Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/155

Úr Wikiheimild


En er Ólafur konungur lá þar þá átti hann oft tal og ráðagerð við lið sitt.

Það var eina nótt að þeir áttu vörð að halda af konungsskipi Egill Hallsson og sá maður er hét Tófi Valgautsson. Hann var kynjaður af Vestra-Gautlandi, ættstór maður. En er þeir sátu á verðinum þá heyrðu þeir grát og veinan þar til er sat í böndum hernumið lið. Var það bundið um nætur á landi uppi. Tófi segir að honum þótti illt að heyra á gaulan þeirra og bað Egil að þeir færu til að leysa fólkið og láta brott hlaupa. Þeir gerðu þetta sama ráð, fóru til og skáru böndin og hleyptu á brott fólki því öllu og varð það verk allóvinsælt.

Konungur var og svo reiður að þeim hélt við voða sjálfan. Og síðan er Egill var sjúkur þá var það lengi að konungur vildi eigi koma að sjá hann, að margir menn báðu hann. Iðraðist Egill þá mjög er hann hafði svo gert að konungi þótti illa og bað af sér reiði. Veitti konungur honum það um síðir. Ólafur konungur lagði hendur sínar yfir síðu Egils þar er verkurinn lá undir og söng bænir sínar en jafnskjótt tók úr verk allan. Eftir það batnaði Agli.

En Tófi kom sér síðan í sætt. Svo er sagt að hann skyldi það til vinna að koma á fund Ólafs konungs föður sínum. Valgautur var maður hundheiðinn og fékk hann kristni af orðum konungs og andaðist þegar er hann var skírður.