Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/99

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þá kom pati nokkur til Vindlands að Sveinn Danakonungur hefði her úti og gerðist brátt sá kurr að Sveinn Danakonungur mundi vilja finna Ólaf konung.

En Sigvaldi jarl segir konungi: „Ekki er það ráð Sveins konungs að leggja til bardaga við þig með Danaher einn saman svo mikinn her sem þér hafið. En ef yður er nokkur grunur á því að ófriður muni fyrir þá skal eg fylgja yður með mínu liði og þótti það enn styrkur hvar sem Jómsvíkingar fylgdu höfðingjum. Mun eg fá þér ellefu skip vel skipuð.“

Konungur játaði þessu. Var þá lítið veður og hagstætt. Lét konungur þá leysa flotann og blása til brottlögu. Drógu menn þá segl sín og gengu meira smáskipin öll og sigldu þeir undan á hafið út.

En jarl sigldi nær konungsskipinu og kallaði til þeirra, bað konung sigla eftir sér. „Mér er kunnast,“ segir hann, „hvar djúpast er um eyjasundin en þér munuð þess þurfa með þau hin stóru skip.“

Sigldi þá jarl fyrir með sínum skipum. Hann hafði ellefu skip en konungur sigldi eftir honum með sínum stórskipum. Hafði hann og þar ellefu skip en allur annar herinn sigldi út á hafið. En er Sigvaldi jarl sigldi utan að Svöld þá reri í móti þeim skúta ein. Þeir segja jarli að her Danakonungs lá þar í höfninni fyrir þeim. Þá lét jarl hlaða seglunum og róa þeir inn undir eyna.

Halldór ókristni segir svo:

Óna fór og einum,
unnviggs, konungr sunnan,
sverð rauð mætr að morði
meiðr, sjö tugum skeiða,
þá er húnlagar hreina
hafði jarl um krafða,
sætt gekk seggja ættar
sundr, Skánunga fundar.

Hér segir að þeir Ólafur konungur og Sigvaldi jarl höfðu sjö tigu skipa og einu meir þá er þeir sigldu sunnan.