Heimskringla/Ólafs saga helga/126

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þórarinn gekk annan dag til Lögbergs og mælti þá enn erindi og hóf svo: „Ólafur konungur sendi orð vinum sínum hingað til lands, nefndi til þess Guðmund Eyjólfsson, Snorra goða, Þorkel Eyjólfsson, Skafta lögsögumann, Þorstein Hallsson. Hann sendi yður til þess orð að þér skylduð fara á fund hans og sækja þangað vináttuboð. Mælti hann það að þér skylduð þessa ferð eigi undir höfuð leggjast ef yður þætti nokkuru varða um hans vináttu.“

Þeir svöruðu því máli, þökkuðu konungi boð sitt, kváðust þetta segja mundu Þórarni síðar um ferðir sínar þá er þeir hefðu ráðið fyrir sér og við vini sína.

En er þeir höfðingjar tóku ræður sín í milli þá sagði hver sem sýndist um ferð þessa. Snorri goði og Skafti löttu þess að leggja á þá hættu við Noregsmenn að allir senn færu af Íslandi og þangað þeir menn er mest réðu fyrir landi. Sögðu þeir að af þessi orðsending þótti þeim heldur grunir á dregnir um það er Einar hafði getið, að konungur mundi ætla til pyndinga nokkurra við Íslendinga ef hann mætti ráða.

Guðmundur og Þorkell Eyjólfsson fýstu mjög að skipast við orðsending Ólafs konungs og kölluðu það sæmdarferð mikla mundu.

En er þeir knjáðu þetta mál milli sín þá staðfestist það helst með þeim að þeir sjálfir skyldu eigi fara en hver þeirra skyldi gera mann af hendi sinni, þann er þeim þætti best til fallinn, og skildust á því þingi við svo búið og urðu engar utanferðir á því sumri.

En Þórarinn fór tvívegis um sumarið og kom um haustið á fund Ólafs konungs og segir honum sitt erindi, slíkt er orðið var og svo það með að höfðingjar mundu koma af Íslandi svo sem hann hafði orð til sent eða synir þeirra ellegar.