Halldórs þáttur Snorrasonar hinn síðari

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Halldórs þáttur Snorrasonar hinn síðari

1. kafli[breyta]

Halldór Snorrason hafði verið út í Miklagarði með Haraldi sem áður er sagt og kom í Noreg með honum austan úr Garðaríki. Hafði hann þá mikla sæmd og virðing af Haraldi konungi. Var hann með konungi þenna vetur er hann sat í Kaupangi.

En er á leið veturinn og vora tók bjuggu menn kaupferðir sínar snemma því að nálega hafði engi eða lítill verið skipagangur af Noregi fyrir sakar ófriðar og aga þess sem verið hafði milli Noregs og Danmerkur. En er á leið vorið fann Haraldur konungur að Halldór Snorrason ógladdist mjög. Konungur spurði einn dag hvað honum bjó í skapi.

Halldór svarar: „Út fýsir mig til Íslands herra.“

Konungur mælti: „Margur mundi þó heimfúsari verið hafa eða hver eru fararefni eða hversu verst fénu?“

Hann svarar: „Skjótt ætla eg að verja því að ekki er til nema ígangsklæði mín.“

„Lítt er þá launuð löng þjónusta og margur háski og skal eg fá þér skip og áhöfnina. Skal faðir þinn sjá mega að þú hefir mér eigi til engis þjónað.“

Halldór þakkaði konungi gjöfina. Fám dögum síðar fann Halldór konung og spurði konungur hversu mjög hann hefði ráðið sér skipverja.

Hann svarar: „Allir kaupsveinar hafa sér ráðið áður skipan en eg fæ enga menn og því ætla eg að eftir mun verða að vera skip það er þér gáfuð mér.“

Konungur mælti: „Eigi er þá vinveitt gjöfin og skulum við enn bíða hvað úr ráðist um háseta.“

Annan dag eftir var blásið til móts í bænum og sagt að konungur vill tala við bæjarmenn og kaupmenn. Konungur kom seint til mótsins og sýndist með áhyggjusvip þá er hann kom.

Hann mælti: „Það heyrum vér sagt að ófriður muni kominn í ríki vort austur í Vík. Ræður Sveinn Danakonungur fyrir Danaher og vill oss vinna skaða en vér viljum með engu móti upp gefa vor lönd. Fyrir því leggjum vér bann fyrir hvert skip að úr landi fari fyrr en eg hefi slíkt sem eg vil af hverju skipi, bæði af liði og vistum, nema einn knörr eigi mikill er á Halldór Snorrason skal ganga til Íslands. En þótt yður þyki þetta nokkuð strangt er áður hafið búið ferðir yðrar þá ber oss nauðsyn til slíkra álaga en betra þætti oss að um kyrrt væri að sitja og færi hver sem vildi.“

Eftir það sleit mótinu. Litlu síðar kom Halldór á konungs fund. Konungur spurði hvað þá liði um búnaðinn, hvort hann fengi nokkura háseta.

Halldór svarar: „Helsti marga hefi eg nú ráðið því að miklu fleiri koma nú til mín og beiða fars en eg megi öllum veita og veita menn mér mikinn atgang að drjúgum eru brotin hús til mín svo að hvorki nótt né dag hefi eg ró fyrir ákallsi manna hér um.“

Konungur mælti: „Haltu nú þessum hásetum sem þú hefir tekið og sjáum enn hvað í gerist.“

Næsta dag eftir var blásið og sagt að konungur vill enn tala við kaupmenn. Nú var eigi sein aðkoma konungs til mótsins því að hann kom í fyrsta lagi. Var hann þá blíðlegur í yfirbragði.

Hann stóð upp og mælti: „Nú eru góð tíðindi að segja. Það er ekki nema upplost og lygi er þér heyrðuð sagt um ófriðinn fyrra dag. Viljum vér nú leyfa hverju skipi úr landi að fara þangað sem hver vill sínu skipi halda. Komið aftur að hausti og færið oss gersemar. En þér skuluð hafa af oss í mót gæði og vingan.“

Allir kaupmenn er þar voru urðu þessu fegnir og báðu hann tala konunga heilastan.

Fór Halldór til Íslands um sumarið og var þann vetur með föður sínum. Hann fór utan eftir um sumarið og þá enn til hirðar Haralds konungs og er svo sagt að Halldór var þá eigi jafnfylginn konungi sem fyrr og sat hann eftir um aftna þá er konungur gekk að sofa.

2. kafli[breyta]

Maður hét Þórir Englandsfari og hafði verið hinn mesti kaupmaður og lengi í siglingum til ýmissa landa og fært konungi gersemar. Þórir var hirðmaður Haralds konungs og þá mjög gamall.

Þórir kom að máli við konung og mælti: „Eg er maður gamall sem þér vitið og mæðist eg mjög. Þykist eg nú eigi til fær að fylgja hirðsiðum, minni að drekka eða um aðra hluti þá sem til heyra. Mun nú annars leita verða þótt þetta sé best og blíðast að vera með yður.“

Konungur svarar: „Þar er okkur hægt til úrræða vinur. Ver með hirðinni og drekk ekki meira en þú vilt í mínu leyfi.“

Bárður hét maður upplenskur, góður drengur og ekki gamall. Hann var með Haraldi konungi í miklum kærleikum. Voru þeir sessunautar, Bárður, Þórir og Halldór.

Og eitt kveld er konungur gekk þar fyrir er þeir sátu og drukku, í því bili gaf Halldór upp hornið. Það var dýrshorn mikið og skyggt vel. Sá gjörla í gegnum að hann hafði drukkið vel til hálfs við Þóri en honum gekk seint af að drekka.

Þá mælti konungur: „Seint er þó menn að reyna Halldór,“ segir hann „er þú níðist á drykkju við gamalmenni og hleypur að vændiskonum um síðkveldum en fylgir eigi konungi þínum.“

Halldór svarar engu en Bárður fann að honum mislíkaði umræða konungs. Fór Bárður þegar um myrgininn snemma á fund konungs.

„Þó ert þú nú árrisull Bárður,“ segir konungur.

„Em eg nú kominn,“ kvað Bárður, „að ávíta yður herra. Þér mæltuð illa og ómaklega í gærkveld til Halldórs vinar yðvars er þér kennduð honum að hann drykki sleitilega því að það var horn Þóris og hafði hann unnið og ætlaði að bera til skapkers ef eigi drykki Halldór fyrir hann. Það er og hin mesta lygi er þér mæltuð að hann færi að léttlætiskonum en kjósa mundu menn að hann fylgdi þér fastara.“

Konungur svarar og lét að þeir mundu semja þetta mál með sér þá er þeir Halldór fyndust.

Hittir Bárður Halldór og segir honum góð orð konungs til hans og kvað einsætt vera að hann léti sér einskis þykja um vert orðaframkast konungs og á Bárður hinn besta hlut að með þeim.

Líður fram að jólum og er heldur fátt um með þeim konungi og Halldóri. Og er að jólum kemur þá eru víti upp sögð sem þar er tíska til. Og einn morgun jólanna er breytt hringingum. Gáfu kertisveinar klokkurum fé til að hringja miklu fyrr en vant var og varð Halldór víttur og fjöldi annarra manna og settust í hálm um daginn og skyldu drekka vítin. Halldór situr í rúmi sínu og færa þeir honum eigi að síður vítið en hann lést eigi drekka mundu. Þeir segja þá konungi til.

„Það mun eigi satt,“ segir konungur, „og mun hann við taka ef eg færi honum,“ tekur síðan vítishornið og gengur að Halldóri.

Hann stendur upp í móti honum. Konungur biður hann drekka vítið.

Halldór svarar: „Eg þykist ekki víttur að heldur þó að þér setjið brögð til hringinga til þess eins að gera mönnum víti.“

Konungur svarar: „Þú munt drekka skulu vítið þó eigi síður en aðrir menn.“

„Vera má það konungur,“ segir Halldór, „að þú komir því á leið að eg drekki. En það kann eg þó segja þér að eigi mundi Sigurður sýr fá nauðgað Snorra goða til“ og vill seilast til hornsins sem hann gerir og drekkur af en konungur reiðist mjög og gengur til rúms síns.

Og er kemur hinn átti dagur jóla var mönnum gefinn máli. Það var kallað Haraldsslátta. Var meiri hlutur kopars, það besta kosti að væri helmings silfur. Og er Halldór tók málann hefir hann í möttulsskauti sínu silfrið og lítur á og sýnist eigi skírt málasilfrið, lýstur undir neðan annarri hendi og fer það allt í hálm niður.

Bárður mælti, kvað hann illa með fara: „Mun konungur þykjast svívirður í og leitað á við hann um málagjöfina.“

„Ekki má nú fara að slíku,“ segir Halldór, „litlu hættir nú til.“

3. kafli[breyta]

Nú er frá því sagt að þeir búa skip sín eftir jólin. Ætlar konungur suður fyrir land.

Og er konungur var mjög svo búinn þá bjóst Halldór ekki og mælti Bárður: „Hví býstu eigi Halldór?“

„Eigi vil eg,“ segir hann, „og ekki ætla eg að fara. Sé eg nú að konungur þokkar ekki mitt mál.“

Bárður segir: „Hann mun þó að vísu vilja að þú farir.“

Fer Bárður síðan og hittir konung, segir honum að Halldór býst ekki: „Máttu svo ætla að vandskipaður mun þér vera stafninn í stað hans.“

Konungur mælti: „Seg honum að eg ætla að hann skuli mér fylgja og þetta er ekki alugað, fæð sjá er með okkur er um hríð.“

Bárður hittir Halldór og lætur að konungur vilji einskis kostar láta hans þjónustu og það ræðst úr að Halldór fer og halda þeir konungur suður með landi.

Og einhverja nótt er þeir sigldu þá mælti Halldór til þess er stýrði: „Lát ýkva,“ segir hann.

Konungur mælti til stýrimanns: „Halt svo fram,“ segir hann.

Halldór mælti öðru sinni: „Lát ýkva.“

Konungur segir enn á sömu leið.

Halldór mælti: „Beint stefnið þér skerið.“

Og að því varð þeim. Því næst gekk undan skipinu undirhluturinn og varð þá að flytja til lands með öðrum skipum og síðan var skotið landtjald og bætt að skipinu.

Við það vaknar Bárður er Halldór bindur húðfat sitt. Bárður spyr hvað hann ætlist fyrir.

En Halldór kvaðst ætla á byrðing er lá skammt frá þeim „og kann vera að nú leggi sundur reyki vora og er þetta fullreynt. Og eigi vil eg að konungur spilli oftar skipum sínum eða öðrum gersemum mér til svívirðingar og að mér beri þá verr en áður.“

„Bíð enn,“ segir Bárður, „eg vil enn hitta konung.“

Og er hann kemur mælti konungur: „Snemma ertu á fótum Bárður.“

„Svo er nú þörf herra. Halldór er í brautbúnaði og þykir þú óvingjarnlega til sín gert hafa og er nokkuð vant að gæta til með ykkur. Ætlar hann nú í brott og ráðast til skips og fara út til Íslands með reiði og fer þá ómaklega ykkar skilnaður. Og það hygg eg að varla fáir þú þér annan mann jafntraustan honum.“

Konungur lét að þeir mundu enn sættast og kvað sér ekki mundu að þessu þykja.

Bárður hittir Halldór og segir honum vingjarnleg orð konungs.

Halldór svarar: „Til hvers skal eg honum þjóna lengur? Þatgi að eg fái mála minn falslaust.“

Bárður mælti: „Get eigi þess. Vel máttu þér það líka láta er lendra manna synir hafa og ekki fórstu að því með vægð næsta sinni er þú slóst niður í hálm silfrinu og ónýttir. Og máttu víst vita að konungi þykir það svívirðlega til sín gert.“

Halldór svarar: „Eigi má eg það vita að neitt sinn hafi jafnmjög logist í um fylgdina mína sem í málagjöfina konungs.“

„Satt mun það vera,“ segir Bárður, „biðleika, enn vil eg hitta konung.“

Og svo gerði hann.

Og er Bárður hitti konung mælti hann: „Fá Halldóri mála sinn skíran því að verður er hann að hafa.“

Konungur svarar: „Líst þér eigi nokkur svo djörfung í að krefja Halldóri annars mála en taka lendra manna synir og með slíkri svívirðing sem hann fór með málanum næstum?“

Bárður svarar: „Á hitt er að líta herra er miklu er meira vert, drengskap hans og vináttu ykkra er lengi hefir góð verið og þar með stórmennsku þína. Og veistu skap Halldórs og stirðlæti og er það þinn vegur að gera honum sóma.“

Konungur mælti: „Fáið honum silfrið.“

Var nú svo gert.

Kemur Bárður til Halldórs og færir honum tólf aura brennda og mælti: „Sérð þú eigi að þú hefir slíkt er þú brekar af konungi og hann vill að þú hafir slíkt af honum sem þú þykist þurfa?“

Halldór svarar: „Eigi skal eg þó oftar vera á konungsskipinu og ef hann vill hafa mitt föruneyti lengur þá vil eg hafa skip til stjórnar og eignast það.“

Bárður svarar: „Það samir eigi að lendir menn láti skip sín fyrir þér og ertu of framgjarn.“

Halldór kvaðst eigi fara mundu ellegar.

Bárður segir konungi hvers beitt er af Halldórs hendi „og ef hásetar þess skips eru jafntraustir sem stýrimaður þá mun vel hlýða.“

Konungur mælti: „Þótt þetta þyki framarla mælt vera þá skal þó af nakkvað gera.“

Sveinn úr Lyrgju, lendur maður, stýrði skipi. Konungur lét hann kalla á mál við sig.

„Þannug er farið,“ segir konungur, „sem þú veist að þú ert maður stórættaður. Vil eg fyrir því að þú sért á mínu skipi en eg mun þar fá annan mann til skipstjórnar. Þú ert maður viskur og vil eg einkum hafa þig við ráð mín.“

Hann segir: „Meir hefir þú aðra menn haft við þínar ráðagerðir hér til og til þess em eg lítt fær eða hverjum er þá skipið ætlað?“

„Halldór Snorrason skal hafa,“ segir konungur.

Sveinn segir: „Eigi kom mér það í hug að þú mundir íslenskan mann til þess velja en taka mig frá skipstjórn.“

Konungur mælti: „Hans ætt er eigi verri á Íslandi en þín hér í Noregi og eigi hefir enn alllangt síðan liðið er þeir voru norrænir er nú byggja Ísland.“

Nú fer það fram sem konungur vill að Halldór tekur við skipi og fóru síðan austur til Ósló, tóku þar veislur.

4. kafli[breyta]

Það er sagt einnhvern dag er þeir konungur sátu við drykkju og var Halldór þar í konungsstofunni að sveinar hans komu þar, þeir er skipið skyldu varðveita, og voru allir votir og sögðu að þeir Sveinn höfðu tekið skipið en rekið þá á kaf. Halldór stóð upp og gekk fyrir konung og spurði hvort hann skyldi eiga skipið og haldast það er konungur hafði mælt. Konungur svarar og kvað það að vísu haldast skyldu, kvaddi til síðan hirðina að þeir skyldu taka sex skip og fara með Halldóri og hafa þrenna skipun á hverju.

Þeir snúa nú eftir þeim Sveini og lætur hann eltast að landi og þegar hljóp Sveinn á land upp en þeir Halldór tóku skipið og fóru til konungs.

Og er veislum var lokið fer konungur norður með landi og til Þrándheims er á líður sumarið.

Sveinn úr Lyrgju sendi orð konungi að hann vill gefa upp allt málið og leggja á konungs vald að hann skipi með þeim Halldóri sem hann vill og vildi þó helst kaupa skipið ef konungi líkaði. Og nú er konungur sér það að Sveinn skýtur öllu máli undir hans dóm þá vill hann nú svo til bregða er báðum mætti líka, falar skipið að Halldóri og vill að hann hafi verð sæmilegt en Sveinn hafi skip og kaupir konungur skip og á Halldór við hann um verð og gelst allt upp nema hálf mörk gulls stendur eftir. Heimtir Halldór lítt enda galst það ekki og fer svo fram um veturinn.

Og er vora tók segir Halldór konungi að hann vill til Íslands um sumarið og kvað sér vel koma að þá gyldist það sem eftir var skipverðsins. En konungur fer heldur undan um gjaldið og þykir ekki betur er hann heimtir en ekki bannar hann Halldóri útferð og býr hann skip sitt um vorið í ánni Nið og leggur út síðan við Bröttueyri.

Og er þeir voru albúnir og byrvænlegt var þá gengur Halldór upp í bæinn með nokkura menn síð um aftan. Hann var með vopnum. Gengu þar til er þau konungur og drottning sváfu. Förunautar hans stóðu úti undir loftinu en hann gengur inn með vopnum sínum og verður glymur og skark af honum og vakna þau konungur við og spyr konungur hver þar brjótist að þeim um nætur.

„Hér er Halldór kominn og búinn til hafs og kominn á byr og er nú ráð að gjalda féið.“

„Ekki má það nú svo skjótt,“ segir konungur, „og munum vér greiða fé á morgun.“

„Nú vil eg þegar hafa,“ segir Halldór, „og munkat eg nú erindlaust fara. Kann eg og skap þitt og veit eg hversu þér mun líka þessi för mín og fjárheimta hvegi sem þú lætur nú. Mun eg lítt trúa þér héðan frá enda er ósýnt að við finnumst svo vilgis oft að mitt sé vænna og skal nú neyta þess og sé eg að drottning hefir hring á hendi því hófi mikinn. Fá mér þann.“

Konungur svarar: „Þá verðum við fara eftir skálum og vega hringinn.“

„Ekki þarf þess,“ segir Halldór, „tek eg hann fyrir hlut minn enda muntu nú ekki prettunum við koma að sinni og sel fram títt.“

Drottning mælti: „Sérð þú eigi,“ segir hún, „að hann stendur yfir þér uppi með víghug?“

Tekur síðan hringinn og fær Halldóri.

Hann tekur við og þakkar þeim báðum gjaldið og biður þau vel lifa „og munum vér nú skilja.“

Gengur nú út og mælti við förunauta sína, biður þá hlaupa sem tíðast til skipsins „því að ófús em eg að dveljast lengi í bænum.“

Þeir gera svo, koma á skipið og þegar vinda sumir upp segl, sumir eru að báti, sumir heimta upp akkeri og bergst hver sem má. Og er þeir sigldu út skorti eigi hornblástur í bænum og það sáu þeir síðast að þrjú langskip voru á floti og lögðu eftir þeim en þó ber þá undan og í haf. Skilur þar með þeim og byrjaði Halldóri vel út til Íslands en konungsmenn hurfu aftur er þeir sáu er Halldór bar undan og í haf út.

5. kafli[breyta]

Halldór Snorrason var mikill maður vexti og fríður sýnum, allra manna styrkastur og vopndjarfastur. Það vitni bar Haraldur konungur Halldóri að hann hefði verið með honum allra manna svo að síst brygði við voveiflega hluti hvort sem að höndum bar mannháska eða fagnaðartíðindi þá var hann hvorki að glaðari né óglaðari. Eigi neytti hann matar eða drakk eða svaf meira né minna en vandi hans var til hvort sem hann mætti blíðu eða stríðu. Halldór var maður fámæltur, stuttorður, bermæltur, stygglyndur og ómjúkur, kappgjarn í öllum hlutum við hvern sem hann átti um. En það kom illa við Harald konung er hann hafði nóga aðra þjónustumenn. Komu þeir því lítt lyndi saman síðan Haraldur varð konungur í Noregi. En er Halldór kom til Íslands gerði hann bú í Hjarðarholti.

Nokkurum sumrum síðar sendi Haraldur konungur orð Halldóri Snorrasyni að hann skyldi ráðast enn til hans og lét að eigi skyldi verið hafa hans virðing meiri en þá ef hann vildi farið hafa og engan mann skyldi hann hærra setja í Noregi ótiginn ef hann vildi þetta boð þekkjast.

Halldór svarar svo er honum komu þessi orð: „Ekki mun eg fara á fund Haralds konungs héðan af. Mun nú hafa hvor okkar það sem fengið hefir. Mér er kunnigt skaplyndi hans. Veit eg gjörla að hann mundi það efna sem hann hét að setja engan mann hærra í Noregi en mig ef eg kæmi á hans fund því að hann mundi mig láta festa á hinn hæsta gálga ef hann mætti ráða.“

Og er á leið mjög ævi Haralds konungs þá er sagt að hann sendi Halldóri orð til að hann skyldi senda honum melrakkabelgi, vildi gera láta af þeim yfir rekkju sína því að konungur þóttist þá þurfa hlýs.

Og er Halldóri kom sjá orðsending konungs þá er sagt að hann skyti því orði við í fyrstu: „Eldist árgalinn nú,“ sagði hann en sendi honum belgi.

En ekki fundust þeir sjálfir síðan er þeir skildust í Þrándheimi þó að þá yrði nokkuð með stytti því sinni. Bjó hann í Hjarðarholti til elli og varð maður gamall.