Fara í innihald

Frost á Grímsstöðum

Úr Wikiheimild
Frost á Grímsstöðum
Höfundur: Jón Thoroddsen yngri
Ljóðið „Frost á Grímsstöðum“ kom út í ljóðabók Jóns Thoroddsen, Flugur, árið 1922.
Ég ligg í rúmi mínu, og er í góðu skapi. Það er frost á Grímsstöðum - 20 stiga frost. Seinasti mómolinn er orðinn að ösku, það er jarðbann og heyleysi, presturinn vill ekki hjálpa, hefur nóg með sig, nær að setja betur á.
20 stiga frost á Grímsstöðum framleiðir 20 skáldsögur. Tímaritin verða fljótlesnari.
Ég klæði mig, fer út, og sé skósmið. Ég hleyp til hans, og hringsný honum:
Það er frost á Grímsstöðum - 20 stiga frost.
Hann tekur upp blað og bendir.
2 stig, segir hann, og fer leiðar sinnar.
Ég spyr þig, ó, skósmiður.
Ert þú í heiminn kominn, til þess að þú berir sannleikanum vitni? Hvar er vitnastefnan þín? Hver áminnti þig um sannsögli?
Ólánsgarmur ertu. 20 menn skrifa skáldsögu í dag. 20 menn trúa því, að 20 stiga frost sé á Grímsstöðum.
Mikil er ábyrgð þín.
Ég þakka þér, skósmiður. Þegar tímaritin koma út, gerist ég ritdómari. Ég skrifa:
Pappír og prentun í besta lagi. Frágangur allur góður, og bækurnar hinar eigulegustu - einkar hentugar til tækifærisgjafa. En það skal tekið fram, að sögurnar eru byggðar á misskilningi. Umræddan dag var aðeins 2 stiga frost á Grímsstöðum.