Heimskringla/Ólafs saga helga/161

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Erlingur Skjálgsson og synir hans allir höfðu verið um sumarið í her Knúts konungs og í sveit með Hákoni jarli. Þar var þá og Þórir hundur og hafði metorð mikil.

En er Knútur konungur spurði að Ólafur konungur hafði landveg farið til Noregs þá leysti Knútur konungur leiðangurinn og gaf leyfi öllum mönnum að búa sér til veturvistar. Var þá í Danmörk her mikill útlendra manna, bæði enskra manna og Norðmanna og af fleirum löndum er lið hafði komið til hersins um sumarið.

Erlingur Skjálgsson fór um haustið til Noregs með liði sínu og þá af Knúti konungi stórar gjafir að skilnaði þeirra. Þórir hundur var eftir með Knúti konungi.

Með Erlingi fóru norður í Noreg sendimenn Knúts konungs og höfðu með sér óf lausafjár. Fóru þeir um veturinn víða um land, reiddu þá af hendi fé þau er Knútur konungur hafði heitið mönnum um haustið til liðs sér en gáfu hinum mörgum er þeir fengu með fé keypt vináttu Knúti konungi. En þeir höfðu traust Erlings til yfirferðar. Gerðist þá svo að fjöldi manna snerist til vináttu við Knút konung og hétu honum þjónustu sinni og því með að veita Ólafi konungi mótstöðu. Gerðu það sumir berlega en hinir voru miklu fleiri er leyndust að fyrir alþýðu.

Ólafur konungur spurði þessi tíðindi. Kunnu margir honum að segja frá þessum tíðindum og var það fært mjög í fjölmæli þar í hirðinni.

Sighvatur skáld kvað þetta:

Fjandr ganga þar þengils,
þjóð býðr oft, með sjóða,
höfgan málm fyr hilmis
haus ófalan, lausa.
Sitt veit hverr, ef harra
hollan selr við gulli,
vert er slíks, í svörtu
sinn helvíti innan.


Og enn kvað Sighvatur þetta:

Kaup varð daprt, þar er djúpan,
dróttin rækt, um sóttu
þeir er, heim, á himnum,
hás elds, svikum belldu.

Oft var sú umræða þar í munni höfð hversu illa samdi Hákoni jarli að færa her á hendur Ólafi konungi er hann hafði honum líf gefið þá er jarl hafði á hans vald komið.

En Sighvatur var hinn mesti vinur jarls, og þá enn, er Sighvatur heyrði jarlinum ámælt kvað hann:

Gerðust hilmis Hörða
húskarlar þá jarli,
er við Ólafs fjörvi,
ofvægir, fé þægju.
Hirð era hans að verða
hálegt fyr því máli.
Dælla er oss, ef allir
erum vér um svik skírir.