Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/17

Úr Wikiheimild

Ragnfröður konungur sonur Gunnhildar og Guðröður, annar sonur Gunnhildar, þeir tveir voru þá á lífi sona Eiríks og Gunnhildar.

Svo segir Glúmur Geirason í Gráfeldardrápu:

Fellumk hálf, þá er hilmis
hjördrífa brá lífi,
réðat oss til auðar,
auðvon, Haralds dauði.
En eg veit að hefir heitið
hans bróðir mér góðu,
sjá getr þar til sælu
seggfjöld, hvaðartveggi.

Ragnfröður byrjaði ferð sína um vorið þá er hann hafði einn vetur verið í Orkneyjum. Hélt hann þá vestan til Noregs og hafði frítt lið og skip stór. En er hann kom í Noreg þá spurði hann að Hákon jarl var í Þrándheimi. Hélt Ragnfröður þá norður um Stað og herjaði um Sunn-Mæri en sumt fólk gekk undir hann sem oft verður þá er herflokkar ganga yfir land að þeir er fyrir eru leita sér hjálpar hver þannug sem vænst þykir.

Hákon jarl spyr þessi tíðindi, að ófriður var suður um Mæri. Réð jarl þá til skipa og lét skera upp herör, býst sem hvatlegast og hélt út eftir firði. Varð honum gott til liðs.

Varð fundur þeirra Ragnfröðar og Hákonar jarls á Sunn-Mæri norðarlega. Hélt Hákon þegar til orustu. Hann hafði lið meira og skip smærri. Orusta varð hörð og veitti Hákoni þyngra. Þeir börðust um stafna sem þar var siður til. Straumur var í sundinu og hóf öll skipin saman inn að landinu. Jarl lét og hamla að landi þar er honum þótti best til uppgöngu. En er skipin kenndu niður þá gekk jarl og allt lið hans af skipunum og drógu upp svo að óvinir þeirra skyldu eigi mega út draga. Síðan fylkti jarl á vellinum og eggjaði Ragnfröð til uppgöngu. Þeir Ragnfröður lögðu utan að og skutust á langa hríð. Vildi Ragnfröður ekki á land ganga og skildust að svo búnu.

Hélt Ragnfröður sínu liði suður um Stað því að hann óttaðist landher ef drifi til Hákonar jarls. En jarl lagði fyrir því eigi oftar til orustu að honum þótti borðamunur of mikill. Fór hann þá um haustið norður til Þrándheims og var þar um veturinn en Ragnfröður konungur hafði þá allt fyrir sunnan Stað, Firðafylki, Sogn, Hörðaland, Rogaland. Hafði hann fjölmenni mikið um veturinn. Og er voraði bauð hann leiðangri út og fékk lið mikið. Fór hann þá um öll þau fylki að afla sér liðs og skipa og annarra fanga, þeirra er hann þurfti.