Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/71

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Ólafur konungur gerði stefnulag frændum Járn-Skeggja og bauð þeim bætur en þar voru til svara margir göfgir menn. Járn-Skeggi átti dóttur er Guðrún er nefnd. Kom það að lyktum í sáttmál þeirra að Ólafur konungur skyldi fá Guðrúnar.

En er brullaupsstefna sú kom þá gengu þau í eina rekkju, Ólafur konungur og Guðrún. En hina fyrstu nótt er þau lágu bæði samt þegar konungur var sofnaður þá brá hún knífi og vill leggja á honum. En er konungur varð þessa var tók hann knífinn frá henni og stóð upp úr hvílunni og gekk til manna sinna og segir hvað orðið hafði. Tók Guðrún þá og klæði sín og allir þeir menn er henni höfðu þannug fylgt. Fóru þau í brott leið sína og kom Guðrún ekki síðan í sama rekkju Ólafi konungi.