Fara í innihald

Grasaferð

Úr Wikiheimild
Grasaferð
Höfundur: Jónas Hallgrímsson

„Systir góð! sérðu það sem ég sé?“

Það var eitt kvöld um vorið, við komum af stekknum, að ég sagði þetta við systur mína, fimmtán vetra gamla, og klappaði saman lófunum af gleði.

„Ég veit ekki við hvað þú átt, drengur!“ — „Hvað á ég að sjá?“ sagði hún rétt á eftir og sneri sér við, því ég var orðinn aftur úr og horfði þegjandi ofan í jörðina.

„Hér hefur rignt ormum í skúrinni en það var ekki það sem ég átti við.“

„Þú ert skýrleiksbarn“ sagði systir mín hlæjandi „og kemur alltént upp með eitthvað nýtt; við skulum tala um ormana þína seinna; en hvað var hitt sem ég átti að sjá?“

Ég var einatt vanur við hún leiddi mig á meðan ég var yngri; en nú var ég orðinn þrettán vetra gamall og þótti vera of stór til þess; samt sem áður fannst mér það alltént mesta skemmtun og vann ég mér það stundum inn með alls konar gamni og vinalátum þegar við vorum einhvers staðar á gangi.

„Leiddu mig dálítið“, sagði ég og tók í höndina á henni, „annars kostar sérðu ekki það sem ég bendi þér á — þú sérð fjallið hérna fyrir ofan okkur, gáðu nú að.“

„Nei, ég sé ekki fjallið, frændi minn góður! Var það ekki annað en fjallið?“

„Og sérðu bunurnar bláu sem steypast fram af Bröttuskeið; það er eftir regnið áðan; lækirnir hafa allir vaxið og eru sumir mórauðir. Hvernig líst þér núna á fjallið?“

„Ekki nema vel,“ sagði systir mín, „það er fallegt og farið að verða sumarlegt; en svona lítur það út á hverjum degi; þú verður að sýna mér eitthvað meira.“

„Ég er að draga þig dálítið á því sem best er; sérðu nú rindana þarna upp á Bröttuskeið sunnanverðri? Þeir eru fagurbleikir; manstu hvernig þeir eru að sjá í þurrki?“

Þetta seinasta sagði ég svo borginmannlega og með svo miklum spekingssvip að það var auðséð á öllu ég þóttist hafa sagt eitthvað merkilegt. Systir mín horfði stundarkorn á rindana og sá ég hvernig hýrnaði yfir henni.

„Þú ert mesta gersemi“ sagði hún þá „og besti frændinn sem ég á — það eru allt saman grös, það er ógn af blessuðum grösum!“

Nú líkaði mér fyrst hvernig gekk. Systir mín leiddi mig við hönd sér, lagaði á mér hattinn og strauk hárið frá enninu á mér en ég hristi það jafnótt niður aftur og horfði ýmist á hana eða tórnar bleiku og bað með öllu móti að hún þegði um grösin og tæki mig svo einhvern tíma einan með sér upp á Bröttuskeið svo við hefðum bæði tvö sómann af þessari uppgötvun og grösuðum meira en dæmi væru til. Hún lofaði mér því loksins og þá var ég í mínum augum sæll eins og kóngssonur og hugsaði til grasanna með hreinni og vonarfullri gleði. Þess háttar tilhlökkun verður varla lýst og engum getur auðnast að njóta hennar fyllilega nema unglingum á mínu skeiði.

Þessi systir mín, sem ég kallaði, hét Hildur Bjarnadóttir og var einkabarn prestsins á B.... Við höfðum alist upp saman frá því ég var fjögurra vetra; þá missti ég foreldra mína, hvort á eftir öðru. Séra Bjarni tók mig þá í fóstur og ól hann mig upp eins og ég væri hans sonur. Hann hafði átt móðursystur mína en missti hana þegar ég var barn. Frá þeim tíma bjó hann alltaf með bústýru og bar ekki á öðru en það færi nógu vel. Hann var líka ríkismaður og fluttust honum föngin víða að, svo enginn gat vitað nema kunnugir þó eitthvað þryti á heimabúinu. Ráðskonan var alltaf heldur ill við mig, og kallaði ég hana digru Guddu þegar ég var reiður, en Hildi, prestsdótturina, kallaði ég aldrei annað en systur mína og prestinn fóstra minn eða þá stundum séra Bjarna þegar ég átti tal við ókunnuga. Hann var aldrei harður við mig og ekki man ég til hann ofbyði mér nokkurn tíma, hvað sem ég átti að nema eða vinna, en heldur var hann strangur í útliti og aldrei svo blíður eða eiginlegur í máli að ég gæti fest ást á honum; mér lá alltaf við að hræðast hann og aldrei var ég eins glaður eða upplitsdjarfur og ég reyndar átti að mér þegar ég sá hann einhvers staðar í nánd við mig. Samt sem áður virti ég hann eins og hann væri faðir minn og vildi honum vel af heilum hug. Ég var svo lánsamur að koma mér vel við fólkið á bænum og hafði það sumt eftirlæti á mér en enginn horn í síðu minni nema ráðskonan. Best féll mér samt ævinlega við hana Hildi systur mína og henni var ég þægari en nokkrum manni öðrum á heimilinu.

Það var einn dag fyrir sláttinn að ég var kominn á hvíta brók og ljósbláa sokka og saumaði þá upp um mig fyrir neðan hnéð. Að ofanverðu var ég snöggklæddur, á grænum bol og dúkskyrtu, með nýlegan hatt sem ég hafði keypt fyrir lamb og þótti mér það vera fallegur hattur. Svona stóð ég úti á hlaði með hárband og ljósgráan tínupoka og þar að auki var ég vel útbúinn að snærum. Ég hafði tekið með mér peysuna mína bláu og var að búa mig til að binda bagga úr henni og pokanum en dró það samt og horfði heim til dyranna, hvort enginn kæmi út. Það leið ekki heldur á löngu fyrr en systir mín kom með samanbrotinn tínupoka og snjóhvíta rósavettlinga á höndunum en hversdagsbúin að öðru leyti, hreinlega og létt en þó hlýtt, svo kunnugum var hægt að sjá hún ætlaði í grasaferð.

Ég kallaði til hennar og sagði: „Fæ ég að bera pokann þinn, systir góð!“ og leit svo um leið niður á mig því aldrei þóttist ég hafa verið eins karlmannlegur í vexti né meira mannsefni að sjá en núna á hvítu brókinni.

„Heyr á endemi! Ætli þér veiti af að bera þig sjálfan?“ sagði digra Gudda, „það situr á þér, pattanum, að þykjast vilja láta eins og fullorðnir menn!“

Hún stóð rétt fyrir aftan mig og hafði ég ekki fyrr tekið eftir henni.

„Ég ansa þér ekki“ sagði ég í hálfum hljóðum en systir mín fékk mér pokann sinn brosandi og sagðist ekki efast um að ég bæri hann með heiðri og sóma, ekki síst ef hún leiddi mig upp á móti brekkunni.

„Það er alltént léttara“ ætlaði ég að segja en digra Gudda stóð við hliðina á mér og brosti svo hæðnislega að ég beit á vörina og hnýtti baggann minn þegjandi.

„Mundu mig um það, Hildur!“ sagði ráðskonan „að færa mér dálítið af helluhnoðra í kvöld, hann vex nógur í fjallinu og alltént er hann blessaðasta gras að drekka af.“

Mig langaði til að svara einhverri óþægð en þorði það ekki fyrr en ég var albúinn.

„Ég skal muna til þín, Guðríður!“ sagði systir mín, „verið þið sæl öll!“

„Og ég skal færa þér einn eða tvo skollafingur eða þá dálítið af tófugrasi“ sagði ég og hljóp á stað með sama því ég vissi digra Gudda mundi hafa orðið reið.

Veðrið var blítt og hreint en ekki sá til sólar því skýjadrög voru um himininn og hrannaði austurloftið. Það var eins og sveitin hefði sniðið sér stakk eftir veðrinu: allt var svo kyrrt og blítt yfir að líta, túnin græn og glóuðu í fíflum og sóleyjum; engjarnar líka grænar en þó nokkuð ljósbleikari og sums staðar hvítir fífublettir, táhreinir eins og nýfallinn snjór. Búsmalinn dreifði sér um haga og hlíðar og ekkert var að heyra nema einstaka lækjarbunu og árniðinn í dalnum eða þá stundum fugla sem flugu kvakandi í loftinu ellegar sátu á einhverri hæð og sungu sér til gamans í morgunkyrrðinni. Lengra í burtu var að sjá fagurblá fjöll með sólskinsblettum og það breiddi nokkurs konar gleðiblæ yfir allt hitt eins og þegar vonin skín yfir rósama lífstund góðs manns.

Þetta sagði systir mín á einum stað í fjallinu þegar við stóðum við og horfðum yfir dalinn og sveitina; og hún sagði það satt því ég sá hvernig hýran skein á andlitinu á henni.

En ég var mest að hugsa um grösin og svaraði heldur óþolinmóðlega: „Ég held það hafi verið fallegt sem þú sagðir en illa er mér við sólskinið ef það kemur hingað í dag; mér þætti miklu betra að við fengjum duglega skúr.“

„Vertu óhræddur,“ sagði hún, „grösin þín á Bröttuskeið verða varla svo smá að við sjáum þau ekki nema í vætu; láttu mig nú leiða þig stundarkorn, litli frændi minn góður!“

Ég þekktist það að sönnu og tók þegjandi í höndina á henni en illa féll mér samt að hún skyldi kalla mig „litla frænda“. Hún var farin að taka upp á því stundum, eftir það hún óx svo mikið yfir mig; enda var hún orðin fulltíða kvenmaður og fermd fyrir meir en ári en ég var barn að kalla, og ekki stór á mínum aldri. Þetta vissi ég allt saman dável og sárnaði mér því heldur að hún skyldi svona ósjálfrátt vera að minna mig á það.

Við gengum nú áfram þangað til við komum undir skeiðina; ég var þá orðinn dauðþreyttur og settumst við niður á grænni tó og horfðum aftur ofan yfir dalinn. Nú var hann enn þá fegri að sjá en áður þegar við stóðum lægra í fjallinu; allar ójöfnur voru horfnar á láglendinu og ekkert var að sjá nema litaskiptin. Áin kom nú öll í ljós og leið hún fram í bugðum og kvíslum eins og heiðbláir þræðir, ofnir í fegursta glitvefnað.

Í þetta sinn gaf ég samt lítinn gaum að fegurð náttúrunnar; mér gat ekki liðið úr minni „litli frændinn“, það lá hræðilega illa á mér og loksins sagði ég upp úr miðju kafi: „Ég er ofur lítill, Hildur mín góð! aldrei held ég verði að manni.“

Systir mín hló hátt og horfði til mín svo kátbroslega að ég vissi varla hvaðan á mig stóð veðrið. Það var eins og ég heyrði óminn í loftinu, hvað aumingjalega skringilegur ég hefði verið í rómnum og fór það, eins og stundum ber við, að hugur minn komst í aðra stefnu og hló ég þá dátt að sjálfum mér.

„Þetta var það skrítnasta sem ég hef nýlega heyrt,“ sagði systir mín, „blessaður vertu, segðu það aftur í sama róm og áðan; reyndu nú til!“

Ég færðist undan fyrst í stað; en það fór eins og vant var þegar Hildur var annars vegar, mér var ekki hægt að synja henni lengi um það sem hún bað; ég varð þá að fara að herma eftir sjálfum mér og þó það tækist ekki sem best varð okkur það samt báðum nægilegasta hlátursefni. Hún var þá svo blíð og hló að mér svo dátt og græskulaust að mér kom ekki til hugar að firrtast við það minnsta grand.

Þegar við stóðum upp sagði hún og var nokkuð alvarlegri: „Ef þú vilt skal ég aldrei kalla þig litla frænda meir; þú munt líka bráðum vaxa, ef þú lifir, og þegar þú ert orðinn stór mun ég verða að venja mig af því, hvort sem ég vil eða ekki.“

Ég varð einhvern veginn undarlegur þegar talið snerist svona við; mér fannst nú lítið til þessa loforðs og vissi ekki vel hverju ég átti að svara.

„Kallaðu mig hvað sem þú vilt,“ sagði ég þá heldur lágt, „ég skal kalla þig systur mína samt“ — og svona klifruðum við upp á skeiðina.

Ég var að hugsa hitt og þetta og tók lítið eftir veginum, hann var ekki heldur mjög voðalegur; við fundum á einum stað klettaskoru og komumst þar upp án þess okkur vildi nokkurt slys til; en svo var hún þröng að við urðum sums staðar að renna okkur á rönd og sáum við glöggt að hún varð ekki farin aftur ef við fengjum nokkuð í pokana.

Ég vonast til að sumir af lesendum mínum muni til sín þegar þeir hafa í fyrsta sinni fundið svo mikil grös að þeir væru vissir um að geta tekið þar byrði sína fyrirhafnarlaust að kalla. Því er svo varið með áhugann að hann þróast því meir sem meiri er óvissan og þetta veldur ákefð allra veiðimanna og annarra sem afla sér fjár úr skauti náttúrunnar. Með handiðnirnar er allt öðruvísi ástatt: þeir sem eiga að vinna að því sem aflað er og endurbæta það og ummynda, vita oftast nær fyrir fram hvað miklu þeir muni fá afkastað og gerir vinnan þeim langtum minni áhuga en hinum; enda lifa þeir minna á voninni og búast ekki á hverri stundu við einhverjum feng. Ég var í þetta sinn í þeirra tölu sem gleðjast við að sjá von sína rætast og þarf ég ekki að lýsa huga mínum fyrir þeim sem hafa reynt eitthvað líkt því á mínu reki.

Undir eins og við systir mín komum upp á skeiðina, sáum við að litaskiptin á tónum bleiku höfðu ekki dregið okkur á tálar; þær voru allar þaktar í grösum og lágu þau í stóreflis flekkjum og svo þétt að ekkert strá og öngvar mosategundir voru vaxnar upp á milli þeirra. Það var auðséð á öllu að þar höfðu ekki verið tekin grös í margt ár. Við bárum ekki við að binda á okkur pokana; því ekki þurfti langt að ganga eftir tínunni. Við kipptum þá upp skúf og skúf en grösin lágu laus að kalla og bárum við þau saman í smáhrúgur þangað til við héldum að við mundum ekki koma meiru heim. Við höfum varla verið að þessu lengur en svari einu dagsmarki og þegar öllu var lokið og við búin að troða í pokana hefur varla verið kominn miðmundi.

„Þetta eru nógu laglegir pokar!“ sagði ég þá „en ógn verður eftir af grösunum; sestu nú við og saumaðu fyrir peysuna mína, hún tekur þó ekki svo lítið og það er líka mannalegra að koma heim með bagga í fyrir.“

„Þú verður þá að segja mér sögu á meðan, fyrst ég er svona eftirlát við þig“ sagði systir mín um leið og hún fór að þræða saman peysuna.

Ég var fús til þess og settist ég við hliðina á henni en þó svo, að ég sæi vel framan í hana því þá gekk mér alltént betur að segja frá. Svona sat ég stundarkorn og hugsaði mig um. Því næst spurði ég systur mína hvort það ætti að vera eitthvað um hann séra Eirík í Vogsósum eða þá saga af útilegumönnum. En hún hélt að lítið yrði úr öllum þess háttar sögum í björtu og bað mig að finna eitthvað hentugra.

„Þá muntu ekki heldur“ sagði ég „vilja heyra neitt um hann Björn í Öxl eða þá ferðasöguna hans Lalla þegar þau Skotta og hann sátu saman á húðinni og óku fram endilanga Fnjóská, en Þorgeirsboli dró, og það var húðin af honum sjálfum. En áður en ég gleymi því, systir góð! Hvað eru þær margar -- skotturnar?“

„Það á ég bágt með að segja þér,“ sagði hún, „þær hafa verið sín í hverri sveitinni; þó eru tvær merkilegastar, að ég held, Húsavíkurskotta og Hvítárvallaskotta en þær eru nú báðar dauðar.“

„Þá þekki ég mann sem hefur séð hana Húsavíkurskottu, „ sagði ég, „manstu ekki eftir lækninum sem var að segja honum fóstra mínum frá þegar hún kastaði selnum í hann Lalla? -- En var hann dauður, selurinn? Því er ég nú búinn að gleyma.“

„Það verður ekki talað við þig,“ sagði hún og heldur óþolinmóðlega, „þú ert með tóma útúrdúra og enginn maður getur séð hvort þér er alvara eða gaman.“

„Mér er þó alvara stundum en núna getur mér ekkert dottið í hug sem vit er í; þú verður að gera þig ánægða með nokkrar vísur; það eru tvö kvæði eftir mig sjálfan og tveimur er snúið.“

„Ég fer sem næst um skáldskapinn þinn,“ sagði systir mín, „það er sjálfsagt eitthvað fallegt en þó ætla ég að biðja þig að hafa hinar yfir fyrst.“

„Öðru kvæðinu er snúið úr dönsku,“ sagði ég þá, „það er munaðarlaus unglingur sem búinn er að missa alla hluti, auð og metorð, og unnustu með glóbjart hár og fagurblá augu; það var um kvöldtíma að hann settist einsamall á leiði móður sinnar og þá kvað hann þetta:

Bíum, bíum,
barnið góða!
sofðu nú sætt
og sofðu lengi,
þó að höll
og hægindislaus
og grafkyrr
í grundar skauti
vagga þín standi.
Vertu í ró!
Heyrirðu stynja
storminn úti
yfir mínum
missi þunga
og átfreka
yrmlingafjöld
furukistu
kroppa þína?
Nú kemur hinn hljóðfagri
næturgali;
heyrirðu mjúkan
munaðarklið?
Var það áður
er þú vaggaðir mér;
nú skal ég, veslingur!
vagga þér aftur.
Hresstu huga þinn
hans við söng;
allt skal eg þér
til yndis velja;
heyrirðu dimma
við dauðans hlið,
barn mitt! hringja
bjöllu þína?
Sé ei hjarta þitt
hart sem steinn,
sjáðu, móðir!
mína iðju:
eg skal af grátviðar
grein þessari
hljóðpípu smíða
handa þér.
Hresstu hug þinn
við hennar róm
er hún einmana
úti kvakar
eins og vindur
á vetrarnótt
villur, vakandi
í votum greinum.
Verð eg að víkja
vöggu þinni frá;
kalt er að búa
við brjóst þitt, móðir!
og ég á mér
ekkert hæli
aftur að verma
inni mig.
Bíum, bíum,
barnið góða!
sofðu nú sætt
og sofðu lengi,
þó að höll
og hægindislaus
og grafkyrr
í grundar skauti
vagga þín standi.
Vertu í ró!

„Ég þekki þessar vísur“ sagði systir mín „en þeim er ekki vel snúið, þú hefðir ekki átt að hafa fornyrðalagið og ...“

„Hitt var ekki vinnandi vegur,“ sagði ég í mestu ákefð og gleymdi mér öldungis, „hefði ég átt að fara eftir frumkvæðinu og hafa sömu stuðlaföll, þá hefði mér tekist enn verr; en hver hefur sagt þér að ég hafi snúið því?“

„Nú hefurðu sagt það sjálfur“ svaraði hún mér brosandi „en svo ég gegni því sem þú ætlaðir að segja, þá held ég leikinn maður hefði getað haldið hvoru tveggja, bragarhættinum og efninu. Þegar snúið er í annan bragarhátt, fær skáldskapurinn oftast nær annan blæ, þó efnið sé reyndar hið sama; og víst er um það að þetta kvæði hefur dofnað, ég veit ekki í hverju; það er nokkurs konar indæl og barnaleg angurblíða í öllu frumkvæðinu og hennar sakna ég mest hjá þér, frændi minn! enda tekstu of mikið í fang að reyna þig á öðrum eins skáldskap og þessi er.“

„Það held ég nú líka“ sagði ég „en þó hef ég vitað suma takast meira í fang; það er nú til að mynda hitt kvæðið sem ég ætlaði að hafa yfir; má ég lofa þér að heyra það?“

Hún gegndi mér öngu og horfði ofan í saumana eins og hún hefði ekki heyrt hvað ég sagði.

„Hana grunar eitthvað“ hugsaði ég með sjálfum mér en lét samt ekki á mér bera og fór að þylja kvæðið. Það var svona:

Dunar í trjálundi, dimm þjóta ský —
döpur situr smámeyja hvamminum í;
bylgjurnar falla svo ótt, svo ótt;
öndinni varpar á koldimmunótt
brjóstið af grátekka bifað:
„Heimur er tómur og hjartað það deyr;
hvergi finnst neitt að eg æski þess meir.
Heilaga! kalla mig heim, ég er þreytt,
hef eg þess notið sem jörðin fær veitt;
því eg hefi elskað og lifað.“
„Tárin að ónýtu falla á fold,
fá hann ei vakið er sefur í mold.
Segðu hvað hjartanu huggunar ljær
horfinnar ástar er söknuður slær;
á himnum þess hygg eg að leita.“
„Tárin að ónýtu falli á fold,
fái' hann ei vakið er sefur í mold;
mjúkasta hjartanu huggun það ljær
horfinnar ástar er söknuður slær
hennar að minnast og harma.“

Systir mín sat kafrjóð og kepptist við að sauma.

„Þessu er, held ég, betur snúið“ sagði ég þá „og þú hefur náð bragarhættinum dável; það hef ég séð þó ég skilji ekki sjálft kvæðið. Þú átt gott að geta skilið þjóðverskuna og það væri vel gert af þér að kenna mér dálítið líka. Mér er kvöl í að skilja ekkert af því sem þeir hafa gert, hann Schiller og aðrir á Þjóðverjalandi.“

„Hvar hefurðu náð þessum vísum?“ sagði systir mín og sá ég hún var bæði sneypt og reið „ég hef alltaf haldið mér væri óhætt að trúa þér og þú mundir ekki taka neitt í leyfisleysi.“

Mér varð bilt við þetta. „Það hef ég ekki heldur gert,“ sagði ég og var stuttur í svari, „þú gafst mér um daginn nokkrar sveskjur, eins og þú líklega manst, og vafðir kvæðinu utan um þær; það var að sönnu uppkast en ég hélt mér væri leyfilegt að lesa það fyrst þú leyndir því ekki meir en svona. Ég hef aldrei haft það yfir fyrr en núna og því síður hef ég sagt frá að þú hafir snúið því.“

„Blessaður! ég ætla að biðja þig að gera það ekki heldur. Mér er ekki mikið um það breiðist út að ég sé að fást við þess háttar; það hefur aldrei þótt mikil prýði á kvenfólki.“

„Vertu öldungis óhrædd“ sagði ég svo blíðlega sem ég gat „en takist þér ekki verr í annað sinn, held ég þú ættir að bera það oftar við; ég skal hjartansfeginn eigna mér allt sem þú gerir -- en það er samt reyndar skömm; þessu ráði verð ég að sleppa.“

„Þér er það held ég óhætt“ sagði systir mín og var nú orðin eins hýr og áður. „Ég yrki varla svo mikið að okkur verði vandræði úr skáldskapnum mínum. En þú hafðir eitthvað eftir sjálfan þig, það held ég verði gaman að heyra.“

„Já, það er satt,“ sagði ég, „það voru tvö smákvæði; annað er síðan í hittifyrra og það er um þig en hitt gerði ég um lóu, í gær eða fyrradag; það eru n ógu falleg kvæði, sér í lagi endinn á þínu.“

„Ég held ég muni úr þér bullið,“ sagði systir mín, „lof mér samt að heyra það seinna.“

„Mig langar til að heyra hitt fyrst,“ sagði ég, „það er best ég fari með þau bæði.“

Hildur gat ekki gert að sér að hlæja en ég gaf mig ekki að því og fór að þylja kvæðið það í hittifyrra:

Sáuð þið hana systur mína
sitja lömb og spinna ull?
Fyrrum átti ég falleg gull;
nú er ég búinn að brjóta og týna.
Einatt hefur hún sagt mér sögu;
svo er hún ekki heldur nísk:
hún hefur gefið mér hörpudisk
fyrir að yrkja um sig bögu.
Hún er glöð á góðum degi
-- glóbjart liðast hár um kinn —
og hleypur þegar hreppstjórinn
finnur hana á förnum vegi.

„Gaman hafði ég af þér þá“ sagði ég kankbrosandi og byrjaði undir eins á hinu kvæðinu; það var reyndar ekki merkilegt; það er svona:

Snemma lóan litla í
lofti bláu „dírrindí“
undir sólu syngur:
„lofið gæsku gjafarans!
grænar eru sveitir lands,
fagur himinhringur.
Ég á bú í berjamó,
börnin smá í kyrrð og ró
heima í hreiðri bíða;
mata ég þau af móðurtryggð,
maðkinn tíni þrátt um byggð
eða flugu fríða.“
Lóan heim úr lofti flaug
(ljómaði sól um himinbaug,
blómi grær á grundu)
til að annast unga smá —
alla étið hafði þá
hrafn fyrir hálfri stundu.

„Það er nú svo,“ sagði systir mín, „sástu til lóunnar sem þú gerðir þetta um?“

„Það trúi' ég ekki“ svaraði ég henni „en svona mun það hafa farið samt, annars hefði mér varla dottið það í hug.“

„Þú talar svo undarlega, frændi!“ sagði Hildur „en nú er peysan búin; við skulum fara og tína í hana allt hvað við getum.“

Þetta starf var skjótt af hendi leyst; við fylltum peysuna með grös, bundum hana við annan pokann og að svo búnu settustum við niður aftur. Þá var komið sólskin niður um dalinn en uppi hjá okkur bar skugga á; hægur blær á sunnan rann um fjallið og flutti með sér líf og yl. Við sátum þegjandi og skemmtum okkur við að sjá skuggana sem liðu í ýmsum myndum yfir engjar og haga eftir því sem skýin losnuðu og bárust á burt um himininn.

„Vildirðu ekki vera svo léttur“ sagði systir mín „að þú gætir sest á einhvern fallegasta skuggann þarna niður frá og liðið svo yfir landið, sveit úr sveit, og séð það sem fyrir ber?“

„Ekki væri það óskemmtilegt“ svaraði ég „en ef skýin þarna uppi eyddust þegar ég væri kominn norður á Sléttu þá færi, held ég, skugginn líka og svo hefði ég ekkert að sigla á aftur heim til þín.“

Systir mín leit við mér einhvern veginn skrítilega, að mér þótti, eins og hún væri að virða mig fyrir sér og sagði heldur seint: „Þá gætirðu sest að á Sléttunni þangað til þú ert orðinn nógu stór til að geta gengið heim aftur og vaðið árnar á leiðinni.“

Þetta svar sárnaði mér eins og von var til og ætlaði ég mér að borga það með einhverjum meinyrðum; en í sama bili heyrðum við voðalegan dynk rétt fyrir ofan okkur og síðan hvern af öðrum svo fjallið skalf og titraði.

„Guð varðveiti mig!“ sagði systir mín, „varaðu þig, blessaður! það er grjóthrun.“

Ég rauk á fætur og ætlaði, held ég, að flýja en þegar mér varð litið upp, fleygði ég mér í fangið á henni og sagði með öndina í hálsinum: „Ég er hræddur við steininn, systir góð!“

Í þessu vetfangi flaug stóreflis bjarg fram hjá okkur; það hófst í háa loft og hjó upp torfur úr rindanum þar sem við stóðum og fyrr en augað eygði var það horfið fram af skeiðinni en dynkirnir ukust nú um allan helming og gráblár reykur og eldlykt gusu upp.

„Tarna eru óttalegar skruðningar“ sagði systir mín og hélt fast utan um mig; en þó ég raunar væri hræddur, sá ég samt að steinninn var floginn fram hjá og fór mér þá að sýnast ráðlegast að bera mig karlmannlega.

„Heyrist þér það?“ sagði ég „en þér er samt óhætt að sleppa, því þær eru allar í skeiðinni fyrir neðan okkur -- þú varst býsna hrædd.“

Í því ég sagði þetta sneri ég mér undan um leið til að þurrka af mér svitann og lofa guð í hálfum hljóðum; því ég sá glöggt að við höfðum verið í lífshættu.

„Þarna ertu kominn!“ sagði systir mín og vissi ekki hvort hún átti að firrtast eða hlæja, „hleypur fyrst í fangið á mér af hræðslu og segir svo ég skuli vera óhrædd og mér sé óhætt að sleppa þegar hættan er um liðin.“

Ég lét eins og ég heyrði ekki þetta en bar mig að snúa talinu við.

„Veistu þá af hverju grjóthrunið kemur?“ sagði ég og var býsna spekingslegur, „það eru sumir steinar sem sitja framan í brekkunni og tolla ekki á neinu nema leir og sandi sem runnið hefur í kringum þá. Nú þegar regnið kemur, skolast allur leirinn í burtu og þá losnar steinninn og fer á stað eins og þér gefur að skilja.“

„Alltént ertu nógu skýr,“ sagði systir mín, „það hefur sjálfsagt verið regnið í dag sem losaði bjargið áðan.“

„Eða þessi þá“ sagði ég og benti upp fyrir okkur; þar stóð maður á klettasnös og bar við himininn.

Nú fengum við nóg að hugsa um annað en grjóthrunið. Við gátum ekki giskað á hvaða maður þetta gæti verið og hvað hann væri að gera upp um tinda.

„Það getur varla verið útilegumaður,“ sagði ég og fór að halda mér í handlegginn á systur minni, „fjallið hérna liggur milli sveita og er ekki, svo ég viti, áfast við jöklana eða Ódáðahraun. Viltu' ekki koma, systir góð! við skulum flýta okkur á stað!“

Í þessu bili fór maðurinn aftur á hvarf eins og hann hefði gengið til fjalls.

„Þér er, held ég, óhætt að sleppa,“ sagði systir mín og hermdi eftir mér, „útilegumaðurinn þinn er farinn.“