Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/15

Úr Wikiheimild

Hákon jarl og Gull-Haraldur fundust litlu síðar en Haraldur gráfeldur féll. Leggur þá Hákon jarl til orustu við Gull-Harald. Fær Hákon þar sigur en Haraldur var handtekinn og lét Hákon hann festa á gálga. Síðan fór Hákon jarl á fund Danakonungs og sættist við hann auðveldlega um dráp Gull-Haralds frænda hans.

Síðan býr Haraldur konungur her út um allt sitt ríki og fór með sex hundruð skipa. Þar var þá með honum Hákon jarl og Haraldur grenski sonur Guðröðar konungs og mart annarra ríkismanna, þeirra er flúið höfðu óðul sín fyrir Gunnhildarsonum úr Noregi. Hélt Danakonungur her sínum sunnan í Víkina og gekk landsfólk allt undir hann.

En er hann kom til Túnsbergs þá dreif til hans mikið fjölmenni. Og fékk Haraldur konungur lið það allt í hendur Hákoni jarli er til hans hafði komið í Noregi og gaf honum til forráða Rogaland og Hörðaland, Sogn, Firðafylki, Sunn-Mæri og Raumsdal og Norð-Mæri.

Þessi sjö fylki gaf Haraldur konungur Hákoni jarli til forráða með þvílíkum formála sem Haraldur hinn hárfagri gaf sonum sínum, nema það skildi að Hákon skyldi eignast þar og svo í Þrándheimi öll konungsbú og landskyldir. Hann skyldi og hafa konungsfé sem hann þyrfti ef her væri í landi.

Haraldur konungur gaf Haraldi grenska Vingulmörk, Vestfold og Agðir til Líðandisness og konungsnafn og lét hann þar hafa ríki með öllu slíku sem að fornu höfðu haft frændur hans og Haraldur hinn hárfagri gaf sonum sínum. Haraldur grenski var þá átján vetra og varð síðan frægur maður.

Fer þá Haraldur Danakonungur heim með allan Danaher.