Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/21

Úr Wikiheimild

Ólafur Tryggvason var þessar hríðir allar í Garðaríki og hafði þar hið mesta yfirlát af Valdimar konungi og kærleik af drottningu. Valdimar konungur setti hann höfðingja yfir herlið það er hann sendi til að verja land sitt. Átti Ólafur þar nokkurar orustur og varð herstjórnin vel í hendi. Hélt hann þá sjálfur sveit mikla hermanna með sínum kostnaði, þeim er konungur veitti honum. Ólafur var ör maður við sína menn. Varð hann af því vinsæll. En varð það sem oftlega kann verða þar er útlendir menn hefjast til ríkis eða til svo mikillar frægðar að það verði umfram innlenska menn, að margir öfunduðu það hversu kær hann var konungi og eigi síður drottningu.

Mæltu menn það fyrir konungi að hann skyldi varast að gera Ólaf eigi of stóran „fyrir því að slíkur maður er þér hættastur ef hann vill sig til þess ljá að gera yður mein eða yðru ríki er svo er búinn að atgervi og vinsæld. Vitum vér og eigi hvað þau drottning tala jafnan.“

Það var siður mikill hinna ríku konunga að drottning skyldi eiga hálfa hirðina og halda með sínum kostnaði og hafa þar til skatta og skyldir svo sem þyrfti. Var þar og svo með Valdimar konungi að drottning hafði eigi minni hirð en konungur og kepptust þau mjög um ágætismenn. Vildi hvorttveggja til sín hafa. Nú gerðist svo að konungur festi trúnað á slíkar ræður sem mælt var fyrir honum og gerðist hann nokkuð fár og styggur til Ólafs.

En er Ólafur fann það þá segir hann drottningu og það með að hann fýstist að fara í Norðurlönd og segir að frændur hans hafa þar fyrr ríki haft og honum þykir líkast að þar muni þroski hans mestur verða. Drottning biður hann vel fara, segir að hann muni þar göfugur þykja sem hann væri.

Síðan býr Ólafur ferð sína og gekk á skip og hélt svo út í hafið í Eystrasalt. En er hann sigldi austan þá kom hann við Borgundarhólm og veitti þar upprás og herjaði en landsmenn sóttu ofan og héldu orustu við hann og fékk Ólafur sigur og herfang mikið.