Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/43

Úr Wikiheimild

Haraldur grenski var konungur á Vestfold sem fyrr er ritið. Hann fékk Ástu dóttur Guðbrands kúlu.

Eitt sumar þá er Haraldur grenski fór í Austurveg í hernað að fá sér fjár þá kom hann í Svíþjóð. Þá var þar konungur Ólafur sænski. Hann var sonur Eiríks konungs hins sigursæla og Sigríðar dóttur Sköglar-Tósta. Var Sigríður þá ekkja og átti mörg bú og stór í Svíþjóð. En er hún spurði að þar var kominn við land skammt í brott Haraldur grenski fóstbróðir hennar þá sendi hún menn til hans og bauð honum til veislu.

Hann lagðist þá ferð eigi undir höfuð og fór með mikla sveit manna. Þar var allgóður fagnaður. Sat konungur og drottning í hásæti og drukku bæði samt um kveldið og var veitt allkappsamlega öllum mönnum hans. Um kveldið er konungur fór til hvílu þá var þar sæng tjölduð pellum og búin dýrlegum klæðum. Í því herbergi var fátt manna. En er konungur var afklæddur og kominn í hvílu þá kom þar drottning til hans og skenkti honum sjálf og lokkaði hann mjög til að drekka og var hin blíðasta. Konungur var allmjög drukkinn og bæði þau. Þá sofnaði hann en drottning gekk þá og til svefns. Sigríður var hin vitrasta kona og forspá um marga hluti.

Eftir um morguninn var veisla hin kappsamlegsta. En þar varð sem jafnan verður þar er menn verða allmjög drukknir að hinn næsta dag eftir varast flestir menn við drykkinn. En drottning var kát og töluðu þau sín á milli. Sagði hún svo að hún virti eigi minna eignir þær og ríki er hún átti í Svíþjóð en konungdóm hans í Noregi og eignir. Við þessar ræður varð konungur óglaður og fannst fátt um allt og bjóst í brott og var allhugsjúkur en drottning var hin glaðasta og leiddi hann í brott með stórgjöfum. Fór þá Haraldur um haustið aftur til Noregs, var heima um veturinn og heldur ókátur.

Eftir um sumarið fór hann í Austurveg með liði sínu og hélt þá til Svíþjóðar og sendi orð Sigríði drottningu, þau að hann vill finna hana. Hún reið ofan á fund hans og talast þau við. Hann vekur brátt það mál ef Sigríður vildi giftast honum. Hún segir að það var honum hégómamál og hann er áður svo vel kvongaður að honum er fullræði í.

Haraldur segir að Ásta er góð kona og göfug „en ekki er hún svo stórborin sem eg em.“

Sigríður segir: „Vera kann það að þú sért ættstærri en hún. Hitt mundi eg ætla að með henni mundi vera nú beggja ykkur hamingja.“

Litlu skiptust þau fleirum orðum við áður drottning reið í brott. Haraldi konungi var þá heldur skapþungt. Hann bjóst að ríða upp á land og enn á fund Sigríðar drottningar. Margir hans menn löttu hann þess en eigi að síður fór hann með mikla sveit manna og kom til þess bæjar er drottning réð fyrir.

Hið sama kveld kom þar annar konungur. Sá hét Vissavaldur austan úr Garðaríki. Sá fór að biðja hennar. Þeim var skipað konungunum í eina stofu mikla og forna og öllu liði þeirra. Eftir því var allur búnaður stofunnar. En drykk skorti þar eigi um kveldið svo áfenginn að allir voru fulldrukknir og höfuðverðir og útverðir sofnuðu.

Þá lét Sigríður drottning um nóttina veita þeim atgöngu bæði með eldi og vopnum. Brann þar stofan og þeir menn sem inni voru en þeir voru drepnir er út komust. Sigríður sagði það að svo skyldi hún leiða smákonungum að fara af öðrum löndum til þess að biðja hennar. Síðan var hún kölluð Sigríður hin stórráða.

Þann vetur áður var Jómsvíkingaorusta.