Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/78

Úr Wikiheimild

Rauður hinn rammi er nefndur bóndi einn er bjó í firði þeim er Salpti heitir, í Goðey. Rauður var maður stórauðigur og hafði marga húskarla. Hann var ríkur maður. Fylgdi honum mikill fjöldi Finna þegar er hann þurfti. Rauður var blótmaður mikill og mjög fjölkunnigur. Hann var vin mikill þess manns er fyrr var nefndur, Þórir hjörtur. Voru þeir báðir höfðingjar miklir.

En er þeir spurðu að Ólafur konungur fór með her manns sunnan um Hálogaland þá safna þeir her að sér og bjóða skipum út og fá lið mikið. Rauður hafði dreka mikinn og gullbúin höfuð á. Var það skip þrítugt að rúmatali og mikið að því. Þórir hjörtur hafði og mikið skip. Þeir halda liði því suður í móti Ólafi konungi. En er þeir hittast þá leggja þeir til orustu við Ólaf konung. Varð þar mikill bardagi og gerðist brátt mannfall og sneri því í lið Háleygja og hruðust skip þeirra og því næst sló á þá felmt og ótta. Reri Rauður með dreka sinn út til hafs og því næst lét hann draga segl sitt. Rauður hafði jafnan byr hvert er hann vildi sigla og var það af fjölkynngi hans. Er það að segja skjótast af ferð Rauðs að hann sigldi heim í Goðey.

Þórir hjörtur flýði inn til lands og hljópu þar af skipum en Ólafur konungur fylgdi þeim. Hljópu þeir og af skipum og ráku þá og drápu. Varð konungur þá enn fremstur sem jafnan þá er slíkt skyldi þreyta. Hann sá hvar Þórir hjörtur hljóp. Hann var allra manna fóthvatastur. Konungur rann eftir honum og fylgdi honum Vígi hundur hans.

Þá mælti konungur: „Vígi, tak hjörtinn.“

Vígi hljóp fram eftir Þóri og þegar upp á hann. Þórir nam stað við. Þá skaut konungur kesju að Þóri. Þórir lagði sverði til hundsins og veitti honum sár mikið en jafnskjótt fló kesja konungsins undir hönd Þóri svo að út stóð um aðra síðuna. Lét Þórir þar líf sitt en Vígi var borinn sár til skipa. Ólafur konungur gaf grið öllum mönnum þeim er báðu og kristni vildu taka.