Heimskringla/Ólafs saga helga/167
Útlit
Nú er Ólafur konungur kom til Túnsbergs þá gerði hann menn í allar sýslur og krafði konungur sér liðs og leiðangurs. Skipakostur hans var þá lítill. Voru þá engi skip nema búandaför. En lið dróst vel til hans þar úr héruðum en fátt kom um langan veg og fannst það brátt að landsfólkið mundi þá vera snúið frá einurðinni við konung.
Ólafur konungur gerði lið sitt austur á Gautland, sendi þá eftir skipum sínum og þeim varnaði er þeir létu eftir um haustið. En ferð þeirra manna varð sein því að þá varð eigi betra en um haustið að fara í gegnum Danmörk því að Knútur konungur hafði her úti um vorið um allt Danaveldi og hafði eigi færra en tólf hundruð skipa.