Fara í innihald

Harmabótarkvæði

Úr Wikiheimild

Harmabótarkvæði er íslenskt fornkvæði, vikivaki eða sagnadans.

1. Einum unna ég manninum
á meðan það var,

í míns föður ranninum

og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
2. Enginn maður það vissi,
á meðan það var,
nema mín yngsta systir,
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
3. Systir sagði móður frá,
á meðan það var,
svo vissu það allar þrjár,
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
4. Móðir talaði nokkur orð,
á meðan það var,
svo kom það fyrir bróður míns borð,
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
5. Bróðir gjörði boð til mín,
á meðan það var,
og bað mig ganga í höll til sín,
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
6. Hægra fæti í höllina sté,
á meðan það var,
„Sittu heill, bróðir, og hvað viltu mér?"
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
7. „Er það satt sem mér er sagt,
á meðan það var,
að þú hafir ást við riddarann lagt?"
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
8. „Ei er það satt sem mér er sagt,
á meðan það var,
að ég hafi ást við riddarann lagt."
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
9. Bróðir var mér ekki trúr,
á meðan það var,
hann seldi mig burtu landi úr,
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
10. Seldi hann mig á annað land,
á meðan það var,
einum ríkum greifa í hand,
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
11. Greifinn var mér nokkuð trúr,
á meðan það var,
seldi hann mig landi úr,
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
12. Seldi hann mig á annað land,
á meðan það var,
mínum besta vin í hand.
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
13. Á daginn trað ég múr og torg,
á meðan það var,
en nóttina svaf ég með engri sorg,
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
14. Á daginn drakk ég mjöð og vín,
á meðan það var,
um nóttina svaf ég hjá unnusta mín,
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
15. Vendi ég mínu kvæði í kross,
á meðan það var,
Guð og María sé með oss,
og það fór þar.
Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.