Heimskringla/Ólafs saga helga/140

Úr Wikiheimild

Ásmundur Grankelsson hafði verið þann vetur á Hálogalandi í sýslu sinni og var heima með föður sínum Grankeli. Þar liggur til hafs útver er bæði var sela að veiða og fugla, eggver og fiskver, og það hafði legið að fornu fari til bæjar þess er Grankell átti. En Hárekur úr Þjóttu veitti þar tilkall. Var þá svo komið að hann hafði haft af verinu öll gögn nokkur misseri. En þá þóttist Ásmundur og þeir feðgar hafa traust konungs til allra réttra mála.

Fóru þeir feðgar þá báðir um vorið á fund Háreks og segja honum orð og jartegnir Ólafs konungs að Hárekur skyldi láta af tilkalli um verið.

Hárekur svarar því þunglega, segir að Ásmundur fór til konungs með slíku rógi og öðru: „Hefi eg öll sannindi til míns máls. Skyldir þú Ásmundur kunna að ætla þér hóf þótt þú þykist nú mikill fyrir þér er þú hefir konungs traust. Er svo og ef þér skal hlýða að drepa suma höfðingja og gera að óbótamönnum en ræna oss er enn þóttumst fyrr meir kunna að halda til fulls þó að oss væru jafnbornir menn. En nú er það allfjarri að þér séuð jafnaðarmenn mínir fyrir ættar sakir.“

Ásmundur svarar: „Þess kenna margir af þér Hárekur að þú ert frændstór og ofureflismaður. Sitja margir um skörðum hlut fyrir þér. En þó er það nú líklegast að þú Hárekur verðir í annan stað til að leita að hafa fram ójafnað þinn en við oss eða taka svo mjög aflaga sem þetta er.“

Skildust þeir síðan.

Hárekur sendi húskarla sína tíu eða tólf með róðrarferju nokkura mikla. Þeir fóru í verið, tóku þar alls konar veiðifang og hlóðu ferjuna. En er þeir voru brott búnir þá kom þar að þeim Ásmundur Grankelsson með þrjá tigu manna og bað þá laust láta fang það allt. Húskarlar Háreks svöruðu um það heldur óbrátt. Síðan veittu þeir Ásmundur þeim atgöngu. Kenndi þá liðsmunar. Voru húskarlar Háreks sumir barðir, sumir særðir, sumir á kaf færðir og fengur allur í brott borinn af skipi þeirra og höfðu þeir Ásmundur það með sér. Komu húskarlar Háreks heim við svo búið og segja Háreki frá ferð sinni.

Hann svarar: „Tíðindi þykja nýnæmi öll. Þetta hefir eigi fyrr gert verið, að berja menn mína.“

Var það mál kyrrt og lagði Hárekur eigi orð í og var hinn kátasti. Hárekur lét búa um vorið snekkju, tvítugsessu, og skipaði húskörlum sínum og var það skip allvel búið bæði að mönnum og öllum reiða. Fór Hárekur um vorið í leiðangur.

En er hann fann Ólaf konung þá var og þar fyrir Ásmundur Grankelsson. Þá kom konungur á stefnulagi með Ásmundi og Háreki og sætti hann þá. Var festur á konungs dómur. Síðan lét Ásmundur fram flytja vitni til þess að Grankell hafði átt verið. Dæmdi konungur eftir því. Voru þá skökk málaefni. Urðu bótalausir húskarlar Háreks en dæmt verið til handa Grankeli. Hárekur segir að honum var skammlaust að hlíta konungs dómi hvernug er það mál skipaðist síðan.