Fara í innihald

Fyrir utan glugga vinar míns

Úr Wikiheimild
Fyrir utan glugga vinar míns
Höfundur: Jóhann Sigurjónsson
Hljóðnað er, borg, á breiðum strætum þínum,
bláhvítur snjór við vota steina sefur,
draumsilki rakið dimma nóttin hefur
deginum fegra upp úr silfurskrínum.
Vökunnar logi er enn í augum mínum,
órói dagsins bleika spurning grefur
djúpt í mitt hjarta, er kemur seinna og krefur
kyrrðina um svar, um lausn á gátum sínum.
Vinur, þú sefur einn við opinn glugga,
æskunnar brunn í svefnsins gylltu festi
sígur þú í og safnar fullum höndum.
Hugur minn man þinn háa pálmaskugga,
hafi ég komið líkur þreyttum gesti
utan frá lífsins eyðihvítu söndum.