Fara í innihald

Gísls þáttur Illugasonar (úr A-gerð Jóns sögu helga)

Úr Wikiheimild
Gísls þáttur Illugasonar (Úr A-gerð Jóns sögu helga)
Úr A-gerð Jóns sögu helga

Þá er hinn helgi Jón var utan þessu sinni réð fyrir Noregi Magnús konungur Ólafsson, Haraldssonar, Sigurðarsonar. Og er hinn helgi Jón kom norður í Þrándheim þá var konungurinn þar.

Í þenna tíma voru í Noregi margir íslenskir menn. Þá var þar Teitur son Gissurar biskups og þá urðu þar þau tíðindi að íslenskur maður sá er Gísl hét vó víg og var sá maður er veginn var hirðmaður Magnúss konungs. En Gísl rak það til þessa snarræðis að hann átti að hefna föður síns en þessi maður hét Gjafvaldur er Gísl vó. Hann hafði verið að vígi Illuga föður hans.

Og bráðlega eftir vígið þá var Gísl tekinn og fjötraður af mönnum konungsins. En er þeir spurðu það hinir íslensku menn þá ganga þeir þegar þangað allir saman til stofu þeirrar er Gísl var inni og var Teitur fyrir liðinu og höggur hann af honum fjöturinn og leiðir hann á braut með sér.

Og eftir þessi tíðindi lætur konungur þings kveðja og var ákafa reiður og horfði til hins mesta voða um málið. Á þessu þingi var öllum íslenskum mönnum bannað að tala sín mál nema hinum helga Jóni. Honum var leyft að tala af konunginum og talaði um málið langt erindi og forkunnar snjallt það er menn hafa að minnum haft síðan og bað hann Gísl lífs og griða og það kom til svo mikillar nytsemdar að reiði konungsins mýktist en þeir menn náðu griðum og sáttum er áður voru nálega til bana ráðnir.

En sá lendur maður Magnúss konungs er hét Sigurður og kallaður ullstrengur og þungastur hafði verið í öllum tillögum móti Jóni, þá tók hann á sér skjóta hefnd þegar á því þingi. Það var banvæn sótt svo að hann mátti eigi óæpandi þola allt til þess er hann bað Jón með lítillæti og iðran koma til sín og leggja hendur yfir sig með helgum bænum. En það veitti Jón blíðlega er hann var beðinn og syngur yfir honum og þegar verður hann heill og bað sér líknar fyrir sín mótmæli og skildust þeir sáttir.

En Magnús konungur fal sig undir bæn Jóns og gaf honum sæmilegar gjafir og skildust með mestu vináttu.