Heimskringla/Ólafs saga helga/148

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Úlfur jarl Sprakaleggsson hafði settur verið til landvarnar í Danmörk þá er Knútur konungur fór til Englands. Hafði hann selt í hendur Úlfi jarli son sinn þann er kallaður var Hörða-Knútur. Var það hið fyrra sumar sem áður er ritið.

En jarl segir þegar að Knútur konungur hafði boðið honum það erindi að skilnaði þeirra að hann vildi að þeir tækju til konungs yfir Danaveldi Hörða-Knút son Knúts konungs. „Fékk hann fyrir þá sök hann oss í hendur. Hefi eg,“ segir hann, „og margir aðrir hérlandsmenn og höfðingjar kært oftlega það fyrir Knúti konungi að mönnum þykir það hér í landi vandi mikill að sitja hér konunglaust er hinum fyrrum konungum Dana þótti það fullræði að hafa konungdóm yfir Danaveldi einu saman. En þá er hin fyrri ævi var réðu þessu ríki margir konungar. En þó gerist nú það miklu meira vandmæli en fyrr hefir verið því að vér höfum hér til náð í friði að sitja af útlendum höfðingjum en nú spyrjum vér hitt, að Noregskonungur ætli að herja á hendur oss og er mönnum þó grunur á að Svíakonungur muni og til þeirrar ferðar ráðast. En Knútur konungur er nú á Englandi.“

Síðan bar jarl fram bréf og innsigli Knúts konungs, þau er sönnuðu allt þetta er jarl bar upp. Þetta erindi studdu margir aðrir höfðingjar. Og af þeirra fortölum allra saman réð mannfólkið það af, að taka Hörða-Knút til konungs og var það gert á því sama þingi. En í þessi ráðagerð hafði verið upphafsmaður Emma drottning. Hafði hún látið gera bréf þessi og látið innsigla. Hafði hún með brögðum náð innsigli konungs en hann sjálfur var leyndur þessu öllu.

En er þeir Hörða-Knútur og Úlfur jarl urðu þess varir að Ólafur konungur var kominn norðan úr Noregi með her mikinn þá fóru þeir til Jótlands því að þar er mest megin Danaveldis. Skáru þeir þá upp herör og stefndu saman her miklum. En er þeir spurðu að Svíakonungur var og þar kominn með her sinn þá þóttust þeir eigi styrk hafa að leggja til bardaga við þá báða. Þá héldu þeir safnaðinum á Jótlandi og ætluðu að verja það land fyrir konungum en skipaherinn drógu þeir allan saman í Limafirði og biðu svo Knúts konungs.

En er þeir spurðu að Knútur konungur var vestan kominn til Limafjarðar þá gerðu þeir sendimenn til hans og til drottningar Emmu og báðu að hún skyldi verða vís hvort konungur var þeim reiður eða eigi og láta þá þess verða vara.

Drottning ræddi þetta mál við konung og segir að Hörða-Knútur sonur þeirra vildi bæta öllu því sem konungur vildi ef hann hefði það gert er konungi þætti í móti skapi.

Hann svarar, segir að Hörða-Knútur hafði ekki sínum ráðum fram farið. „Hefir það svo tekist,“ kvað hann, „sem von var að er hann var barn og óviti er hann vildi konungur heita og vanda nokkurn bar til handa honum að land þetta allt mundi herskildi farið og leggjast undir útlenda höfðingja ef eigi kæmi vor styrkur til. Nú ef hann vill nokkura sætt við mig gera þá fari hann á fund minn og leggi niður hégómanafn það er hann hefir sig konung látið kalla.“

Sendi síðan drottning þessi sömu orð til Hörða-Knúts og það með að hún bað að hann skyldi eigi þessa ferð undir höfuð leggjast, sagði sem var að hann mundi engi styrk til þess fá að standa í mót föður sínum.

En er þessi orðsending kom til Hörða-Knúts þá leitaði hann ráðs við jarl og við aðra höfðingja þá er með honum voru. En það fannst brátt, þegar er landsfólkið spurði að Knútur hinn gamli var kominn, þá dreif til hans allur múgur landsins og þótti þar traust sitt allt. Sá Úlfur jarl og aðrir félagar hans að tveir voru kostir fyrir höndum, annaðhvort að fara á fund konungs og leggja allt á hans vald eða stefna af landi brott ellegar. En allir fýstu Hörða-Knút að fara á fund föður síns. Gerði hann svo.

En er þeir hittust þá féll hann til fóta föður sínum og lagði innsiglið í kné honum, það er konungsnafn fylgdi. Knútur konungur tók í hönd Hörða-Knúti og setti hann í sæti svo hátt sem fyrr hafði hann setið.

Úlfur jarl sendi Svein son sinn á fund Knúts konungs. Sveinn var systurson Knúts konungs. Hann leitaði griða föður sínum og sættar af konungi og bauð að setjast í gísling af hendi jarls. Þeir Sveinn og Hörða-Knútur voru jafnaldrar.

Knútur konungur bað þau orð segja jarli að hann safnaði her og skipum og færi svo til fundar við konung en ræddi síðan um sættir sínar. Jarl gerði svo.