Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/170

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
170. Ferð Knúts konungs í Noreg


Knútur hinn ríki dró saman her sinn og hélt til Limafjarðar. En er hann var búinn þá sigldi hann þaðan öllu liði til Noregs, fór skyndilega og lá ekki við land austan fjarðar, sigldi þá yfir Foldina og lagði að á Ögðum, krafði þar þinga. Komu bændur ofan og héldu þing við Knút konung. Var þar Knútur til konungs tekinn um land allt. Setti hann þar þá menn í sýslur en tók gíslar af bóndum. Mælti engi maður í móti honum.

Ólafur konungur var þá í Túnsbergi er her Knúts fór hið ytra um Foldina. Knútur konungur fór norður með landi. Komu þar til hans menn úr héruðum og játuðu honum þá allir hlýðni.

Knútur konungur lá í Eikundasundi nokkura hríð. Kom þar til hans Erlingur Skjálgsson með lið mikið. Þá bundu þeir Knútur konungur vináttu sína enn að nýju. Var það í heitum við Erling af hendi Knúts konungs að hann skyldi hafa land allt til forráða milli Staðar og Rýgjarbits.

Síðan fór Knútur konungur leiðar sinnar og er það skjótast frá ferð hans að segja að hann létti eigi fyrr en hann kom norður í Þrándheim og hélt til Niðaróss. Stefndi hann þá í Þrándheimi átta fylkna þing. Var á því þingi Knútur til konungs tekinn um allan Noreg.

Þórir hundur hafði farið úr Danmörk með Knúti konungi og var hann þar. Hárekur úr Þjóttu var og þá þar kominn. Gerðust þeir Þórir lendir menn Knúts konungs þá og bundu það svardögum. Knútur konungur gaf þeim veislur stórar og fékk þeim Finnferð, gaf þeim gjafir stórar á það ofan. Alla lenda menn þá er til hans vildu snúast gæddi hann bæði að veislum og að lausafé, lét þá alla hafa meira ríki en þeir höfðu áður haft.