Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/45

Úr Wikiheimild

Hákon jarl réð Noregi allt hið ytra með sjá og hafði hann til forráða sextán fylki. En síðan er Haraldur hinn hárfagri hafði svo skipað að jarl skyldi vera í hverju fylki þá hélst það lengi síðan. Hafði Hákon jarl sextán jarla undir sér.

Svo segir í Velleklu:

Hvar viti öld und einum,
jarðbyggvi, svo liggja,
það skuli her um hugsa,
hjarl sextán jarla?
Þess ríðr fúrs með fjórum
fólkleikr Héðins reikar
logskundaðar lindar
lofkenndr himins endum.

Meðan Hákon jarl réð fyrir Noregi þá var góð árferð í landi og góður friður innanlands með bóndum. Jarl var vinsæll við búendur lengsta hríð ævi sinnar. En er á leið þá gerðist það mjög að um jarl að hann var ósiðugur um kvennafar. Gerðist þar svo mikið að, að jarl lét taka ríkra manna dætur og flytja heim til sín og lá hjá viku eða tvær, sendi heim síðan og fékk hann af því óþokka mikinn af frændum kvinnanna og tóku bændur að kurra illa svo sem Þrændir eru vanir, allt það er þeim er í móti skapi.