Heimir
- KRÁKUMÁL EN NÝJU
- Þótt „hyggi hann eigi hjörvi með“
- og hörpu meir en stál
- hann höndum léki, um Heimi kveð
- eg hrundum Krákumál.
- KRÁKUMÁL EN NÝJU
Þeir spurðu Heimi, er hann að Rín
Hlymsdala kom úr borg:
„Heyrist oss gráta harpan þín,
hvað veldur þeirri sorg?“
„Hún grætur frægan föður sinn,
fær seint það tjónið bætt,
hún grætur grimmu forlögin,
er gengu yfir hennar ætt.
Hún grætur harma og heiftar orð
og hjartans djúpu neyð,
hún grætur sinnar móður morð
og margan rofinn eið.
Örlaganornin af réð má
allt hennar göfga kyn,
og svo er komið, að hún á
mig einan fyrir vin.“
Og sína um byggð og heiði há
þá hörpu þulur bar;
en enginn vissi, að Áslaug lá
í iðrum hörpunnar.
í leyni gaf hann meynni mat,
og mild hann felldi tár,
und Brynhildar er barni hann sat
og bleikt því kembdi hár.
Og er hann kom að læk og lind,
hann litla kroppinn þó;
við sinni í lygnum legi mynd
hin ljósa drósin hló.
Og meynni á hörpu botni bjó
hann beðinn mjúkan þá,
og kvað við hana korríró
og kyssti heiða brá.
Hann svæfði hana við hörpuslátt,
unz hvíldi mærin kyr;
en — Áslaugar við andardrátt
þó umdu strengirnir.
Og þegar hóf hann hörpuleik,
hún hlýddi spök á slag;
en grát hennar og gleði hann veik
í gleði eða sorgar lag.
Og strengina svo stillti hann,
og slakaði svo til,
í eitt að beggja rómur rann
og radda heyrði ei skil.
Svo hélt hann fram um borg og bý
og berg og dal og skóg;
en aldrei komst neinn eftir því,
hvað innra í hörpu bjó.
Loks náðu þau á Norðurlönd,
þar nornum skuld hann galt,
og stirðnuð var en holla hönd
og hjartað trygga kalt.
En Randalín hún Ragnars varð
og rekka hrausta bar
Sigurðar upp í ættar skarð
aftur og Brynhildar.