Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/74
Sigurður er maður nefndur, annar Haukur. Þeir voru háleyskir og höfðust mjög í kaupferðum. Þeir höfðu farið eitt sumar vestur til Englands. En er þeir komu aftur til Noregs þá sigldu þeir norður með landi en á Norð-Mæri urðu þeir fyrir liði Ólafs konungs. En er konungi var sagt að þar voru komnir nokkurir menn háleyskir og voru heiðnir þá lét konungur kalla stýrimenn til sín.
Hann spyr þá ef þeir vildu skírast láta en þeir kveða þar nei við. Síðan talaði konungur fyrir þeim á marga vega og stoðaði það ekki. Þá hét hann þeim dauða eða meiðslum. Þeir skipuðust ekki við það. Þá lét hann setja þá í járn og hafði þá með sér nokkura hríð og voru þeir í fjötrum haldnir. Konungur talaði oftlega fyrir þeim og týði það ekki.
Og á einni nótt hurfu þeir í brott svo að engi maður spurði til þeirra eða vissi með hverjum hætti þeir komust í brott. En um haustið komu þeir fram norður með Háreki í Þjóttu. Tók hann vel við þeim og voru þeir þar um veturinn með honum í góðu yfirlæti.