Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/128

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
128. Kvonfang Ketils og Þórðar


Ólafur konungur fór um haustið inn í Víkina og gerði orð fyrir sér til Upplanda og lét boða veislur og ætlar hann sér um veturinn að fara um Upplönd. Síðan byrjar hann ferðina og fór til Upplanda. Dvaldist Ólafur konungur þann vetur á Upplöndum, fór þar að veislum og leiðrétti þá hluti þar er honum þótti ábótavant, samdi þá þar enn kristnina er honum þótti þurfa.

Það gerðist til tíðinda þá er konungur var á Heiðmörk að Ketill kálfur af Hringunesi hóf upp bónorð sitt. Hann bað Gunnhildar dóttur Sigurðar sýrs og dóttur Ástu. Var Gunnhildur systir Ólafs konungs. Átti konungur svör og forráð máls þess. Hann tók því vænlega. Var það fyrir þá sök að hann vissi um Ketil að hann var ættstór og auðigur, vitur maður, höfðingi mikill. Hann hafði og lengi áður verið vinur Ólafs konungs mikill svo sem hér er fyrr sagt. Það allt saman bar til þess að konungur unni ráðs þessa Katli. Var þetta framgengt að Ketill fékk Gunnhildar. Var Ólafur konungur að þessi veislu.

Ólafur konungur fór norður í Guðbrandsdala, tók þar veislur. Þar bjó sá maður er hét Þórður Guttormsson á bæ þeim er á Steig heitir. Þórður var maður ríkastur í hinn nyrðra hlut Dala.

En er þeir konungur hittust þá hóf Þórður upp bónorð sitt og bað Ísríðar Guðbrandsdóttur móðursystur Ólafs konungs. Átti þar konungur svör þessa máls. En er að þeim málum var setið þá var það afráðið að þau ráð tókust og fékk Þórður Ísríðar. Gerðist hann síðan ölúðarvinur Ólafs konungs og þar með margir aðrir frændur Þórðar og vinir, þeir er eftir honum hurfu.

Fór Ólafur konungur þá aftur suður um Þótn og Haðaland, þá á Hringaríki og þaðan út í Víkina. Fór hann um vorið til Túnsbergs og dvaldist þar lengi meðan þar var kaupstefna mest og tilflutning. Lét hann þá búa skip sín og hafði með sér fjölmenni mikið.