Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/104

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur stóð í lyftingu á Orminum. Bar hann hátt mjög. Hann hafði gylltan skjöld og gullroðinn hjálm. Hann var auðkenndur frá öðrum mönnum. Hann hafði rauðan kyrtil stuttan utan um brynju.

En er Ólafur konungur sá að riðluðust flokkarnir og upp voru sett merki fyrir höfðingjum þá spurði hann: „Hver er höfðingi fyrir liði því er gegnt oss er?“

Honum var sagt að þar var Sveinn konungur tjúguskegg með Danaher.

Konungur svarar: „Ekki hræðumst vér bleyður þær. Engi er hugur í Dönum. En hver höfðingi fylgir þeim merkjum er þar eru út í frá hægra veg?“

Honum var sagt að þar var Ólafur konungur með Svíaher.

Ólafur konungur segir: „Betra væri Svíum heima og sleikja um blótbolla sína en ganga á Orminn undir vopn yður. En hverjir eiga þau hin stóru skip er þar liggja út á bakborða Dönum?“

„Þar er,“ segja þeir, „Eiríkur jarl Hákonarson.“

Þá svarar Ólafur konungur: „Hann mun þykjast eiga við oss skaplegan fund og oss er von snarprar orustu af því liði. Þeir eru Norðmenn sem vér erum.“