Eggert Ólafsson

Úr Wikiheimild
Eggert Ólafsson
höfundur Matthías Jochumsson
Drukknun Eggerts Ólafssonar á koparstungu frá 1768.
Drukknun Eggerts Ólafssonar á koparstungu frá 1768.
Þrútið var loft og þungur sjór,
þokudrungað vor.
Það var hann Eggert Ólafsson,
hann ýtti frá kaldri Skor.
Gamall þulur hjá græði sat,
geigur var svip hans í,
hann mælti við Eggert Ólafsson:
„Mér ógna þau vindaský.“
„Ég sigli' ei skýin, ég sigli sjá!“
svaraði kappinn og hló.
„Ég trúi á Guð, en grýlur ei,
og gleð mig við reiðan sjó.“
Gamall þulur frá græði hvarf,
gegndi með þungri lund:
„Þú siglir ei þennan sjó í dag,
þú siglir á Guðs þíns fund.“
Það var hann Eggert Ólafsson,
hann ýtti frá kaldri Skor,
vindur upp segl og sjálfur við stjórn
settist með formanns þor.
Knúðu rastir knerrir tveir,
komið var rok um svið.
Síðasti fugl úr fjarri Skor
flögraði' á vinstri hlið.
Á búlkanum situr brúður ung,
bleik var hin göfga kinn:
„Ó, Guð! sú báran er brött og há,
hún brotnar í himininn inn!“
„Hækkið þið seglin!“ hetjan kvað,
en Helja skjótari varð.
Boðinn skall yfir bárumar -
í búlkann var komið skarð.
Það var hann Eggert Ólafsson,
frá unnarjónum hann stökk,
og niður í bráðan Breiðafjörð
í brúðarörmun sökk.
„Það var hann Eggert Ólafsson“
– Íslands vættur kvað –
„aldregi græt ég annan meir
en afreksmennið það.“
Ef þrútið er loftið, þungur sjór
og þokudrungað vor,
þú heyrir enn þá harmaljóð,
sem hljóma frá kaldri Skor.