Heimskringla/Ólafs saga helga/172

Úr Wikiheimild

Þórarinn loftunga var maður kallaður. Hann var íslenskur maður að kyni, skáld mikið og hafði verið mjög með konungum eða öðrum höfðingjum. Hann var með Knúti konungi hinum ríka og hafði ort um hann flokk.

En er konungur vissi að Þórarinn hafði ort flokk um hann þá varð hann reiður og bað hann færa sér drápu um daginn eftir þá er konungur sæti yfir borðum. Ef hann gerði eigi svo þá segir konungur að Þórarinn mundi uppi hanga fyrir dirfð þá er hann hafði ort dræpling um Knút konung. Þórarinn orti þá stef og setti í kvæðið og jók nokkurum erindum eða vísum.

Þetta er stefið:

Knútr ver grund sem gætir
Gríklands himinríki.

Knútur konungur launaði kvæðið fimm tigum marka silfurs. Sú drápa er kölluð Höfuðlausn.

Þórarinn orti aðra drápu um Knút konung er kölluð er Togdrápa. Í þeirri drápu er sagt frá þessum ferðum Knúts konungs er hann fór úr Danmörku sunnan til Noregs og er þetta einn stefjabálkur:

Knútr er und sólar.
Siðnæmr með lið
fór mjök mikið
minn vinr þinig.
Færði úr firði
fimr gramr Lima
út ólítinn
otrheims flota.
Uggðu Egðir
örbeiðis fór
svans sigrlana,
sökrammir mjök.
Allt var gulli
grams skip framið.
Vórum sjón sögu
slíks ríkari.
Og fyr Lista
liðu fram viðir
Hádýrs um haf
hart kolsvartir.
Byggt var innan
allt brimgaltar
suðr sæskíðum
sund Eikunda.
Og fyr fornan
friðmenn liðu
haug Hjörnagla
hvasst griðfastir.
Þá er stóð fyr Stað
stafnklifs drifu,
vara eyðileg
örbeiðis för.
Knáttu súðir
svangs mjög langar
byrrömm bera
brimdýr fyr Stim.
Svo liðu sunnan
svalheims valar,
að kom norðr í Nið
nýtr herflýtir.
Þá gaf sínum
snjallr gervallan
Noreg nefa
njótr veg-Jóta,
þá gaf sínum,
segi eg það, megi
dals dökksalar
Danmörk svana.

Hér getur þess að þeim var sjón sögu ríkri um ferð Knúts konungs er þetta kvað því að Þórarinn hrósar því að hann var þá í fór með Knúti konungi er hann kom í Noreg.