Halla/7

Úr Wikiheimild
Halla höfundur Jón Trausti
7. kafli

Veturinn hélt áfram að telja af sér dagana. Einn og einn leið í einu, og löng, köld og koldimm nótt á milli.

En hver dagur, sem leið, hafði jafnan eitthvað til tíðinda, kom aldrei alveg fréttalaus, og fór aldrei án þess að skilja eitthvað eftir til umhugsunar eða umræðu. Íslensku veturnir eru svo duttlungasamir og hneigðir til brigða og breytinga.

Sumarfuglarnir voru farnir, en hinir búnir að flytja sig heim undir bæina.

Það var orðið hljótt úti í högunum; því þótt rjúpurnar, sem nú voru að skipta litum, væru flúnar ofan af heiðunum og setstar að í holtum og móum á milli bæjanna, þá liggur þeim ekki hátt rómur, eins og allir vita, svo þær trufla ekki mikið vetrarkyrrðina. Stöku sinnum sást fálkinn „hnita hringa marga“ yfir högunum, og þótt hann þegði, var auðvelt að sjá, hvað honum bjó í hug.

Heima við bæina tístu snjótittlingarnir og flögruðu fram og aftur í stórum hópum, til þess að njóta þess eins og bræður, ef eitthvað félli til, sem ætilegt væri; engan mátti setja hjá.

Hrafnarnir voru búnir að þinga og skipta sér niður á bæina; hrafnatalan hafði ekki staðið á stöku það árið, svo þeir komust hjá því óþægilega ómaki að lóga einum af félögum sínum. Prestsseturs-hrafnarnir voru fjórir; því á prestssetrinu mátti búast við meiru en annars staðar; þeir áttu að vísu að passa upp á hjáleiguna líka, sem var þar skammt úti í hrauninu; en þaðan var ekki mikils að vænta, svo þeir voru oftast nær allir fjórir heima á staðnum - og auðvitað í stöðugu rifrildi við hundana, sem aldrei létu þá í friði. Raunar gerðu þeir sér ekki far um að lyfta sér mikið hærra frá jörðu en svo, að hundarnir næðu ekki upp til þeirra, og sendu þeim svo tóninn; en það var nóg til þess, að oftast var hægt að komast hjá beinum áflogum.

Tófan var líka farin að vera nærgöngulli, einkum þegar kvölda tók; og það var einungis að þakka aðgætnu augunum undir stóru augnalokunum á Ólafi sauðamanni, að hún fékk ekki oftar fylli sína en hún gerði.

Veðráttan var þó einna þrautseigust að finna upp nýtt og nýtt til tilbreytingar. Það er að jafnaði óþarfi að verða leiður á íslensku vetrarveðráttunni; hún er sjaldan lengi að breyta um búning.

En þennan vetur var hún þó óvenjulega lausheldin við upptekna háttu.

Allar veðurtegundir voru reyndar til skiptis. Það kom frost og bjartviðri, það kom frost og dimmviðri; það kom heiðríkja með sólskini og blíðu og alls engu frosti; það blandaðist líka saman frost og sólskin, dimmviðri og bjartviðri, svo himinninn var allur gráflekkóttur, og aðra stundina kenndi kulda, en hina hlýinda.

En þessi hálfvelgja fann ekki lengi velþóknun; eitthvað þurfti að koma, sem meira kvæði að. Þá kom él, skafningur, blindhríð, karksahríð, stórhríð, blind-stórhríð, og loks „ösku-þreifandi-grenjandi-blindviðris-hríð“, með óstæðu ofsa-veðri og kafalds-fannburði, sem rak niður „fannfergju-gadd“, slétti nákvæmlega af öllum dældum og hlóð sköflum í hverja brekku.

Þegar hún var búin að hamast sig uppgefna, skipti aftur um og birti upp með frosti, marrandi frosti -, stinningsfrosti, bruna- eða jafnvel „bruna-heiftar-heljar-nístandi- frosti“ og norðan-næðingi í ofanálag, til þess að kuldaklærnar gengju sem allra næst beininu á mönnum og skepnum.

Næsta dag á eftir var svo ef til vill kominn sunnanvindur, alveg eins hlýr og sá, sem himinninn hafði sent til að þurrka heyrið í átjándu viku sumars. Eða það var landsunnanrigning með ofsahláku, svo allur snjórinn rann í sundur á fáum stundum, eins og kynt væri undir honum, og allt fór á bullandi sund í blám og krapatjörnum, eins og nýtt syndaflóð væri í aðsigi, svo það, sem lífi vildi halda, varð að láta sér nægja með hóla og hryggi og bíða eftir því að geta komist yfir á næsta hól, þangað til frysti og fært væri á ísum.

Eða þá hlákan var meira hægfara, t.d. austan-þoku-remba, sem hvorki var köld né heit, en alltaf jafnfýld, jafnsviplaus og leiðinleg, og þó allra veðra þrálátust - vís til að vera um kyrrt í marga daga, úr því hún einu sinni var komin; engum til verulegs gagns, en öllum, bæði mönnum og skepnum, til ills og skapraunar, og sýndist ekkert annað erindi eiga en að freista manna til að blóta sér, og hefna sín svo með því að láta þá villast.

En eins og til að setja kórónuna á verk sitt gaf veturinn líka stundir og sýningar, sem allur hinn sannmenntaði heimur mundi hafa viljað gefa ógrynni gulls og auðæfa til að mega sjá frá þessum stað, hefði hann þekkt það, og hefði hann getað notið þess án þess að leggja allt of mikið á sig.

Það voru kvöldstundirnar - þessar löngu, endalausu kvöldstundir, frá því um nónbil á daginn og þangað til um miðnætti, að allir voru háttaðir og sofnaðir - eða réttara sagt: það voru vetrarnæturnar, sem alls staðar á Íslandi eru óviðjafnanlegar, en hvergi þó eins og í þessu héraði.

Kvöldstundirnar, þegar norðurljósin sveifluðu silfurlitum, glitrandi blysavöndum yfir hjarninu, heiðunum og fjallakollunum; þegar þau röðuðu sér í löng, titrandi belti, bragandi og bylgjandi; greiddu sig í sundur eins og þunnar, ljósar slæður og hurfu; en voru jafnharðan komin aftur á öðrum stað, jafneldfjörug og áður. Eða þegar þau aðeins lögðu sig í langa rák þvert yfir himininn, hátt, hátt uppi í blámanum, og létust vera vetrarbrautin, lágu grafkyrr og létu tungl og stjörnur skína í gegnum sig, meðan þau voru að narra gamla, sérvitra bændaöldunga, sem þóttust þekkja vetrarbrautina, til að lesa í sér veðurspádóma fyrir allan veturinn, sem þeir svo trúðu og treystu á eftir. - Eða þegar þau að lokum brugðu fyrir sig fegursta leiknum sínum: undu sig saman og veifuðust til og frá, með frábærum snilldartilburðum og óviðjafnanlegu gliti -, eins og gagnsæ guðvefjarskikkja, sem yndisleg dansdís á leikhúspalli sveiflar og kastar af fádæma fimleik og afburðaíþrótt umhverfis hinn íturvaxna líkama sinn, meðan hún er að seiða og trylla veslings áhorfendurna, vinna sér sjálfri auð og aðdáun og leggja allan heiminn fyrir hina nettu, fimu fætur sína.

En menn voru allt of vanir norðurljósunum um þessar slóðir til þess að gefa þeim mikinn gaum eða tefja sig lengi á því að standa og glápa á þau. Og þegar þeim tókst langbest upp, þá létu menn sér nægja að tauta fyrir munni sér: „Já, já, nú ætlar hann að hvessa bráðum.“ Og svo fóru þeir að aka sér og þukla á sér hér og hvar, hvort þeir fyndu hvergi til giktar, sem væri spádómnum til stuðnings.

Þetta sama höfðu feður þeirra og langfeður gert og sagt, og langömmur og langalangömmur, svo það var þjóðlegt og innlent og mátti rekja ætt erfikenningarinnar upp til Egils Skallagrímssonar eða Ragnars loðbrókar.

Að öðru leyti var himindýrðinni ekki mikið skeytt. Tunglið var það eina, sem nokkur maður veitti eftirtekt, því bæði þurfti að hafa svo mikil not af því sem mögulegt var, til að sjá til út við, og svo var það gamall kunningi, sem ekki var svo létt að loka augunum fyrir, og koma þess veðurspádómur, sem sjaldan brást algerlega.

Hitt, sem skein og tindraði þar lengi uppi í dimmblámanum, reyndi árangurslaust að draga að sér eftirtekt manna. Sumir vissu raunar, að til var stjarna, sem hét Venus, og að hún var stundum kvöldstjarna; en enginn var þó viss um, að það væri hún, sem skein svo skært í dagsbrúninni. Enginn þekkti Síríus, enginn Blástjörnuna, enginn Pólstjörnuna, enginn Karlsvagninn. Órion sveiflaði kylfunni sinni og lét beltið glitra; en það var árangurslaust. Nautið hleypti sér í hnút, albúið til að stanga, og hið eldrauða auga þess, Aldibaran, glóði og tindraði; en það var líka árangurslaust; enginn þekkti himinbolann né gaf honum gaum. Þannig var því einnig farið með himinmerkin. Sjöstjarnan ein var undantekning; því það var eldgömul venja frá þeirri tíð, þegar klukkur voru alls engar, að þegar hún væri komin í nónstað, væri mál að hátta.

En veturinn gaf mönnum líka töluvert að hugsa um niðri á jörðunni og sá mörgum fyrir ósviknu handarviki. Þar tjáði ekki að loka fyrir honum augunum.

Hann gerði mörgum marga óþarfa skráveifu; ekki einungis í kotunum hér og þar í sveitinni, þar sem hann gerði sér hægt um vik og gróf allt í snjó, skefldi fram af öllu og fyllti allt, úti og inni, svo kotungarnir lágu í fönn á nóttunni og skriðu úr fönn á morgnana, - heldur eins, og engu síður, á sjálfu prestssetrinu.

Einkum virtist honum vera uppsigað við kirkjuna, sem var gömul og lasburða og varla fær um að standa af sér gletturnar. Það var sem hann hefði gaman af að láta storminn skaka hana til, svo hún hrikti, eða kippa úr henni einhverri rúðunni, ef ekki heilum glugga; blístra, syngja eða jafnvel tóna í rifum og glufum, álíka ámátlega eins og presturinn og söfnuðurinn á helgidögunum. Eða þá að lofa fjúkinu að smjúga inn um veggina, setja snjókerlingar í prestskonusætið og krókbekkinn, svo þær litu út eins og hvítar vofur og skytu staðarfólkinu skelk í bringu, ef það kom þangað í myrkrinu; leggja fannbryddingar á prédikunarstólinn og altarið, gráturnar og ljósahjálminn, þangað til allt var orðið svo fáránlegt útlits, að það var ekki lengur þekkjanlegt.

En hann gerði gagn með þessum leik, því kvenfólkið notaði kirkjuna fyrir þerrihjall, þegar hún var ekki til annars brúkuð; þvotturinn þornaði þar einstaklega vel, því nógur var súgurinn. Það tók enginn til þess, því venjan var gömul; og presturinn og prestskonan höfðu kynslóð eftir kynslóð ekkert haft við það að athuga; enda þurftu nærfötin þeirra að þorna þar líka.

Margir líta svo á, að ekkert sýni betur metnað og menningarþroska einhverrar þjóðar en kirkjur hennar eða musteri. - Íslensku sveitakirkjurnar eru flestar dágóðar skemmur og afbragðs-þerrihjallar, og eru á þann hátt til sannra þjóðþrifa. -

En svo hætti Kára við að kunna sér ekki hóf og verða of harðhentur við kirkjugarminn. Eitt ofsaveðrið braut trékrossinn ofan af turnklúkunni, svo „blessað guðshúsið“ varð að standa þarna eins og hornbrotin rolla, í meira lagi sneypulegt, þar til það gæti fengið skaðann bættan með vorinu.

En veturinn tók líka ómjúkum höndum á bænum sjálfum. Það veitti stundum ekki af öllum liðsaflanum til að verja hann áföllum, einkum eldhússtrompana, sem voru gamlir tunnuskrokkar, botnalausir þó, sem stungið var niður í gegnum mæninn; og vindskeiðarnar og veðurhanana á bæjarburstunum, húsaþekjurnar og heygarðinn. Ekkert mátti hafa frið.

Svo hafði hann undarlega tilhneigingu til að skefla fullt hlaðið, þar til komin var líðandi skíðabrekka af burstunum og fram á varpa. En þegar gluggar og dyr voru þannig komin í kaf, þá þurfti auðvitað að fara að moka.

Svo stóðu vinnumennirnir í því löðursveittir í margar klukkustundir að moka geilar í skaflinn fram af öllum dyrum, og þá auðvitað fram af stofugluggunum líka. En á milli geilanna stóð skaflinn sem áður, meira en mannhæðar hár, og myndaði eggsléttan, prýðisfallegan vegg inn að bæjardyrunum.

Þangað til næsta bráðahláka kom. - Þá urðu skaflarnir von bráðar að vatni og runnu inn í bæjardyrnar, mynduðu þar eins stórt og djúpt stöðuvatn og rúm leyfði og héldu svo áfram inn göngin, ef ekkert var að gert. Þá þurfti að fara að ausa - ausa, með fötum og stömpum, og karlmenn og kvenfólk að hjálpast að. Jafnhvimleiðan gest þurfti að reka af höndum sér!

En þetta voru allt saman ekki annað en algeng óþægindi, sem enginn tók sér nærri.

En veturinn leið og taldi af sér dagana; engum leiddist hann til muna, því hann færði hverjum og einum nægar tilbreytingar. Dagarnir smástyttust, sólin lækkaði, síðast sást aðeins ofur lítil rönd af henni; svo hvarf hún líka, og prestssetrið var sólarlaust í nokkrar vikur.

Svo komu sólstöður, þá jól og nýár - allt hvað með sínar stundastyttingar og sínar þrautir og glaðningar; og loks kom þorrinn og sólin kom aftur, dagarnir lengdust og það glaðnaði yfir hverju andliti, því allir fundu, að þá hallaði aftur móti blessuðu vorinu.

En langmesta breytingin, sem veturinn leiddi yfir prestssetrið, var þó það, að presturinn var fluttur inn í baðstofu.

Það leyndist engum, að það var ólifandi í stofuskriflinu, sem var ofnlaust og að öðru leyti eins og áður er lýst, og seinast sá gamla prestsekkjan það líka. Henni var raunar ekkert vel við að leyfa nýja tímanum, sem fyrir henni birtist í veru unga prestsins, að flytja svo langt inn í einveldi sitt. En í það mátti þó ekki horfa, því það lá í augum uppi, að í stofunni var hvergi vært annars staðar en niðri í rúminu, og að presturinn var hindraður frá allri vinnu sinni, ef hann ætti að vera þar lengur.

Hann hafði að vísu alls ekki kvartað sjálfur, og Halla hafði lítið haft orð á því, hvernig stofuvistin væri í raun og veru. En þess þurfti ekki; gamla konan fór nærri um það.

Og einn dag ómakaði hún sig, „í eigin háu persónu“, fram í stofu til prestsins til að spyrja hann að, hvort hann mundi geta gert sér að góðu að flytja inn í baðstofu til hins fólksins og reyna að búa við þau þægindi, sem hún gæti látið honum þar í té.

Það var ekki laust við, að prestinum óaði við að eiga að flytja inn í baðstofu. Hann hafði ekki sofið í baðstofu síðan hann var lítill drengur, og sú þekking, sem hann síðar hafði fengið á baðstofum og baðstofulífi, hafði vakið hjá honum svo mikla óbeit, að hann gat varla hugsað sér, að hann nokkurn tíma kynni við sig í baðstofu.

En nú voru aðeins tveir kostir fyrir hendi og hvorugur góður: Annar var sá, að flytja burtu af prestssetrinu og reyna að hola sér niður á einhverjum af bæjunum í grenndinni, - og þá var þeim stíað í sundur, Höllu og honum - eða þá að þiggja baðstofuvistina, því í stofunni gat hann ekki haldist við.

Og þegar gamla prestsekkjan, sem hann aðeins einu sinni áður hafði talað við og sem hann þekkti að stórlyndi og göfuglyndi, kom nú sjálf til að færa þetta í tal við hann, og hann vissi, að það mundi særa hana, ef hann tæki því illa, þá gat ekki komið til mála að hafna boðinu.

Baðstofunni var þannig háttað, að uppgangan úr göngunum var því nær á miðjum palli, og hurð þar yfir, sem sjálf skelltist að stöfum. Til beggja enda í baðstofunni voru afþiljuð herbergi; en miðbaðstofan, sem var stærðargímald, lá á milli þeirra, og stóðu þar rúm vinnufólksins.

Annað herbergið var eingöngu ætlað prestsekkjunni og hennar nánustu, og engum öðrum hleypt þangað inn til næturvistar.

Hitt herbergið var dálítið minna, en þó ekki næsta lítið. Það hafði verið afþiljað handa börnum prestsins sáluga, þegar þau fóru að komast upp; en nú voru þau öll farin að heiman, og hafði herbergið eftir það verið notað handa gestum, en jafnframt til geymslu á ýmsum þeim hlutum, sem gott var að hafa við hendina, en til þrengsla voru í baðstofunni.

Nú var það rutt og hreinsað og gerðar á því allra nauðsynlegustu umbætur, og reyndist það þá ekki óvistlegt.

Einfalt, þunnt skil skildi herbergið frá miðbaðstofunni og náði ekki nema upp að efri bitum; þar fyrir ofan var mænirinn óskiptur eftir endilangri baðstofunni.

Dyr voru úr miðbaðstofunni inn í herbergið, en hurðin í þeim var mjög þornuð og orpin og erfitt að fá hana til að falla að stöfum; af þessu leiddi, að hvert orð heyrðist á milli herbergjanna og að lítill var munur á lofti fyrir innan og framan. Glugginn var aftur nokkuð stærri þar inni en gluggarnir á miðbaðstofunni, og því þolanlega bjart, og borð allgott hafði verið látið þangað inn handa prestinum.

Umskiptin voru því að mörgu leyti til bóta. Þarna var honum þó hlýtt, og það hvorki lak ofan á hann né súgaði um hann. Auk þess átti hann eftir sem áður frjálsan aðgang að stofunni, sem nú var aðeins notuð handa gestum, og mátti geyma þar bækur og annað og vera þar í einrúmi, þegar honum þótti sér henta.

Það, sem hann átti erfiðast með að venja sig við inni í baðstofunni, var loftið. Það var alltaf þungt og innibyrgt og blandað með fjósþef, því fjósið var niðurgrafið undir miðbaðstofunni, en utangengt í það. Auk þess sárleiddist honum framan af skvaldrið í vinnufólkinu í miðbaðstofunni, sem hann var neyddur til að heyra, og hroturnar í vinnumönnunum héldu fyrir honum vöku á nóttunni.

En þetta hafði þó líka kosti sína. Þarna var hann nær mönnum og ekki eins einangraður eins og áður, heyrði mannamál, glaðværð og flágjalla griðkonuhlátra, ýmist inni í baðstofunni eða frammi í göngunum, og þótt til séu hlátrar sem ekki láta vel í eyrum allra, þá hafa þeir þó ætíð einhver fremur þægileg áhrif og draga að sér athyglina.

Hann hafði heldur aldrei kynnst baðstofulífi á sveitaheimili síðan hann óx upp, svo margt nýstárlegt var nú að sjá og heyra.

Og þó þetta baðstofuhjal að vísu truflaði hann nokkuð frá störfum hans, þá dreifði það um leið hugsununum hans, svo þær settust ekki að honum með slíkri áleitni sem áður.

Það lakasta var, að hann var ekki eins út af tyrir sig með Höllu þarna inni eins og frammi í stofunni; að vísu hélt hún áfram að annast hann, en umgekkst hann með stakri varúð, því þarna voru þau innan um annað fólk, og reið því á fyrir þau bæði að láta ekki við nokkurt tækifæri sjá neinn minnsta vott um nánari kunnugleik.

Halla var því hæg og alvarleg í hvert skipti, er hún gekk þar um; brosin og tillitin, sem hún hafði átt til, þegar hún kom til hans í stofunni, voru sem týnd og gleymd. Honum féll þetta þungt í fyrstu, þótt hann gæti sér til, af hverju það væri runnið, og hann saknaði fyrri framkomu hennar.

En þegar tækifærið gafst, komst hann sér til mikillar gleði að raun um, að þessi hnoss hans voru ekki týnd eða gleymd, heldur aðeins vandlega geymd.

En fyrir heimilisfólkið var þó flutningur prestsins inn í baðstofuna ennþá meiri tíðindi en fyrir hann sjálfan. Fæst af því hafði nokkur persónuleg kynni af honum til þessa, og nú lá það eins og farg á því að vita hann svo nálægt sér, eða réttara sagt mitt á meðal sín.

Það var eins og oddurinn væri brotinn af allri kátínu og gáska í miðbaðstofunni, síðan hann kom í herbergið, því margt af því, sem það hafði sagt og gert sér til gamans og hlegið dátt að í sinn hóp, var þess eðlis, að það hirti ekki um að láta ókunnuga heyra það, og allra síst prestinn.

Jag og orðahnippingar milli vinnufólksins var líka lamað til muna, því færi einhver að hreyta fúkyrðum í hálfkæringi, eins og oft hafði átt sér stað áður og sjaldan leitt af sér langvinna óvináttu, þá dró það til muna bæði úr orðunum og áherslunum, ef viðkomandi var minntur á, að hann skyldi nú láta prestinn heyra þetta!

Og þegar Sigga litla, niðursetningurinn, var að skæla af því, til dæmis, að henni þótti sér óþarflega mikið kembt um höfuðið eða þvegið of vandlega í framan, þá var það ráð, sem sjaldan brást, til að þagga niður í henni, að minna hana á, að presturinn heyrði til hennar. Því þó að vinnukonurnar mættu heyra Siggu orga og vera vonda, og jafnvel húsmóðirin líka, þá mátti presturinn ekkert hafa af jafnljótu að segja.

En þótt návist prestsins hefði þannig bætandi áhrif á baðstofulífið að nokkru leyti, þá lá þó við, að áhrifin ætluðu að verða of sterk.

Heimilisfólkinu fannst baðstofuvistin daufleg, þar sem það aldrei mátti „skvetta sér upp“, eins og það komst að orði, og flúði þá í framhýsi til þess að gefa gáskanum lausan tauminn, þótt ekki væri nema um fá augnablik - eða þá til þess að gera upp sín á milli, ef eitthvað var óúttalað, og svala sér þá á þann hátt, er því þótti best við eiga, og skeytti því lítið, þótt einhver ofur lítill ómur af hávaðanum heyrðist inn í baðstofu og alla leið inn til prestsins.

En að jafnaði sátu menn eins og brúður, hver á sínu rúmi, með verk sitt alla kvöldvökuna, svo að lítið varð til tíðinda.

Það hafði áður verið venja á vetrarkvöldum að lesa upphátt sögur í baðstofunni eða kveða rímur, og hafði gamli presturinn sjálfur og kona hans stutt þann þjóðlega sið rækilega. Nú varð lítið úr því, vegna þess að enginn af heimamönnum fékkst til þess. Enginn treysti lestrarkunnáttu sinni svo, að hann teldi hana boðlega, þar sem ungur, ókunnugur prestur heyrði til, sem nýkominn var sunnan úr Reykjavík og slíkum lestri lítið vanur.

Enginn vissi heldur, hvernig rímnakveðskapurinn mundi láta í eyrum hans; menn gátu allt eins búist við, að honum mundi falla það svo illa og að það mundi trufla hann svo í störfum sínum og andlegum hugleiðingum, að hann neyddist til að koma fram í dyrnar og mælast til þess, að hætt yrði, og var þá verr farið en heima setið.

Halla hafði oft gert þetta hvort tveggja undanfarna vetur, en nú fékkst hún ekki til þess heldur.

Það leit jafnvel út fyrir það um tíma, að húslestrarnir mundu ætla að leggjast niður, sem voru þó ævagamall siður þar á heimilinu.

Raunar voru þeir menn til á heimilinu, og enginn vissi hve margir þeir voru, sem ekki hefðu séð eftir því, þótt svo hefði farið. Þessir hugvekjulestrar voru þeim ekki til annars en leiðinda. Þeir urðu að leggja frá sér allt verk, því enginn mátti vinna um lesturinn, og þeir urðu að taka ofan, þótt þeir hefðu setið með hatt eða húfu eða lambhúshettu allt kvöldið, og þeir urðu að vera hljóðir og alvarlegir og halda að sér höndum, máttu ekki blóta og - umfram allt ekki sofna.

Þetta var nú í raun og veru allt saman sjálfsagt; því hvað sem í þessum hugvekjum stóð og hvort sem nokkur skildi það eða ekki, þá var það þó „guðsorð“.

Það lakasta var að mega ekki einu sinni brosa, hvað þá heldur hlæja, þegar svo illa tókst til, að allur lesturinn fór í handaskolum, eða hver setti annan út af laginu í sálminum, hvað eftir annað, eins og oft kom þó fyrir.

Og sumir áttu meira að segja bágt með að skilja í, hvaða gagn guð hefði af þessu húslestrarkáki, eða hvort hann mundi fyrirgefa einu einustu synd fremur vegna þess.

En gamla prestskonan var ekki alveg á því að láta þennan gamla, þjóðlega guðræknissið leggjast niður. Og þegar hún fékk engan af heimamönnum til að lesa hugvekjuna, þá las hún hana sjálf, og þegar enginn fékkst til að byrja sálminn, þá byrjaði hún sjálf og söng hann ein, ef enginn þorði að taka undir með henni, og þá fór hann alls ekki hlægilega úr hendi, því hún hafði haft lagleg hljóð í æsku, og söng enn þá hiklaust og lagvisst.

Höllu fannst þó sem heimilisfólkinu væri öllu minnkun ger með þessu, svo hún bauð gömlu konunni að lesa fyrir hana, og þá hún það, því Halla var afbragðsvel lesandi. -

Sá eini, sem lét sér það vel líka, að presturinn var fluttur inn í baðstofu, var Ólafur sauðamaður.

Rúmið hans var meðfram skilrúminu að herbergi prestsins, og hélt hann sig þar oftast, þegar hann var í baðstofunni, sem raunar var ekki nema seinni part vökunnar, eftir að hann kom heim frá fénu.

Návist prestsins var honum vörn gegn ertni heimamanna, því enginn vildi hleypa honum upp í hávaða eða fara illa með hann í orði eða verki inni í baðstofunni, svo presturinn heyrði til, svo Ólafur hafði nægan tíma til að hugsa hugsanir sínar í næði og ótruflaður.

Hann hafði líka kynnst prestinum meira en flestir aðrir heimamenn, og leyfði sér það, sem öðrum fannst óhæfa, en það var að víkja sér inn fyrir þilið til prestsins og fara að taka hann tali, án þess að eiga þangað nokkurt erindi. Þetta kom þó sjaldan fyrir, og ekki nema á sunnudagskvöldum, því þá kom það helst að Ólafi að þvo sér einhvern tíma dagsins, og jafnvel fara í skárri garmana, og þá fannst honum hann best til þess fallinn að ganga fyrir höfðingja.

Prestur tók honum ætíð vel, þegar hann kom, og varð enda feginn, að einhver kom inn til að tala við hann stöku sinnum, þótt ekki væri nema Ólafur, því fáir gerðu það annars. En þætti heimilisfólkinu, eða húsmóðurinni, Ólafur þaulsætnari þar inni en góðu hófi gegndi, var jafnan að lokum kallað á hann, undir því yfirskyni, að hann var beðinn að gera eitthvert handarvik til heimilisþarfa, og varð hann þá að slíta talinu að sinni.

Annars sat Ólafur lengstum á rúmi sínu, með uppbrotna vaðmálshúfu á höfðinu, en fór úr treyjunni og lagði hana á höfðalagið. Skinnleistana hafði hann oftast á fótunum fram að háttatíma, nema ef allt of mikinn ýlduþef lagði af þeim, svo ástæða var til að reka hann úr þeim með harðri hendi.

Oftast snerust hugsanirnar þá um Höllu og framtíðina í sambandi við hana. Hann hafði bætt við sig ekki svo fáum spesíum um haustið, fyrir fé, sem hann hafði selt, og hafði auðvitað sýnt Höllu viðbótina, og hún látið vel yfir. Hún var líka alveg hætt að erta hann við nokkurt tækifæri, og ómögulegt að koma henni til þess, þótt reynt væri til þess, eins og áður, og þótt þau væru ekki í baðstofunni eða annars staðar í návist prestsins.

Þetta fannst honum vera talandi vottur þess, að hugur hennar væri að snúast. Og fögnuður hans með sjálfum sér yfir því tók engu tali. Þó hafði hann ekki enn þá haft kjark til að stynja upp bónorðinu.

Oftast sat Ólafur auðum höndum, því ekki þótti annað sæma en að fjármaðurinn væri undanþeginn allri skylduvinnu inni við þá stund af vökunni, sem hann var heima. Þó kom það að honum, að hann bauðst til að taka sér verk í hönd, og þá helst að kemba fyrir Höllu.

Hann kembdi þá hverja kembu fyrir sig mjög vandlega, tók hana síðan úr kömbunum, brá henni upp við ljósið og leit í gegnum hana.

Það var gamalla manna mál, að eftir kembum ógiftra karlmanna ættu konur þeirra að fara. Kemban var spásögn; væri hún falleg, átti konan líka að verða falleg. En væri hún ljót, þá var ekki von á góðu.

Kembur Ólafs voru greiðar og snotrar útlits, svo hann var ekki í efa um, að þær gætu átt við Höllu; en þegar hann leit í gegnum þær, var jafnan svartur hnökri eða flóki einhvers staðar í kembunni, sem virtist spá því, að þótt konan yrði snotur, mundi þó hjúskaparhiminninn fráleitt verða flókalaus.

Um haustið og fram eftir vetrinum voru messur allfjölsóttar hjá síra Halldóri, þótt aldrei væri kirkjufyllir. Fólkið skiptist á um það á bæjunum að fara til kirkjunnar, sinn sunnudaginn hvað, svo enginn skyldi þurfa af því að missa að sjá nýja prestinn og heyra til hans. Á þennan hátt höfðu líka flest safnaðarbörnin hlotið blessunina einu sinni að minnsta kosti, og mörg oftar.

Fagnaðarvíma safnaðarins yfir fyrstu ræðunni hafði bráðlega rokið burtu aftur, og þeir, sem komu heim frá kirkjunni þar á eftir, þóttust engin sérleg tíðindi hafa að flytja. Margir voru þá þeir, sem ekki trúðu þeim, og fóru sjálfir í annað sinn, til að sannfærast, en komu aftur hálfsneyptir.

Orsökin var sú, að síra Halldór hafði eftir langa umhugsun komist að þeirri niðurstöðu, að hann hefði verið óþarflega stórmæltur í kveðju sinni til safnaðarins, og forðaðist það, að slíkur guðmóður gripi sig framar, en reyndi þar á móti að vanda ræður sínar sem mest og nota sem best sönnunargögn þau, sem ritningin lagði honum í hendur, en fylgdi svo handriti sínu, þegar í stólinn var komið. Ræðurnar voru því ekki nálægt því eins áheyrilega fluttar og ekki eins fullar af eldlegum áhuga eins og sú fyrsta.

Söfnuðurinn fann mismuninn, en gat ekki gert sér grein fyrir, hvernig á honum stóð; og þegar þar við bættist, að presturinn tónaði ekki meira en í meðallagi áheyrilega, þá komst söfnuðurinn smátt og smátt að þeirri niðurstöðu, að presturinn sinn nýi tæki ekki mikið fram þeim prestum, sem hann hafði áður þekkt. Svo dró smátt og smátt úr kirkjusókninni. Á sjálfan jóladaginn varð messufall, og eftir það um veturinn voru messur fremur sjaldgæfar.

Halldór prestur sá það vel, að það var rokin af honum mesta gyllingin í augum safnaðarins, en tók sér það ekki svo harla nærri. Hann var nú búinn að fá brauðið, svo það varð ekki af honum tekið, síst svona upp úr þurru. Hann vissi líka vel, að söfnuðurinn hafði í raun og veru ekkert út á sig að setja.

Hann þorði óragur að leggja ræðurnar, sem hann hafði haldið og geymdi skrifaðar, fram fyrir hvern guðfræðing sem væri. Þær voru forsvaranlegar, og meira en það. Hann áleit jafnvel söfnuðinn ekki hafa gott af kjarnmeiri kosti að jafnaði, og varhugavert, bæði fyrir hann sjálfan og stétt hans í heild sinni, að gera söfnuðinn of heimtufrekan.

Aftur á móti var hann ekki í efa um, að hann við tækifæri, eða þegar sér réði svo við að horfa, gæti tekið söfnuðinn líkum tökum og í fyrsta skiptið og sýnt honum þannig við og við, hvað hann ætti undir sér.

Hann var því ekki svo mjög kvíðandi fyrir því, að sér mundi ekki takast að gera sig þolanlega þokkaðan hjá söfnuðinum - ef ekkert annað kæmi fyrir.

En þetta „annað“, sem hugsanlegt var, að komið gæti fyrir - það var einmitt það, sem gerði hann ókyrran og kvíðandi. Það bjó í honum sjálfum og gat ekki við hann skilið. Dag og nótt lá það á honum eins og mara og gerði honum svart fyrir sjónum.

Það var leyndarmálið milli hans og Höllu.

Fundir þeirra urðu sjaldgæfari, eftir að hann flutti inn í baðstofuna, og þau höfðu lengri tíma til þess að hugsa hvort sínar hugsanir á milli þeirra. Það var því ekki laust við, að þau fjarlægðust hvort annað, eftir því sem fram liðu stundir.

En þegar þau höfðu mælt sér mót eða þegar fundum þeirra bar þannig saman, að þau gátu látið hugsanir sínar og tilfinningar óhikað í ljós hvort við annað, þá fékk hann jafnan nýja staðfestingu á því, að hún elskaði hann - elskaði hann og treysti honum takmarkalaust.

En þessi ást og þetta traust var honum þungt áhyggjuefni. Hann var ekki í vafa um hvern enda það hlyti að hafa. Og hann kveið fyrir lyktunum. Hann kveið fyrir þeirri stund, þegar hann þyrfti að segja Höllu, hvernig í öllu lægi, að segja skilið við hana að eilífu, slíta sig úr faðmi hennar og horfa upp á, hvernig henni yrði við þetta allt saman.

En þessi stund hlaut þó að koma, og hver dagurinn, sem leið, færði þau bæði nær þessari skelfingu.

Þetta var sú hugsun, sem hann gat aldrei losað sig við og aldrei lét hann hafa frið. Fyrir henni urðu öll önnur óþægindi: prestsembættið, prestssetrið, fólkið, baðstofuvistin, fjósaþefurinn, „forpokunin“ - allt, að þoka úr sæti.

Þessi sinnissjúkdómur elnaði þó fyrst fyrir alvöru, þegar hann seint um veturinn fékk bréf með landpósti að sunnan.

Annað var frá konunni hans. Það var fullt af blíðmælum og lýsingu á því, hve innilega hún þráði, að hann kæmi suður að vitja sín.

Hitt var frá móður hennar. Það var afdráttarlaus og skýlaus skipun um, að hann yrði að koma suður og sækja konu sína með vorinu, svo þau gætu valið besta tíma ársins til ferðarinnar. Hann var því ekki í efa um vilja hennar og myndugleika.

Honum fannst sem þessi bréf mundu ganga fram af sér. Að hann skyldi vera í þeim kringumstæðum, að slík bréf gætu borist honum, og það eins og nú var ástatt! Ef hann kveið fyrir því að skilja við Höllu, þá kveið hann nú ekki minna fyrir því að koma fyrir augu tengdamóður sinnar.

Hann fann það, þótt í fjarlægð væri, hvernig tillit hennar mundi bora sig eins og nafar gegnum sig, og hversu erfitt sér mundi veita að standast slíka rannsókn. En hjá henni var þó ekki hugsandi til að komast.

Og svo konan, sem hann átti að hafa heim með sér. Það fór hrollur um hann við að hugsa til þess. Hvernig mundi slík sambúð verða? Hvernig mundi honum takast að leyna sér fyrir henni, ekki um stundarsakir aðeins, heldur alla þeirra ævi?

Stöðugur flótti, stöðug undanbrögð, stöðug blekking, stöðug lygi og hræsni, - það var lífið, sem hann átti í vændum.

Það var eins og eitur í æðum hans. Hann fann, hvernig það hlyti að sýkja sig siðferðislega og kvelja lífið úr virðingu sinni fyrir sjálfum sér.

Og ef svo feluleikurinn einhvern tíma mistækist. Ef hún kæmist á snoðir um allt saman, aðeins hún ein, þótt enginn vissi það annar? Nei, hann mátti ekki hugsa til þess; það gerði honum of svart fyrir sjónum.

En dagarnir liðu, og skilnaðarstund þeirra Höllu var að minnsta kosti óhjákvæmileg.

„Ó, þið miskunnarlausu örlaganornir! Að þið skylduð geta spunnið alla þessa þræði utan um einn mann - -!“

Hugsanir Höllu lögðust ekki eins þungt á hana. Ástarsælan fyllti svo huga hennar, að henni var að jafnaði bjart fyrir innri augum.

Hún fann, að hann elskaði hana, og henni var það ómetanlegur unaður að vita, hvað hún var honum dýrmæt.

Hún þráði samfundi þeirra, og þegar hann bað hana að koma til móts við sig á einhverjum tilteknum stað, eða þegar hún gat laumað að honum bendingu um, að tækifæri byðist til leynifunda, þá hlakkaði hún til þess eins og barn, að sú stund rynni upp.

Hún leitaði aldrei frétta af honum um hagi hans; hún varpaði allri sinni áhyggju upp á hann.

Og þegar einhver efasemd vaknaði hjá henni, eða þegar einhverjar hvimleiðar hugleiðingar leituðu á sál hennar, braut hún þær á bak aftur með þeirri hugsun, að allt, sem fram færi, væru fyrirfram ákveðin forlög - vilji sjálfrar forsjónarinnar.

Hún sneiddi hjá að hugsa um, hvert þetta kynni að bera, eða jafnvel hlyti að bera á endanum; hún vandi sig við að berast áfram með atvikunum og gera aðeins sitt til, að allt færi vel fram og enginn yrði þess áskynja, hvað væri að gerast.

Hún naut leyndarmálsins og hamingjunnar, sem það færði henni, og forðaðist að krydda þann blessunarbikar með áhyggjum og efasemdum. Hún var - enn þá - sæl í ást sinni.

Draumsjónir hennar um það, að hún ætti eftir að verða prestskona, voru að vísu farnar að blikna. Henni fannst hún eiginlega engar kröfur gera til þeirrar tignar; það var sem henni stæði því nær á sama, hvort það yrði svo eða ekki. Hún vissi, að presturinn elskaði sig; það fyllti huga hennar. Hvort hann tæki sig fyrir eiginkonu eða hvað hann gerði af sér, það lagði hún á hans vald. Hún var reiðubúin til að þjóna honum - þótt það ætti að vera sem ambátt, ef hún aðeins aldrei þyrfti að skilja við hann.

Halla var friðsöm á heimilinu og sneiddi sig fremur hjá hinu fólkinu. Hún hafði alltaf gert það; en hún gerði það þó fremur en áður þennan vetur. Hún komst því oftast hjá orðahnippingum og ertni, sem var daglegt brauð meðal hins vinnufólksins. Og þegar amast var við henni og hreytt til hennar af öðrum, reyndi hún að eyða því án þess að hleypa því í hávaða.

Hinar vinnukonurnar gáfu Höllu illt auga. Þær ímynduðu sér, að hún miklaðist af sérstöðu sinni á heimilinu og þættist ekki jafningi þeirra lengur, og það sveið þeim, því þær litu svo á, sem hún hefði ekkert fram yfir þær að neinu leyti og að hver þeirra um sig hefði verið verki hennar eins vel vaxin eins og hún. Þetta biturlyndi þeirra kom fram við Höllu á ýmsan hátt, en þó einkum í glósum um hana og prestinn.

Höllu var að vísu lítið um þessar glósur gefið. En hún vandi sig þó á að taka þeim með stillingu, og veitti það því léttara, sem hún heyrði einmitt á þeim, að hinar stúlkurnar höfðu einskis orðið áskynja um ævintýr hennar. - -

Svo var það eitt kvöld seint um veturinn, að vinnukonurnar voru að störfum sínum hér og þar um frambæinn, og Halla líka. Varð henni þá eitthvað sundurorða við eina vinnukonuna, gleiðmynnta og orðfreka griðku, sem einskis sveifst, þegar svo bar undir.

Hún byrjaði þegar á venjulegum glósum um stöðu Höllu á heimilinu og hve mikið hún liti á sig og léti yfir sér, og sagði að lokum með gjallandi og allt annað en góðgjarnlegum rómi, að hún skyldi nú samt ekki láta sér detta í hug, að presturinn tæki hana að sér, því að hann væri giftur. Það hefði hún sannfrétt.

Og þessari síðustu athugasemd lét hún fylgja hvellan og bitran kuldahlátur, svo það glumdi í bænum.

Halla var stödd í göngunum, þegar hún heyrði þetta. Það vildi henni til heilla, að það var myrkur umhverfis hana, svo enginn sá, hvernig henni varð við. Hefði nokkur haft tækifæri til að veita því eftirtekt, er hætt við, að blæjan hefði lyfst af leyndarmálinu.

Hún fann, að hún náfölnaði, og hún reikaði, eins og hún ætlaði að líða í ómegin.

Þessi frétt hafði smogið í barm hennar eins og hnífur; það var líkast því, að hún fyndi kalt blaðið inn við hjarta sér.

Hún forðaði sér burt úr göngunum, burt af almannafæri til þess að leita einverunnar.

Hún skalf á beinunum og var sem altekin af sóttveiki.

Giftur -! Út í þetta hafði hún aldrei hugsað áður. Hún hafði ekki viljað hugsa um annað eins.

En gat þetta verið satt? Hvað hafði stelpan fyrir sér í þessu?

Átti hún að spyrja hana?

Nei, hún mátti engan spyrja, engum trúa fyrir þessu dýrmæta leyndarmáli. Að spyrja um þetta var hið sama sem að ljósta öllu upp.

En - þetta gat ekki verið satt.

Hann, sem elskaði hana eins heitt eins og hún ein vissi. Hann gat ekki verið giftur annarri.

Hún mátti ekki hugsa til þess, að hann væri giftur annarri, elskaði aðra en sig. Nei, það gat ekki verið satt. Stelpan hlaut að ljúga þessu til þess að reyna að særa hana.

Og þó - -! Henni fannst eins og hún hanga í flughömrum yfir djúpum gjám, þar sem hún gat enga björg sér veitt. Hana svimaði; hún gat ekki hugsað, ekki ályktað; allt blandaðist saman í huga hennar. Hún gat ekki annað en fleygt sér niður og grátið, grátið eins og barn, grátið langt fram á nóttina. - -

En eftir þetta var hún betur undir það búin að taka hverju því, sem að höndum bæri.

Hún vann brátt aftur svo mikið vald yfir sér, að hún gat látið sem ekkert væri að fremur en áður, bæði við prestinn og aðra.

Hún lagði samt engan trúnað á það, sem vinnukonan hafði sagt. En, samt - samt hringdi það alltaf fyrir eyrum hennar: Hann er giftur, giftur - og svo hlátur vinnukonunnar.