Heimskringla/Ólafs saga helga/153

Úr Wikiheimild

En er þeir léku að skáktafli Knútur konungur og Úlfur jarl þá lék konungur fingurbrjót mikinn. Þá skækti jarl af honum riddara. Konungur bar aftur tafl hans og segir að hann skyldi annað leika. Jarl reiddist og skaut niður taflborðinu, stóð upp og gekk í brott.

Konungur mælti: „Rennur þú nú Úlfur hinn ragi.“

Jarl sneri aftur við dyrin og mælti: „Lengra mundir þú renna í Ánni helgu ef þú kæmir því við. Kallaðir þú eigi þá Úlf hinn raga er eg lagði til að hjálpa þér er Svíar börðu yður sem hunda.“

Gekk jarl þá út og fór til svefns. Litlu síðar gekk konungur að sofa.

Eftir um morguninn þá er konungur klæddist þá mælti hann við skósvein sinn: „Gakk þú,“ segir hann, „til Úlfs jarls og drep hann.“

Sveinninn gekk og var á brott um hríð og kom aftur.

Þá mælti konungur: „Drapstu jarl?“

Hann svarar: „Eigi drap eg hann því að hann var genginn til Lúkíus-kirkju.“

Maður hét Ívar hvíti, norrænn að kyni. Hann var þá hirðmaður Knúts konungs og herbergismaður hans.

Konungur mælti til Ívars: „Gakk þú og drep jarl.“

Ívar gekk til kirkju og inn í kórinn og lagði þar sverði í gegnum jarl. Fékk þar Úlfur jarl bana. Ívar gekk til konungs og hafði sverðið blóðugt í hendi.

Konungur spurði: „Drapstu nú jarl?“

Ívar svarar: „Nú drap eg hann.“

„Vel gerðir þú þá,“ kvað hann.

En eftir þá er jarl var drepinn létu munkar læsa kirkju. Þá var það sagt konungi. Hann sendi mann til munka, bað þá láta upp kirkju og syngja tíðir. Þeir gerðu sem konungur bauð.

En er konungur kom til kirkju þá skeytti hann jarðir miklar til kirkju svo að það er hérað mikið og hófst sá staður mikið síðan. Af því hafa þær jarðir þar til legið síðan. Knútur konungur reið síðan út til skipa sinna og var þar lengi um haustið með allmikinn her.