Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/76

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
76. Dauði Eyvindar kinnrifu

Hárekur úr Þjóttu fer þegar í brott úr bænum sem fyrst mátti hann en Haukur og Sigurður voru með konungi og létu skírast báðir. Hárekur fór leið sína þar til er hann kom heim í Þjóttu. Hann sendi orð Eyvindi kinnrifu, vin sínum, og bað svo segja honum að Hárekur úr Þjóttu hafði fundið Ólaf konung og hafði eigi kúgast látið til þess að taka við kristni. Hitt annað bað hann segja honum að Ólafur konungur ætlar um sumarið að fara með her á hendur þeim. Segir Hárekur að þeir munu þar verða varhuga við að gjalda, bað Eyvind koma sem fyrst á sinn fund.

En er þessi erindi voru borin Eyvindi þá sér hann að yfrin nauðsyn mun til vera að gera þar fyrir það ráð að þeir verði eigi upptækir fyrir konungi. Fer Eyvindur sem skyndilegast með léttiskútu og fáir menn á.

En er hann kom til Þjóttu fagnar Hárekur honum vel og þegar skjótt ganga þeir á tal, Hárekur og Eyvindur, annan veg frá bænum. En er þeir hafa litla hríð talað þá koma þar menn Ólafs konungs, þeir er Háreki höfðu norður fylgt, taka þá höndum Eyvind og leiða hann til skips með sér, fara síðan í brott með Eyvind. Létta þeir eigi fyrr sinni ferð en þeir koma til Þrándheims og finna Ólaf konung í Niðarósi. Var þá Eyvindur fluttur til tals við Ólaf konung.

Bauð konungur honum að taka skírn sem öðrum mönnum. Eyvindur kvað þar nei við. Konungur bað hann blíðum orðum að taka við kristni og segir honum marga skynsemi og svo biskup. Eyvindur skipaðist ekki við það. Þá bauð konungur honum gjafar og veislur stórar en Eyvindur neitti öllu því. Þá hét konungur honum meiðslum eða dauða. Ekki skipaðist Eyvindur við það. Síðan lét konungur bera inn munnlaug fulla af glóðum og setja á kvið Eyvindi og brast brátt kviðurinn sundur.

Þá mælti Eyvindur: „Taki af mér munnlaugina. Eg vil mæla orð nokkur áður eg dey.“

Og var svo gert.

Þá spurði konungur: „Viltu nú Eyvindur trúa á Krist?“

„Nei,“ segir hann, „eg má enga skírn fá. Eg em einn andi, kviknaður í mannslíkam með fjölkynngi Finna en faðir minn og móðir fengu áður ekki barn átt.“

Síðan dó Eyvindur og hafði verið hinn fjölkunngasti maður.