Heimskringla/Ólafs saga helga/191

Úr Wikiheimild

Síðan er Ólafur konungur hafði ráðið fyrir sér að hann vildi snúast til heimferðar þá bar hann það upp fyrir Jarisleif konung og Ingigerði drottning. Þau löttu hann þeirrar ferðar, segja það að hann skyldi hafa í þeirra ríki það veldi er honum þætti sér sæmilegt en báðu hann eigi fara á vald fjandmanna sinna með svo lítinn liðskost sem hann hafði þar.

Þá segir Ólafur konungur þeim drauma sína og það með að hann kvaðst hyggja að það væri guðs forsjá. En er þau fundu að konungur hafði ráðið fyrir sér að fara aftur til Noregs þá bjóða þau honum allan þann fararbeina er hann vildi af þeim þiggja. Konungur þakkar þeim fögrum orðum sinn góðvilja, segir að hann vill fúslega þiggja af þeim það er hann þarf til ferðar sinnar.