Heimskringla/Ólafs saga helga/199

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Dagur er maður nefndur er svo segir að hann var sonur Hrings konungs, þess er land hafði flúið fyrir Ólafi konungi, en menn segja að Hringur væri sonur Dags Hringssonar Haraldssonar hins hárfagra. Dagur var frændi Ólafs konungs. Þeir feðgar Hringur og Dagur höfðu staðfest í Svíaveldi og höfðu þar fengið ríki til forráðs.

Um vorið er Ólafur konungur var kominn austan til Svíþjóðar sendi hann orð Dag frænda sínum, þau að Dagur skyldi ráðast til ferðar með honum með þann styrk allan sem hann hefir til en ef þeir fá land eignast í Noregi þá skyldi Dagur hafa ríki þar eigi minna en foreldri hans hafði haft.

En er þessi orðsending kom til Dags þá féll honum það vel í skap. Lék honum landmunur mjög á að fara í Noreg og taka þar við ríki því sem frændur hans höfðu fyrr haft. Svarar hann skjótt þessu máli og hét ferð sinni. Dagur var maður skjótorður og skjótráður, ákafamaður mikill og hreystimaður mikill en engi spekingur að viti. Síðan safnaði hann sér liði og fékk nær tólf hundruð manna. Fór hann með það lið til fundar Ólafs konungs.