
Nú leit hún við og horfði á hann rannsóknaraugum, hún var ekki reynd né fróð í þess konar málum, en meðfætt hyggjuvit og eðlisávísun skýrði það fyrir henni að honum var full alvara, að hann barðist fyrir heitasta og hjartfólgnasta málefni sínu, að hann elskaði hana.
„Ég treysti þér... ég finn, að þér er alvara. En mér gat ekki dottið þetta í hug. Ég get ekki áttað mig og ekki fundið viðeigandi orð né svar. Svona í flughasti. Ég er barn eins og ég hef sagt þér.“
„Ég skal bíða eftir svarinu. Nú er þriðjudagur.. Á fimmtudaginn fæ ég bréflegt svar ef þú neitar, en verði það sem ég vona og þrái mest, þá kemurðu sjálf og færir mér sólarljósið og ylinn, sem ég þarf frekar en menn halda. Þá leiðum við hvort annað meðan ævin mín varir. Ég á ekki von á að hún verði löng.
Nú fer ég, þú berð svo augljós merki geðbreytinganna að þér er best að bíða þess að blóðið jafnist og skapið kyrrist.
Svava, ég vona.
Guð sé með þér.“
Svo fór hann.
Svava sat eftir með tárin í augunum.
Og svarið tók til að búa um sig í hjarta hennar. Traust og velvild til Péturs hafði aldrei brostið. Brúnastaðafólkið þekkti hann betur en fjöldinn. Og nú skildi hún hann og þekkti betur en áður.. ef til vill betur en nokkur annar.
Þá var klappað á hurðina.
„Gerðu svo vel að þiggja kaffi hjá okkur, nú er það til,“ sagði Svendsen og leit sem snöggvast til hennar. Eitt andartak ljóst leiftur milli tveggja tilfinninga.
Svendsen var léttur og skjótur til svars og orða, kurteis og glaður jafnt við alla sem við borðið sátu. Það voru þau tvö, Svava og hann, sem ekki neyttu vínsins, allir hinir gerðu því góð skil.
Um leið og menn risu á fætur sagði Svendsen:
„Annir við skriftir banna mér að fylgja ykkur suður fyrir mölina, ég verð að biðja ykkur að misvirða það ekki. Í næsta skipti vona ég að fylgja betur úr hlaði -. Ef guð lofar - eins og amma mín kenndi mér að segja í bernsku.“
Ferðamennirnir kvöddu hann utan við húsdyrnar; síðast allra Svava, hún leit ekki upp en höndin skalf mjúk og heit í lófa hans.
Hann gekk rakleitt inn í Grænustofuna, settist í stólinn sem hún hafði setið í, studdi höndum undir kinn og leit á myndabókina. Það var satt, þarna var myndin hans - bókin hafði verið skilin opin eftir í ógáti, og hvítur klútur; hann þreif hann í snatri. Klútur með stöfunum hennar, S.Þ., Svava Þórarinsdóttir.
Vonin og kvíðinn deildu ástæðum með og móti. Hann var sokkinn niður í drauma og getgátur um tvo næstu dagana.
Þá var klappað í hurðina og Svava stóð í dyrunum.
„Þig vantar klútinn, Svava. Hann er hérna.“ Og Svendsen reis á fætur og rétti henni klútinn.
„Þakka þér fyrir, Pétur,“ sagði hún og leit til hans um leið. Hann greip höndina og bar hana að vörum sínum.
„Ef guð lofar, sagði amma.“
Hann hneigði sig og hurðin hné að stöfum.
Svava var horfin.
Hrafninn bjó í hömrunum í Svartagili. Þar átti hann börn og bú en fáa vini. Gripdeildir hans hefðu ráðið honum sjálfum bana og öllum ungunum hans ef Svendsen hefði ekki tekið hann fyrir skjólstæðing sinn. Svendsen átti landið þar umhverfis og hann átti gilið, sem lá á ská niður að ánni.
Verslunarstjórinn var elskur að öllum skepnum og vildi þeim öllum gott gera. Hrafninn var líka vinur hans og mörgum molum hafði Svendsen kastað yfir gilið í tóna til unganna, mörgum kjötbitum þeim til glaðnings. Hann var þessu svo vanur frá æsku að engum manni hefði tekist það jafn vel að hæfa rétt nema með margra ára æfingu. Hamrarnir voru háir beggja vegna og urðin undir; aðeins ein græntó vaxin víði og lyngi og blómum undir norðausturveggnum og hún fór stækkandi ár frá ári því að Svendsen lét bera þangað mold og fræ til að dreifa yfir og stækka „blómagarðinn“ sinn eins og hann var vanur að nefna gróðurblett þennan.
Á miðvikudaginn var regn og fimmtudagsnóttina fram að sólaruppkomu. Þá birti upp með hreinviðri og heitu skini. Svendsen var ekki rótt með svefn þessa nótt, vonin og kvíðinn bægðu svefni og værð frá rekkjunni hans. Alltaf sigraði þó vonin, en blóðið brann af eftirvænting og þrá. Þegar árrisulustu menn komu á fætur gekk Svendsen upp að gili með töskuna í hendinni. Menn vissu að hann ætlaði að færa ungunum æti.
Stundu eftir hádegi riðu þau heim að verslunarhúsunum yngri bróðirinn frá Brúnastöðum og Svava systir hans. Hún hafði heldur ekki átt svefnværa nóttina síðustu. Svarið átti að koma af vörum hennar sjálfrar og svona hafði hún hugsað það:
„Ég skrifa svoddan klór, að ég varð sjálf að koma í dag. Barnaleg er ég að flestri kunnáttu, en eitt hefur mér lærst síðustu dægrin og það er að þú mátt ráða ráðum með mér um vistferlin, Pétur.“
Við dyrnar á íbúðarhúsinu stóð mannþyrping. Veifan danska var ekki dregin nema á hálfa stöng. Andlit manna báru vott um sorg og áhyggjur.
Andrés Pétur Svendsen lá örendur inni í Grænustofu. Hann hafði hrapað og fannst í miðjum blómagarðinum sínum niðri í gilinu. Þar lá hann líkt og maður svæfi og lægi á bakið, aðeins eitt lítið gat aftan á höfðinu, annað var ekki sjáanlega brotið.
„Ef guð lofar, sagði amma.“ Það voru síðustu orðin hans, sem hún hafði heyrt á þriðjudaginn.
Og guð lofaði þeim ekki að sjást aftur. Blómaknappur fyrstu ástarinnar varð að deyja áður en blöðin breiddust út. Dauðinn hafði tekið Pétur frá henni áður en hún flytti honum svarið. Harminn varð hún að bera í hljóði, ein og óstudd. Aðeins að sjá hann í síðasta sinn, þar sem hann svaf og enginn gat vakið hann af þeim svefninum; enginn breytt þessum helsára atburði. Þau systkin fengu leyfi til þess að sjá líkið og þau voru síðust vandalausra manna að minnast við leikbróður sinn. Hún sem vissi með sjálfri sér að hún stóð honum næst allra manna varð að hafa yfirvarp kunningsskaparins og ekki neitt meira.
Bróðir Svövu gekk að líkinu, laut að því og minntist við það. Tárin streymdu niður kinnarnar; svo fór hann út að glugganum og horfði út.
Þá laut Svava niður, hún tók um köldu höndina, nú var ylurinn horfinn, blóðið hætt að renna; harmurinn ætlaði að verða henni um megn en það var ekki nema örfá andartök; sorgin vakti um leið þrek fullþroska konu; bernskan varð að þoka.
„Guð sé með þér, elsku vinur, ég skal muna þig meðan ég lifi, Pétur minn.“ Svo kyssti hún varirnar hans í fyrsta og síðasta skipti.
Svava fluttist austur til frænku sinnar, áður en jarðarförin fór fram.
Guð lofaði þeim ekki að njótast.
Nokkrum árum seinna giftist Svava þar eystra; meir að ráði frænku sinnar en að eigin fýsn.
Pétri gleymir hún aldrei, hann var hugsjón hennar; draummaður í vöku og svefni; hrein og grátljúf lifir minning hans og fyrstu ástarinnar í brjósti hennar.
Orðin gleymast henni aldrei, síðustu orðin hans:
„Ef guð lofar“.