Heimskringla/Ólafs saga helga/111

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá hafði Ólafur konungur verið sjö vetur í Noregi. Það sumar komu til hans jarlar af Orkneyjum, Þorfinnur og Brúsi. Eignaðist Ólafur konungur lönd þau svo sem fyrr var ritið.

Það sumar fór Ólafur konungur um Mæri hvoratveggju og í Raumsdal um haustið. Þar gekk hann af skipum sínum og fór þá til Upplanda og kom fram á Lesjar. Hann lét þar taka alla hina bestu menn bæði á Lesjum og á Dofrum og urðu þeir að taka við kristni eða dauða þola eða undan að flýja, þeir sem því komu við. En þeir er við kristni tóku fengu konungi sonu sína í hendur í gíslingar til trúnaðar.

Konungur var þar um nóttina sem Bæjar heita á Lesjum og setti þar fyrir presta. Síðan fór hann yfir Lorudal og svo um Ljárdal og kom niður þar sem Stafabrekka heitir. En á sú rennur eftir dalnum er Ótta heitir og er byggð fögur tveim megin árinnar og er kölluð Lóar og mátti konungur sjá eftir endilangri byggðinni.

„Skaði er það,“ segir konungur, „að brenna skal byggð svo fagra,“ og stefndi ofan í dalinn með liði sínu og voru á bæ þeim um nótt er Nes heitir og tók konungur sér þar herbergi í lofti einu þar sem hann svaf sjálfur í, og það stendur enn í dag og er ekki að því gert síðan.

Og var konungur þar nætur fimm og skar upp þingboð og stefndi til sín bæði af Voga og af Lóm og af Hedal og lét það boði fylgja að þeir skulu annað tveggja halda bardaga við hann og þola bruna af honum eða taka við kristni og færa honum sonu sína í gísling. Síðan komu þeir á konungsfund og gengu til handa honum. Sumir flýðu suður í Dala.