Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/130

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
130. Upphaf Knúts ríka


Knútur hinn ríki, er sumir kalla hinn gamla Knút, hann var konungur í þann tíð yfir Englandi og yfir Danaveldi. Knútur ríki var sonur Sveins tjúguskeggs Haraldssonar. Þeir langfeðgar höfðu ráðið langa ævi fyrir Danmörku.

Haraldur Gormsson föðurfaðir Knúts hafði eignast Noreg eftir fall Haralds Gunnhildarsonar og tekið af skatta, sett þar til landsgæslu Hákon jarl hinn ríka. Sveinn Danakonungur sonur Haralds réð og fyrir Noregi og setti yfir til landsgæslu Eirík jarl Hákonarson. Réðu þeir bræður þá landi og Sveinn Hákonarson til þess er Eiríkur jarl fór vestur til Englands að orðsending Knúts hins ríka mágs síns en setti þá eftir til ríkis í Noregi Hákon jarl son sinn og systurson Knúts hins ríka mágs síns.

En síðan er Ólafur digri kom í Noreg þá tók hann fyrst höndum Hákon jarl og setti hann af ríki svo sem fyrr er ritið. Fór þá Hákon til Knúts móðurbróður síns og hafði verið síðan með honum alla stund til þess er hér er komið sögunni.

Knútur hinn ríki hafði unnið England með orustum og barist til og hafði langt starf áður en landsfólkið hefði honum hlýðið orðið. En er hann þóttist fullkominn þar til landstjórnar þá minntist hann hvað hann þóttist eiga þess ríkis er hann hafði eigi sjálfur varðveislu yfir en það var í Noregi. Hann þóttist eiga að erfðum Noreg allan en Hákon systurson hans þóttist eiga suman og það með að hann þóttist með svívirðing látið hafa.

Sá var einn hlutur til þess er þeir Knútur og Hákon höfðu kyrru haldið um tilkall í Noreg að þá fyrst er Ólafur Haraldsson kom í land hljóp upp allur múgur og margmenni og vildi ekki heyra annað en Ólafur skyldi vera konungur yfir landi öllu. En þá síðan er menn þóttust verða ósjálfráðir fyrir ríki hans þá leituðu sumir í brott úr landi. Höfðu farið mjög margir ríkismenn á fund Knúts konungs eða ríkra bónda synir og gefið sér ýmist til erinda. En hver þeirra er kom á fund Knúts konungs og hann vildi þýðast þá fengu allir af honum fullar hendur fjár. Mátti þar og sjá tign miklu meiri en í öðrum stöðum bæði að fjölmenni því er þar var sídægris og umbúnaði þeim öðrum er þar var í þeim herbergjum er hann átti og hann var sjálfur í.

Knútur hinn ríki tók skatt og skyld af þeim þjóðlöndum er auðgust voru á Norðurlöndum en þeim mun öllum er hann átti meiri að taka en aðrir konungar þá gaf hann og því öllu meira en hver konungur annarra. Í öllu ríki hans var friður svo góður að engi þorði þar á að ganga en sjálfir landsmenn höfðu frið og fornan landsrétt. Af slíku fékkst honum frægð mikil um öll lönd.

En þeir er af Noregi komu kærðu ófrelsi sitt margir og tjáðu það fyrir Hákoni jarli en sumir fyrir sjálfum konungi að Noregsmenn mundu þá vera búnir til að hverfa aftur undir Knút konung og jarlinn og þiggja af þeim frelsi sitt. Þessar ræður féllu jarli vel í skap og kærði það fyrir konungi og bað hann leita eftir ef Ólafur konungur vildi upp gefa ríkið fyrir þeim eða miðla með sáttmáli nokkuru. Voru hér margir flutningsmenn með jarli í sinni.