Heimskringla/Ólafs saga helga/142

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Ólafur konungur bjóst um vorið úr Niðarósi og dróst lið að honum mikið bæði þar úr Þrándheimi og svo norðan úr landi. En er hann var búinn ferðar sinnar þá fór hann með liðinu fyrst suður á Mæri og heimti þar saman leiðangurslið og svo úr Raumsdal. Síðan fór hann á Sunn-Mæri. Hann lá lengi í Hereyjum og beið liðs síns, átti þá oftlega húsþing. Kom þar mart til eyrna honum það er honum þótti umráða þurfa.

Það var á einu húsþingi er hann átti að hann hafði það mál í munni, sagði frá mannskaða þeim er hann hafði látið af Færeyjum. „En skattur sá er þeir hafa mér heitið,“ segir hann, „þá kemur ekki fram. Nú ætla eg enn þangað menn að senda eftir skattinum.“

Veik konungur þessu máli nokkuð til ýmissa manna að til þeirrar ferðar skyldu ráðast en þar komu þau svör í mót að allir menn töldust undan förinni.

Þá stóð upp maður á þinginu mikill og allvörpulegur. Sá hafði rauðan kyrtil, hjálm á höfði, gyrður sverði, höggspjót mikið í hendi. Hann tók til máls: „Það er satt að segja,“ kvað hann, „að hér er mikill munur manna. Þér hafið konung góðan en hann drengi illa. Þér neikveðið sendiför eina er hann býður yður en hafið þegið áður af honum vingjafir og marga sæmilega hluti. En eg hefi verið hér til engi vinur konungs þessa. Hefir hann og verið óvinur minn, telur hann að sakar séu til þess. Nú vil eg bjóða þér konungur að fara för þessa ef ekki eru vildari föng á.“

Konungur segir: „Hver er þessi maður hinn drengilegi er svarar máli mínu? Gerir þú mikinn mun öðrum mönnum þeim er hér eru er þú býðst til farar en þeir töldust undan er eg hugði að vel mundu hafa við skipast. En eg kann á þér engi deili og eigi veit eg nafn þitt.“

Hann svarar svo að: „Nafn mitt er ekki vant, konungur. Þess er mér von að þú munir heyrt hafa mig nefndan. Eg em kallaður Karl mærski.“

Konungur svarar: „Svo er það Karl, heyrt hefi eg þig nefndan fyrr og er það satt að segja að verið hafa þær stundir ef fundi okkra hefði að borið er þú mundir ekki kunna segja frá tíðindum. En nú vil eg eigi verr hafa en þú er þú býður mér liðsemd þína að leggja eigi þar að móti þökk og aufúsu. Skaltu Karl koma til mín og vera í boði mínu í dag. Skulum við þá ræða þetta mál.“

Karl segir að svo skyldi vera.